Hoppa yfir valmynd
2. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Reykjavík Geothermal setur á fót jarðhitarannsóknarstofu í Eþíópíu

Jarðhitaþróunarfélagið Reykjavík Geothermal (RG) hyggst setja á fót rannsóknarstofu á sviði jarðhita í Eþíópíu í samstarfi við heimamenn, bæði opinbera aðila og einkaaðila. Til þess hefur félagið hlotið styrk frá utanríkisráðuneytinu úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu.

Rannsóknarstofan mun sérhæfa sig í vatns- og gassýnagreiningum tengdum jarðhitaverkefnum í Eþíópíu. Mikil vinna hefur verið lögð í þróun jarðhita þar í landi og standa vonir til að á næstu árum nái framleiðsla á rafmagni með jarðhita allt að 1000 MWe. Hingað til hafa öll sýni tengd jarðhita verið send úr landi til greiningar með tilheyrandi kostnaði og hættu á að sýni eyðileggist eða týnist á leiðinni. Rannsóknarstofan, sem yrði sú fyrsta sinnar tegundar í Eþíópíu, einfaldar til muna rannsóknarferlið og nýtast fjölmörgum aðilum.

Meginmarkmið verkefnisins er að þjóna jarðhitaþróun í landinu og vinna þannig að þremur heimsmarkmiðum, markmiði sjö um sjálfbæra orku, markmiði átta um góða atvinnu og hagvöxt og markmiði átta um aðgerðir í loftlagsmálum. Verkefnið hefur einnig jákvæð áhrif á fleiri heimsmarkmið og rannsóknarstofan gæti til dæmis tekið að sér efnagreiningar á drykkjarvatni en takmarkað aðgengi er að hreinu drykkjarvatni í Eþíópíu. Um er að ræða verkefni til tveggja ára að fjárhæð 583.000 evra og fær fyrirtækið hámarksstyrk úr sjóðnum sem nemur 200.000 evrum.

Uppbygging rannsóknarstofu krefst góðs samstarfs við rannsóknarstofnanir hér heima og í Eþíópíu. Við ráðningar verður horft til jafnréttis kynjanna, góðrar menntunnar en jafnframt að auka tækifæri heimamanna til rannsóknarsamstarfs. Rannsóknarstofan er mikilvægur hlekkur í þróun jarðhitaverkefna en einnig nýtingu og þróun verkefna sem tengjast matvælaframleiðslu og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Reykjavík Geothermal er jarðhitaþróunarfélag stofnað árið 2008. Félagið hefur unnið að þróun jarðhita víða í heiminum með áherslu á háhita til raforkuframleiðslu. Félagið hefur verið með starfsemi í Eþíópíu frá árinu 2011 og lokið yfirborðsrannsóknum á þremur jarðhitasvæðum. Í dag er verið að bora jarðhitaholur sem RG er að þróa í samstarfi við meðfjárfesta í Tulu Moye svæðinu í Oromia-héraði í Eþíópíu og boranir hefjast einnig í lok árs á Corbetti svæðinu, syðst í Oromiu.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styður við fyrirtæki sem vilja vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með því að ráðast í samstarfsverkefni í þróunarríkjum. Næsti umsóknarfrestur í sjóðinn er 3. október. Nánari upplýsingar ásamt umsóknargögnum er að finna á www.utn.is/atvinnulifogthroun.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum