Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2017 Forsætisráðuneytið

Frumvarp um jafnlaunavottun lagt fram á Alþingi

Frumvarp Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem kveður á um lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja með 25 eða fleiri starfsmenn hefur verið lagt fram á Alþingi. Meginmarkmið frumvarpsins er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Þorsteinn VíglundssonÞorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir einkar ánægjulegt að leggja fram þetta mikilvæga mál: „Ég bind miklar vonir við að jafnlaunavottun verði raunverulegt tæki til að sporna við kynbundnum launamun sem er því miður enn veruleiki á Íslandi.“

Frumvarpið er lagt fram sem breyting á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Byggt er á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. janúar 2017 þar sem sérstaklega er fjallað um jafnrétti á vinnumarkaði og að spornað verði við launamisrétti vegna kynferðis með því að áskilja að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp jafnlaunavottun.

Samkvæmt frumvarpinu verður jafnlaunavottun byggð á staðlinum ÍST 85/2012 (hér eftir kallaður jafnlaunastaðall). Markmið jafnlaunastaðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti á vinnustað sínum. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggi að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Faggiltur vottunaraðili metur síðan hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt til þess að unnt sé að veita viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.

Gert er ráð fyrir að samtökum aðila vinnumarkaðarins verði heimilt með kjarasamningnum að kveða á um að fyrirtæki eða stofnanir með 25 – 99 starfsmenn geti öðlast jafnlaunavottun með staðfestingu hagsmunaaðila á því að jafnlaunakerfi hlutaðeigandi og framkvæmd þess fullnægi skilyrðum jafnlaunastaðalsins.

Til að veita fyrirtækjum og stofnunum hæfilegan tíma til að mæta þeim kröfum sem jafnlaunavottun felur í sér er lagður til ákveðinn aðlögunartími. Sá tími er mislangur eftir stærð vinnustaða en talið er að stærri fyrirtæki og stofnanir búi yfir innviðum umfram þau minni sem geri þeim auðveldara að innleiða jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn. Frestur til að ljúka jafnlaunavottun er til 31. desember 2018 þar sem starfsmenn eru 250 eða fleiri og til 31. desember 2019 þar sem starfsmenn eru 150 – 249. Á vinnustöðum sem eru með 25 – 149 starfsmenn er frestur til jafnlaunavottunar til 31. desember 2020. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir endurnýi jafnlaunavottun á þriggja ára fresti.

Eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir fylgi ákvæðum laganna um jafnlaunavottun verður á hendi samtaka aðila vinnumarkaðarins og Jafnréttisstofu. Ef fyrirtæki eða stofnun hefur ekki öðlast jafnlaunavottun eða endurnýjun þar á innan tilskilins tímafrests getur Jafnréttisstofa gefið fyrirmæli um úrbætur innan hæfilegs frests og beitt dagsektum ef ekki er brugðist við á fullnægjandi hátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum