Hoppa yfir valmynd
24. september 2014 Innviðaráðuneytið

Hvítbók um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins fyrir áramót

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var sett á Akureyri nú síðdegis og flutti Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ræðu við upphaf þingsins. Halldór Halldórsson, formaður Sambandsins, setti þingið en yfirskrift þess er áskoranir í bráð og lengd. Um 200 manns voru við þingsetninguna en þingið stendur fram á föstudag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu landsþingsins í dag.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu landsþingsins í dag.

Framtíðarþróun sveitarstjórnarstigsins var umræðuefni innanríkisráðherra og kvaðst hún hafa velt mikið fyrir sér stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins. Hún sagði nú í smíðum í ráðuneytinu það sem kalla mætti hvítbók – stefnumótunarskjal í sveitarstjórnarmálum – þar sem helstu áherslur og áskoranir á vettvangi sveitarstjórnarmála yrðu dregnar fram. Ætlunin væri að fara með slíkt skjal til fundar við sveitarstjórnarmenn um landið allt og sagði hún stefnt að því að birta fyrstu drög að skjalinu fyrir árslok.

Innanríkisráðherra sagði þrjár spurningar framundan hvað varðaði verkefnið:

  • Um valfrelsi einstaklinganna, lýðræði og þjónustu við borgarana

  • Um sjálfsstjórn sveitarfélaga, ábyrgð á eigin málum og verkefni þeirra

  • Um samskipti ríkis og sveitarfélaga – hið opinbera

Fór ráðherra síðan nokkrum orðum um hvern þessara flokka. Hún sagði þá þróun munu halda áfram að sveitarfélög tækju að sér fleiri verkefni sem kallaði á að mótuð væri stefna til að tryggja að slíkt væri ávallt gert í þágu íbúa. Taldi ráðherra mikilvægt að auka valfrelsi íbúa og gera þeim kleift að velja milli kosta þegar kæmi að því að kaupa eða nýta opinbera þjónustu. Þá sagði hún það markmið ríkisstjórnarinnar að efla sveitarstjórnarstigið og minnti á að sveitarstjórnir væru ekki undirstofnanir ríkisins heldur stæðu þær jafnfætis ríkinu. Á þeim grunni ættu samskipti þeirra að fara fram.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var sett í dag.

Í ræðu sinni vék ráðherra einnig að minnkandi kosningaþátttöku og sagði könnun sem nú stæði yfir í samvinnu ráðuneytisins við Samband íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélagið til að leita skýringa á þessari minnkandi þátttöku. Niðurstöður yrðu kynntar síðar en sagði meðal niðurstaðna þá að kjörsókn í aldurshópnum upp að 45 ára væri áberandi minni en þeirra sem eldri væru, kjörsókn 18-25 ára væri 13-25 prósentustigum minni en annarra og rúmur fjórðungur þeirra sem ekki kaus í síðustu sveitarstjórnum sögðust einfaldlega ekki hafa nennt því. Ráðherra sagði hér verk að vinna og sagði það ákveðna ógn við lýðræðið ef þessi þróun héldi áfram.

Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti ræðu við setningu landsþingsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum