Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun ÁTVR

Forum lögmenn ehf.
Stefán Geir Þórisson
Aðalstræti 6
101 Reykjavík

Reykjavík 23. ágúst 2016
Tilv.: FJR16080008/16.2.4


Efni: Kæra á ákvörðun forstjóra ÁTVR um höfnun á að víkja sæti við afgreiðslu umsóknar […] um reynslusölu á Don simon Sangriaí 1 líters fernum.

Hinn 11. ágúst 2016 barst ráðuneytinu erindi frá Stefáni Geir Þórissyni hrl., fyrir hönd […] (hér eftir nefnt kærandi), þar sem kærð var ákvörðun forstjóra ÁTVR um að hafna kröfu kæranda um víkja sæti við afgreiðslu á umsókn kæranda um reynslusölu á Don Simon Sangría í 1 líters fernum (hér eftir nefnd varan). Af erindinu og samhengi þeirra gagna sem því fylgdu verður ráðið að kæran snúi að ákvörðun sem ÁTVR tók á málsmeðferðarstigi umsóknar […] um að varan yrði tekin til reynslusölu í verslunum stofnunarinnar.
Í kærunni er vísað til samskipta lögmanns kæranda og forstjóra ÁTVR dags. 7. apríl. 2016, 18. maí 2016, 29. júní 2016 og 2. ágúst 2016. Um bréfleg samskipti var að ræða og fylgja afrit bréfanna kærunni. Af málavaxtalýsingu kæru og meðfylgjandi gögnum verður ráðið að kærandi hafi óskað eftir því við ÁTVR hinn 7. apríl 2016 að ákvörðun stofnunarinnar frá 26. október 2012, um að hafna því að taka vöruna til reynslusölu í verslunum stofnunarinnar yrði endurupptekin á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. ÁTVR svaraði téðu erindi kæranda neitandi með bréfi dags. 18. maí 2016 á þeim grundvelli að skilyrði ákvæða 24. gr. laga nr. 37/1993 til endurupptöku máls væru ekki uppfyllt. Í bréfinu er tekið fram að ekkert standi því í vegi að kærandi sæki að nýju um að varan verði tekin til reynslusölu. Í framhaldinu eru raktar þær breytingar sem orðið hafi á lögum og reglum um vöruval ÁTVR og í niðurlagi bréfsins tekið fram að í ljósi þeirra verði ekki séð að tilefni verði til að samþykkja mögulega nýja umsókn kæranda um að varan verði tekin til reynslusölu. Með bréfi dags. 29. júní 2016 fór kærandi fram á að starfsmenn ÁTVR vikju sæti við afgreiðslu umsóknarinnar vegna vanhæfis enda lægi fyrir hver afstaða fyrirtækisins til umsóknarinnar yrði. Jafnframt var þess krafist að umsóknin fengi hlutlausa afgreiðslu af utanaðkomandi aðila. ÁTVR hafnaði beiðninni með bréfi dags. 2. ágúst 2016 og lýsti því yfir að það teldi engar vanhæfisástæður vera fyrir hendi. Í niðurlagi bréfsins vekur stofnunin athygli á því að ákvörðun um að hafna beiðninni sé kæranleg til fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 26. gr. laga nr. 37/1993.
Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að aðila stjórnsýslumáls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Í athugasemdum við 26. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1993 kemur eftirfarandi m.a. fram: Með lögfestingu hinnar óskráðu meginreglu í 26. gr. er ekki ætlunin að þrengja kæruheimild frá því sem verið hefur ef frá er talið ákvæðið í 2. mgr. Þar kemur fram að svonefndar formákvarðanir, sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, verði ekki kærðar fyrr en máli hefur verið ráðið til lykta. Þar sem meðferð mála á fyrsta stjórnsýslustigi tekur almennt mjög skamman tíma er talið óheppilegt að þau séu dregin á langinn með því að kæra slíkar ákvarðanir. Nægjanlegt öryggi ætti að felast í því að hægt sé að kæra þvílíkar ákvarðanir eftir að efnissákvörðun hefur verið tekin í málinu.
Að mati ráðuneytisins er ljóst að ákvörðun forstjóra ÁTVR, um að hafna kröfu kæranda þess efnis að starfsmenn ÁTVR víki sæti við afgreiðslu á umsókn fyrirtækisins um reynslusölu á vörunni, var ákvörðun um meðferð máls en ekki ákvörðun sem bindur endi á málið.
Í ljósi framangreinds er kæru Stefáns Geirs Þórissonar hrl., fyrir hönd […], á ákvörðun forstjóra ÁTVR um að hafna kröfu […], þess efnis að starfsmenn stofnunarinnar víki sæti við meðferð umsóknar […] um reynslusölu á Don Simon Sangría í 1 líters fernum, vísað frá ráðuneytinu.


Fyrir hönd ráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum