Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 1992 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 9/1992:

A
gegn
svæðisstjórn málefna fatlaðra

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 30. nóv. 1992 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 10. júní 1992 óskaði A, sálfræðingur, eftir því, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort ráðning B, geðhjúkrunarfræðings í stöðu forstöðumanns sambýlis fyrir geðfatlaða að Þverárseli 29, Reykjavík, bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi vann á sambýli geðfatlaðra í Þverárseli 28, Reykjavík frá því í ágúst 1991 þar til hann lét af störfum 30. maí sl.

Yfirstjórn sambýlisins er í höndum svæðisstjórnar málefna fatlaðra (Svæðisstjórnar), Reykjavík, og var C, framkvæmdastjóra, kynnt kæran með bréfi dags. 15. maí.

Báðir aðilar skiluðu greinargerðum í málinu og komu til viðtals við kærunefnd jafnréttismála.

Með auglýsingu í Morgunblaðinu 22. mars sl. var auglýst laus til umsóknar staða forstöðumanns á sambýli fyrir fatlaða. Í auglýsingunni var áskilið að viðkomandi hefði menntun og starfsreynslu á sviði geðfatlana. Skyldi staðan veitast frá 1. maí 1992. Sjö umsóknir bárust um stöðuna. Fimm umsækjenda voru starfsmenn sambýlisins, en tveir utanaðkomandi aðilar sóttu um stöðuna.

Þegar staðan var auglýst laus til umsóknar lýstu fjórir starfsmenn sambýlisins því yfir, kærandi þar á meðal, að þeir hefðu áhuga á að reka það sameiginlega. Því hafnaði Svæðisstjórn þar sem hún taldi rekstur sambýlisins betur kominn í höndum eins forstöðumanns en fjögurra starfsmanna.

Fyrir liggur í málinu, að tvenns konar viðhorf voru uppi til stjórnunar og reksturs sambýlisins. Annars vegar að reka heimilið undir hópstjórn, svonefndu teymi, þar sem stjórnun og ábyrgð væri í höndum nokkurra starfsmanna; hins vegar að fela forstöðumanni einum ábyrgð á stjórnun þess og rekstri. Skoðanamunur um þessar aðferðir virðist hafa leitt til samstarfsörðuleika milli Svæðisstjórnar og forstöðumanns annars vegar, og kæranda máls þessa og þeirra sem vildu fara teymisleiðina í stjórnun sambýlisins hins vegar.

NIÐURSTAÐA

Í 1.gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir, að tilgangur laganna sé að koma á jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Síðan segir að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Það kemur þó ekki í veg fyrir, að karlar geti leitað réttar síns á grundvelli laganna, telji þeir t.d. framhjá sér gengið við stöðuveitingar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna.

Í kæru er lögð áhersla á, að kært sé vegna þess, að ráðinn var forstöðumaður með geðhjúkrunarmenntun, en gengið framhjá kæranda, sem hefur kandídatspróf í sálfræði, auk töluverðrar reynslu á þessum og skyldum sviðum, Hins vegar kemur hvergi beinlínis fram, að kærandi telji að gengið hafi verið framhjá sér vegna kynferðis síns.

Í reglugerð fyrir sambýli nr. 541/1988 er ekki kveðið á um sérstakar menntunarkröfur forstöðumanna sambýla, en í 8. gr. reglugerðarinnar segir, að á sambýlum skuli að öðru jöfnu starfa fólk með menntun í meðferð og umönnun fatlaðra. í starfslýsingu er heldur ekki að finna kröfur um ákveðna menntun forstöðumanns.

Í auglýsingu um stöðuna er áskilin menntun og starfsreynsla á sviði geðfatlana. Verður að telja að bæði kærandi og sá er stöðuna fékk fullnægi þessum áskilnaði. Verður ekki séð að annað sé hæfari en hitt út frá því sjónarmiði.

Val sitt hefur Svæðisstjórn m.a. rökstutt með því, að reynsla B af endurhæfingarvinnu með fötluðum hafi verið talin mikils virði svo og áralöng reynsla hennar af stjórnun og leiðbeiningum til starfsmanna. Hún hafi því verið sérstökum hæfileikum og kostum búin til starfsins. Menntun og starfsreynsla A hafi verið á þrengra sviði og áherslur verið á öðrum atriðum og sviðilm en sóst var eftir. Kynferði umsækjenda hafi engu ráðið um endanlega niðurstöðu.

Fram kemur í gögnum málsins, að Svæðisstjórn taldi óhjákvæmilegt eða mikilvægt, að forstöðumaður yrði utanaðkomandi en ekki úr hópi starfsmanna, til þess að ró og starfsfriður gæti skapast í sambýlinu.

Að öllu framansögðu virtu telur kærunefnd að Svæðisstjórn hafi haft það á valdi sínu að ákveða hvaða rekstrarfyrirkomulag og yfirstjórn hentaði sambýlinu best miðað við aðstæður og til að velja þann forstöðumann úr hópi hæfra umsækjenda, sem hún treysti best til að framfylgja ákvörðunum og stefnu sinni.

Með vísan til framangreindra raka telur kærunefnd jafnréttismála, að svæðisstjórn málefna fatlaðra hafi með fullnægjandi rökum sýnt fram á, að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið því, að gengið var framhjá kæranda máls þessa við ráðningu í forstöðumanns sambýlis geðfatlaðra að Þverárseli 28, Reykjavík, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Því telst ráðningin að mati nefndarinnar ekki brot á ákvæðum ofangreindra laga.

Eftirtaldir lögfræðingar sátu í kærunefnd jafnréttismála við afgreiðslu máls þessa: Ragnhildur Benediktsdóttir, formaður, Sigurður Helgi Guðjónsson, hrl. og Margrét Heinreksdóttir.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Sigurður H. Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum