Hoppa yfir valmynd
21. desember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný lög um opinber fjármál samþykkt

Alþingi hefur samþykkt ný lög um opinber fjármál og taka þau gildi um áramót. Í nýjum lögum er sérstök áhersla á langtímahugsun, stöðugleika, aga við framkvæmd fjárlaga og bætt reikningsskil. Ný lög fela í sér verulegar breytingar á fjármálum hins opinbera og viðteknum verkferlum og verkaskiptingu þeirra sem að þeim koma.

Með lögum um opinber fjármál er umgjörð opinberra fjármála treyst og skilyrði sköpuð fyrir samþættingu markmiða í efnahagsmálum og fjármálum opinberra aðila. Lögin ná yfir breiðara svið en eldri löggjöf um fjárreiður ríkisins sem þau leysa af hólmi. Þau ná til fjármála hins opinbera í heild sinni, þ.e. ríkis og sveitarfélaga.

Lögin treysta aðkomu Alþingis að því að setja markmið í ríkisfjármálum og opinberum fjármálum sem liggja til grundvallar við gerð fjárlaga. Í nýjum lögum er einnig mælt fyrir um mun ítarlegri ákvæði en í gildandi lögum um hvernig staðið skuli að stefnumörkun og áætlanagerð í opinberum fjármálum.

Fjármálastefna til fimm ára í upphafi kjörtímabils

Mikilvægur þáttur í nýju lögunum er fjármálastefna til fimm ára, sem lögð er fram í upphafi kjörtímabils. Stefnan er háð samþykkt Alþingis. Í henni eru sett markmið um afkomu og fjárhag ríkis og sveitarfélaga. Fjármálastefnu er ætlað að fela í sér markmið sem leiða eiga til stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála.

Á grunni fjármálastefnu skal ráðherra fjármála leggja fram fjármálaáætlun til fimm ára hvert vor. Fjármálaáætlun felur í sér útlistun á því hvernig markmiðum fjármálastefnu verði náð ár hvert. Fjármálaáætlun inniheldur því nánari sundurliðun markmiða fyrir ríki og sveitarfélög, þ.m.t. markmið um útgjaldaþak fyrir hvert málefnasvið er varðar ríkissjóð og þær leiðir sem ætlað er að fylgja svo markmið náist.

Samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál skal fjárlagafrumvarp byggjast á markmiðum fjármálaáætlunar. Lögin fela í sér grundvallarbreytingar á framsetningu fjárlaga þar sem fjárlagafrumvarp mun nú greina frá útgjöldum til málefnasviða og málaflokka í stað þess að greint sé frá einstökum fjárveitingum til ríkisaðila. Úthlutun fjárveitinga mun koma fram í fylgiskjali með fjárlagafrumvarpi en Alþingi mun aðeins greiða atkvæði um fjárheimildir til málefnasviða og málaflokka. Málefnasviðin eru 34 talsins en málaflokkarnir um 100 talsins.

Ríkari skyldur á ráðherra við mat á fjárþörf

Með lögunum eru ríkari skyldur lagðar á ráðherra við mat á fjárþörf til ríkisaðila auk þess sem til staðar eru ný úrræði til að bregðast við frávikum í rekstri ríkisaðila. Þá er lögunum ætlað að tryggja að fjárlaganefnd Alþingis hafi betri yfirsýn yfir þróun opinberra fjármála. Loks er í lögunum mælt fyrir um breytingar á skýrslugerð og reikningshaldi með því að innleiða alþjóðlega reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila til að tryggja gegnsæi og trúverðugleika.

Með skýrari stefnumótun í opinberum fjármálum, skýrari afmörkun á ábyrgð löggjafar- og framkvæmdavalds við ákvörðun um fjárheimildir og úthlutun fjárveitinga, bættu eftirliti með framkvæmd fjárlaga og með betri skýrslugjöf verður unnt að auka aga og festu við framkvæmd fjárlaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum