Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra afhent skýrsla um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fær afhenta skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur fengið afhenta skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum.

Ráðherra skipaði starfshópinn síðastliðið vor, en í honum áttu sæti Árni Finnsson, formaður hópsins, Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir og Sveinbjörn Halldórsson.

Skýrslu starfshópsins er ætlað að varpa ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi og þær áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir vegna þeirra. Við gerð skýrslunnar var byggt á gögnum og rannsóknum sem fyrir liggja, auk ýmissa ábendinga frá þeim sem mættu á fund starfshópsins eða sendu inn upplýsingar.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Undanfarin ár hefur átt sér stað á Íslandi mikil umræða um friðlýsingar og gildi þess að stofna þjóðgarða eða friðlýsa með öðrum hætti náttúruperlur á Íslandi. Skýrslunni sem starfshópurinn hefur nú skilað er ætlað að vera grunnur fyrir frekari skoðun á skipulagi þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða.“  

Á Íslandi eru 130 friðlýst svæði, þar af þrír þjóðgarðar, auk þess sem átta svæði hafa verið friðlýst í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar. Þessi svæði þekja um 30% af Íslandi. Þau eru undir stjórn þriggja stofnana og umsjón með svæðunum og stjórnarfyrirkomulag á þeim er því með ólíkum hætti. Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um tækifæri og áskoranir sem fylgt geta því að friðlýsa landsvæði á Íslandi og tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að á kjörtímabilinu verði, með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, stofnaður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu.

Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar haghöfum og fjölmiðlum í Hörpu miðvikudaginn 9. nóvember og verða einnig aðgengilegar í beinu streymi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum