Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla um þróun raforkuverðs og samkeppni frá setningu raforkulaga 2003

Að undanförnu hefur talsverð umræða verið um þróun raforkuverðs og samkeppni á raforkumarkaði frá setningu raforkulaga árið 2003 og innleiðingu fyrsta og annars orkupakka ESB. Árið 2011 vann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um það efni fyrir iðnaðarráðuneytið. Fyrr á þessu ári óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftir því að verkfræðistofan EFLA tæki saman skýrslu að nýju um þau mál og hvernig til hafi tekist með þá breytingu sem átti sér stað með setningu raforkulaga 2003. Með þeim lögum var raforkuvinnsla og sala raforku gefin frjáls en sérleyfi þarf til að flytja eða dreifa raforku.

Í skýrslu EFLU kemur fram að tekist hafi að innleiða samkeppni í vinnslu og sölu raforku og að fyrirtækjum sem keppi á þeim markaði fari fjölgandi. Verð á raforku í smásölu hafi farið lækkandi eftir setningu raforkulaga, hafi síðan hækkað að nýju og sé nú svipað að raunvirði og það var fyrst eftir skipulagsbreytingarnar. Ekki verði annað séð en að veruleg samkeppni sé í smásölu raforku en til að auka hana sé mikilvægt að hvetja heimili og fyrirtæki til að skoða möguleika sína hvað varðar raforkukaup. Í samantekt skýrslunnar er bent á nokkur atriði varðandi árangurinn af skipulagsbreytingunum sem innleiddar voru með raforkulögum árið 2003 og má þar nefna:

  • Tekist hefur að innleiða samkeppni í raforkusölu sem skilað hefur sér í nokkuð stöðugu raforkuverði á almennum markaði. Raforkuvinnsla var jafnframt gefin frjáls en í eldra kerfi voru miklar takmarkanir sem m.a. ollu verulegu ósætti um það kerfi.
  • Samkeppni í raforkusölu hefur veitt fyrirtækjum í vinnslu og sölu raforku gott aðhald og merki um það er að arðsemi eigin fjár í starfseminni hefur verið að meðaltali minni en í sérleyfisstarfseminni.
  • Aðhald með rekstri sérleyfisfyrirtækjanna hefur verið með að setja þeim tekjumörk sem hafa skilað fjárhagslega jákvæðum rekstri í þessari starfsemi. Tekjumörkin og aðskilnaður á milli þétt- og dreifbýlis hafa skilað því að gegnsæi hefur aukist og skýrt er hve mikið dýrara er að dreifa orku í dreifbýlinu en þéttbýlinu. Allir almennir raforkunotendur hafa síðan tekið þátt í að greiða niður þann umframkostnað með jöfnunargjaldi sem er notað til að fjármagna dreifbýlisframlag.
  • Hækkanir á gjaldskrám dreifiveitna eru að mestu tilkomnar vegna aukins fjármagnskostnaðar sem skýrist af miklum fjárfestingum í dreifikerfunum sérstaklega í dreifbýlinu og hækkun á leyfilegri arðsemi samkvæmt tekjumörkum.

Athygli er vakin á því að skýrslan fjallar ekki um þau áhrif sem breyting á raforkumarkaði 2003 hefur haft á raforkuverð til stórnotenda.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum