Hoppa yfir valmynd
13. júní 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 339/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 339/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040019

 

Kæra […] og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. apríl 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. og 21. mars 2023 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barns hennar, […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi krefst þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá krefst kærandi þess til vara að umsóknir kæranda og barns hennar verði teknar til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og til þrautavara á grundvelli 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að mál þeirra verði tekin til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 11. maí 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Hinn 2. júní 2022 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 16. júní 2022, kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi 14. janúar 2021 og væri með gilt dvalarleyfi í Grikklandi til 13. janúar 2024. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. 26. september 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 10. nóvember 2022 að taka umsóknir kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 23/2023, dags. 9. febrúar 2023, voru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hennar felldar úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka málin til meðferðar að nýju. Kærandi kom að nýju til viðtals hjá Útlendingastofnun 27. febrúar 2023. Með ákvörðunum, dags. 9. og 21. mars 2023, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni að taka mál kæranda og barns hennar til efnismeðferðar. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda 23. mars 2023 og kærði kærandi ákvarðanirnar 5. apríl 2023 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 21. apríl 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda  til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kæranda var ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Var skorað á kæranda að yfirgefa landið án tafar og athygli hennar vakin á því að yfirgæfi hún landið sjálfviljug yrði endurkomubannið fellt niður.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli móður hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hans væri ekki stefnt í hættu og að þeim væri best borgið með því að fylgja foreldri sínu til Grikklands.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til viðtala hennar hjá Útlendingastofnun og greinargerða til Útlendingastofnunar og kærunefndar hvað varðar frekari rökstuðning.

Kærandi gerir athugasemdir við umfjöllun Útlendingastofnunar í hinum kærðu ákvörðunum um þær aðstæður sem bíði kæranda og barns hennar snúi þau aftur til Grikklands. Ekki verði séð að Útlendingastofnun hafi skoðað mál kæranda og barns hennar nægilega vel, þ. á m. hvaða líf bíði þeirra í Grikklandi. Kærandi sé hrædd við að snúa aftur með ungan son sinn til Grikklands þar sem hún hafi áður búið á götunni í tjaldi. Kærandi telji að rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun sé ábótavant og ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga eða 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Ekki hafi verið rannsakað nægilega vel hvaða aðstæður bíði þeirra í Grikkland. Kærandi vísar til þess að ekkert nýtt komi fram í viðtali sem kærandi fór í eftir að máli hennar hafi verið vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Kærandi gerir athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar um að þar sé að finna umfjöllun um mál annars aðila. Kærandi vísar til 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en þar sé fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Kærandi vísar að auki til ákvæða 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Kærandi vísar til þess að íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður þeirra og þær íþyngjandi afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir kæranda og barn hennar, bæði líkamlegar og andlegar. Þegar stjórnvald taki slíka ákvörðun beri að hafa meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að leiðarljósi og telur kærandi að það hafi ekki verið gert í máli hennar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b-, c- og d-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Með 10. gr. laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga, voru breytingar gerðar á orðalagi 2. mgr. 36. gr. laganna. Í hinu nýja ákvæði er m.a. kveðið nánar á um við hvaða tímamark skuli miða þegar 12 mánaða fresturinn er annars vegar auk þess sem kveðið er á um til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvað teljist tafir á málsmeðferð hins vegar. Í lokamálslið 2. mgr. 23. gr. breytingalaganna kemur fram að ákvæði 10. gr. gildi ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna. Umrædd lög tóku gildi 5. apríl 2023 og ljóst að umsókn kæranda barst fyrir gildistöku þeirra. Fer því um mál kæranda samkvæmt þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kom fram að ef svo stæði á sem greindi í 1. mgr. skyldi þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefði slík sérstök tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæltu annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hefðu liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar væru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skyldi taka hana til efnismeðferðar.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 11. maí 2022 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 11. maí 2023. Mál kæranda hefur verið  til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum lengur en tólf mánuði og kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hennar sjálfrar.

Hinn 23. maí 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd 26. maí 2023. Í svari Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin líti ekki svo á að kærandi hafi tafið mál sitt á meðan á meðferð þess stóð hjá stofnuninni.

Af framangreindum upplýsingum frá Útlendingastofnun má ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli hennar og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að hún verði talin bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda og barns hennar hér á landi síðan hún lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 11. maí 2022 er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er ekki tilefni til að taka aðrar málsástæður kæranda til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar er felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda og barns hennar til efnismeðferðar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and her child‘s applications for international protection in Iceland.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta