Hoppa yfir valmynd
15. september 2000 Heilbrigðisráðuneytið

9. - 15. september

Fréttapistill vikunnar
9. - 15. september

Óvenju mörg og alvarleg slys hafa raskað rekstri Landspítalans.
Margir tugir fólks hafa á undanförnum mánuðum verið fluttir til aðhlynningar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eftir að hafa orðið fyrir alvarlegum slysum. Slysin hafa verið óvenju mörg og spítalinn af þeirra völdum orðið fyrir kostnaði langt umfram áætlanir. Þetta kemur fram í greinargerð um áhrif alvarlegra slysa undanfarin misseri á starfsemi sjúkrahússins sem tekin var saman að beiðni heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur m.a. fram að beinn kostnaðarauki sjúkrahússins vegna öldu slysa fyrstu átta mánuði ársins er metinn um tæpar 40 m.kr. Á árunum 1998 til 1999 fjölgaði þeim sem nutu aðhlynningar eftir umferðarslys á slysa og bráðamóttöku um 31% og aftur stefnir í fjölgun á þessu ári. Greinargerðin hefur verið send ráðherrum ríkisstjórnar og kynnt fulltrúum fjárlaganefndar Alþingis. Hún verður kynnt heilbrigðisnefnd þingsins í dag [15. sept].
Sjá greinargerð á heimasíðu Landspítala>


Möguleikar á að vinna hluta verkefna Lyfjastofnunar utan höfuðborgarsvæðisins verða kannaðir.
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur skipað Rannveigu Gunnarsdóttur, lyfjafræðing, fyrsta forstjóra Lyfjastofnunar til næstu fimm ára. Ráðherra leggur áherslu á að fyrsti forstjóri Lyfjastofnunar, sem móta mun starfsemi hinnar nýju stofnunar, gaumgæfi og taki fullt tillit til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999-2001. Þar er kveðið á um að markvisst skuli unnið að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni, og að lögð skuli áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna felur heilbrigðisráðherra forstjóra Lyfjastofnunar að kanna sérstaklega hvort unnt sé að vinna hluta verkefna stofnunarinnar utan höfuðborgarsvæðisins nú, eða í framtíðinni.
Sjá fréttatilkynningu um málið >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ávarpar 50. svæðisfund WHO.
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, gerði grein fyrir úttekt heilbrigðisráðuneytisins á heilsufari kvenna og fyrirætlunum sínum á því sviði í ávarpi sem hún flutti á 50. svæðisfundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Kaupmannahöfn í vikunni. Ráðherra sagði frá helstu niðurstöðum nefndarinnar sem fjallaði um málið og benti á samspil félagslegra þátta, heilsufars kvenna og heilbrigðis fjölskyldnanna. Í ávarpi sínu fjallaði heilbrigðisráðherra einnig um baráttuna gegn reykingum og hvatti ríkisstjórnir aðildarþjóða WHO til að brýna vopnin enn frekar.
Sjá fréttatilkynningu um málið>

Tannheilsa og tannvernd – Tannheilsudeild opnar heimasíðu á Netinu.
Heimasíða á vegum tannheilsudeildar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður opnuð í 21. september. Á síðunni verður aðgengilegt fræðsluefni um tannheilsu og tannvernd fyrir fagfólk og almenning. Áhersla verður lögð á fræðslu fyrir afmarkaða hópa, s.s. börn, aldraða og sjúka með efni sem sniðið er að þörfum hvers hóps. Netfang heimasíðunnar verður kynnt við opnun hennar.

Salmonellufaraldur í Reykjavík.
Tugir manna hafa greinst með salmonellusýkingu í þessari viku, flestir á höfuðborgarsvæðinu. Sýkingin er af völdum Salmonella typhimurium en virðist af öðrum stofni en sú salmonella sem olli sýkingu hérlendis í fyrra. Sérstökum áhyggjum veldur að bakterían er ónæm fyrir mörgum algengum sýklalyfjum en þó hafa fundist lyf sem gagnast. Flestir þeirra sem hafa sýkst eru á aldrinum 20 - 30 ára og hafa sumir þeirra þurft á sjúkrahúsvist að halda. Einkenni eru ógleði, uppköst, magaherpingur og jafnvel blóð í hægðum. Unnið er að rannsókn á uppruna sýkingarinnar. Margir af þeim sem hafa veikst höfðu sótt veitinga- og skyndibitastaði en þó ekki allir. Bendir það til þess að sýkt matvara sé í umferð. Sóttvarnarlæknir brýnir fyrir fólki að vanda alla meðferð matvæla og kynna sér bæklinginn Varnir gegn matarsýkingum og matareitrunumsem dreift var til landsmanna síðastliðið vor. Bæklingurinn er einnig aðgengilegur á heimasíðu Landlæknisembættisins. Fólk sem er með einkenni um matarsýkingu er hvatt til að leita læknis.
Heimasíða landlæknisembættisins >

Nýstofnuð skrifstofa barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Ný skrifstofa barnaverndarnefndar Reykjavíkur er tekin til starfa. Meginmarkmiðið með stofnun hennar er að bæta málsmeðferð og auka sérhæfingu í erfiðum og flóknum barnaverndarmálum. Skrifstofan mun annast og bera ábyrgð á meðferð allra barnaverndarmála sem unnin eru á grundvelli barnaverndarlaga. Þá sinnir hún bakvakt vegna barnaverndarmála og einnig fóstur- og umsagnarmálum. Frá 11. september tekur skrifstofan við öllum tilkynningum frá stofnunum eða almenningi sem varða aðbúnað barna. Framkvæmdastjóri Skrifstofu barnaverndarnefndar er Guðrún Frímannsdóttir, félagsráðgjafi. Skrifstofan er til húsa í Síðumúla 39.

Námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Ísland orðin sjálfstæð deild.
Námsbraut í hjúkrunarfræði var komið á fót við Háskóla Íslands árið 1974. Hún hefur frá upphafi verið námsbraut innan læknadeildar þar til nú að hún verður sjálfstæð deild við Háskólann. Fyrsti deildarforstjóri hjúkrunarfræðideildar er Marga Thome.

Ráðstefna um upplýsingatækni og hjúkrun.
Ráðstefna um upplýsingatækni og hjúkrun verður haldin 21. september á Grand Hótel á vegum hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. Meðal umfjöllunarefna er notkun internetsins við kennslu, upplýsingamiðlun og fræðslu til almennings, fjallað verður um gagnagrunn á heilbrigðissviði í tengslum við hjúkrun, rafræna skráningu s.k. RAI-mats á öldrunarstofnunum og margt fleira.
Dagskrá ráðstefnunnar >


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
15. september 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum