Hoppa yfir valmynd
7. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 36/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 36/2017

Miðvikudaginn 7. júní 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. janúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2016, þar sem kæranda var synjað um barnalífeyri með syni sínum.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um barnalífeyri með syni sínum frá 1. nóvember 2014 með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. nóvember 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 5. desember 2016, var kæranda tilkynnt um að stofnunin hafi synjaði kæranda um barnalífeyri þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum barnalífeyris.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. janúar 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 21. febrúar 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um barnalífeyri með syni sínum frá 1. nóvember 2014.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi áður farið með mál er varðaði barnalífeyri með syni hans til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem hafi staðfest fyrri synjun Tryggingastofnunar ríkisins. Þá segir að kærandi hafi unnið prófmál um þetta atriði gegn B þar sem úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hafi úrskurðað honum í hag þannig að B hafi orðið að greiða honum fjárhagsaðstoð til greiðslu meðlags.

Þá segir að samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar uppfylli kærandi kröfur Tryggingastofnunar fyrir greiðslu barnalífeyris, hann uppfylli búsetutímann ásamt því skilyrði að hann framfæri barnið þar sem hann sé framfærsluskyldur lögum samkvæmt. Hann hafi greitt framfærslu til barnsins sjálfs og þær greiðslur hafi komið að jöfnu sem greiðslur til móður hans. Hann mótmæli því að greiðslur hans til drengsins hafi verið handahófskenndar því þær hafi verið reglulegar og hafi náð til langs tíma. Hin eiginlega meðlagsupphæð hafi verið reidd af hendi fyrsta dag hvers mánaðar og aukagreiðslur hafi verið sendar til sonar hans reglulega.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að með bréfi stofnunarinnar, dags. 5. desember 2016, hafi kæranda verið synjað um greiðslu barnalífeyris með syni sínum. Kærandi hafi verið metinn til örorku frá og með 1. október 2014 til 30. nóvember 2015. Frá 1. desember 2015 hafi kærandi fengið greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar greiði Tryggingastofnun barnalífeyri með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Í 3. mgr. 20. gr. sömu laga segi að Tryggingastofnun geti ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega svo og með barni manns sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað að minnsta kosti þrjá mánuði. Þá segir í 5. mgr. 20. gr. að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða öðrum þeim er annast framfærslu þeirra að fullu.

Sonur kæranda hafi orðið 18 ára í X 2016. Hann sé nýfluttur til landsins eða í X en hafði áður búið í C. Kærandi hafi sótt um barnalífeyri með honum frá 1. nóvember 2014 með umsókn, dags. 28. nóvember 2016. Innsend gögn, sem kærandi hafi skilað til Tryggingastofnunar vegna umsóknar sinnar, hafi sýnt óreglulegar og handahófskenndar greiðslur til sonar hans á tímabilinu frá nóvember 2014 til nóvember 2016. Ekki hafi verið lagðar fram neinar upplýsingar eða gögn um greiðslur til barnsmóður kæranda, framfæranda barnsins.

Barnalífeyri skuli greiða foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða öðrum þeim sem annast framfærslu þeirra að fullu. Tryggingastofnun telji að ekki sé hægt að líta svo á að með greiðslum kæranda til sonar síns hafi kærandi verið að framfæra barn sitt þar sem um sé að ræða greiðslur til barns undir 18 ára aldri og framfærsla þess sé í höndum barnsmóður kæranda. Greiðslur vegna barnsins hefðu átt með réttu að berast henni en engin gögn liggi fyrir um að slíkar greiðslur hafi farið fram. Því hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um greiðslu barnalífeyris með syni hans þar sem hann hafi ekki talist á framfæri hans. Sú niðurstaða hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga í máli kæranda nr. 270/2014.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2016, þar sem kæranda var synjað um greiðslu barnalífeyris með syni sínum.

Um barnalífeyri er fjallað í 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.“

Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laganna getur Tryggingastofnun ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega. Þá segir í 5. mgr. 20. gr. laganna að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annast framfærslu þeirra að fullu.

Ágreiningur í máli þessu snýr að mögulegum rétti kæranda á greiðslu barnalífeyris með syni sínum. Fyrir liggur að sonur kæranda hefur verið búsettur í C um töluvert skeið en hafi flutt til Íslands í X . Þá hefur úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfest eldri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um barnalífeyri með syni hans þar sem sonur hans hafi ekki talist á framfæri hans, sbr. mál nr. 270/2014. Sonur kæranda varð 18 ára þann X 2016. Í framangreindri 20. gr. er greint frá skilyrðum fyrir greiðslu barnalífeyris. Kveðið er skýrt á um það að barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sonur kæranda varð 18 ára þann X 2016. Ekki eru uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum barnalífeyris frá og með þeim tímapunkti. Kemur því til skoðunar hvort sonur kæranda hafi verið á framfæri hans fram að 18 ára aldri hans.

Samkvæmt gögnum málsins bjó sonur kæranda í C á því tímabili sem er til skoðunar og hefur kærandi greitt inn á bankareikning sonar síns óreglulegar fjárhæðir frá því í nóvember 2014. Af kæru verður ráðið að kærandi hafi ekki greitt barnsmóður sinni meðlag en hann byggir á því að framangreindar greiðslur til sonar hans séu ígildi meðlagsgreiðslna til hennar. Þá liggur fyrir í gögnum máls úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 270/2014 meðlagsúrskurður frá D, dags. X , þar sem fram kemur að meðlagsfjárhæð kæranda skuli engin vera, þ.e. E 0.

Sem rök fyrir kröfu sinni tilgreinir kærandi sérstaklega í kæru að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hafi úrskurðað honum í hag og B verið gert að greiða honum ógoldið meðlag til sonar hans. Úrskurðarnefndin bendir á að lagagrundvöllur barnalífeyris og skilyrði þeirra greiðslna er byggður á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er byggð á öðrum lagagrundvelli, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Kærandi þurfi að uppfylla skilyrði 20. gr. laga um almannatryggingar til þess að fá greiddan barnalífeyri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi hafi ekki greitt meðlag með syni sínum á þeim tíma sem hér um ræðir, enda var formlegri ákvörðun um framfærsluskyldu kæranda ekki til að dreifa. Þá verður greiðslum kæranda til sonar síns síðastliðin ár ekki jafnað til meðlagsgreiðslna eins og áður hefur verið kveðið á um í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 270/2014. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslna barnalífeyris þar sem sonur kæranda hafi ekki verið á framfæri hans á umræddu tímabili, sbr. 5. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í ljósi þess sem að framan greinir er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um barnalífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum