Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði

Frumvarp Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra um jafna meðferð á vinnumarkaði hefur verið lagt fram á Alþingi. Með því er skýrt kveðið á um að mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna kynþáttar þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar eða kynvitundar verði óheimil.

Markmið frumvarpsins er að tryggja jafna meðferð á vinnumarkaði hér á landi, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera. Efni frumvarpsins er talinn mikilvægur liður í því að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði sem sé jafnframt ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Verði frumvarpið að lögum er jafnframt stigið skref til að mæta kröfum 5. gr. samings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Samkvæmt frumvarpinu verður óheimilt að gefa fyrirmæli um mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem taldir eru hér að framan og sama á við um áreitni ef hún tengist einhverjum þeirra. Sérstaklega er fjallað um bann við mismunun í starfi, við ráðningu í starf og um bann við mismunun varðandi laun og önnur kjör.

Þrátt fyrir ákvæði frumvarpsins verður áfram heimilt að kveða á um tiltekin aldursskilyrði í tengslum við lífeyrisréttindi fólks og ákvæði frumvarpsins ná ekki yfir opinber félagsleg kerfi, svo sem almannatryggingakerfið, félagsþjónustu sveitarféalga, atvinnuleysistryggingakerfið og fæðingarorlofskerfið. Er þetta í samræmi við ákvæði Evróputilskipunarinnar sem byggt er á. Sama máli gegnir um mismunandi meðferð á grundvelli ríkisfangs eða ríkisfangsleysis.

Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af Evróputilskipunum sem lúta að framkvæmd meginreglu um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og almennum reglum um jafna meðferð á vinnumarkaði og atvinnulífi. Enda þótt umræddar tilskipanir heyri ekki formlega undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðisins hafa íslensk stjórnvöld lýst formlega yfir vilja til þess að gæta efnislega samræmis í íslenskum rétti og þeim sem gildir innan Evrópusambandsins á grundvelli þessara tilskipana. Var það gert í kjölfar samþykktar ríkisstjórnar Íslands þess efnis árið 2003 með erindi til EFTA. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum