Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2016 Utanríkisráðuneytið

Brexit til umræðu á tvíhliða fundum í Varsjá

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ásamt Miroslav Lajcák, utanríkisráðherra Slóvakíu, sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB um þessar mundir. - mynd

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit, var meðal umræðuefna á tvíhliða fundum sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra átti með starfsbræðrum sínum frá Bretlandi, Slóvakíu og Hollandi í Varsjá í dag, til hliðar við leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins.

Á fundum með Bert Koenders, utanríkisráðherra Hollands, og Miroslav Lajčák, utanríkisráðherra Slóvakíu, var farið yfir stöðu mála en forsæti í Evrópusambandinu gekk nýlega á milli ríkjanna. Greindi utanríkisráðherra frá hagsmunum Íslands og þeim kostum sem til staðar eru. Einnig átti ráðherra fund með Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, og fór yfir sameiginlega hagsmuni ríkjanna í viðskiptalegu og pólitísku tilliti. Þá ræddu ráðherrarnir stöðu innanlandsmála í Bretlandi í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

„Þetta voru gagnlegir fundir og við ákváðum að viðhalda reglulegu samtali á næstu vikum. Hvað Ísland varðar eru einkum þrír kostir í stöðunni. Að Ísland og Bretland geri með sér tvíhliða samning, að EFTA-ríkin semji sameiginlega við Breta eða að tillit sé tekið til allra EES-ríkjanna í útgöngusamningi Breta við ESB. Á þessu stigi er rétt að halda öllum kostum opnum og sýna áfram frumkvæði í samskiptum við Breta. Á sama tíma munum við veita þeim nauðsynlegt andrými til að vinna úr flókinni stöðu innanlands og gagnvart Evrópusambandinu, en halda vöku okkar varðandi hagsmuni Íslands. Bresk stjórnvöld eru að afla sér upplýsinga, meðal annars um EES samstarfið og gagnvart öðrum ríkjum. Við höfum greint stöðuna vandlega og ég er sannfærð um að vel spilist úr,” segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Lilja átti einnig tvíhliða fund með Nikola Poposki, utanríkisráðherra Makedóníu, þar sem rædd voru málefni Balkanskagans, aðildarumsókn Makedóníu að Atlantshafsbandalaginu og efnahagsmál.

Í gær funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins með utanríkisráðherra Georgíu þar sem fjallað var um stöðu mála og umbætur í landinu, en Georgía er meðal umsóknarríkja að Atlantshafsbandalaginu. Einnig funduðu utanríkisráðherrar bandalagsríkja með utanríkisráðherrum helstu samstarfsríkja, þ.m.t. utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Finnlands, þar sem fjallað var um áskoranir úr suðri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum