Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Formleg opnun skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga

Opnun skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga
Opnun skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra opnaði í dag að viðstöddu fjölmenni skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga.

Fæðingarorlofssjóður fluttist frá Tryggingastofnun ríkisins til Vinnumálastofnunar um áramótin. Skrifstofa og meginþjónusta Fæðingarorlofssjóðs verður staðsett að Strandgötu 1, 530 Hvammstanga. Leó Örn Þorleifsson er forstöðumaður sjóðsins.

Magnús Stefánsson sagði við þetta tækifæri að hlúð væri að atvinnulífinu með margvíslegum aðgerðum um allt land, ekki síst smáiðnaði og ýmiss konar þjónustu.

„Liður í þessari stefnu er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að setja starfsemi Fæðingar- og foreldraorlofssjóðs niður hér á Hvammstanga,“ sagði félagsmálaráðherra. „Með starfsemi Fæðingarorlofssjóðs skapast störf fyrir níu manns. Þetta skiptir máli fyrir sveitarfélag eins og Húnaþing vestra og auk þess eru afleidd áhrif þó nokkur. Huglægu áhrifin eru heldur ekki óveruleg. Í stað þess að þurfa að horfa á bak störfum er verið að snúa þróuninni við. Þetta gefur fólki trú á framtíðina og eykur því hugrekki til að leita nýrra tækifæra.“

„Hér er um eðlilega þróun í nútíma þjóðfélagi að ræða,“ sagði Elín Líndal, oddviti sveitastjórnar Húnaþings vestra. „Hér er sterk samfélagsumgjörð og hátt þjónustustig sem skýtur styrkum stoðum undir rekstur þjónustustofnunnar eins og Fæðingarorlofssjóðs.“

„Þær raddir hafa heyrst að við flutninginn muni þjónusta sjóðsins verða lakari en áður,“ sagði Magnús Stefánsson. „Hér er vert að hafa í huga að á vegum Vinnumálastofnunar eru starfræktar átta svæðisskrifstofur í öllum landshlutum. Með flutningi Fæðingarorlofssjóðs til Vinnumálasstofnunar fá þjónustuskrifstofur hennar á landsbyggðinni aukið hlutverk. Þær annast þjónustu fyrir Fæðingarorlofssjóð með sama hætti og þær annast aðra starfsemi á vegum Vinnumálastofnunar. Sem dæmi má nefna að þjónustuskrifstofan á Engjateigi í Reykjavík svarar í síma fyrir sjóðinn. Þannig er hægt að koma við samstarfi og samnýtingu starfsmanna með tilheyrandi samlegðaráhrifum.“

Meðal þeirra sem fluttu árnaðaróskir voru Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður, Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Allir umsækjendur skila umsóknum sínum á Hvammstanga auk þess sem umsækjendur af landsbyggðinni skulu senda skattkort sín þangað kjósi þeir að nýta sér þau hjá Fæðingarorlofssjóði. Umsækjendur af höfuðborgarsvæðinu skila skattkortum sínum til Vinnumálastofnunnar, Engjateigi 11, 105 Reykjavík, en öll önnur gögn skal senda á Hvammstanga.

Símanúmer Fæðingarorlofssjóðs er 582 4840 og fax 582 4850.

Nánari upplýsingar, eyðublöð, lög og reglur er að finna á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum