Hoppa yfir valmynd
2. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Konur í jarðhita: Brautryðjendaverðlaun til tveggja íslenskra kvenna

Frá afhendingu viðurkenningarinnar, t.f.v. Andy Blair, formaður WING samtakanna, Dr. Bryndís Brandsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Marta Rós Karlsdóttir, sendiherra WING á Íslandi. Ljósmynd: OR - mynd

Alþjóðlegu samtökin WING (Women in Geothermal) veittu á dögunum Dr. Bryndísi Brandsdóttur jarðeðlisfræðingi og Dr. Árný Erlu Sveinbjörnsdóttur jarðfræðingi og jarðefnafræðingi brautryðjendaverðlaun fyrir framlag þeirra til rannsókna og þróunar á jarðhita á Íslandi sem og innblástur þeirra til kvenna í jarðhita. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar veitti verðlaunin fyrir hönd WING.

Dr. Bryndís Brandsdóttir hefur tekið virkan þátt í að auka þekkingu á skjálftavirkni og uppbyggingu jarðskorpunnar við Ísland í samvinnu við fjölda erlendra háskóla og stofnana.  Rannsóknir hennar hafa meðal annars snúið að jarðskjálftum, staðsetningu kvikuhólfa og uppbyggingu jarðskorpu í virkjum eldfjallakerfum.

Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir á langan og farsælan rannsóknarferil að baki. Rannsóknir hennar á samsætum í grunnvatni hafa lagt mikið af mörkum til jarðhitarannsókna, en þær geta sagt til um uppruna og forsögu jarðhitavatns og aukið þannig skilning á samsetningu, hegðun og uppruna jarðhitakerfa.

Samkvæmt frétt frá Orkuveitu Reykjavíkur er þetta í annað skipti sem WING veitir íslenskum konum viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf í jarðhitarannsóknum en markmið samtakanna er að vekja athygli á möguleikum kvenna til menntunar, starfa og framgangs innan jarðhitageirans ásamt því að auka sýnileika þeirra. Áður hlutu verðlaunin þær Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur og Dr. Hrefna Kristmannsdóttir, jarðfræðingur, fyrir framlög sín til nýtingu jarðhita á Íslandi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum