Hoppa yfir valmynd
30. desember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattabreytingar á árinu 2020

Um áramót taka gildi ýmsar skattabreytingar er snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Áhrif þeirra eru metin til samtals 9,5 ma.kr. lækkunar. Hér verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna en nánari upplýsingar um einstakar breytingar má finna í greinargerðum viðkomandi lagafrumvarpa á vef Alþingis.

Tekjuskattur einstaklinga

Nú um áramót taka gildi umfangsmiklar breytingar á tekjuskatti. Eru þær breytingar afrakstur vinnu um heildarendurskoðun tekjuskattskerfisins til lækkunar á skattbyrði. Ábati breytinganna skilar sér til allra tekjutíunda en sérstaklega til lág- og millitekjuhópa. Tekið er upp þriggja þrepa kerfi með nýju og lægra grunnþrepi. 

2019 2020
Prósenta í grunnþrepi 36,94% 35,04%
Prósenta í miðþrepi . 37,19%
Prósenta í háþrepi 46,24% 46,24%
Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði
Þrepamörk upp í miðþrep . . 4.042.995 336.916
Þrepamörk upp í háþrep 11.125.045 927.087 11.350.472 945.873
Persónuafsláttur 677.358 56.447 655.538 54.628
Skattleysismörk tekjuskattsstofns 1.833.671 152.807 1.870.828 155.902
Skattleysismörk launa* 1.910.074 159.174 1.948.779 162.398

* að teknu tilliti til lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð

Tengill á gögn málsins á vef Alþingis

Tryggingagjald

Í ársbyrjun 2020 mun skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækka um 0,25 %-stig, úr 5,15% í 4,9%. Tryggingagjald í heild lækkar úr 6,60% í 6,35%, sbr. meðfylgjandi töflu.

Tryggingagjald 2019 2020
Almennt tryggingagjald 5,15% 4,90%
Atvinnutryggingagjald 1,35% 1,35%
Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota 0,05% 0,05%
Markaðsgjald 0,05% 0,05%
Tryggingagjald, samtals 6,60% 6,35%

Tengill á gögn málsins á vef Alþingis

Frekari stuðningur við orkuskipti

Á árinu 2020 taka gildi nýir, tímabundnir skattastyrkir sem hvetja til notkunar á vistvænum samgöngum og sem nýtast bæði heimilum og fyrirtækjum í landinu. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Frá 1. janúar 2020

  • Reiðhjól (órafknúið): VSK felldur niður (hámark 48.000 kr.)
  • Rafmagnshlaupahjól: VSK felldur niður (hámark 48.000 kr.)
  • Rafmagnsreiðhjól: VSK felldur niður (hámark 96.000 kr.)
  • Rafknúið létt bifhjól: VSK felldur niður (hámark 96.000 kr.)
  • Rafmagns- eða vetnisbifhjól: VSK felldur niður (hámark 1.440.000 kr.)
  • Hleðslustöð í eða við íbúðarhúsnæði: full endurgreiðsla VSK af kaupum á hleðslustöð og endurgreiðsla VSK vegna vinnu við uppsetningu aukin úr 60% í 100%.
  • Hámarksfjöldi rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða sem njóta VSK-ívilnana aukinn í 15.000 í hverjum flokki.

Frá 1. júlí 2020

  •  Hámark á niðurfellingu VSK við kaup á rafmagns- eða vetnisbifreið eða -bifhjóli, hækkar úr 1.440.000 kr. í 1.560.000 kr. á hvert tæki.
  • Bílaleigur, eignaleigur og fjármögnunarleigur: útleiga á vistvænum bifreiðum verður undanþegin VSK-skyldri veltu.
  • Hópbifreið í almenningsakstri sem notar eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni sem orkugjafa: VSK felldur niður að fullu.
  • Aðilar í atvinnurekstri: heimilt að fyrna að fullu ökutæki á kaupári sem nýtir eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni.

Síðar (framlengingar eftir árið 2020)

  • Gildistími VSK-ívilnana fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar er framlengdur til 31. desember 2023.
  • Gildistími VSK-ívilnunar fyrir tengiltvinnbifreiðar er framlengdur til 31. desember 2022.
  • Fjárhæðarmörk á niðurfellingu VSK við kaup á tengtiltvinnbifreið lækkar í áföngum úr 960.000 kr. í 480.000 kr. á hverja bifreið.

Tengill á gögn málsins á vef Alþingis

Skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir

Á árinu 2020 tekur gildi nýr, grænn skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem m.a. eru notaðar í kælikerfum. Skatturinn er lagður á hvert kílógramm af innfluttum flúoruðum gróðurhúsa¬lofttegundum fyrir hvert tonn koldíoxíðjafngildis að 10.000 kr./kg verðþaki. Árið 2020 verður aðeins lagt á hálft gjald en fullt gjald ári síðar.

Tengill á gögn málsins á vef Alþingis

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl.

Krónutölugjöld lækka að raungildi un næstu áramót en þau munu einungis hækka um 2,5% sem er minna en nemur verðbólgu frá síðustu verðlagsuppfærslu. Hið sama gildir um útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Kolefnisgjald hækkar þó meira eða um 10%. Breytingar á helstu krónutölugjöldum milli áranna 2019 og 2020 eru sýndar í meðfylgjandi töflu.

Helstu krónutölugjöld 2019 2020
Bensín- og olíugjöld (kr./ltr.)
Almennt vörugjald á bensín 28,05 28,75
Sérstakt vörugjald á bensín 45,2 46,35
Olíugjald 62,85 64,4
Kolefnisgjald
Gas- og dísilolía (kr./ltr.) 10,4 11,45
Bensín (kr./ltr.) 9,1 10
Brennsluolía (kr./kg) 12,8 14,1
Jarðolíugas (kr./kg) 11,4 12,55
Bifreiðagjald (kr.)*
Grunngjald bifreið < 3.500 kg. 6.075/146 6.225/150
Grunngjald bifreið > 3.500 kg. 56.900/2,43/89.560 58.325/2,49/91.800
Kílómetragjald (kr./km.)
Kílómetragjald (allir gjaldflokkar hækka um 2,5%)
Áfengisgjald (kr./cl.)
Bjór 122,6 125,65
Léttvín 111,65 114,45
Sterkt vín 151,1 154,9
Tóbaksgjald
Vindlingar (kr./pk.) 503,35 515,95
Neftóbak (kr./gr.) 28 28,7
Annað (kr./gr.) 28 28,7

*Sýnt er grunngjald á hvert ökutæki, einingagjald á hvert gr. umfram 121 gr. CO2og hámarksgrunngjald. Hér er miðað við skráða losun skv. evrópsku aksturslotunni.

Tengill á gögn málsins á vef Alþingis

Barnabætur

Um áramótin hækka skerðingarmörk tekjustofns barnabóta. Hjá einstæðum foreldrum hækka þau úr 3,6 m.kr. á ársgrundvelli í 3,9 m.kr., eða úr 300 þúsund kr. á mánuði í 325 þúsund kr. Það þýðir að fyrir einstætt foreldri sem hefur allar sínar tekjur af launavinnu og greiðir 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 338.542 kr. í mánaðarlaun.

Skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hjá sambúðaraðilum hækka úr 7,2 m.kr. á ársgrundvelli í 7,8 m.kr., eða úr 600 þúsund kr. á mánuði í 650 þúsund kr. Það þýðir að fyrir sambúðaraðila sem hafa allar sínar tekjur af launavinnu og greiða 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 677.084 kr. í samanlögð mánaðarlaun.

Í eftirfarandi töflu eru tekin dæmi af fjölskyldum með misháar tekjur og áhrifum barnabótabreytinga á ráðstöfunartekjur þeirra.

Barnabætur með tveimur börnum, öðru yngra en 7 ára Fyrir breytingu Eftir breytingu Breyting
kr. kr. kr. %
Einstætt foreldri með 3,9 m.kr. í skattstofn á ári 901,5 931,5 30 3.3%
Einstætt foreldri með 5,5 m.kr. í skattstofn á ári 741,5 771,5 30 4.0%
Einstætt foreldri með 9 m.kr. í árstekjur 415 433 18 4.3%
Hjón með 7,8 m.kr. í skattstofn á ári 593,7 653,7 60 10.1%
Hjón með 9 m.kr. í árstekjur 473,7 533,7 60 12.7%
Hjón með 12 m.kr. í árstekjur 210,7 246,7 36 17.1%

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum