Hoppa yfir valmynd
21. október 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 15. - 21. október


Drög að frumvarpi um bann við reykingum verður lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að leggja fyrir þingflokka stjórnarflokkanna frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Breytingin lýtur að því að ákvæði núgildandi tóbaksvarnarlaga sem heimila reykingar á afmörkuðum svæðum veitinga- og skemmtistaða verði afnumið og reykingar í þjónusturými veitinga- og skemmtistaða verði bannaðar með öllu frá 1. júní 2007. Meginmarkmið frumvarpsins er vinnuvernd starfsmanna og vernd almennings, enda liggja fyrir fjölmargar vísindalegar rannsóknir sem sýna að óbeinar reykingar valda heilsutjóni og dauðsföllum.


LSH – Hjartaþræðingum og kransæðavíkkunum fjölgar enn

Stjórnunarupplýsingar LSH (Landspítala – háskólasjúkrahúss) fyrir janúar til september 2005 eru komnar út. Auk starfsemisupplýsinga fyrir tímabilið samanborið við sömu mánuði í fyrra, auk upplýsinga um bráðabirgðauppgjör og frávik frá rekstraráætlun, eru að þessu sinni sérstakar upplýsingar frá skrifstofu starsfmannamála og skrifstofu fjárreiðna og upplýsinga. Í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga kemur fram að hjartaþræðingum og kransæðavíkkunum fjölgar enn umtalsvert. Hjartaþræðingar voru tæplega 1.300 sem er um 18,7% fjölgun frá sama tíma í fyrra og kransæðavíkkanir voru rúmlega 500 sem er 26% fjölgun þessara aðgerða. Þrátt fyrir þetta hafa biðlistar eftir hjartaþræðingum lengst og segir í greinargerð framkvæmdastjóra að aukningin sé langt umfram það sem hægt hafi verið að búast við. Stjórnunarupplýsingarnar eru aðgengilegar á heimasíðu LSH.

Greinargerð ásamt stjórnunarupplýsingum LSH...




Leyfileg UV-geislun í ljósabekkjum á sólbaðsstofum gæti tvöfaldast

Tillaga um breytingar á ljósabekkjastaðli var samþykkt í atkvæðagreiðslu evrópsku rafstaðlasamtakanna CENELEX nýverið. Hér á landi er byggt á umræddum staðli sem ætlað er að tryggja öryggi í notkun ljósabekkja. Breytingatillagan felur í sér að sett er hámark geislunar fyrir alla ljósabekki sem miðast við tvöfalda geislun sólar við miðbaug. Gangi þetta eftir myndi leyfileg UV-geislun ljósabekkja hér á landi tvöfaldast. Þrátt fyrir samþykkt tillögunnar ákvað stjórn tækninefndarinnar sem fer með málið að þörf væri á frekari umræðu. Enn er því ekki víst hvort af breytingunum verður. Samkvæmt sameiginlegu áliti Norrænna geislavarnarstofnana er eðlilegt hámark UV-geislunar í ljósabekkjum talið vera sem svarar til styrks útfjólublárrar geislunar sólar við miðbaug. Tillagan um aukinn leyfilegan styrk er í andstöðu við það álit. Þess má geta að Norrænu geislavarnarstofnanirnar hafa lýst því yfir að notkun ljósabekkja í fegrunarskyni sé óráðleg vegna aukinnar hættu á húðkrabbameini. Þá telja þær sérstaklega mikilvægt að fólk yngra en 18 ára eða með ljósa og viðkvæma húð noti ekki ljósabekki. Nánar er sagt frá þessu í frétt á heimasíðu Geislavarna ríkisins.

Nánar á heimasíðu Geislavarna ríkisins...

 


Samræmdar upplýsingar um aukaverkanir bólgueyðandi gigtarlyfja

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar (CHMP) ályktaði á fundi sínum 10. – 13. október, að þörf sé fyrir samræmdar upplýsingar um aukaverkanir af völdum bólgueyðandi gigtarlyfja. Nefndin hefur því sett fram spurningar og svör um aukaverkanir þeirra ásamt yfirliti um lykilatriði fyrir samantekt um eiginleika lyfjanna. Þetta er m.a. gert til að tryggja að neytendur fái samræmdar upplýsingar um aukaverkanir lyfja í þessum flokki. Frá þessu er sagt á heimasíðu Lyfjastofnunar. Þar er jafnframt aðgengilegur listi með spurningum og svörum sérfræðinganefndarinnar ásamt yfirliti um lykilatriði fyrir samantekt um eiginleika þeirra. Einnig er þar birt fréttatilkynning Lyfjastofnunar Evrópu (EMEA) um bólgueyðandi gigtarlyf.

 

 




Upplýsingarit um Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðina á Akranesi

Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA) hafa gefið út upplýsingarit um helstu þætti í starfsemi stofnunarinnar. Útgáfan tengist framkvæmd stefnumótunar fyrir stofnunina sem samþykkt var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í mars 2004 og gildir til ársins 2008. Frá þessu er sagt á heimasíðu SHA. Fjallað er í stuttu máli um læknisfræðilega þjónustu stofnunarinnar, þjónustu heilsugæslunnar og aðra stoðþjónustu. Ritið er gefið út í 8000 eintökum og verður dreift á öll heimili á Vesturlandi. Það er einnig aðgengilegt á heimasíðu SHA og á heimasíðunni er einnig að finna margvíslegar upplýsingar um starfsemina.

Sjá heimasíðu SHA: http://www.sha.is

 




 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum