Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 14/2021- Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Flensborgarskóla

 

Uppsögn úr starfi vegna aldurs. Kærufrestur liðinn. Frávísun.

Kærandi kærði uppsögn úr starfi kennara við Flensborgarskóla. Þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn var henni vísað frá nefndinni.

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 2. nóvember 2021 er tekið fyrir mál nr. 14/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 1. Með kæru, dags. 5. október 2021, kærði A ákvörðun Flensborgarskóla um uppsögn hans úr starfi framhaldsskólakennara með bréfi, dags. 27. maí 2020. Kærandi telur að með uppsögninni hafi honum verið mismunað á grundvelli aldurs og að kærði hafi með uppsögninni brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem aldur hans hafi verið ástæða uppsagnarinnar.
 2. Þess ber að geta að í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru ákvæði um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála. Lögin voru felld úr gildi 6. janúar 2021 með lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Um málsmeðferð þessa máls fer því samkvæmt lögum nr. 151/2020. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögunum féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021.

  MÁLAVEXTIR

 3. Kærandi starfaði sem framhaldsskólakennari hjá kærða. Með bréfi skólameistara, dags. 27. maí 2020, var honum sagt upp störfum. Um ástæður uppsagnarinnar var vísað til 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og þess að skólameistara bæri sem forstöðumanni kærða samkvæmt ákvæðinu að segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Í bréfinu var tekið fram að samningsbundinn uppsagnarfrestur væri sex mánuðir og væri síðasti starfsdagur kæranda 30. nóvember 2020 og síðasta launagreiðsla yrði greidd 1. desember 2020.

  NIÐURSTAÐA

 4. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr.
 5. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 er mælt fyrir um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögunum lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
 6. Í málinu liggur fyrir að uppsögn á ráðningarsamningi milli aðila er dagsett 27. maí 2020. Erindi kæranda vegna uppsagnarinnar barst kærunefnd 5. október 2021. Í erindinu vísar kærandi til þess að hann hafi hálfum mánuði áður frétt að á árinu 2018 hafi verið samþykkt löggjöf Evrópusambandsins um vinnumarkað sem innihaldi ákvæði um að ekki megi segja starfsmanni upp störfum á grundvelli aldurs. Vilji hann kæra uppsögnina frá því árinu áður á grundvelli þess ákvæðis.
 7. Fyrir liggur að meira en ár er liðið frá uppsögn á ráðningarsamningi aðila, sem er dagsett 27. maí 2020. Í ljósi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 verður að ganga út frá því að kærufrestur hafi byrjað að líða við dagsetningu bréfsins. Með vísan til þess og 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 er málinu vísað frá kærunefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira