Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2010 Dómsmálaráðuneytið

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst fimmtudaginn 28. janúar

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars 2010 hefst fimmtudaginn 28. janúar. Kjósanda sem ekki getur kosið á kjördag, er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með þeim degi til kjördags. Hægt er að kjósa hjá öllum sýslumönnum á landinu, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á erlendri grundu hefst sama dag á vegum utanríkisráðuneytisins sem mun kynna fyrirkomulag þar að lútandi.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

  • Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum stað utan aðalskrifstofu svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans.
  • Erlendis, á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið kynnir fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar í útlöndum.
  • Sjúkrahúsum, fangelsum, dvalar- og vistheimilum. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um vistmann fangelsis. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag.
  • Heimahúsi. Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum