Hoppa yfir valmynd
3. mars 2022 Dómsmálaráðuneytið

Auglýst eftir talsmönnum umsækjenda um alþjóðlega vernd

Útlendingastofnun, í samstarfi við Dómsmálaráðuneyti og Ríkiskaup, hefur nú birt auglýsingu þar sem óskað er eftir umsóknum frá lögfræðingum sem óska eftir að taka að sér hlutverk talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt lögum tryggir Útlendingastofnun umsækjendum um alþjóðlega vernd talsmann sem gætir hagsmuna umsækjandans á meðan mál hans er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og eftir atvikum hjá Kærunefnd útlendingamála.

Talsmaður sinnir réttaraðstoð og talsmannaþjónustu vegna umsókna um alþjóðlega vernd í samræmi við vilja umsækjanda. Hlutverk talsmanns hefst við skipun þegar umsókn um vernd hefur borist stjórnvöldum. Hlutverki talsmanns lýkur við endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi.

Hlutverk talsmanns er að koma fram fyrir hönd umsækjanda og veita honum liðsinni. Það getur falið í sér að mæta í viðtal með umsækjanda, skila inn gögnum og greinargerð, aðstoða umsækjanda við öflun heilbrigðisgagna og taka við ákvörðunum stjórnvalda f.h. umsækjanda og leiðbeina umsækjanda um mögulegt framhald máls, svo sem kæruleiðir eða möguleika útlendings til heimferðar.

Talsmaður skal vera lögfræðingur með þekkingu á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki. Hann þarf að hafa reynslu og haldbæra þekkingu af stjórnsýslurétti og ef um fylgdarlaust barn er að ræða skal talsmaður hafa sérþekkingu á málefnum barna.
Tekið er á móti umsóknum um að komast á lista talsmanna á netfangið [email protected], merkt ,,talsmenn”. Í umsókn skal sýna fram á að viðkomandi uppfylli skilyrði til að sinna hlutverki talsmanns. Uppfylli lögfræðingur hæfnisskilyrði er honum raðað á lista með öðrum talsmönnum sem er aðgengilegur á heimasíðu Útlendingastofnunar.

Við lok hvers máls verður lagt faglegt mat á frammistöðu talsmanns. Við það mat verður meðal annars litið til þess hvort að starfshættir talsmanns hafi stuðlað að skilvirkri málsmeðferð og sanngjarnri afgreiðslu, að viðtöl og gagnaafhending hafi einkennst af fagmennsku og samviskusemi og að talsmaður hafi brugðist vel við ef fram komu ábendingar um annmarka sem bæta þyrfti úr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum