Hoppa yfir valmynd
7. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 123/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 123/2017

Miðvikudaginn 7. júní 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála að hafa ekki fengið yfirlit yfir meinta skuld sína við Tryggingastofnun ríkisins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi ekki fengið yfirlit yfir meinta skuld sína við Tryggingastofnun ríkisins en hann viti ekki hve mikið Tryggingastofnun telji að hann skuldi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. mars 2016. Úrskurðarnefnd óskaði eftir afriti af kærðri ákvörðun með bréfi, dags. 24. mars 2017, til kæranda. Svar kæranda barst með bréfi, dags. 30. mars 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um hann fái yfirlit yfir meinta skuld sína við Tryggingastofnun ríkisins. Ríkisskattstjóri telji að hún nemi 1.400.000 kr. en hann viti ekki hvað mikið Tryggingastofnun telji að hann skuldi. Þá segir að kærandi óttist að stofnunin reikni okurvexti á hina meintu skuld hans.

Í svari við beiðni nefndarinnar um afrit af hinni kærðu ákvörðun segir kærandi að ákvörðun hafi ekki verið tekin af Tryggingastofnun, hann hafi því ekki neina ákvörðun að senda úrskurðarnefndinni. Tryggingastofnun sé ekki búinn að afgreiða erindið sem hann sé að kæra.

III. Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvarðanir er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Úrskurðarnefnd hefur óskað nánari upplýsinga um kæruefnið frá kæranda í þeim tilgangi að upplýsa hvort fyrir liggi kæranleg stjórnvaldsákvörðun. Kærandi hefur greint frá því að hann geti ekki lagt fram ákvörðun þar sem hún hafi ekki verið tekin af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hefur stofnuninni ekki borist beiðni um yfirlit yfir skuldir kæranda við stofnunina og því liggur ekki fyrir ákvörðun um framangreint.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli þessu ber að vísa kæru frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum