Hoppa yfir valmynd
22. mars 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Uppfærð viðmið um skipulag hjúkrunarheimila

Framkvæmdir - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest uppfærð lágmarksviðmið um byggingu og starfsemi hjúkrunarheimila. Þetta er þriðja útgáfa viðmiðanna sem síðast voru gefin út árið 2014. Markmiðið með endurskoðun þeirra er að bæta skipulag á hjúkrunarheimilum og stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri þeirra.

Viðmiðin voru uppfærð í ljósi fenginnar reynslu þar sem ýmis álitamál hafa komið upp við vinnslu frumathugunar vegna byggingar nýrra hjúkrunarheimila og þótti brýnt að skýra ýmsa þætti þeirra. Viðmiðin eru hugsuð sem grundvöllur samtals um uppbyggingu hjúkrunarheimila milli heilbrigðisráðuneytis, viðkomandi sveitarfélags, Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) rekstraraðila og Sjúkratrygginga Íslands. 

Helstu nýmæli í uppfærðum viðmiðum eru þessi:

  • Gert er ráð fyrir að samið verði við rekstraraðila á fyrstu stigum áætlunargerðar þannig að þeir geti komið að rýni á rýmis- og kröfulýsingum.
  • Áður en ákvörðun er tekin um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis skal skoða hvort hlutaðeigandi sveitarfélag hyggist byggja samhliða aðstöðu fyrir aðra öldrunarþjónustu með hliðsjón af svæðisbundinni þörf, mögulegum samlegðaráhrifum og hagkvæmni.
  • Horfa skal til nýsköpunar og nýjar lausnir skoðaðar í hverju tilviki fyrir sig.
  • Lýst er nánar kröfum heilbrigðisráðuneytis sem eiga að gilda sem lágmarkskröfur um byggingu og starfsemi hjúkrunarheimila.
  • Birt eru leiðbeinandi dæmi um skipulag á rýmum hjúkrunarheimila sem þykja hagkvæm að mati rekstraraðila, jafnt fyrir íbúa og starfsfólk.
  • Sett er fram skilgreining á tengigöngum og kostnaðarskipting við byggingu þeirra skilgreind.
  • Útisvæði eru skilgreind sérstaklega.
  • Birt er dæmi um húsrýmistöflu fyrir 60 rýma hjúkrunarheimili.
  • Vísað er í tæknikröfur og skjal um búnaðarkaup á heimasíðu FSRE sem unnin voru samhliða viðmiðunum.

Heilbrigðisráðuneytið og Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) unnu saman að endurskoðuninni í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, embætti landlæknis, Samband íslenskra sveitarfélaga, Eir, Grund, Heilsuvernd/Lögmannshlíð, Sjómannadagsráð/Hrafnistu, Vigdísarholt og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Við gerð nýrra viðmiða var horft til athugasemda og ábendinga frá rekstraraðilum, en sendur var út spurningalisti til fjölda rekstraraðila á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og farið í vettvangsskoðanir á hjúkrunarheimili.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum