Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Úganda: Vitundarvakning um gildi menntunar í Buikwe

Ljósmynd frá Úganda: gunnisal - mynd

Grunnskólar í Úganda hafa verið lokaðir vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar frá 1. mars eða í rúmlega átta mánuði. Að sögn Finnboga Rúts Arnarsonar starfandi forstöðumanns sendiráðs Íslands í Kampala hefur langvarandi lokun skóla mikil áhrif á menntun barna, öryggi þeirra og velferð.

Í ljósi þessa alvarlega ástands var í gær skrifað undir árssamning við regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka í menntamálum (FENU) með það að markmiði að hefja vitundarvakningu meðal foreldra í fiskiþorpum í Buikwe héraði um gildi menntunar en þar hafa Íslendingar stutt myndarlega við uppbyggingu í menntamálum.

Tilslakanir af hálfu stjórnvalda um opnun skóla verða ekki teknar fyrr en eftir áramót. Í síðasta mánuði var þó gefin út heimild til þess að nemendur á lokaári gætu snúið aftur til náms. Finnbogi Rútur segir mikilvægt að treysta þann árangur sem náðst hefur í grunnskólum í Buikwe.

„FUNE hyggst efna til námskeiða hjá 46 félögum foreldra og kennara í héraðinu og brýna fyrir þeim gildi menntunar og mikilvægi þess að festa í sessi það sem unnist hefur, meðal annars í afstöðu til menntunar. Langvinn lokun skóla er farin að hafa áhrif á afstöðu foreldra til menntunar, mörgum finnst ástæðulaust að halda þessu áfram, krakkarnir bjargi sér greinilega án skóla,” segir hann.

Á námskeiðunum með foreldrum koma samtökin einnig til með að fjalla um vernd barna og öryggi á tímum heimsfaraldursins og benda á leiðir til að koma í veg fyrir snemmbúin hjónabönd, ótímabærar þunganir unglingsstúlkna, stöðva kynferðisofbeldi, draga úr vinnu barna og leiðir til að styðja við börn í heimanámi.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum