Hoppa yfir valmynd
5. september 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á hlutverki Ofanflóðasjóðs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á sumarfundi ríkisstjórnarinnar. - mynd

Á vinnufundi ríkisstjórnar, þann 31. ágúst, var samþykkt að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verði falið að láta vinna frumvarp um að útvíkka hlutverk Ofanflóðasjóðs þannig að hann kosti einnig varnir gegn ofanflóðum á atvinnusvæðum.

Þá var samþykkt tillaga þessa efnis í fjárlagafrumvarpi 2024 að 600 milljónum króna verði varið til að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir á Neskaupstað um eitt ár og einnig var samþykkt að veita 150 milljón krónum til að hraða vinnu sem nú er í gangi við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði.

Framkvæmdir við uppbyggingar varnargarða og keilna vegna Nesgils og Bakkagils í Neskaupstað, eru nú þegar á áætlun Ofanflóðasjóðs, en þeim framkvæmdum verður flýtt með flutningi fjárheimilda innan tímabilsins 2024-2030. Í Neskaupstað eru fyrir varnargarðar og keilur við Drangagil, Tröllagil, Urðarbotna og og þegar vörnunum við Nes- og Bakkagil er lokið verða komnar varnargarðar og keilur sem verja alla íbúabyggð í Neskaupstað.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, segir að í ljósi snjóflóðanna sem féllu í Neskaupstað í vetur og ollu bæði tjóni á fólki og eignum hafi verið aðkallandi að flýta framkvæmdum. Framkvæmdirnar voru á áætlun Ofanflóðasjóðs árið 2025, en geta nú hafist árið 2024.

Fjárframlög vegna framkvæmda á Seyðisfirði aukin og Angró og Gamla símstöðin flutt

Framkvæmdir við varnarmannvirki vegna Bjólfs á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var. Hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið því heimilað 150 milljón króna aukningu  til framkvæmdanna á þessu ári, en ljúka þarf framkvæmdum við Bjólf áður en hægt verður að hefjast handa við framkvæmdir í Botnum, þar sem miklar aurskriður féllu í lok árs 2020.

Einnig var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar að veita viðbótarstyrk vegna flutnings húsanna Angró og Gömlu símstöðvarinnar á Seyðisfirði af hættusvæðum, en húsin eru talin hafa menningarsögulegt gildi. Verður verkefnið styrkt um alls 200 milljónir króna á árunum 2024 og 2025 og bætist fjárhæðin við þær 190 milljónir sem þegar hafa verið veittar til verkefnisins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Bætt öryggi fólks er alltaf forgangsmál. Snjóflóðin í Neskaupstað og aurskriðurnar á Seyðisfirði hafa sýnt okkur fram á mikilvægi þess að fara í þær varanlegu skriðuvarnir sem eru á dagskrá. Þess vegna er sérlega ánægjulegt að við eigum þess nú kost á að flýta þeirri vinnu. Ekki er þá síður mikilvægur áfangi að vilji stjórnvalda standi til þess að ofanflóðalöggjöf taki einnig til atvinnusvæða.“

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum