Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 24/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 24/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110084

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. nóvember 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bretlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2021, um að synja honum um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki hinn 1. október 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 25. nóvember 2021 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga sé það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. nóvember 2021, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn hans því synjað. Samkvæmt gögnum málsins hefði kærandi komið til landsins hinn 4. september 2021 og á grundvelli áritunarfrelsis væri honum heimilt að dveljast á landinu til 2. desember 2021 og bæri honum að yfirgefa landið eigi síðar en þann dag. Tekið var fram að ólögmæt dvöl gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar líti ekki til þess að hann sé jafnframt EES-borgari, þ.e. írskur ríkisborgari á grundvelli Good Friday Agreement (Belfastsamningurinn), þar sem móðir hans sé fædd og búsett í Norður-Írlandi. Vegna þessa ágalla beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. ákvæðinu m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, þ.m.t. ákvarðanatöku um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði því að kæranda yrði veitt atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki með ákvörðun, dags. 3. nóvember 2021. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki.

Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því að hann sé írskur ríkisborgari og því byggi hin kærða ákvörðun á röngum grundvelli. Með dvalarleyfisumsókn sinni lagði kærandi fram afrit af vegabréfi í hans nafni þar sem kemur fram að hann sé breskur ríkisborgari, en Bretland samanstendur af löndunum Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi. Bretland gekk úr Evrópusambandinu hinn 31. janúar 2020 og lauk aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands hinn 31. desember 2020. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann sé jafnframt ríkisborgari Írlands og því ljóst að hin kærða ákvörðun byggir á réttum grundvelli. Þá bendir kærunefnd á að um dvöl EES- eða EFTA-borgara fer samkvæmt XI. kafla laga um útlendinga og myndi írskur ríkisborgararéttur kæranda því ekki breyta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar sem byggir á VII. kafla laganna, sem gildir um útlendinga sem eru ekki EES-eða EFTA-borgarar.

Telji kærandi sig eiga rétt til dvalar á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga er honum leiðbeint um að sækja um slíka skráningu hjá Þjóðskrá.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Þorsteinn Gunnarsson, formaður

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum