Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2016 Utanríkisráðuneytið

Varðandi hryðjuverkaárásina í Nice

Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hafa ekki borist neinar upplýsingar sem gefa til kynna að Íslendingar hafi orðið fyrir árásinni mannskæðu í Nice. Borgin er fjölfarin ferðamannastaður og hafa þeir fjölmörgu Íslendingar sem eru á svæðinu í sumarleyfum verið duglegir að láta vita af sér. Hvetur utanríkisráðuneytið alla sem ekki hafa látið aðstandendur vita af sér að gera það hið fyrsta. Borgaraþjónustan er í beinu sambandi við neyðarteymi frönsku stjórnsýslunnar, sem sett er á fót við atburði sem þessa, og tekur saman upplýsingar um fórnarlömb árásarinnar. Þar hefur ekkert komið fram sem bendir til að Íslendingar lentu í árásinni. Þá hefur borgaraþjónustan verið í sambandi við Íslendinga sem vitað er að búsettir eru á svæðinu. Sem fyrr hafa samfélagsmiðlar reynst afar öflugur miðill fyrir fólk á svæðinu að láta vita af sér.

Utanríkisráðuneytið hvetur alla Íslendinga sem eru á svæðinu að fylgjast vel með tilmælum yfirvalda á staðnum. Sem stendur er fólk beðið um að vera ekki að vera á ferli að óþörfu og halda sig á öruggum stöðum.

Ef aðstandendur á Íslandi hafa ekki heyrt frá fólki sem vitað er að er á svæðinu eru þeir hvattir til að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma 5459900.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum