Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 338/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 338/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050028

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. maí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

  1. Málsatvik og málsmeðferð

    Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. mars 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. júní 2018. Þann 6. júní 2018 bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda. Þann 19. júlí 2018 fékk kærunefnd túlk til þess að lesa yfir framlögð gögn kæranda. Þann 20. júlí 2018 var kæranda gefinn frestur til athugasemda vegna upplýsinga sem komu fram við þýðingu gagnanna. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 24. júlí sl.

  2. Ákvörðun Útlendingastofnunar

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu ótilgreinds hryðjuverkahóps.

    Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

    Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

  3. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann sé Kúrdi og fæddur í Sulaymaniyah sem sé sjálfstjórnarhérað Kúrda í Írak. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hafi neyðst að flýja frá heimaríki sínu vegna atvika sem hafi átt sér stað á verkstæði sem hann eigi ásamt frænda sínum og bróður. Kærandi, bróðir hans og frændi hafi verið beðnir um að koma á ákveðinn stað og huga að bifreið sem hafði bilað. Þar hafi mætt þeim þrír menn í annarlegu ástandi og hafi þeim legið mikið á að gert yrði við bifreiðina sem fyrst en kærandi og frændi hans hafi þurft að færa bifreiðina á verkstæðið og gera við hana þar. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að talsvert magn af vopnum hafi verið í bifreiðinni. Þá hafi verið ýmis gögn á arabísku í bifreiðinni og hafi þau borið einkennismerki ISIS. Kærandi hafi ekki vitað hvað hafi staðið í gögnunum þar sem hann skilji ekki arabísku en hann hafi haft það eftir lögreglunni að þau hafi verið tengd ISIS. Kærandi hafi tilkynnt fundinn til lögreglu. Í kjölfarið hafi lögreglan óskað eftir því að starfsmenn verkstæðisins myndu aðstoða við að handtaka þá sem ættu bifreiðina. Þegar bifreiðin hafi verið tilbúin hafi aðeins einn komið að sækja hana og hafi óeinkennisklædd lögregla handtekið hann á staðnum. Eftir handtökuna hafi hinir tveir sem tengdust bifreiðinni ráðist á verkstæði að nóttu til og skotið á húsnæðið og búnað, tæki og tól sem þar hafi verið inni. Hafi tækin verið ónothæf á eftir. Þá hafi þeir tekið myndavélar sem hafi verið á verkstæðinu þar sem þeir hafi vitað að þeir myndu þekkjast á þeim. Þá hafi þeir hótað kæranda, fjölskyldu hans og frænda hans lífláti. Þá hafi þeir skotið á bifreið kæranda þegar hann hafi verið á leið frá verkstæðinu. Kærandi, bróðir hans og frændi hafi flúið til Tyrklands en smyglarinn sem hafi hjálpað þeim hafi ekki náð að hjálpa bróður hans og hafi hann því þurft að snúa aftur til Íraks. Hryðjuverkahópurinn hafi vitað um leið að bróðir hans hafi verið kominn aftur til Piramagroon í Írak og gert árás á húsið þar sem hann hafi falið sig. Hafi sjö menn ráðist að húsinu, tekið rafmagnið af og skotið á húsið. Þá hafi þeir skorið á hjólbarða á bifreið sem hafi staðið fyrir utan húsið. Hafi bróðir kæranda og fjölskylda þá ákveðið að fara í felur í bænum [...] sem sé lengra í burtu. Kærandi telji að stjórnvöld geti ekki verndað hann fyrir þessum mönnum þar sem þau hafi enga stjórn á þessum hópi og aðgerðum þeirra. Kærandi kveður stjórnvöld ekki getað verndað hann fyrir þessum mönnum, hvar sem er í landinu, þar sem að þau hafi enga stjórn á þessum hóp eða aðgerðum þeirra. gert neitt í málinu. Hópurinn hafi víðtækt tengslanet sem nái til allra svæða landsins. Kvaðst kærandi hafa viljað breyta rétt og því hafi ekki annað komið til greina en að tilkynna þessa aðila til lögreglu.

    Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um sögu Íraks, stjórnarfar og skiptingu þjóðernisbrota í landinu. Fram kemur að öryggisástandið í landinu hafi verið afar ótryggt frá því að bandaríski herinn og bandamenn þeirra hafi ráðist inn í Írak í mars 2003. Þá hafi óöld ríkt í landinu undanfarin ár og hafi hryðjuverkasamtökin ISIS og aðrir hryðjuverkahópar brotið gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir Írak árið 2017 komi fram að meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu morð, mannshvörf og kúganir af hálfu öryggissveita ríkisins. Þá sé tíðni aftaka í Írak með því hæsta sem gerist í heiminum. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki Írökum sem komi frá svæðum sem séu undir áhrifum stríðsátaka eða teljist óörugg sökum áhrifa ISIS aftur til heimaríkis gegn vilja sínum.

    Þá er í greinargerð fjallað almennt um aðstæður á yfirráðasvæði Kúrda í Írak. Fram kemur að með breytingu á stjórnarskrá Íraks árið 2005 hafi yfirráðasvæði Kúrda í Írak (e. the Kurdistan Region of Iraq (KRI)) verið viðurkennt sem sjálfstjórnarsvæði með eigin stofnanir, svo sem svæðisbundin stjórnvöld, þing, forsetaembætti og öryggissveitir. Vísað er til þess að með atkvæðagreiðslu, í september 2017, um stofnun sjálfstæðs ríkis á yfirráðasvæði Kúrda í Írak hafi magnast upp á ný spenna á milli kúrdíska minnihlutans og yfirvalda í Bagdad og hafi átök átt sér stað í kjölfarið. Samkvæmt heimildum eigi íröksk og kúrdísk stjórnvöld í viðræðum um ágreiningsefni sín. Einnig sé efnahagsástandið í Kúrdistan á niðurleið og þar ríki í raun fjármálakreppa. Þá stafi Kúrdum nú hætta af Tyrkjum.

    Til stuðnings aðalkröfu um viðbótarvernd er byggt á því að kærandi sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er í greinargerð umfjöllun um ákvæði 2. gr. e, 3. og 4. mgr. 4. gr. og 15. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Við túlkun ákvæðisins eigi að taka tillit til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og annarra alþjóðareglna sem reglan um viðbótarvernd byggist á og Ísland er skuldbundið af. Einkum sé þar um að ræða ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá er ítarlega fjallað um hugtökin ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð. Er m.a. vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 1978 (nr. 5310/71) en í honum komi m.a. fram að vanvirðandi meðferð geti falið í sér illa meðferð, sem ætluð sé að valda einstaklingi ótta, angist og vanmætti og sem beitt sé til að niðurlægja hann, lítillækka og brjóta niður líkamlegt og andlegt mótstöðuafl hans. Dómurinn hafi verið túlkaður með þeim hætti að ekki séu gerðar kröfur til þess að sanna verði að aðferðir sem hafi slíkar afleiðingar hafi í raun haft þessi áhrif á viðkomandi heldur að nægilegt sé að hægt sé að draga þá almennu ályktun af lýsingu á athöfnum að þær séu til þess fallnar að valda þeirri þjáningu og þeim tilfinningum sem lýst hafi verið. Þar með sé t.d. ekki nauðsynlegt að sýna fram á að viðkomandi fórnarlamb hafi sjálft talið þær athafnir eða aðgerðir sem um er að ræða sársaukafullar, niðurlægjandi eða auðmýkjandi. Kærandi vísar framangreindu til stuðnings jafnframt til dóms Mannréttindadómstólsins frá 2010 (nr. 22978/05) þar sem fram kemur að raunhæf hótun um að maður verði pyndaður geti ein og sér valdið miklum andlegum þjáningum eða ótta og geti það talist til ómannúðlegrar meðferðar þótt aldrei komi til þess að slíkum hótunum verði fylgt eftir.  Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum og því sem rakið hafi verið í greinargerð telji kærandi að ljóst sé að hann uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Meðlimir valdamikils hryðjuverkahóps hafi reynt að drepa kæranda og hann telji að þeir muni reyna það aftur. Kærandi telji að yfirvöld í heimaríki hafi hvorki vilja né getu til að veita honum þá vernd sem hann þarfnist og hafi sagt það beinlínis við kæranda. Þá telji kærandi að síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi jafnframt við í hans máli í ljósi þess að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í Írak síðan í mars 2003. Í heimildum sé ástandinu í Írak lýst sem óstöðugu og að það geti versnað snögglega. Einnig segi í heimildum að hryðjuverkamenn séu mjög líklegir til að reyna að gera árásir í landinu og að hættan á mannránum sé mikil. Kærandi telji að með því að senda hann aftur til heimaríkis verði brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki muni slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaralega og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

    Kærandi vísar einnig til 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga hvað varðar skilgreiningu á því hverjir það geti verið sem eru valdir að ofsóknum skv. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt c-lið málsgreinarinnar geti það verið aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi vísar til þess að honum stafi ógn af hryðjuverkahópi sem hafi tengsl við ISIS. Lögreglan hafi greint honum frá því að hún viti hverjir þessir aðilar séu en eigi erfitt með að handsama þá sökum þess að þá sé að finna alls staðar. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð um aðstæður í Írak telur kærandi að stjórnvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda þá vernd sem hann þarfnist og því beri, að teknu tilliti til aðstæðna hans, að tryggja honum alþjóðlega vernd hér á landi.

    Til vara er gerð krafa um að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga en þar komi m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Geti slíkar aðstæður einnig átt við um óvenjulegar aðstæður á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Kærandi vísar til þess að ljóst sé að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í heimaríki hans allt frá því Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafi ráðist inn í landið í mars 2003. Ljóst sé einnig að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu og yfirvöld veiti þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Í ljósi þess sem rakið hafi verið í greinargerð um aðstæður kæranda þá eigi hann ekki afturkvæmt til heimaríkis. Kærandi telji sig því uppfylla skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

    Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum hans og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að viðkomandi setjist að á því svæði sem talið sé öruggt skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en í þeim komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til þess að fram komi í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um útlendinga nr. 80/2016 að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimríkis sé ekki meginregla í flóttamannalöggjöf. Ekki sé þess krafist í alþjólegri löggjöf að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki sínu áður en hann sækir um alþjóðlega vernd í öðru ríki. Þá segi jafnframt að gæta skuli þess við beitingu ákvæðisins að það leiði ekki til þess að grafið sé undan þeim grundvallarmannréttindum sem löggjöf um alþjóðlega vernd byggist á, réttinum til þess að flýja eigið land og sækja um alþjóðlega vernd og banni við endursendingum þangað sem líf eða frelsi viðkomandi kann að vera í hættu. Með hliðsjón af atvikum máls og því sem rakið hafi verið í greinargerð sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn en bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til að slík ráðstöfun komi til greina.

    Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemdir við það að Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að framlagðar ljósmyndir tengist þeim atvikum sem hann hafi lýst í viðtali og að stofnunin hafi metið frásögn hans um hryðjuverkahópinn ótrúverðuga sökum þess að hann hafi ekki vitað nafnið á hópnum. Kærandi telji að í ljósi þess að hann skilji ekki arabísku þá hafi hann ekki getað lesið gögn sem fundist hafi í bifreiðinni en hann hafi séð merki á þeim sem hann tengi við ISIS og því eigi hann að njóta vafans af því að geta ekki tilgreint nákvæmlega um hvaða hóp sé að ræða. Auk þess hafi lögreglan tjáð honum framangreint um hópinn og hann hafi enga ástæðu til að rengja hana. Þá sé ekki hægt að ætlast til þess að kærandi sem sé ungur að árum viti nákvæmlega um hvaða hryðjuverkahóp sé að ræða þó lögreglan í heimaríki hans viti það en í heimaríki hans séu margir hryðjuverkahópar og ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að kærandi hafi nákvæmar upplýsingar um hver af þeim hópum ógni honum. Þá telji kærandi að hann eigi einnig að njóta vafans af því að hafa ekki getað tekið mjög ítarlegar myndir af aðstæðum á staðnum enda hafi hann ekki getað gert sér grein fyrir á þeim tímapunkti að hann þyrfti á þeim að halda síðar til að sanna mál sitt. Kærandi gerir einnig athugasemdir við það sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin telji það ótrúverðugt að kærandi gæti ekki nálgast gögn frá lögreglunni í heimaríki enda hafi stofnunin áður fengið slík gögn. Kærandi telur að stofnunin hafi hér lagt orð í hans munn þar sem hann hafi svarað aðspurður að hann hefði engin slík gögn þar sem hann hafi yfirgefið heimaríkið og þá sé hann ekki með nein gögn sem sýna fram á að hann hafi leitað til lögreglunnar. Kærandi bendir í að hann hafi ekki verið búinn að skipuleggja fyrir fram að fara frá heimaríki og hann hafi allslaus frá heimalandinu, án skilríkja og gagna til stuðnings máli sínu.

    Eins og að framan greinir lagði kærandi jafnframt fram viðbótargögn hjá kærunefnd. Samkvæmt túlkun nefndarinnar á gögnunum er um að ræða lögregluskýrslur og dómkvaðningar frá heimaríki kæranda. Kærunefnd bárust skýringar, þann 24. júlí sl., frá kæranda varðandi gögnin. Þær skýringar lutu einkum að dagsetningum og skýringar á nöfnum á aðilum sem koma fram í skjölunum.

     

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram vegabréf til að sanna uppruna sinn með fullnægjandi hætti. Kærandi hafi því verið látinn þreyta tungumála- og staðháttarpróf þann 28. mars 2018 til að staðreyna hvort hann væri sannanlega frá Írak. Niðurstöður prófsins hafi staðfest að kærandi væri frá sjálfstjórnarhéruðum Kúrda í Írak og að hann hafi Sorani-kúrdísku að móðurmáli. Kærandi hefur lagt fram afrit af einhvers slags kenniskírteini og af ríkisfangsbréfi sínu. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar kærandi sé ríkisborgari Íraks.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Annual Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, mars 2017);
  • Country Information and Guidance Iraq: Return/Internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • Country Information and Guidance Iraq: Security situation in the ‘contested’ areas (UK Home Office, ágúst 2016);
  • Country reports on Human Rights Practices for 2016, Iraq (U.S. Department of State, 13. apríl 2016);
  • Freedom in the World 2017 - Iraq (Freedom House, 2. júní 2017);
  • Hedersrelaterat våld i Libanon, Syrien och de kurdstyrda provinserna i norra Irak (Migrationsverket, 27. nóvember 2009);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 6. janúar 2016);
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Iraq Country of origin information (COI) report (UK Home Office, 25. mars 2011);
  • Iraq 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA): Ability of Persons Originating from (Previously or Currently) ISIS-Held or Conflict Areas to Legally Access and Remain in Proposed Areas of Relocation (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Iraq: Security situation in Sulaymaniyah; activities of Muslim fundamentalist groups, including ISIS, 2015-February 2016 (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. mars 2016);
  • Iraq 2018 Crime & Safety Report: Erbil (U.S. Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 7. mars 2018);
  • Iraq Flash Update (UNHCR, 26. mars 2018);
  • Oil and Borders: How to Fix Iraq's Kurdish Crisis (International Crisis Group 17. október 2017);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, nóvember 2016);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitarian Situation (Danish Immigration Service, apríl 2016) og
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með rúmlega 32 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöld þegar sigurvegarar stríðsins skiptu Mið-Austurlöndum á milli sín. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1994 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2008. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011 og alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um réttindi einstaklinga með fötlun árið 2013.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að frá 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum svæðum í mið- og norðurhluta landsins. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Vegna þeirra hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisa, þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn ISIS. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Í ofangreindum gögnum kemur þá fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarsvæði Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Þrátt fyrir almennan óstöðugleika í mörgum öðrum landshlutum Íraks hafi stjórn KRI á síðustu árum náð að viðhalda pólitískum stöðugleika, tryggja öryggi almennra borgara og auka hagvöxt innan svæðisins. Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveit sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum ISIS og annarra tengdra samtaka.

Þann 12. nóvember 2017 hafi jarðskjálfti riðið yfir landamæri Íraks og Írans. Að mati yfirvalda hafi um 10.000 manns slasast í skjálftanum, þ. á m. 550 manns í KRI, en skjálftinn hafi mælst 7,5 stig. Í KRI hafi slösuðum verið sinnt á spítalanum í Sulaymaniyah og sé spítalinn starfhæfur. Samkvæmt ofangreindum gögnum hafi yfirvöld, í samstarfi við mannúðarsamtök, veitt neyðaraðstoð og séð um björgunarstarf á svæðinu og sé ástandið á skjálftasvæðinu talið stöðugt.

Í ofangreindum gögnum kemur einnig fram að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli Kúrda og arabíska meirihlutans í Írak. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lýtur sjálfsstjórn Kúrda. Þann 25. september 2017 hafi atkvæðagreiðsla farið fram meðal íbúa KRI þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis Kúrdistan og hafi yfir 92% kjósenda kosið með sjálfstæði. Forsætisráðherra Íraks hafi í kjölfarið neitað að viðurkenna úrslit atkvæðagreiðslunnar og telji hann hana ólöglega. Á síðustu mánuðum hafi komið til átaka milli stjórnvalda í Írak og hersveita kúrdíska hersins í KRI. Dagana 16. og 17. október 2017 hafi írakski stjórnarherinn yfirtekið landsvæði sem áður voru á ytri stjórnsýslumörkum KRI í héruðunum Ninewa, Kirkuk, Erbil og Diyala, þ.m.t. borgina Kirkuk í Kirkuk-héraði. Margir íbúar svæðanna hafi lagt á flótta til Erbil og Sulaymaniyah, en fjöldi þeirra hafi þegar snúið aftur til síns heima. Samkvæmt ofangreindum heimildum standi yfir viðræður um ágreiningsmál milli stjórnvalda í Írak og stjórnvalda í KRI og sé ástandið talið stöðugt.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna sem hann hafi orðið fyrir af hálfu ótilgreinds hóps sem hann telji að hafi tengsl við ISIS hryðjuverkasamtökin. Hann og frændi hans sem eigi saman bifreiðaverkstæði hafi fundið vopn í bifreið sem þeir hafi fengið til viðgerðar og það hafi leitt til þess að eigandinn, sem sé í þessum ótilgreinda hópi, hafi verið handtekinn. Kærandi hafi orðið fyrir hótunum og árás frá tveimur úr hópnum og hann telji að mögulega hafi þessir aðilar ætlað að nota hann sem skiptimynt til að fá hinn handtekna úr haldi. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi leitað til lögreglu en hún geti ekki stjórnað þessum aðilum þar sem þeir hafi víðtækt tengslanet um allt land. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji að lögreglan geti ekki gert neitt fyrir sig og hafi beinlínis sagt það við hann. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að eiga á hættu ofsóknir af hendi stjórnvalda eða aðila á þeirra vegum. Þá benda gögn málsins heldur ekki til þess að kærandi eigi slíkt á hættu.

Útlendingastofnun mat frásögn kæranda um að ótilgreindur hryðjuverkahópur í Írak væri á eftir honum ótrúverðuga og var sá hluti frásagnar hans ekki lagður til grundvallar. Stofnunin lagði hins vegar til grundvallar að hann og fjölskylda hans kynni að hafa sætt áreiti og hótunum af einhverju tagi í heimaríki sínu en gætu leitað á náðir yfirvalda vegna vandamála sinna.

Við málsmeðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi, þann 6. júní sl., fram ný gögn á sorani sem voru túlkuð  fyrir nefndinni. Tvö þessara skjala eru samkvæmt túlkun afrit af lögregluskýrslum frá lögregluembættum í Sulaymaniyah. Annars vegar sé um að ræða skýrslu, dagsetta 10. ágúst 2017, vegna kæru kæranda og frænda hans á hendur þremur nafngreindum mönnum fyrir skotárás á bifreiðaverkstæði þeirra þann 10. ágúst 2017 og hins vegar skýrslu, dagsetta 12. ágúst 2017, vegna kæru kæranda og frænda hans á hendur sömu mönnum fyrir skotárás sem hafi átt sér stað sama dag þegar kærandi og frændur hans hafi ekið bifreið eftir götu sem nefnist 60 metra gatan. Í skýrslunni sem dagsett er 10. ágúst 2017 kemur fram að hinir kærðu heiti [...], [...] og [...]. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að lögreglan hafi handtekið einn þeirra. Þá hafi hún byrjað að rannsaka málið og ákveðið að handtaka hina tvo á grundvelli 431. gr. írakskra hegningarlaga. Í skýrslunni sem dagsett er 12. ágúst 2017 kemur fram að komið hafi í ljós að hinir kærðu séu hryðjuverkamenn og hafi því verið ákveðið á grundvelli hryðjuverkalaganna að senda mál þeirra til leyniþjónustunnar. Í gögnum þeim sem voru lögð fram við málsmeðferð hjá kærunefnd er samkvæmt túlkun einnig afrit af tveimur handtökuskipunum, útgefnum af tveimur dómurum, á hendur [...]. Er önnur þeirra dagsett 10. ágúst 2017 og hin þann 12. ágúst 2017. Fimmta skjalið er afrit af lögregluskýrslu útgefinni af lögreglustjóra í [...] og lýtur að kæru [...] á hendur [...] fyrir hnífaárás. Lögregluskýrslan er dagsett 16. janúar 2018.

Kærunefnd telur að framangreind gögn leggi grunn að staðhæfingum kæranda um að hafa orðið fyrir árásum og hótunum ákveðinna aðila í heimaríki og að líkur séu á að þessir aðilar hafi tengsl við hryðjuverkasamtök. Hins vegar sýna gögnin fram á það að lögreglu- og dómsyfirvöld í heimaríki kæranda hafi hafið málsmeðferð í tilefni kæra kæranda og frænda hans. Sjá má í ofangreindum gögnum að lögreglan hafi annars vegar tekið ákvörðun um að handtaka hina kærðu og hins vegar senda mál þeirra áfram til þar til bærra stjórnvalda þar sem um sé að ræða mögulega hryðjuverkamenn. Gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um réttarvörslukerfið í KRI, þ.m.t. skýrsla dönsku útlendingastofnunarinnar frá 2016, benda jafnframt eindregið til þess að lögregla og öryggissveitir í KRI myndu bregðast án tafar við upplýsingum um mögulega virkni ISIS samtakanna innan sjálfsstjórnarsvæðisins. Að mati kærunefndar benda gögn málsins, bæði þau sem kærandi hefur sjálfur lagt fram og skýrslur um aðstæður í heimaríki kæranda, því ekki til þess að lögreglan geti ekki eða vilji ekki beita sér gegn árásarmönnum kæranda, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, árásir eða hótanir.

Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn ISIS-samtakanna eða þeim svæðum þar sem ISIS er enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda, Sulaymaniyah, sé á öruggu svæði í KRI. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að  hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði KRI sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir Kúrda séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kæranda, Sulaymaniyah, langt inni í landi KRI þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í KRI, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til KRI. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til gagna málsins, að kæranda standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í KRI.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.


 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Þótt fallist verð á að langvarandi stríðstástand hafi ríkt í heimaríki kæranda hafa aðstæður í heimahéraði kæranda einkennst fremur af stöðugleika. Verður því ekki fallist á að kærandi hafi ríka þörf á vernd vegna þess stríðsástands sem ríkir í öðrum héruðum heimaríkis hans. Þá heldur kærandi því fram að yfirvöld í Írak geti ekki veitt honum þá vernd sem hann þarfnist. Eins og að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að í heimahéraði kæranda sé jafnframt virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kæranda viðeigandi vernd.

Kærandi er [...] ára gamall karlmaður sem hefur rekið eigið fyrirtæki í heimaríki. Hann kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærandi gerir einkum athugasemdir við það hvernig Útlendingastofnun hafi staðið að trúverðugleikamati á frásögn hans. Kærandi telji m.a. að hann eigi að njóta vafans af því að þær ljósmyndir sem hann hafi lagt fram, til stuðnings frásögn sinni, hafi ekki verið ítarlegri en kærandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir því á þeim tímapunkti að hann þyrfti á slíkum gögnum að halda og þá hafi flótta hans borið brátt að. Þá telji kærandi að hann eigi jafnframt að njóta vafans af því að hafa ekki getað tilgreint nafn á hópnum sem standi að ofsóknum gegn honum en fjöldinn allur sé af slíkum hreyfingum sem stundi illvirki af ýmsu tagi í heimaríki hans. Auk þess ítrekar kærandi að hann hafi ekki verið búinn að skipuleggja flótta sinn frá heimaríki og hafi farið þaðan án allra skilríkja og gagna máli sínu til stuðnings og það eigi ekki að leiða til þess mats Útlendingastofnunar að ótrúverðugt sé að ómögulegt hafi verið fyrir hann að nálgast gögn frá lögreglunni í heimaríki.

Samkvæmt framansögðu lúta athugasemdir kæranda að mati Útlendingastofnunar á gögnum málsins en ekki skorti á rannsókn þess, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur með sjálfstæðum hætti metið trúverðugleika framangreindra staðhæfinga kæranda og þýðingu þeirra gagna sem hann lagði fram fyrir mál hans og telur hvorki tilefni til að gera athugasemd við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun né rökstuðning ákvörðunar kæranda.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 28. ágúst 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Lagt er fyrir kæranda að yfirgefa landið sjálfviljugur innan 30 daga frá birtingu þessa úrskurðar.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                              Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum