Hoppa yfir valmynd
23. mars 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra stækkar friðlýst svæði við Varmárósa

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri undirrita friðlýsinguna. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skrifaði í dag undir stækkun á friðlandinu við Varmárósa í Mosfellsbæ.

Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 og friðlýsingin svo endurskoðuð árin 1987 og 2012, en svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1978. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í því að þar er að finna fágæta plöntutegund, fitjasef (Juncus gerardii), auk þess sem sjávarfitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvægt vistkerfi fyrir fugla.

Með stækkuninni nú er svæðið sem friðlýsingin tekur til 0,3 km2 að stærð og hefur það markmið að vernda náttúrulegt ástand votlendis og sérstakan gróður sem á svæðinu er að finna. Varmárósar eru annar af tveimur þekktum fundarstöðum fitjasefs hérlendis en tegundin hefur verið á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2018. Stækkað friðland Varmárósa nær yfir mikilvægt fæðusvæði ýmissa fuglategunda og búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda.

„Votlendissvæði hafa átt undir högg að sækja undanfarna áratugi. Ég tel mikilvægt að við náum að tryggja vernd þeirra og endurheimt og fagna því að finna hve ríkur vilji hefur verið af hálfu Mosfellinga til að stuðla að vernd þessa einstaka svæðis. Friðlýsing svæðisins hefur fram til þessa og mun enn frekar hér eftir stuðla að því að íbúar og gestir svæðisins geti notið þess fjölskrúðuga lífs sem finna má í fjöru og á landi við þessa fallegu árósa,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun friðlýsingarinnar.

Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar bæjarstjórnar og umhverfisnefndar Mosfellsbæjar, ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og fulltrúum Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, en stækkunin hefur verið unnin í góðu samráði fulltrúa þessara aðila.

 
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, við friðlýsinguna. - mynd
  • Ráðherra og ráðuneytisstjóri ásamt fulltrúum bæjarstjórnar og umhverfisnefndar Mosfellsbæjar, starfsmönnum  sveitarfélagsins og fulltrúum Umhverfisstofnunar sem voru viðstaddir friðlýsinguna. - mynd
  • Varmárósar - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum