Hoppa yfir valmynd
24. júní 2010 Innviðaráðuneytið

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga upplýsir sveitarstjórnarmenn um verkefni sín

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent öllum sveitarstjórnarmönnum bréf þar sem kynnt eru helstu verkefni nefndarinnar og samskipti við sveitarstjórnir. Alls fá rúmlega 500 sveitarstjórnarmenn bréfið og er tilgangur þess að greiða fyrir góðum samskiptum og að upplýsingar berist fljótt og vel á milli aðila.

Í upphafi bréfsins er upplýst um skipan nefndarinnar og starfsmenn en starf nefndarinnar er byggt á VII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og reglugerð nr. 374/2001. Síðan er gerð grein fyrir því meginhlutverki nefndarinnar sem er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og hafa eftirlit með því að fjárstjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaganna.

Þá er vakin athygli á lagabreytingu frá í vor þar opnað er fyrir þá leið að sveitarfélög skili ársfjórðungslega upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum til ráðuneytisins, eftirlitsnefndarinnar, Hagstofunnar og Sambands íslenkra sveitarfélaga. Einnig er í bréfinu fjallað um viðmiðanir og lykiltölur úr rekstri og efnahagsreikningi og bent á það viðmið eftirlitsnefndarinnar að heildarskuldir sveitarfélaga og skuldbindingar þess þurfi að vera undir 150% af heildartekjum og að stefnt verði að enn lægra hlutfalli.

Í lok bréfsins segir að nefndin vonist eftir góðu samstarfi við sveitarfélögin og að tilskildar upplýsingar berist fljótt og vel á milli aðila. Undir bréfið skrifa nefndarmennirnir, Ólafur Nilsson formaður, Hafdís Karlsdóttir og Þórður Skúlason.

Texti bréfsins fer hér á eftir:

Til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum

Efni: Verkefni Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (EFS) og samskipti við sveitarstjórnir.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vill með bréfi þessu gera nokkra grein fyrir hlutverki nefndarinnar samkvæmt sveitarstjórnarlögum, aðgerðum hennar og þeim skyldum sveitarstjórna er varða fjármál sveitarfélaga og samskipti við nefndina. Einnig verður gerð grein fyrir þeim helstu viðmiðunum sem nefndin notar til að meta hvort ástæða sé til sérstakrar athugunar á fjármálum sveitarfélags eða aðvörunar, stefni fjármál sveitarfélags í óefni. Nefndin telur sérstaka ástæðu til að fulltrúar í sveitarstjórnum kynni sér vel rekstur og fjárhagsstöðu síns sveitarfélags, ekki síst vegna þess að víða hefur rekstrarafkoman verið slæm að undanförnu og skuldsetning jafnvel farið úr böndum.

Skipan nefndarinnar og starfsmenn

EFS starfar samkvæmt VII. kafla sveitarstjórnarlaga, og reglugerð nr. 374/2001 um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Nefndin er skipuð af ráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar. Starfsmenn nefndarinnar eru Jóhannes Finnur Halldórsson, hagfræðingur, sem jafnframt er sérfræðingur á sveitarstjórnarskrifstofu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og nú á vormánuðum bættist við nýr starfsmaður til nefndarinnar, Eiríkur Benónýsson, viðskiptafræðingur.

Meginhlutverk nefndarinnar og skyldur sveitarfélaga

Hlutverk nefndarinnar samkvæmt sveitarstjórnarlögum er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og hafa eftirlit með því að fjárstjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði 61. gr. sveitarstjórnarlaga. Leiði athugun nefndarinnar í ljós að afkoma sveitarfélags er ekki í samræmi við ákvæði laganna eða fjármál sveitarfélagsins stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Sveitarstjórn er skylt í slíkum tilvikum að gera eftirlitsnefndinni, innan tveggja mánaða, grein fyrir hvernig hún hyggst bregðast við aðvörun nefndarinnar.

Ef sveitarfélag kemst í fjárþröng og sveitarstjórn telur ekki unnt að standa í skilum skal hún tilkynna það eftirlitsnefndinni samkvæmt lögunum. Nefndin lætur þá rannsaka fjárreiður og rekstur sveitarfélagsins og leggja síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það, sem áfátt kann að reynast. Hafi sveitarfélag ekki brugðist við fjárhagsvanda sínum innan þriggja mánaða eða beri aðgerðir til lausnar fjárhagsvanda ekki tilætlaðan árangur, getur eftirlitsnefndin gripið til frekari aðgerða, svo sem að gera tillögu til ráðherra um að sveitarstjórn verði gert að leggja álag á útsvar og fasteignaskatt. Þegar greiðslubyrði sveitarfélags umfram greiðslugetu er svo mikil að ljóst er að eigi mun úr rætast í bráð, getur ráðherra að tillögu eftirlitsnefndar svipt sveitarstjórn fjárforráðum og skipað sveitarfélaginu fjárhaldsstjórn eins og nánar er fjallað um í sveitarstjórnarlögum.

Lagabreytingar og útgefin álit reikningsskila- og upplýsinganefndar

Með lögum nr. 37/2010 er bætt nýjum ákvæðum í sveitarstjórnarlögin þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir í reglugerð um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum til afnota fyrir ráðuneyti sveitarstjórnarmála, eftirlitsnefnd, Hagstofu Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra opinbera aðila. Þá eru í lögunum ný ákvæði um aðgang eftirlitsnefndar að bókhaldi og öðrum gögnum með sama hætti og mælt er fyrir um í 70. gr. sveitarstjórnarlaga.

Reikningsskila- og upplýsinganefnd ráðuneytisins gaf út álit í mars á yfirstandandi ári um færslu leigusamninga fasteigna og annarra mannvirkja í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga, en eins og kunnugt er hafa nokkur sveitarfélög gert rekstrarleigusamninga til langs tíma á síðustu árum, einkum um skóla- og íþróttamannvirki. Var þessum samningum yfirleitt haldið utan við efnahagsreikninga sveitarfélaganna, sem leitt hefur m.a. til ósamræmis milli sveitarfélaga í meðferð kostnaðar vegna slíkra eigna í reikningsskilum, auk þess sem skuldbindingar vegna þeirra, sem numið hafa verulegum fjárhæðum, hafa ekki verið tilgreindar með skýrum hætti í reikningsskilum. Samkvæmt álitinu er sveitarfélögum skylt að færa í efnahagsreikning alla leigusamninga vegna fasteigna og annarra mannvirkja til lengri tíma en þriggja ára frá og með árinu 2010 eins og nánar er skýrt í álitinu.

Viðmiðanir og lykiltölur – áherslur EFS

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal EFS gera samanburð á hinum ýmsu þáttum reikningsskila sveitarfélaga og reikna út lykiltölur og bera þær saman við viðmið samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 374/2001. Jafnframt getur EFS reiknað aðrar lykiltölur til nota við mat á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Í 3. mgr. 61. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórn skuli árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags fari ekki fram úr heildartekjum þess. Mörgum sveitarfélögum hefur ekki tekist að skila rekstri í jafnvægi, sem ásamt nýjum fjárfestingum, hefur leitt til verulega aukinnar skuldsetningar í mörgum tilvikum. Þannig hafa skuldir og skuldbindingar þeirra rúmlega 20 sveitarfélaga sem hafa 2.000 íbúa eða fleiri hækkað úr 106% af heildartekjum á árinu 2007 í 160% af heildartekjum á árinu 2009, samkvæmt A-hluta reikningsskila sveitarfélaganna. Ef Reykjavíkurborg er undanskilin er hækkunin úr 130% af heildartekjum á árinu 2007 í 213% á árinu 2009.

Að undanförnu hefur EFS lagt áherslu á nokkur grundvallarviðmið í samanburði á rekstri og fjárhagsstöðu A-hluta reikningsskila sveitarfélaga:

Úr rekstri:

  1. Heildatekjur, þ.e. allar rekstrartekjur, sem jafnframt eru reiknaðar á hvern íbúa
  2. Laun og annar rekstrarkostnaður
  3. Framlegð (EBITDA), þ.e. heildartekjur að frádregnum rekstrargjöldum, öðrum en afskriftum af rekstrarfjármunum og fjármagnskostnaði, jafnframt reiknuð sem hlutafall af heildartekjum
  4. Rekstrarniðurstaða

Úr sjóðstreymi:

  1. Veltufé frá rekstri
  2. Fjárfestingarhreyfingar

Úr efnahagsreikningi:

  1. Veltufjárhlutfall
  2. Veltufjármunir og langtímakröfur
  3. Skuldir, þ.m.t. skuldbindingar
  4. Peningaleg staða
  5. Eigið fé

Auk framangreindra lykilupplýsinga um heildarfjárhæðir og hlutföll hafa þær einnig verið reiknaðar á hvern íbúa til samanburðar milli sveitarfélaga. Við skoðun EFS á einstökum sveitarfélögum eru samstæðureikningsskil einnig skoðuð, en mjög er mismunandi hve mikil áhrif B-hluti reikningsskilanna hefur í einstökum sveitarfélögum. Einnig er litið til þeirra ábyrgða sem sveitarfélög eru í vegna eigin stofnana og fyrirtækja, sbr. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga.

Skuldaþak – framlegðarviðmið

Vegna rekstrarhalla og verulegrar skuldaaukningar margra sveitarfélaga á síðustu árum hefur EFS séð ástæðu til að aðvara nokkur sveitarfélög sérstaklega og lagt áherslu á að dregið verði úr skuldsetningu með öllum tiltækum ráðum. Með miklum lántökum er verið að ráðstafa framtíðartekjum til greiðslu vaxta og afborgana.

EFS hefur sett sér það viðmið nú að heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélags þurfi að vera undir 150% af heildartekjum og stefnt verði að enn lægra hlutfalli. Mun EFS byggja m.a. á þessu viðmiði við frekari skoðun á fjármálum sveitarfélaga á næstunni, en við slíka skoðun er að sjálfsögðu litið til ýmissa annarra þátta svo sem framlegðar frá rekstri, peningalegra eigna á móti skuldum o.fl.

Rökin fyrir þessu skuldaþaksviðmiði eru einkum þau að framlegðarmöguleiki úr rekstri, þ.e. heildartekjur að frádregnum rekstrargjöldum, öðrum en afskriftum af rekstrarfjármunum og fjármagnskostnaði, er takmarkandi þáttur um möguleika sveitarfélags til greiðslu vaxta og afborgana auk nýrra fjárfestinga. EFS setur í þessu sambandi fram viðmið um 15 til 20% framlegð úr rekstri. Sveitarfélag sem hefur t.d. 1.000 millj. kr. í heildartekjur og 15% framlegð hefur því 150 millj. kr. til greiðslu vaxta og afborgana auk nýrra fjárfestinga sem gera verður ráð fyrir. Ljóst má vera að skuldir að fjárhæð 1.500 millj. kr. í slíku tilviki mega vart vera hærri.

Það er von EFS og starfsmanna hennar að samstarfið við sveitarfélögin verði gott eins og hingað til og að tilskildar upplýsingar berist milli aðila fljótt og vel og mun nefndin fyrir sitt leyti leggja sig fram um að svo geti orðið.

Reykjavík 18. júní 2010

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum