Hoppa yfir valmynd
8. maí 2020 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar vilja auka samvinnu á sviði samgöngumála

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fundaði með öðrum samgönguráðherrum Norðurlanda í gær. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, átti í gær fjarfund með öðrum samgönguráðherrum Norðurlandanna. Tilgangur fundarins var að ræða nánara samstarf ríkjanna á sviði samgöngumála á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og viðbrögð og samvinnu vegna COVID-19 faraldursins.

Norrænu ráðherrarnir voru sammála um að efla samvinnu og koma á fót starfshópi sem falið verður að greina þau svið og verkefni sem mestur akkur væri í að eiga samstarf um innan ramma Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið mörkuð sú stefna Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims og þau verði umhverfisvæn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær. Samgöngumál væru fyrirferðarmikil í tólf markmiðum sem fylgja stefnunni og því mikilvægt að auka samvinnu á þessu sviði.

Sigurður Ingi hefur hvatt til þess á vettvangi Norðurlandaráðs að samvinna verði stóraukin á sviði samgöngumála og að nauðsynlegt kunni að vera að endurreisa norræna ráðherranefnd um samgöngumál.

Fjallað um viðbrögð við faraldrinum

Á fjarfundinum var einnig rætt um viðbrögð ríkjanna við COVID-19 faraldrinum. Sigurður Ingi lagði áherslu á að stefna beri að því að hefja flugsamgöngur milli landanna eins fljótt og hægt væri þegar aðstæður leyfa, þó þannig að fyllsta öryggis yrði gætt.

Ráðherrarnir voru allir sammála um að nauðsynlegt væri á að endurvekja traust fólks á almenningssamgöngum og gera þær að fýsilegum kosti þegar byrjað verður að slaka á takmörkunum vegna veirufaraldursins.

Loks ræddu ráðherrarnir um ráðstafanir sem framkvæmdastjórn ESB hefur gripið til á innri markaði Evrópu til að styðja við fyrirtæki á sviði samgangna og hvernig þær geti nýst Norðurlöndunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum