Hoppa yfir valmynd
12. september 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Verkefnið Ísland ljóstengt heldur áfram og netöryggi eflt

Fjárheimild til fjarskiptasjóðs verður alls 1.425 milljónir króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í dag.

Eitt helsta markmiðið í fjarskiptum er landsátak í lagningu ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða í dreifbýli undir verkefnisheitinu Ísland ljóstengt. Er þetta samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga, íbúa, veitu- og fjarskiptafyrirtækja og verktaka við ljósleiðaravæðingu landsins.

Á fyrstu tveimur árum verkefnisins hafa yfir 30 sveitarfélög fengið úthlutað styrkjum fyrir yfir tvö þúsund nýjar ljósleiðaratengingar. Árið 2018 er þriðja árið af fimm sem ríkið styrkir ljósleiðaravæðingu sveitarfélaga með fjárveitingum gegnum fjarskiptasjóð sem hefur numið 450 milljónum ár hvert. Sveitarfélögin sækja um styrk af þessari fjárveitingu fjarskiptasjóðs og leggja ásamt íbúum og fjarskiptasfyrirtækjum eftir atvikum á móti  fé í viðkomandi framkvæmd.

Á fjarskiptasviðinu er einnig unnið að því að auka útbreiðslu háhraða farnets á vegakerfinu og fjölförnum ferðamannasvæðunum og er markmiðið að það verði orðið 93% árið 2018. Meðal annarra markmiða í fjarskiptaþjónustu er að 95% heimila hafi aðgengi að þráðbundnum nettengingum með yfir 50 Mb/s og aðgengi lögheimila að farsíma- og farneti verði 99,9%.

Mikil áhersla er lögð á vitundarvakningu um mikilvægi netöryggis og og eflingu netöryggissveitar í samræmi við netöryggisstefnu og aðgerðaáætlun.

Á póstmarkaði er á næstu misserum áformað að afnema einkarétt og opna markaðinn fyrir samkeppni en um leið verður alþjónusta tryggð. Í ráðuneytinu er unnið að endurskoðun laga- og regluverks um póstþjónustu og er stefnt að því að leggja fram frumvarp um póstþjónustu á haustþingi. Fjöldi bréfasendinga hefur hraðminnkað undanfarin ár og hefur Íslandspósti verið heimilað að fækka útburðardögum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira