Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn - fræðsluátak Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Helga Þórisdóttir, forst´jori Persónuverndar, við undirritun samningsins. - myndVigfús Birgisson

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er í dag, 7. febrúar 2023. Hið stafræna umhverfi er í stöðugri þróun og netnotkun verður æ stærri hluti af lífi barna. Þessi þróun skapar fjölmörg ný tækifæri og spennandi möguleika en henni fylgir einnig aukin hætta á því að brotið sé gegn börnum og réttindum þeirra. Persónuvernd, í samstarfi við Fjölmiðlanefnd, mun fara af stað með  fræðsluátak fyrir börn, foreldra og kennara um mikilvægi persónuverndar, miðlalæsis og netöryggis í stafrænni tilveru.

Hagnýting stafrænnar tækni, tækifæri og áskoranir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, undirrituðu í liðinni viku 10 m.kr. samning vegna verkefnis sem felur í sér áðurnefnt fræðsluátak. Aðgerðin er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027.

Aukin áhersla hefur verið lögð á að efla stafrænt læsi barna á Íslandi og endurspeglast það m.a. í núgildandi menntastefnu þar sem framtíðarhæfni í stafrænni tilveru barna vegur þungt. Þetta felur í sér að nemendur geti gert sér grein fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem felast í stafrænni tilveru, sem kallar á þjálfun þeirra í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Þá þurfa nemendur einnig að læra hvernig á að hagnýta stafræna tækni og auka eigin þekkingu á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Í stefnunni er einnig fjallað um að huga þurfi að notkun nemenda á samfélagsmiðlum og kenna þeim ábyrga nethegðun sem og helstu reglur um örugg stafræn samskipti.

Vinna er nú þegar hafin við fræðsluátakið og stefnt er að því að starfsmenn Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar fari í kynningarátak um landið í haust. Fræðsluerindi verða haldin víðs vegar um landið, ýmist í grunnskólum eða öðrum samkomuhúsum, og fjölbreytt fræðsla fyrir börn, kennara og foreldra gerð aðgengileg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum