Hoppa yfir valmynd
21. desember 2023 Innviðaráðuneytið

Opnað fyrir umsóknir á íbúðum fyrir Grindvíkinga

Undanfarna daga hefur Leigufélagið Bríet staðfest kaup á íbúðum sem ætlaðar eru fyrir Grindvíkinga í takt við viljayfirlýsingu sem undirrituð var við stjórnvöld vegna hamfaranna á Reykjanesi. Unnið hefur verið að samningagerð og standsetningu íbúða eftir að fjárheimild fékkst frá Alþingi og eru fyrstu íbúðirnar nú tilbúnar til úthlutunar.

Umsóknarfrestur til kl. 10 þann 22. desember

Hægt er að sækja um íbúðir í gegnum þjónustugátt fyrir Grindvíkinga á island.is. Íbúðum er skipt upp í flokka eftir stærð og staðsetningu, en nokkrar íbúðir eru að jafnaði í hverjum flokki. Ekki er hægt að sækja um einstaka íbúðir og er fyrirkomulagið með þeim hætti svo hægt sé að úthluta íbúðum eins fljótt og kostur er, vegna þess hve skammur tími er til jóla.

Tekið er á móti umsóknum til kl. 10:00 á morgun föstudaginn 22. desember og er stefnt að því að afhenda flestar íbúðirnar síðar sama dag. Þegar umsókn hefur verið skilað á fullnægjandi hátt fer hún í pott ásamt öðrum umsóknum sem borist hafa. Ef umsóknir sem uppfylla skilyrðin eru fleiri en þær íbúðir sem í boði eru verður dregið úr pottinum að viðstöddum fulltrúa frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem búa við óviðunandi húsnæðiskost og/eða fjölskyldur með börn á skólaaldri hafa forgang í úthlutun.

Þeir aðilar sem þurfa aðstoð við umsóknir geta haft samband við Þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga til að fá aðstoð og leiðbeiningar, í síma 855 2787.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum