Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 1991 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/1991

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 3/1991:

A
gegn
Fjölbrautaskóla Vesturlands

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 20. nóvember 1991 var samþykkt svofelld niðurstaða í máli þessu:

 

Með bréfi, dags. 3. september 1991 óskaði A, kennari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði hvort ráðning aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

MÁLAVEXTIR

Aðdragandi þessa máls er sem hér segir:

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laga nr. 57/1988 um framhaldsskóla, sbr. lög nr. 72/1989 um breytingu á þeim lögum, ræður skólameistari aðstoðarskólameistara til fimm ára í senn að höfðu samráði við skólanefnd. Leggja skal þá ákvörðun fyrir menntamálaráðuneytið til staðfestingar.

Vorið 1991 var auglýst laus til umsóknar staða aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Umsækjendur um stöðuna voru tveir, A, framhaldsskólakennari og fyrrverandi alþingismaður og B, aðstoðarskólameistari við skólann.

Fyrir kærunefnd jafnréttismála liggur afrit af fundargerð skólanefndar frá 30. maí 1991 þar sem fjallað er um umsækjendur. Í fundargerðinni kemur fram að eftir kynningu á menntun og fyrri störfum umsækjenda og nokkra umræðu um málið þar sem m.a. hafi verið farið yfir lög og reglugerðir um framhaldsskóla svo og jafnréttislög, hafi skólameistari kynnt þá ákvörðun sína að ráða B til starfans og hafi nefndarmenn enga athugasemd gert við þá ákvörðun.

Með bréfi, dags. 31. maí 1991 tilkynnir skólameistari menntamálaráðuneytinu þá ákvörðun sína að ráða B aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands til næstu fimm ára.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir upplýsingum frá skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands um menntun og hæfni þessara tveggja umsækjenda. Í svarbréfi hans, dags. 1. október 1991, koma fram eftirfarandi upplýsingar:

„2. Menntun umsækjenda.

A:

 1. BA próf í þýsku og norsku

 2. Próf í uppeldis- og kennslufræði

 3. Leiðsögumannspróf

 4. Framhaldsnám í þýsku við háskóla í Kiel

 5. Námskeið innan lands og utan einkum í þýsku

Nám A er alls metið til 214,5 stiga samkvæmt aðferð menntamálaráðuneytisins.

B:

 1. BA próf í sögu og íslensku

 2. Próf í uppeldis- og kennslufræði

 3. Nám á cand mag. stigi í sögu við HÍ

 4. Ársnám í sögu við Kaupmannahafnarháskóla

 5. Vettvangsnám fyrir skólastjórnendur

 6. Námskeið einkum í sögu

Nám B er alls metið til 244,0 stiga samkvæmt aðferð menntamálaráðuneytisins.

3. Kennsluferill og önnur megin starfsreynsla.

A:

 • Grunnskóli: 1 vetur í hlutastarfi (1/3) við framhaldsdeild.
 • Námsflokkar: 3 annir í stundakennslu (2-4 stundir á viku).
 • Framhaldsskóli: 9 vetur í fullu starfi.
 • Þingmaður í 4 ár.

B:

 • Grunnskóli: 1 vetur í fullu starfi.
 • Sérskólar: 3 vetur í 1/2 - 2/3 starfi og 2 vetur í stundakennslu.
 • Framhaldsskóli: 12 vetur í fullu starfi.
 • Skólastjórnun: Áfangastjóri og aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskólann á Akranesi og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í 6,5 ár.
 • Ritstörf.“

Í bréfinu segir skólameistari ástæður fyrir vali hans á umsækjendum vera þessar: „B hefur meiri menntun en A. Hann hefur einnig meiri reynslu af skólastjórnun. Hann sækir um framlengingu á því starfi sem hann hefur gegnt undanfarin ár. Að mínu mati hefur honum farist það starf vel úr hendi og samstarf okkar hefur verið gott. Það sama á við samstarf B við annað starfsfólk skólans og tengsl hans við nemendur. Þetta er í hnotskurn ástæðan fyrir því að ég valdi B sem aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi næstu 5 árin.“

Í gögnum málsins kemur fram að eins konar skoðanakönnun hafi verið gerð meðal starfsmanna skólans um þessa tvo umsækjendur. Samkvæmt henni hafi B hlotið fleiri atkvæði en A. Í bréfi sínu til kærunefndar jafnréttismála, dags. 1. október 1991 vísar skólastjóri m.a. til þessarar skoðanakönnunar máli sínu til stuðnings. Þessari skoðanakönnun hafa 10 kennarar við skólann mótmælt skriflega til kærunefndar. Þeir telja hana villandi og atkvæðagreiðsluna ógilda.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um hlutfall kynja í aðstoðarskólameistarastöðum á landinu. Samkvæmt þeim upplýsingum gegna 6 konur slíkum stöðum á móti 16 körlum.

NIÐURSTAÐA

Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.

Í lögunum eru því lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur svo að tilgangi þeirra verði náð.

Skyldur þessar birtast m.a. í 5. gr. sem kveður svo á að atvinnurekendur skuli vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun og stöðubreytingar.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að túlka beri lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þannig að atvinnurekanda beri að ráða þann umsækjandann sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein, svo fremi um sé að ræða hæfari eða jafn hæfan umsækjanda. Að öðrum kosti verði tilgangi laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla ekki náð, sbr. 1. og 5. gr. laga nr. 28/1991.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru umsækjendur tveir af gagnstæðu kyni. Ljóst er að mun færri konur gegna störfum sem aðstoðarskólameistarar en karlar.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu hefur B meiri menntun en A, eða 244,0 stig samkvæmt stigagjöf menntamálaráðuneytisins á móti 214,5 stigum A. Starfsreynsla þeirra er áþekk. Bæði hafa starfað um árabil sem framhaldsskólakennarar. Hann hefur að auki gegnt stöðu aðstoðarskólameistara í rúm 6 ár. Hún hefur starfað sem alþingismaður í 4 ár. Í bréfi, dags. 1. október 1991 leggur skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands áherslu á að við val milli umsækjenda hafi verið horft til þess að B hafi meiri menntun, reynslu af skólastjórnun og að um hafi verið að ræða ráðningu í stöðu þar sem sá sem stöðunni gegnir sótti um framlengingu. Honum hafi farist þetta starf vel úr hendi, samstarf bæði við skólastjóra, starfsfólk skólans og við nemendur hafi verið gott.

Með vísan til menntunar umsækjenda og framangreindra raka skólameistara telur kærunefnd jafnréttismála að tímabundin ráðning í stöðu aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi brjóti ekki í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Sigurður Helgi Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira