Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Undirbúningur hafinn að framtíðarsambandi Íslands og Bretlands

Um mánaðamótin gengur Bretland úr Evrópusambandinu og þar með úr Evrópska efnahagssvæðinu. Þar sem útgangan verður með samningi Bretlands og ESB mun regluverk ESB og aðrir alþjóðasamningar, þ.m.t. EES-samningurinn, gilda áfram um Bretland út aðlögunartímabilið sem stendur til ársloka. Engin marktæk breyting verður því á samskiptum Íslands og Bretlands á þessu ári heldur byggjast þau áfram á samningum Íslands við ESB. Þótt möguleiki sé á allt að tveggja ára framlengingu aðlögunartímabilsins stefna Bretar að fullum aðskilnaði frá ESB í lok ársins.

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum mánuðum undirbúið viðræður við Breta um hvernig framtíðarsambandi ríkjanna verður háttað. Þórir Ibsen sendiherra verður aðalsamningamaður og formaður samninganefndar Íslands. Nefndin starfar í umboði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra en umsjón og umsýsla viðræðnanna verður á verksviði viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Þá gegna sendiráð Íslands í Lundúnum og Brussel mikilvægu hlutverki í viðræðunum og undirbúningi þeirra.

„Ég horfi björtum augum til viðræðnanna sem eru framundan enda hafa bæði ríki ávinning af því að sem bestir samningar náist. Ekki verður þó hvikað frá því höfuðmarkmiði að fá að minnsta kosti sambærileg viðskiptakjör og önnur ríki á EES-svæðinu og freista þess um leið að ná fram atriðum er varða sérstöðu Íslands og kjarnahagsmuni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Utanríkisráðherra hefur kynnt ríkisstjórninni fyrstu samningsmarkmið Íslands fyrir framtíðarviðræðurnar. Þau byggja á fyrirliggjandi undirbúningsvinnu og samráði við hagsmunaaðila, önnur ráðuneyti og viðkomandi stofnanir. Fyrr í mánuðinum komu fulltrúar þessara aðila saman til fundar í utanríkisráðuneytinu. Í megindráttum lúta samningsmarkmiðin að markaðsaðgangi fyrir vörur og þjónustu, fjárfestingum, búsetu- og atvinnuréttindum, rétti til námsdvalar og loftferðum svo fátt eitt sé nefnt.

Í viðræðunum verður haft náið samráð við hin EFTA-ríkin innan EES og jafnframt verða þau beinu tengsl sem komið hefur verið á við bresk stjórnvöld efld enn frekar. Samningsmarkmiðum Íslands verður eftir atvikum fylgt eftir í samfloti með hinum EFTA-ríkjunum innan EES eða með tvíhliða samningum Íslands og Bretlands. Þá verður tekið mið af viðræðum Bretlands og ESB þar sem það á við og samræmist hagsmunum Íslands. Gert er ráð fyrir að vinnuhópar sem skipaðir voru á sínum tíma vegna útgöngunnar haldi áfram störfum. Samninganefndin getur þannig dregið á sérfræðiþekkingu og stuðning þeirra í framtíðarviðræðum við Bretland.

Sjá grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum