Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 381/2016 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 381/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050045

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála, dags. 23. maí 2016, kærði Jóhann Tómas Sigurðsson hdl., f.h. [...], f.d. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2016, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita honum dvalarleyfi á Íslandi. Til vara krefst kærandi þess að dvalarleyfi verði veitt á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laganna. Til þrautavara krefst kærandi þess að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 30. mars 2007. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins þann 12. mars 2015. Útlendingastofnun synjaði umsókninni með ákvörðun, dags. 9. maí 2016. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála og lagði fram greinargerð þann 24. maí 2016.

Með tölvupósti, dags. 24. maí 2016, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 30. maí 2016 en Útlendingastofnun gerði ekki athugasemdir við kæruna.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar er byggð á því að rökstuddur grunur sé um að hjúskapur kæranda hafi verið stofnaður til málamynda, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Atriði sem stofnunin tiltekur sérstaklega eru meðal annars þau að maki kæranda hafi skilið við fyrrverandi maka sinn um fimm mánuðum áður en hún og kærandi hafi gengið í hjúskap, að kærandi og maki hans hafi aldrei hist eftir stofnun hjúskapar og að brúðkaupsferðar þeirra þrátt fyrir að tæp 9 ár hafi liðið þar frá og þrátt fyrir að maki kæranda hafi ferðast a.m.k. fimm sinnum til Asíu á tímabilinu, að maki kæranda hafi ekki vitað hvort kærandi ætti börn, að börn maka kæranda þekki ekki kæranda og að kærandi hafi ekki getað lagt fram önnur gögn um samskipti við maka sinn en útprentun úr síma frá tímabilinu 25. desember 2015 til 12. janúar 2016. Var það mat Útlendingastofnunar að þetta leiddi til þess að rökstuddur grunur væri til staðar um málamyndahjúskap og að kærandi hafi ekki sýnt fram á annað með óyggjandi hætti. Kæranda var því synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að langur vegur sé frá því að atvik máls séu með þeim hætti að rökstuddur grunur skv. 3. gr. 13. gr. laga um útlendinga teljist vera fyrir hendi. Kærandi telur vandséð hvernig hægt sé að sýna fram á með meiri óyggjandi hætti að til hjúskaparins hafi ekki verið stofnað til þess eins að afla dvalarleyfis. Öll vafaatriði hafi verið skýrð honum í óhag í hinni kærðu ákvörðun og ekki hafi verið tekið tillit til annarra atriða sem að hans mati sýni að um raunverulegan hjúskap sé að ræða. Ákvörðunin sé því andstæð meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi vekur í greinargerð sérstaka athygli á nokkrum atriðum en vísar að öðru leyti til eldri bréfa hans til Útlendingastofnunar. Þar nefnir kærandi að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að maki kæranda hafi skilið við fyrrverandi mann sinn skömmu áður en hún stofnaði til hjúskapar með kæranda. Kærandi bendir á að þótt lögskilnaður hafi gengið í gegn í október 2006 hafi maki kæranda og fyrrverandi maður hennar verið skilin að borði og sæng frá 1. mars 2004. Þau hafi verið gift í 10 ár og því hafi ekki verið uppi þær aðstæður í málinu að maki kæranda „hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi“, líkt og tekið sé fram í athugsemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 20/2004, um breyting á lögum um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum.

Kærandi andmælir jafnframt því mati Útlendingastofnunar að hinn langi tími sem liðinn sé frá því hann hafi hitt maka sinn sé til vitnis um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til málamynda. Í meirihluta tilvika sé stofnað til málamyndahjúskapar skömmu áður en sótt sé um dvalarleyfi, en ekki átta árum áður. Hin langa fjarbúð kæranda og maka hans eigi sér eðlilegar skýringar. Þau hafi safnað fé fyrir komu kæranda til Íslands líkt og framlögð gögn um fjármagn til framfærslu kæranda hér á landi sýni glöggt. Þá hafi ferðir maka kæranda til Asíu á umræddu tímabili ávallt verið af sérstöku tilefni, s.s. vegna jarðarfarar, og þá greiddar af öðrum.

Kærandi telur ónákvæmni gæta af hálfu Útlendingastofnunar þar sem maki kæranda hafi upplýst að samkvæmt hennar bestu vitund eigi kærandi ekki börn. Útlendingastofnun hafi túlkað það á þann veg að maki kæranda viti ekki hvort kærandi eigi börn en í raun hafi hún haft fyrirvara á svörum sínum af áhyggjum um að svörin kynnu að vera rengd eða rangtúlkuð síðar. Þá tekur kærandi fram að ítrekað hafi verið bent á að misskilnings sem hafi gætt í svörum maka hans megi rekja til tungumálaerfiðleika.Kærandi vísar einnig til þess að alþekkt sé að einstaklingar, sem eigi að baki fyrra hjónaband, bíði oft með að upplýsa börn um nýjan maka, sérstaklega ef um ung börn sé að ræða. Aðstæður kæranda og maka hans séu sérstakar, enda sé hann búsettur í annarri heimsálfu og ekki hafi legið fyrir hvenær hann fengi dvalarleyfi á Íslandi. Upplýst hafi verið í málinu að kærandi og maki hans hafi tilkynnt eldri börnum maka hans um samband sitt árið 2013. Kærandi telur Útlendingastofnun hafa borið að sannreyna þessar upplýsingar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga, en að öðrum kosti leggja þær óbreyttar til grundvallar niðurstöðu sinni. Þess í stað hafi verið horft framhjá þessum skýringum kæranda.

Kærandi telur framlögð gögn um samskipti sín við maka sinn bera glögglega með sér að þau hafi átt í reglubundnum samskiptum, þótt af tæknilegum ástæðum hafi reynst erfitt að leggja fram frekari gögn. Kærandi telur Útlendingastofnun ekki hafa veitt samskiptunum vægi í ákvörðun sinni og látið duga að vísa til samskiptanna án frekari umfjöllunar um þýðingu þeirra.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji að á grundvelli framlagðra gagna leggi meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga þá skyldu á herðar stjórnvöldum að veita honum í hið minnsta tímabundið dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Á þeim tíma ætti Útlendingastofnun að gefast fullnægjandi tækifæri til að staðreyna að um raunverulegan hjúskap sé að ræða. Þá telur kærandi að ef framlögð gögn gefi ekki með fullnægjandi hætti til kynna að um raunverulegan hjúskap sé að ræða komi til skoðunar að hann geri sér sérstaka ferð til Íslands til að koma á fund kærunefndar eða til viðtals hjá Útlendingastofnun, vísi kærunefnd málinu aftur til stofnunarinnar. Telur hann stofnunina að öðrum kosti ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi áréttar jafnframt að hann telji synjun Útlendingastofnunar á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar fela í sér verulega skerðingu á rétti til einkalífs og fjölskyldulífs og ríkar skyldur hvíli á íslenska ríkinu að heimila útlendingum að koma til landsins og dvelja hér á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Í greinargerð er vísað til þess að málsatvikum og sjónarmiðum kæranda sé lýst í umsókn hans, dags. 12. mars 2015 og bréfum til Útlendingastofnunar, dags. 15. júní 2015, 15. janúar 2016 og 4. apríl 2016.

Í bréfi kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2016, er tekið fram að túlkurinn, sem þýddi spurningar Útlendingastofnunar í viðtali sem stofnunin tók við maka kæranda, hafi talað annað hvort mállýskuna [...] eða [...] en umsækjandi tali mállýskuna [...]. Túlkurinn hafi að auki ekki verið löggiltur. Þetta hafi leitt til þess að í nokkrum tilvikum hafi túlkurinn þurft að endurtaka spurningu á ensku og maki kæranda hafi þá einnig svarað spurningum á ensku.

Í bréfinu kemur jafnframt fram að kærandi og maki hans hafi gengið í hjúskap skömmu fyrir efnahagshrun á Íslandi. Kærandi hafi þá haft vinnu og reglulegar tekjur í [...] en óvissa með stöðu mála á Íslandi hafi leitt til þess að þau tóku sameiginlega ákvörðun um að bíða með að sækja um dvalarleyfi þar til efnahagsástandið á Íslandi væri betra og atvinnumöguleikar kæranda meiri. Þau teldu sig ekki geta tekið áhættuna af því að umsækjandi segði upp vinnu og yrði atvinnu- og tekjulaus í lengri tíma eftir komuna til Íslands. Fjárhagslegar ástæður séu einnig fyrir því að kærandi og maki hans hafi ekki hist síðan í brúðkaupsferð sinni. Dýrt sé að ferðast á milli Asíu og Íslands og slíkar ferðir séu almennt í lengri tíma, sem kalli á að taka þurfi ólaunað leyfi úr vinnu. Umframfjármunum sínum hafi þau safnað fyrir komu kæranda til Íslands.

Í bréfi kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 4. apríl 2016, er nánari útlistun á ferðalögum maka kæranda til Asíu á tímabilinu frá hjúskap þeirra. Þær hafi verið farnar með stuttum fyrirvara, í tilteknum tilgangi og allar nema ein greiddar af þriðja aðila. Ferðirnar hafi verið með þeim hætti að ekki hafi verið hægt að koma við ferð til að hitta kæranda, meðal annars vegna kostnaðar. Þá kemur að auki fram í bréfinu að hugbúnaðurinn sem notaður hafi verið til samskipta á milli kæranda og maka hans visti ekki gögn um símtöl og önnur samskipti. Því hafi framlögð útprentun verið einu samskiptin sem mögulegt hafi verið að kalla fram.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Í 1. mgr. 13. gr. laga um útlendinga segir m.a. að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara geti samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

Í 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti slíkur hjúskapur ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004, um breyting á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars og þau þekki ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða til fyrri hjónabanda. Í því sambandi má huga að því hvort sá maki, sem hér dvelst löglega, hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað.

Samkvæmt framansögðu leiðir af 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga að ekki er heimilt að veita dvalarleyfi til maka á grundvelli ákvæðisins þegar rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis. Ef slíkur grunur er fyrir hendi þarf að „sýna fram á annað með óyggjandi hætti“ til að veita megi dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins.

Kærunefnd fellst ekki á með Útlendingastofnun að sá tími sem leið frá því að hjúskap maka kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar lauk og þar til hún stofnaði til hjúskapar með kæranda geti styrkt grun um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis fyrir kæranda, enda benda gögn málsins til að þrjú ár hafi liðið frá því að maki kæranda sleit samvistum við fyrrverandi eiginmann sinn og þar til hún og kærandi gengu í hjúskap. Þá telur kærunefnd fram að sá langi tími sem leið frá því til hjúskapar var stofnað og þar til kærandi sótti um leyfi til dvalar hér á landi almennt vera til þess fallinn að styrkja ályktun um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla slíks leyfis.

Aftur á móti telur kærunefnd að það að kærandi og eiginkona hans hafi ekki hist frá brúðkaupsferð þeirra auk takmarkaðrar þekkingar eiginkonu kæranda á högum kæranda séu nægar forsendur til að lagt verði til grundvallar úrlausn málsins að rökstuddur grunur sé um að hjúskapur kæranda hafi verið stofnaður í þeim tilgangi að afla leyfis til dvalar hér á landi.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hefur kærandi leitast við að sýna fram á að til hjúskapar kæranda og maka hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis. Kærandi hefur m.a. fært fram þær skýringar að efnahagsástandið á Íslandi hafi valdið því að kærandi hafi frestað umsókn sinni um dvalarleyfi og að kostnaður hafi komið í veg fyrir ferðalög svo leiðir þeirra gætu legið saman. Í því sambandi hafi ferðir maka kæranda á því tímabili sem þau voru skráð í hjúskap verið í sérstökum tilgangi og greiddar af öðrum. Þá hefur kærandi skýrt skort á svörum um hvort maki hennar ætti börn skýrast af tungumálaörðugleikum og að skortur á gögnum um rafræn samskipti þeirra verði skýrður af því að hugbúnaðurinn sem notaður var til samskipta á milli kæranda og maka hans visti ekki gögn um símtöl og önnur samskipti.

Í máli þessu liggur fyrir hjúskaparvottorð, myndir af kæranda og eiginkonu hans frá árinu 2007 og gögn sem sýna samskipti milli kæranda og maka hans frá 25. desember 2015 til 12. janúar 2016, auk skýringa sem maki kæranda veitti hjá Útlendingastofnun. Þegar þessi gögn eru virt heildstætt er það niðurstaða kærunefndar að þau sýni ekki með óyggjandi hætti að til hjúskapar kæranda og eiginkonu hans hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis.

Í greinargerð sinni vísar kærandi til réttarins til einkalífs og fjölskyldu. Sá réttur nýtur meðal annars verndar 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Skylda ríkisins til að virða, vernda og tryggja réttinn til einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans, metin í þessu ljósi, felur ekki í sér almenna skyldu til að virða val hjóna eða sambúðarfólks á dvalarríki. Þá felur 8. gr. sáttmálans almennt ekki í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn einstaklings um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu sbr. meðal annars dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Antwi ofl. gegn Noregi (mál nr. 26940/10) frá 12. febrúar 2012 og Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi (mál nr. 9214/20, 9473/81, 9474/81) frá 28. maí 1985. Verður samkvæmt ofangreindu ekki talið að synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi brjóti gegn rétti hans eða maka hans til friðhelgi einkalífs eða fjölskyldu skv. 71. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi ber því við að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga leggi þá skyldu á herðar stjórnvöldum að veita honum í hið minnsta tímabundið dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga felst krafa um að stjórnvöld gæti hófs í meðferð valds síns. Samkvæmt ákvæðinu skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar því lögmæta markmiði, sem stefnt er að, verður ekki náð með öðrum og vægari hætti. Meðalhófsreglan felur ekki í sér skyldu til að veita dvalarleyfi á öðrum grundvelli en samkvæmt umsókn og kemur því ekki til skoðunar í málinu hvort skilyrði 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi.

Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga felur í skyldu fyrir stjórnvöld að rannsaka það mál sem ákvörðun snýr að og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik. Í reglunni fellst aftur á móti ekki að stjórnvöld verði sjálf að afla allra upplýsinga. Þegar um er að ræða mál sem hefjast að frumkvæði aðila, t.a.m. með umsókn um dvalarleyfi, getur stjórnvald beint þeim tilmælum til aðila að leggja fram gögn. Kærunefndin telur Útlendingastofnun hafa beint þeim tilmælum til kæranda að veita upplýsingar og leggja fram þau gögn sem nauðsynleg megi teljast og má með sanngirni ætla að honum sé fært að leggja fram. Kærunefnd telur Útlendingastofnun því hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fallast beri á með Útlendingastofnun að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til þess eins að afla kæranda dvalaleyfis. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins fellst kærunefndin einnig á það með stofnuninni að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti. Það er því mat kærunefndar að umræddur hjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga.

Að framansögðu virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggavdóttir, varaformaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                 Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum