Hoppa yfir valmynd
31. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 14/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 14/2017

Miðvikudaginn 31. maí 2017

A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. janúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015 sem kærandi var upplýstur um með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. október 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærður er endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015 sem kæranda var tilkynnt um í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. október 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. janúar 2017. Með bréfi, dags. 17. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 17. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2017, var greinargerð stofnunarinnar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd með bréfi, dags. 22. febrúar 2017, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 1. mars 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015. Þá segir að ríkið líti svo á að sá sem hafi engar tekjur og búi einn eigi rétt á eftirtöldum greiðslum, 436.044 kr. í ellilífeyri, 1.376.040 kr. í tekjutryggingu, 405.516 kr. í heimilisuppbót og 2.700.840 kr. í sérstaka uppbót. Það geri samtals 4.918.440 kr. Þar sem tekjur kæranda á árinu 2015 hafi, samkvæmt Tryggingastofnun, verið 3.868.103 kr. liggi fyrir að bætur til hans hefðu átt að nema 1.050.337. Samkvæmt endurreikningi og uppgjöri ársins 2015 hafi réttindi kæranda á árinu hinsvegar verið 509.304 kr. og krefjist hann því greiðslu fullra bóta, það er 1.050.337 kr.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að löggjafinn hafi gefið Tryggingastofnun ströng fyrirmæli meðal annars þess efnis að stofnunin skuli kynna sér til hlítar aðstæður bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þetta hafi Tryggingastofnun aldrei gert gagnvart honum. Enn fremur segi í 22. gr. sömu laga að skerðing elli- og tekjutryggingar skuli aldrei fara umfram 38,35% af tekjum. Tryggingastofnun hafi aldrei fylgt þessu ákvæði gagnvart kæranda. Hvað tekjuhugtakið varði eigi Tryggingastofnun að hafa sjálfstæða túlkun á því hvað skuli teljast tekjur en það hafi hún ekki gert. Þá hafi Tryggingastofnun aldrei farið eftir ákvæðum laga um tekjur, sjá 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Með öðrum orðum beri Tryggingastofnun að birta hvað hún líti á sem tekjur en ekki nota hráar upplýsingar frá ríkisskattstjóra.

Þá segir kærandi varðandi athugasemdir Tryggingastofnunar um fjárhæðina 4.918.440 kr. að fjárhæðin hafi verið tekin beint upp úr bótablaði Tryggingastofnunar, þannig að sé hún ekki rétt þá sé það misvísun stofnunarinnar. Þá er þess óskað að úrskurðarnefnd velferðarmála riti öll undir úrskurð nefndarinnar.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2015.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um útreikning tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, um hvað skuli teljast til tekna. Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning bóta í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Samkvæmt ósk kæranda hafi greiðslum til hans á árinu 2015 verið frestað þar til niðurstaða uppgjörs og endurreiknings lægi fyrir. Við bótauppgjör ársins 2015 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með 664.838 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu ásamt 3.203.265 kr. í fjármagnstekjur. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs hafi því leitt til inneignar að fjárhæð 318.577 kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta. Inneignin hafi verið greidd inn á eldri kröfu.

Þá segir í greinargerð stofnunarinnar að kærandi hafi haldið því fram að hann ætti rétt á hærri lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun eða 1.050.337 kr. Kærandi hafi rökstutt það þannig að hámarksgreiðslur sem lífeyrisþegi eigi rétt á frá Tryggingastofnun séu 4.918.440 kr. og að frátöldum tekjum sínum, samtals 3.868.103 kr. eigi hann rétt á 1.050.337 kr.

Hámarksgreiðslurnar sem kærandi miði við séu ekki réttar. Það sé rétt að fullar greiðslur ellilífeyris fyrir árið 2015 hafi numið 436.044 kr. á ári, fullar greiðslur tekjutryggingar hafi numið 1.376.040 kr. og fullar greiðslur heimilisuppbótar hafi numið 405.516 kr. Á hinn bóginn bætist sérstök uppbót að fjárhæð 2.700.840 kr. ekki við þessar fjárhæðir.

Sérstök uppbót sé eingöngu greidd ef heildartekjur lífeyrisþega, þ.e. bæði greiðslur frá Tryggingastofnun og aðrar tekjur, séu undir 2.700.840 kr. Ef svo sé þá nemi fjárhæð sérstakrar uppbótar mismuninum á heildartekjum og 2.700.840 kr. framfærsluviðmiði sérstakrar uppbótar, þ.e. sérstaka uppbótin muni þá nema þeim mismuni sem á vanti að heildartekjurnar nái þessu framfærsluviðmiði.

Í þessu máli séu heildartekjur kæranda yfir framfærsluviðmiði sérstakrar uppbótar og þess vegna hafi ekki verið heimilt að greiða honum sérstaka uppbót. Hámarksgreiðslur til hans frá Tryggingastofnun, það er fyrir lækkun vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og fjármagnstekna, séu því 2.217.600 kr.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Um útreikning bóta sé fjallað í lögum um almannatryggingar og hvaða tekjur hafi áhrif á útreikninginn og mismunandi vægi þeirra og frítekjumörk á mismunandi bótaflokka.

Með vísan til laga um almannatryggingar og framanritaðs telji Tryggingastofnun niðurstöðu endurreikningsins hafa verið rétta og lögum samkvæmt.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2015.

Kærandi er ellilífeyrisþegi og hefur verið það í nokkur ár. Á grundvelli 3. mgr. 53. gr. núgildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. þágildandi 1. mgr. 54. gr. sömu laga, óskaði kærandi eftir frestun greiðslna þar til fyrir lægju endanlegar upplýsingar skattyfirvalda um tekjur hans. Þegar fyrir lágu endanlegar upplýsingar um tekjur hans við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum ársins 2015 kom í ljós inneign að fjárhæð 318.557 kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta. Þessi inneign kæranda var greidd inn á eldri skuldir hans hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ágreiningur málsins snýr ekki að þeirri ráðstöfun inneignar upp í eldri skuldir heldur eingöngu að útreikningi bóta.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Í þágildandi 17. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um útreikning ellilífeyris og í 22. gr. sömu laga er kveðið á um útreikning tekjutryggingar. Í þágildandi 8. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um útreikning heimilisuppbótar en þar segir að eigi einstaklingur rétt á skertri tekjutryggingu skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum. Reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlag, með síðari breytingum, fjallar nánar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta.

Kveðið er á um sérstaka uppbót til framfærslu í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum. Í 15. gr. reglugerðinnar segir að fjárhæð þessarar uppbótar skuli nema mismun fjárhæða samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar og heildartekna eins og þær séu skilgreindar í 5. gr. reglugerðarinnar. Séu heildartekjur jafnháar eða hærri en fjárhæðin samkvæmt 2. mgr. 14. gr. greiðist ekki sérstök uppbót. Allar skattskyldar tekjur hafa áhrif við útreikning sérstakrar uppbótar, einnig greiðslur almannatrygginga og þá hafa allar tekjur 100% vægi til útreiknings á heildartekjum. Á árinu 2015 var viðmið tekna bótaþega 2.700.840 kr., sbr. reglugerð nr. 1216/2014 um (6.) breytingu á reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Tryggingastofnun framkvæmdi endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta kæranda vegna ársins 2015 á grundvelli skattframtals 2016 vegna tekjuársins 2015. Skattframtal ársins sýndi fram á 664.838 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 3.203.265 kr. í fjármagnstekjur. Einnig liggur fyrir að umræddir tekjustofnar hafa áhrif á bótarétt en í 2. mgr. áðurnefndrar 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Endurreikningur og uppgjör ársins leiddi í ljós að kærandi átti rétt á 303.696 kr. í grunnlífeyri, 188.892 kr. í tekjutryggingu, 16.716 kr. í heimilisuppbót og 6.853 kr. í orlofs- og desemberuppbót. Samtals átti kærandi því rétt á 516.157 kr. í bætur á árinu 2015 eða 318.577 kr. að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu. Framangreindri inneign var ráðstafað upp í eldri kröfur á hendur kæranda og er ekki ágreiningur um þá ráðstöfun. Ljóst er að kærandi var of tekjuhár á árinu til að eiga rétt á sérstakri uppbót til framfærslu.

Tryggingastofnun ríkisins ber skýr lagaskylda til að framkvæma uppgjör eins og komið hefur fram hér að framan og lögum samkvæmt hefur stofnunin ekki heimild til að horfa fram hjá upplýsingum í skattframtölum bótaþega. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar og gerir ekki athugasemdir við þá.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2015 vegna kæranda.

Að því er varðar þá ósk kæranda að öll úrskurðarnefnd velferðarmála skrifi undir úrskurðinn þá bendir úrskurðarnefndin á að í upphafi úrskurðar kemur fram hvaða nefndarmenn úrskurði í máli þessu. Undirrituðum nefndarmanni hefur verið veitt umboð til þess að skrifa undir úrskurði fyrir hönd hinna. Þessari beiðni kæranda er því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. október 2016, um endurreikning og uppgjör bóta A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum