Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Dómsmálaráðuneytið

Viðhorf til mannanafnalaga kannað meðal almennings

Innanríkisráðuneytið mun á næstunni kanna í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands viðhorf almennings til löggjafar um mannanöfn. Á liðnum vetri var leitað samráðs á vef ráðuneytisins um hvort þörf væri á endurskoðun mannanafnalaga eða hvort fella mætti þau úr gildi. Alls bárust 30 umsagnir um málið og taldi meirihlutinn að þörf væri á að endurskoða löggjöfina. Ráðuneytið undirbýr nú að leita víðtækara álits almennings með áðurnefndri viðhorfskönnun.

Hinn 10. mars sl. birti ráðuneytið á vefsíðu sinni frétt með yfirskriftinni „Er þörf á endurskoðun mannanafnalaga?“ Efnt var til opins samráðs á vefnum um hugsanlegar breytingar á lögum um mannanöfn og var fólk hvatt til þess að senda ráðuneytinu umsagnir með sjónarmiðum sínum um hugsanlega endurskoðun laganna. Til umræðu og skoðanaskipta voru settir fram þrír möguleikar og óskað var eftir að þeir sem sendu inn umsögn tilgreindu hvern þeirra þeir aðhylltust. Möguleikarnir þrír voru eftirfarandi:

A - Hvorki er talin þörf á endurskoðun ákvæða mannanafnalaga um nafngjafir né störf mannanafnanefndar. Þeir almannahagsmunir sem liggja að baki ákvæðunum eru óbreyttir en í störfum mannanafnanefndar verði framvegis lögð meiri áhersla á þau sjónarmið sem fram hafa komið í dómaframkvæmd.

B - Rétt er talið að gera tilteknar breytingar á mannanafnalögum, m.a. út frá þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið hjá dómstólum. Áfram verða í löggjöf reglur um nöfn og nafngjafir en þær endurskoðaðar út frá sjónarmiðum í samfélaginu í dag. Þá verður hlutverk mannanafnanefndar jafnframt endurskoðað með hliðsjón af þessu.

C - Rétt er talið að fella úr mannanafnalögum takmarkanir á nafngjöf og gefa þannig fullorðnum einstaklingum og foreldrum barna frelsi til að velja nöfn sín og barna sinna. Mannanafnanefnd er þá óþörf og hún því lögð niður. Rétt er að geta þess að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp 14 þingmanna til breytinga á mannanafnalögum þar sem þessi leið er lögð til.

Ráðuneytinu bárust samtals 30 umsagnir.

Þrír aðhylltust möguleika A. Í umsögnum þeirra komu m.a. fram skoðanir um mikilvægi þess að til staðar sé skýrt regluverk um mannanöfn. Barnaverndarsjónarmið þurfi að vera ríkjandi og sömuleiðis sé mikilvægt að vernda íslenska málhefð, rithátt og stafsetningu.

Sjö aðhylltust möguleika B. Í umsögnum þeirra komu m.a. fram skoðanir þess efnis að mikilvægt væri að gæta að velsæmis- og barnaverndarsjónarmiðum og að auka ætti frelsi einstaklinga til þess að velja sér nöfn, s.s. ættarnöfn. Fram komu sjónarmið um að nafngjöf ætti að fá að þróast í takt við tíðaranda og um mikilvægi þess að verja íslenskar hefðir í nafngjöf. Þá kom fram að skýr mörk ættu að vera á milli kvenkyns- og karlkynsnafna.

Tuttugu aðhylltust möguleika C. Í umsögnum þeirra voru m.a. skoðanir þess efnis að núverandi löggjöf væri tímaskekkja, nafngjöf ætti að fá að þróast í takt við tíðaranda og mikilvægt væri að auka frelsi einstaklinga til nafngjafar og um leið minnka afskipti ríkisins. Þó væri mikilvægt að gæta að barnaverndarsjónarmiðum. Mikilvægt væri að fólk sem vill bera nafn frá hinu kyninu, t.d. sökum kynleiðréttingar nyti frelsis til þess. Einnig þyrfti að huga að frelsi fólks til að velja sér ættarnöfn og erlend nöfn.

Næstu skref

Athugun á reglum um mannanöfn mun verða fram haldið nú í júní. Í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands verður leitast við að kanna nánar skoðanir fólks til málsins. Næstu misseri á eftir verða notuð til þess að vinna enn frekar úr niðurstöðunum. Nánari upplýsingar um framvindu málsins birtast á vefsíðu ráðuneytisins um leið og þær liggja fyrir.

Lög um mannanöfn á Norðurlöndunum

Á öllum Norðurlöndunum er í gildi löggjöf um mannanöfn. Löggjöf ríkjanna er að mestu sambærileg og á það sameiginlegt að þar er að finna ákvæði er vernda börn gegn því að þeim séu gefin nöfn sem talin eru óæskileg. Þess ber að geta að löggjöfin miðar í sumum tilvikum að því að vernda eftirnöfn (ættarnöfn). Almennt eru nöfn kynbundin, þ.e. ekki má gefa stúlkum drengjanöfn og öfugt. Undantekning frá þessari reglu er þegar fólk vill bera nafn frá hinu kyninu, t.d. sökum kynleiðréttingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum