Hoppa yfir valmynd
23. júní 2010 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða til umsagnar

Drög að reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða er nú til umsagnar. Þeir sem þess óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] til 8. júlí.

Að undanförnu hefur verið unnið að endurskoðun reglugerðar nr. 369/2000 um notkun og útgáfu stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða í því skyni að færa hana til nútímalegra horfs. Í hjálögðum drögum að nýrri reglugerð er að finna ýmsar breytingar frá núgildandi reglugerð, meðal annars þessar:

  • Að höfðu samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og í samræmi við þá stefnumótun stjórnvalda að færa í auknum mæli stjórnsýsluverkefni frá lögreglunni er gert ráð fyrir að Umferðarstofa sinni málum sem varða útgáfu og afgreiðslu á stæðiskortum fyrir hreyfihamlaða.
  • Umferðarstofu er gert að láta handhafa stæðiskorts vita með þriggja mánaða fyrirvara að kortið renni út að þeim tíma liðnum, sbr. 2. gr. Er þetta ákvæði sett vegna kvartana frá handhöfum stæðiskorta þess efnis að auðvelt sé að yfirsjást gildistíma á kortinu. Gert er ráð fyrir að um sjálfvirkan tilkynningarmáta verði að ræða.
  • Í stað úrskurðarnefndar í gildandi reglugerð sem fjallar um synjun á beiðni um útgáfu stæðiskorts er gert ráð fyrir að um þessi mál gildi stjórnsýslulög nr. 37/1993 og megi því kæra synjun Umferðarstofu um útgáfu stæðiskorts til ráðuneytisins.
  • Til að Umferðarstofa hafi svigrúm til að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu vegna þessa nýja verkefnis er lagt til að reglugerðin gangi í gildi 1. september.

Eins og fyrr segir er unnt að senda athugasemdir við reglugerðardrögin til og með fimmtudagsins 8. júlí næstkomandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum