Hoppa yfir valmynd
13. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Fæðuöryggi til umræðu á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

Innrás Rússlands í Úkraínu og áhrif hennar á fæðuöryggi í heiminum eru ofarlega á baugi 12. ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO sem fram fer í Genf dagana 12. til 15. júní.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti ávarp á opnunardegi fundarins um helstu áskoranir sem alþjóðaviðskiptakerfið stendur frammi fyrir. Ráðherra fordæmdi innrás Rússlands í Úkraínu og sagði hana meginorsök þeirrar fæðuöryggiskrísu sem heimurinn stendur nú frammi fyrir. 

„Rússland ber eitt ábyrgð á þessari krísu með því að halda matvælabirgðum sem gættu fætt milljónir manna í þróunarríkjum í gíslingu,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars. „Viðskiptatruflanirnar munu hafa í för með sér verðhækkanir og ef til vill þrengja val neytenda í hinum ríkari hluta heimsins. Þessi áhrif eru ekki smávægileg, en fölna í samanburði við hvernig þau birtast í fátækari heimshlutum þar sem matarskortur leiðir til lífshættulegra aðstæðna og jafnvel alvarlegrar samfélagslegrar ólgu.“

Ráðherra hvatti ríki til að halda mörkuðum opnum og viðskiptum með matvæli óhindruðum til að tryggja að nauðsynleg matvara rati þangað sem þörfin er mest. Ráðherra lýsti auk þess yfir stuðningi við ákvörðun um að banna útflutningstakmarkanir og -bönn á matvælum til Matvælastofnunnar Sameinuðu Þjóðanna.

Þórdís Kolbrún sótti samstöðuviðburð með Úkraínu á hliðarlínum ráðherrafundarins þar sem fjöldi ráðherra lýstu yfir vilja til að liðka frekar fyrir viðskiptum við Úkraínu. Ráðherra fundaði auk þess, ásamt fulltrúum annarra EFTA ríkja, með varaviðskiptaráðherra Úkraínu, Taras Kachka. Á fundinum greindi Þórdís Kolbrún meðal annars frá frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að fella niður tolla af vörum frá Úkraínu í eitt ár. „Þetta er fordæmalaust skref sem gefur til kynna einurð okkar og stuðning við Úkraínu á þessum erfiðu tímum,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Í samtali við  framkvæmdastýru WTO Dr. Nogozi Iweala ítrekaði ráðherra stuðning Íslands við áframhaldandi vinnu á grundvelli yfirlýsingar um viðskipti og jafnrétti kynjanna en Ísland er eitt af formennskuríkjum vinnuhóps innan WTO sem ætlað er að auka þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum. Þá kynnti ráðherra, ásamt starfsbræðrum sínum frá Nýja Sjálandi, Paragvæ og Samoa, vinnuáætlunum á grundvelli ráðherrayfirlýsingar um leiðir til að draga úr skaðlegum ríkisstyrkjum til notkunar jarðefnaeldsneytis.  

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
8. Góð atvinna og hagvöxtur
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum