Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Opið fyrir umsóknir um styrki úr Tækniþróunarsjóði

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í styrktarflokkunum Sproti, Vöxtur og Markaður hjá Tækniþróunarsjóði. Umsóknarfrestur er 15. september nk.

Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miðað að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og eru umsóknir metnar af fagráði sem leggur til ráðgefandi álit um styrkveitingu til stjórnar sjóðsins sem síðan tekur endanlega ákvörðun um úthlutun. Boðið er upp á ýmsa styrktarflokka fyrir nýsköpunarverkefni á mismunandi stöðum í vaxtarferli fyrirtækja.

Sproti

Styrktarflokkurinn Sproti er ætlaður ungum nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum hvers verkefni eru á byrjunarstigi. Gert er ráð fyrir að í verkefninu felist mikið nýnæmi og að þróunarþáttur verkefnisins sé verulegur. Styrkir í þessum flokki geta numið allt að 20 milljónum króna samanlagt á tveimur árum, þó ekki meira en 10 milljónum króna á hvoru ári.

Vöxtur

Styrktarflokkurinn Vöxtur er ætlaður litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru með þróunarverkefni sem komin eru af frumstigi hugmyndar. Hámarkslengd verkefna er tvö ár og hámarksstyrkur í Vexti getur numið allt að 50 milljónum króna eða 25 milljónum króna á hvoru ári verkefnis. Innan Vaxtar er einnig öndvegisstyrkurinn Sprettur og geta slíkir styrkir numið allt að 70 milljónum króna eða 35 milljónum króna á hvoru ári. Sprettstyrkjum er ætlað að styrkja verkefni hjá fyrirtækjum með mikla möguleika á hröðum vexti á markaði innan næstu fimm ára og eru þegar með afurðir á markaði eða eru nálægt því að setja þær á markað.

Markaður

Styrktarflokkurinn Markaður er eingöngu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem verja að lágmarki 10% rekstrargjalda sinni til rannsókna- eða þróunarstarfs samkvæmt síðasta ársreikningi. Markaður skiptist annars vegar í Markaðsþróun og hins vegar Markaðssókn. Þessum flokkum er ætlað að styðja við fyrirtæki á mismunandi stigum í undirbúningi afurðar á markað. Styrkir geta numið allt að 10 milljónum króna. Markaðsþróun er styrkur sem miðar að uppbyggingu markaðsinnviða fyrirtækja og lýtur að greiningu markaðar. Markaðssókn gerir ráð fyrir að afurð sé tilbúin og innviðir til staðar og er því styrkur sem miðar að sókn á skilgreinda markaði.

Aðrir styrkir úr Tækniþróunarsjóði

Tækniþróunarsjóður veitir einnig styrki til hagnýtra rannsóknarverkefna fyrir háskóla, opinberar rannsóknastofnanir og opinber fyrirtæki. Umsóknarfrestur til slíkra styrkja er einu sinni á ári og verður tilkynntur síðar. Opið er fyrir umsóknir um fyrirtækjastyrkina Fræ og Þróunarfræ ásamt Einkaleyfastyrk allt árið um kring.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum