Hoppa yfir valmynd
3. júní 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Lög um nýja Skógrækt samþykkt samhljóða

skogur
Birkiskógur

Alþingi samþykkti í gær lög um nýja skógræktarstofnun, Skógræktina. Með lögunum eru fimm landshlutaverkefni í skógrækt og Skógrækt ríkisins sameinuð í eina stofnun. Einhugur var um málið á Alþingi og voru lögin samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Meðal helstu verkefna Skógræktarinnar verður skipulag og ráðgjöf við nýræktun skóga, umhirða og nýting, umsjón með Hekluskógum og þjóðskógum á borð við Hallormsstaðaskóg og Vaglaskóg, rannsóknir í skógrækt auk fræðslu og kynningar.

Markmið hinna nýju laga er að auka skilvirkni og samræmingu í stjórnsýslu skógræktarmála, auka faglega getu og yfirsýn og styrkja byggð. Verður það m.a. gert með því að styrkja starfsstöðvar í héraði en höfuðstöðvar stofnunarinnar verða á Fljótsdalshéraði.

Stofnun Skógræktarinnar er afrakstur vinnu starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í júní í fyrra og ítarlegs samráðsferlis sem tók til stórs hóps hagaðila. Var breið samstaða um að með sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun yrði til sterkari og skilvirkari stofnun, stuðningur við rannsóknir myndi aukast og síðast en ekki síst yrði það til að efla skógræktarstarf á vegum hins opinbera.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum