Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar – 24. - 30. september
Stýrinefnd um stefnumótun á LSH

Sett hefur verið á stofn stýrinefnd um stefnumótun á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Samkvæmt erindisbréfi á nefndin að bera ,,ábyrgð á að móta raunhæfa heildarstefnu fyrir LSH; sjúklingum, aðstandendum, fagfólki og rekstri LSH til hagsbóta og framdráttar.” Formaður nefndarinnar er Már Kristjánsson, yfirlæknir. Sett hefur verið upp sérstök heimasíða stýrinefndarinnar á vef LSH.

Heimasíða stýrinefndar...
Gagngerar endurbætur á Heilbrigðisstofnuninni Siglufirði

Fyrri hluti endurbóta á Heilbrigðisstofnuninni Siglufirði verður boðinn út 2. október n.k. Verkið felst í endurnýjum á hita- raf- og loftræstilögnum og endurbótum á aðstöðu starfsfólks í aðalálmu hússins. Verklok eru áætluð í maí á næsta ári. Reiknað er með að rekstur stofnunarinnar raskist ekki að ráði meðan á framkvæmdum stendur. Jafnframt er hafin hönnun á viðbyggingu við húsið sem á að rúma heilsugæslustöð og þrjú eða fjögur vistrými. Sú framkvæmd verður boðin út eins fljótt og kostur er og vonast er til að framkvæmdir geti hafist snemma næsta vor. Þegar viðbyggingin er tilbúin flyst starfsemi heilsugæslustöðvarinnar úr sjúkrahúsinu í nýbygginguna. Í framhaldi af nýbyggingunni verður unnt að ljúka síðari hluta áformaðra endurbóta og eru verklok áætluð árið 2008.
Ný heilsugæslustöð verður byggð á Skagaströnd

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur f.h. heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins óskað eftir tilboðum í framkvæmdir við nýbyggingu heilsugæslustöðvar við Ægisgrund á Skagaströnd. Heilsugæslustöðin verður 250 fermetrar með 17 fermetra tengigangi sem tengir hana dvalarheimili aldraðra á sömu lóð. Verktaki skal skila húsi og lóð fullfrágengnu og tilbúnu til notkunar en án alls búnaðar. Samkvæmt útboði skal byggingarhlutanum að fullu lokið 15. maí 2006 og lóðaframkvæmdum mánuði síðar. Tilboð í verkið verða opinuð hjá Ríkiskaupum 4. október. Nánari upplýsingar um útboðið eru á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins: http://www.fsr.is/
Kódeinlyf tekin úr lausasölu 1. október

Lyf sem innihalda kódein verða tekin úr lausasölu 1. október n.k. og frá þeim tíma verða þau einungis afgreidd gegn lyfseðli. Þessi breyting er gerð að tillögu vinnuhóps Lyfjastofnunar og landlæknisembættisins. Í fréttatilkynningu sem birt er á heimasíðu Lyfjastofnunar segir að ástæða þessarar breytingar sé einkum sú að  og byggist einkum á því að veruleg misnotkun virðist hafa átt sér stað á þessum lyfjum auk þess sem efasemdir séu um notagildi 10 mg. kódeins í hverri töflu eða stíl.
Heilsufar í ljósi breyttra lífshátta

Afleiðingar breyttra lífshátta á heilsufar manna getur haft gríðarleg áhrif á heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar. Þetta er meðal þess sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra gerði að umtalsefni á aðalfundi Læknafélags Íslands. Ráðherra varpaði fram þeirri hugmynd og hvatti til þess að læknasamfélagið, heilbrigðisráðuneytið og Lýðheilsustöð sameinuðu krafta sína í baráttu fyrir bættri heilsu á grundvelli sem Alþingi, alþjóðastofnanir og læknasamtökin hafa ályktað um.

 Ávarp ráðherra...

 
Gögn frá kynningarfundi um lýðheilsuáætlun Evrópusambandsins

Um það bil 50 manns sátu kynningarfund á vegum Lýðheilsustöðvar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem haldinn var nýlega þar sem kynnt var lýðheilsuáætlun Evrópusambandsins og verkefnastyrkir henni tengdir. Á fundinum var einnig sagt frá öðrum styrkjasjóðum, umsóknarferli og verkefnum sem þegar hafa verið styrkt. Gögn frá fundinum eru nú aðgengileg á heimasíðu Lýðheilsustöðvar.

Nánar...
Póstur til umsjónarmanns: [email protected]

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira