Hoppa yfir valmynd
15. mars 2022 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 116/2022 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 15. mars 2022

í máli nr. 116/2021

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A. Umboðsmaður sóknaraðila er C lögmaður.

Varnaraðili: B. Umboðsmaður varnaraðila er D lögmaður.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að honum sé heimilt að fá greidda vangreidda leigu að fjárhæð 120.000 kr. úr tryggingu hans samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu Íslandsbanka hf. Einnig er óskað viðurkenningar á því að tryggingin nái til lögboðinna dráttarvaxta og kostnaðar sem sóknaraðili hafi haft af innheimtu kröfunnar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir varnaraðili kröfu um greiðslu málskostnaðar á grundvelli 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Með kæru, dags. 18. nóvember 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 9. desember 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 10. janúar 2022, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 12. janúar 2022. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 18. janúar 2022, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 26. janúar 2022, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 27. janúar 2022. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 18. febrúar 2022, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 21. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. október 2020 til 30. september 2021 um leigu varnaraðila á einbýlishúsi sóknaraðila að E. Ágreiningur er um hvort varnaraðila hafi verið heimilt að halda eftir hluta leigu um þriggja mánaða skeið á leigutíma á þeirri forsendu að ástandi hins leigða húsnæðis hafi verið ábótavant.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst hafa eignast hina leigðu eign með kaupsamningi, dags. 11. janúar 2021, og þar með tekið yfir tímabundinn leigusamning við varnaraðila sem hafi lokið 30. september 2021. Varnaraðili hafi við upphaf leigutíma lagt fram tryggingu að fjárhæð 570.000 kr. en sóknaraðili hafi að öllu gengið inn í réttindi og skyldur upphaflegs leigusala.

Umsamið leiguverð hafi verið 285.000 kr. á mánuði. Húsið hafi verið 51% í eigu dánarbús og 49% í eigu einstaklinga sem búi úti á landi. Það hafði staðið autt í nokkur ár og verið í þónokkurn tíma á sölu. Varnaraðila hafi verið kunnugt um þetta, enda getið um fyrirhugaða sölu í leigusamningnum. Varnaraðila hafi mátt vera ljóst að húsið þarfnaðist lagfæringa og hafi erfingjar og eigendur upplýst að þau myndu ekki gera lagfæringar fyrir sölu. Varnaraðili hafi skoðað húsið vel og vandlega áður en hann hafi tekið það á leigu. Við skoðun hafi það verið autt og án húsgagna. Við skoðunina hafi varnaraðili ekki gert athugasemdir við ástand hússins en fyrri eigendur hafi lofað að setja skrár og hurðarhúna á innihurðir. Að öðru leyti hafi húsið verið leigt í því ástandi sem það hafi verið í við skoðun.

Eftir afhendingu, eða 2. október 2020, hafi varnaraðili gert athugasemdir við ástand hins leigða. Flestar þeirra hafi varðað atriði sem hafi verið sjáanleg við skoðun og umsamið ástand eignarinnar en einnig hafi verið atriði sem erfingum í dánarbúinu hafði verið ókunnugt um. Þeir hafi brugðist við og skipt um sturtu og sturtuklefa og lokað öllum rafmagnsdósum. Þessum lagfæringum hafi lokið í byrjun desember 2020 en þær hafi staðið yfir í nokkrar vikur með fullri vitund varnaraðila þar sem tekið hafi tíma að fá iðnaðarmenn til starfa.

Þrátt fyrir þetta hafi varnaraðili einhliða ákveðið að greiða 40.000 kr. lægri leigu fyrir desember 2020. Hann hafi ekki nýtt sér heimild til að ráða sjálfur bót á meintum annmörkum og dregið frá leigunni þann kostnað sem af þeim hefði hlotist með samþykki úttektaraðila. Hann hafi heldur ekki fengið mat úttektaraðila á hlutfallslegri lækkun leigunnar vegna meintra vanefnda leigusala og eigi varnaraðili því ekki rétt til hlutfallslegrar lækkunnar á leigu. Varnaraðili hafi ekkert lagt fram sem sýni að hann hafi borið kostnað af því að hafa bætt úr annmörkum heldur sé um að ræða einhliða ákvörðun af hans hálfu um lækkun og þá þrátt fyrir að eigendur hafi bætt úr því sem hann hafi kvartað undan. Var þessu mótmælt af hálfu leigusala og varnaraðili krafinn um eftirstöðvar leigugjalds með tölvubréfi frá lögmanni leigusala en hann varð ekki við áskorun um greiðslu.

Varnaraðili hafi aftur vanefnt leigusamninginn 1. febrúar og 1. mars 2021 þar sem hann hafi greitt 40.000 kr. lægri leigu í hvort skipti. Hann hafi ekki sent neinar tilkynningar vegna þessa. Honum hafi verið send innheimtuviðvörun og greiðsluáskorun 17. mars 2021 sem hann hafi ekki brugðist við. Þá hafi hann ekki greitt leigu 1. september 2021. Þann 21. október hafi honum verið send tilkynning um að sóknaraðili gerði kröfu í tryggingu hans.

Varnaraðili hafi hafnað kröfunni að hluta 2. nóvember 2021 í tölvupóstsamskiptum við bankann. Hann hafi hafnað öllum kröfum nema ógreiddri leigu, að fjárhæð 285.000 kr. 1. september 2021. Varnaraðili hafi hvorki fært rök fyrir höfnuninni né framvísað gögnum sem sýndu útlagðan kostnað vegna lagfæringa á hinu leigða.

Varnaraðili hafi vanefnt leigusamninginn með því að greiða ekki umsamda leigu á lögákveðnum gjalddaga, sbr. 1. mgr. 33. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Þar sem varnaraðili hafi ekki greitt leiguna að fullu beri honum að greiða hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilunum í samræmi við 4. mgr. 33. gr. húsaleigulaga. Jafnframt sé á því byggt að varnaraðila beri að greiða kostnað af innheimtu leigunnar sem varnaraðili hafi vanefnt með ólögmætum hætti.

Leigusali hafi lagfært það sem lofað hafi verið fyrir samningsgerðina með því að setja skrár í innihurðir, hurðarhúna og yfirfara allar innihurðir. Jafnframt hafi leigusali þegar brugðist við öðrum athugasemdum og bætt hafi verið úr öðrum annmörkum eins fljótt og unnt hafi verið og innan tímamarka. Leigusali hafi ekki vanefnt samning aðila og ekkert liggi fyrir sem sýni það eða sanni. Þá hafi varnaraðili ekki átt rétt á því að leigusali bætti úr athugasemdum varnaraðila sem hafi verið sýnilegir við skoðun hússins.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að við upphaf leigutíma hafi þeim hjónum verið tjáð að húsnæðið hefði ekki verið í notkun í langan tíma, það væri í eigu dánarbús en yrði tekið í gegn svo að það yrði hæft til leigu. Það hafi þó ekki gengið eftir og þegar þau hafi flutt inn hafi þau séð að ekkert hafði verið gert og húsnæðið því að verulega leyti óíbúðarhæft og allt að því hættulegt. Það hafi ekki verið fyrr en barn þeirra hafi fengið rafstuð af óvarðri innstungu og eftir að þau höfðu verið án sturtu svo vikum skipti að leigusali hafi gert eitthvað í málinu. Sett hafi verið lok á eina innstungu, göt í veggjum hafi verið löguð og sturtunni verið skipt út fyrir nýja þannig að þau hafi loks verið með nothæft baðherbergi. Á þessum tíma hafi þau verið viss um að gengið yrði frá því sem hafi átt eftir að laga svo að húsnæðið yrði íbúðarhæft en það hafi þó ekki gerst. 

Engum tölvupóstum hafi verið svarað. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við lækkaða leigu mánuðum saman. Enn fremur hafi varnaraðili ekki lesið annað úr svarpósti lögmanns sóknaraðila en að honum væri heimilt að lækka leigu á móti endurbótum á húsnæðinu. Þá hafi skilningur varnaraðila á húsaleigulögum verið sá að hann gæti haldið eftir hluta leigunnar ef hann gerði við nauðsynlega hluti húsnæðisins og aðilar sammæltust um það sem, líkt og fyrr greini, varnaraðili hafi talið lögmann sóknaraðila hafa gert. Þó hafi varnaraðili beðið í tvo mánuði eftir samþykki áður en hann hafi ráðist í endurbætur. Varnaraðili eigi enn erfitt með að skilja að einhver leigi út húsnæði í því ástandi sem það hafi verið í, án þess að ætla að laga það þannig að það verði að minnsta kosti íbúðarhæft sem varnaraðili hafi talið víst að ætti að gera. Ofnar hafi ekki verið í lagi, mygla hafi fundist víðsvegar, gólfflísar hafi verið brotnar og ekki hafi verið hægt að loka hurðum almennilega. Þá hafi öðrum öryggisatriðum verið ábótavant. 

Varnaraðili hafi ekki samþykkt að leigja húsnæðið í því ástandi sem það hafi verið í en hann hafi leigt leigt það með þeim fyrirvara að það yrði gert íbúðarhæft. Hann hafi verið lokkaður til að undirrita leigusamning á fölskum forsendum. Þá hafi leiga fyrir septembermánuð verið greidd eftir að sóknaraðili hafi haft samband við bankann og fengið hana greidda úr tryggingunni.

Telja verði að 120.000 kr. í frádrátt frá leigu sé lág fjárhæð fyrir um 40 vinnustundir, kaup á nýjum lásum og hurðarhúnum, fjarlægingu á myglu, þéttingu glugga, setningu raflagnaefnis á innstungur, lagfæringu á ofnum og slysagildrum, svo sem brotnum gólflísum og ónýtu gólfefni, og svona mætti lengi telja. Það hafi einfaldlega ekki verið hægt að nota húsnæðið líkt og leigusamningur hafi gert ráð fyrir heldur hafi það verið óíbúðarhæft. Varnaraðili byggi á 5. mgr. 17. gr. húsaleigulaga. Einnig sé vísað til yfirlýsingar lögmanns sóknaraðila. Þá hafi lögmaður sóknaraðila ofreiknað vexti, krafist greiðslu fyrir bréf sem varnaraðila hafi aldrei borist, auk þess að leggja of háan innheimtukostnað á tilhæfulausar kröfur.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila er greinargerð varnaraðila harðlega mótmælt þar sem farið sé með ósannindi og rangar fullyrðingar. Það sé þó rétt að fyrir samningsgerðina hafi varnaraðila verið tjáð að húsnæðið hefði ekki verið notað í langan tíma. Þá hafi hann vitað að húsnæðið væri í söluferli, enda hafi hann fyrst verið að velta fyrir sér að kaupa það í stað þess að leigja. Þannig hafi varnaraðili krafist þess og fengið því framgengt að fá forkaupsrétt að húsinu. Fasteignasalinn hafi þá sent varnaraðila bréf til að inna hann eftir því hvort hann hygðist nýta forkaupsréttinn sem hann hafi ekki gert.

Þannig hafi varnaraðila verið ljóst, eins og hann raunar viðurkenni, að húsið væri í upprunalegu ástandi og þarfnaðist endurnýjunar og lagfæringa, sbr. söluyfirlit um eignina. Það sé aftur á móti rangt og ósannað að sóknaraðili (upphaflegur leigusali) hafi lofað að taka eignina í gegn fyrir leigu umfram það sem áður hafi verið minnst á.

Sóknaraðili hafi bætt úr því sem varnaraðili hafi kvartað undan innan sanngjarns tíma. Engin gögn liggi fyrir sem sýni eða sanni að varnaraðili hafi kvartað undan ástandi hins leigða eftir það. Sóknaraðili hafi ekki séð ástæðu til að verða við kröfu varnaraðila um nokkur atriði, eins og til dæmis að það væru holur í malarinnkeyrslu hússins.

Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að öllum tölvupóstum varnaraðila hafi ekki verið svarað en ekki komi fram í málsgögnum hverjum hann hafi sent þá. Lögmaður sóknaraðila svari alltaf tölvupóstum varnaraðila, enda tilgreindur umboðsmaður hans í leigusamningnum.

Þá sé rangt og ósannað að lögmaðurinn hafi upplýst varnaraðila um að hann gæti haldið eftir hluta leigunnar ætlaði hann að gera nauðsynlega hluti í húsnæðinu. Hið rétta sé að varnaraðili hafi verið upplýstur um að réðist hann í lagfæringar gæti hann lækkað leiguna sem næmi viðgerðarkostnaði, sinnti sóknaraðili ekki áskorunum hans um úrbætur, sem sóknaraðili hafi aftur á móti gert eins og áður hafi komið fram.

Það sé einnig rangt að varnaraðili hafi beðið í tvo mánuði eftir að fá almennilegt samþykki áður en hann réðist í endurbætur, enda liggi fyrir að sóknaraðili hafi lagfært það sem varnaraðili hafi kvartað undan en ekki varnaraðili sjálfur. Ekkert liggi fyrir sem sýni eða sanni að hann hafi lagt út kostnað við endurbætur á  húsnæðinu. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili ákveðið að lækka leiguna að eigin álitum og upp á sitt einsdæmi.

Ítrekað sé að framsal fyrri eiganda á leigusamningnum og kröfu vegna vanskila sé í samræmi við leigusamning, húsaleigulög og góðar venjur.

Samkvæmt 4. mgr. 33. gr. húsaleigulaga sé leigusala heimilt að krefjast hæstu lögleyfðu dráttarvaxta vegna vanskila leigjanda. Fyrir liggi að varnaraðili hafi vanefnt leigusamninginn og hafi sóknaraðila því verið nauðsynlegt að leita til lögmanns en því sé haldið fram að innheimtuþóknun, sem krafist sé, sé mjög hófleg en vegna ágreinings sem varnaraðili hafi uppi hafi farið mikil vinna í þetta mál. Sé ávirðingu um ofreikning á dráttarvöxtum og kostnaði mótmælt sem tilhæfulausri og ósannaðri.

Það sé rangt og ósannað að varnaraðili hafi tekið húsnæðið á leigu með þeim fyrirvara að það yrði gert íbúðarhæft, en þeirri fullyrðingu um ástand hússins sé jafnframt mótmælt. Ekkert liggi fyrir um að varnaraðili hafi gert fyrirvara og hvað þá að hann hafi verið lokkaður til að undirrita leigusamning á fölskum forsendum. Varnaraðila hafi verið fullkunnugt um hvað hann væri að undirrita, enda hafi hann haft uppi ýmis ákvæði sér til hagsbóta, til dæmis forkaupsrétt og að nýr ótímabundinn samningur tæki við hinum tímabundna með sex mánaða uppsagnarákvæði.

Þá sé mótmælt tilhæfulausum fullyrðingum varnaraðila um að hann hafi eytt um 40 vinnustundum eða lagt út fyrir kostnaði vegna viðgerða í húsinu. Varnaraðili hafi hvorki framvísað kvittunum fyrir útlögðum kostnaði né krafið sóknaraðila um lækkun á leigu vegna vinnu við lagfæringar.

Þá sé einnig rangt að varnaraðila hafi aldrei borist innheimtubréf, enda hafi það verið sent í ábyrgð og afhent varnaraðila sjálfum. Varnaraðili hafi síðan ákveðið að ná ekki í ábyrgðarbréfið, sem hafi verið sent á lögheimili hans, með tilkynningu um að sóknaraðili geri kröfu í trygginguna sem hafi verið sent 21. október 2021. Það breyti því ekki að tilkynningin hafi verið send í samræmi við ákvæði 13. gr. húsaleigulaga.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir að um leigusamning aðila gildi ákvæði húsaleigulaga þar sem varnaraðli hafi ekki á neinum tímapunkti samþykkt að leigusamningur eða kröfur fyrri leigusala skyldu framseldar til sóknaraðila. Því sé til staðar aðildarskortur í málinu. Sóknaraðili byggi eingöngu á kröfum sem fyrri leigusali telji sig ranglega eiga á hendur varnaraðila. Hann sé ekki aðili máls þessa, auk þess sem varnaraðili telji sig eiga hærri gagnkröfur vegna leigusamnings sem ágreiningsefni þessa máls taki til.

Til viðbótar við aðildarskort sé á því byggt að kröfur sóknaraðila séu rangar og ósannaðar. Enn fremur sé á því byggt að varnaraðili eigi umtalsvert hærri kröfu til skuldajafnaðar gegn fyrri leigusala sem nýr leigusali telji sig eiga í dag.

Þá sé á því byggt að kæran sé bersýnilega tilefnislaus. Henni hafi fylgt óþægindi og varnaraðili þurft að eyða óþarfa tíma til þess að verjast kröfum sóknaraðila ásamt því að valda honum nú fjártjóni. Því sé farið fram á málskostnað á grundvelli 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga.

Af málsgögnum megi ráða að kröfur sóknaraðila eigi sér ekki stoð og að gagnkröfur varnaraðila séu umtalsvert hærri vegna ágreinings aðila um umræddan leigusamning sem kröfur sóknaraðila byggi á.

VI. Niðurstaða            

Til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila lagði varnaraðili fram ábyrgðaryfirlýsingu banka sem nemur 570.000 kr. Deilt er um hvort sóknaraðila sé heimilt að ganga að tryggingunni vegna vangreiddrar leigu, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.

Í 7. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingu eða ábyrgð samkvæmt 1.-3. og 6. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Í 8. mgr. sömu greinar segir að geri leigusali kröfu í tryggingu eða ábyrgð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins samkvæmt 7. mgr. skuli leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafni eða fallist á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar. Hafni leigjandi kröfu leigusala beri leigusala að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni, ella fellur trygging eða ábyrgð úr gildi.

Samkvæmt leigusamningi aðila var mánaðarleg leiga ákveðin 285.000 kr. Óumdeilt er að varnaraðili greiddi 40.000 kr. lægri leigu en leigusamningur gerði ráð fyrir 1. desember 2020, 1. febrúar 2021 og 1. mars 2021, samtals 120.000 kr. Þá greiddi hann ekki leigu fyrir september 2021 en leigutíma lauk 30. þess mánaðar. Með bréfi, dags. 21. október 2021, gerði sóknaraðili kröfu í tryggingu varnaraðila vegna hinnar vangreiddu leigu. Með tölvupósti bankans 9. nóvember 2021 var sóknaraðili upplýstur um að varnaraðili hefði hafnað kröfunni að undanskilinni leigu vegna september 2021. Málinu var vísað til kærunefndar húsamála 18. nóvember 2021 og þar með innan lögbundins frests, sbr. 8. mgr. 40. gr. húsaleigulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. húsaleigulaga skal greiða húsaleigu fyrsta dag hvers mánaðar fyrir fram fyrir einn mánuð í senn nema um annað sé samið. Í 4. mgr. sömu greinar segir að nú hafi leigjandi eigi gert skil á leigunni innan sjö sólarhringa frá gjalddaga og sé þá leigusala rétt að krefjast hæstu lögleyfðu dráttarvaxta af henni til greiðsludags.

Með tölvupósti, dags. 7. desember 2020, upplýsti lögmaður upphaflegs leigusala varnaraðila um að væri húsnæðið ekki í því ástandi sem almennt væri talið fullnægjandi gæti hann lagað það eða látið laga það, léti leigusali það ógert í kjölfar athugasemda varnaraðila. Þá væri honum heimilt að lækka leiguna sem næmi kostnaði vegna þessa. Með tölvupósti 31. desember 2021 upplýsti varnaraðili upphaflegan leigusala um að hann hefði greitt 40.000 kr. lægri leigu fyrir desember og að hann myndi halda áfram að gera það þar til hann tæki ábyrgð á skyldum sínum. Áður hafði varnaraðili gert ýmsar athugasemdir við hið leigða og krafist úrbóta. Með tölvupósti 6. janúar 2021 gerði upphaflegur leigusali kröfu á hendur varnaraðila um að hann greiddi það sem vantaði upp á leigu desembermánaðar.

Með bréfi, dags. 15. mars 2021, upplýsti sóknaraðili varnaraðila um að hann væri nýr eigandi hússins og að eftirleiðis bæri að greiða leigu inn á reikning hans. Með bréfi, dags. 17. mars 2021, sendi sóknaraðili greiðsluáskorun vegna vangreiddrar leigu fyrir desember, febrúar og mars að fjárhæð 120.000 kr. sem varnaraðili brást ekki við. Varnaraðili byggir á því að ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi eignast rétt til leigugreiðslna sem fallið hafi í gjalddaga áður en hann fékk hið leigða afhent. Kærunefnd telur að hér beri að líta til 13. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002, þar sem segir að seljandi eigi rétt á arði af fasteign fram að afhendingu hennar til kaupanda. Þar sem sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn um að annað hafi gilt í fasteignaviðskiptum hans og upphaflegs leigusala, telur kærunefnd að sóknaraðili geti ekki talist eigandi meintrar kröfu upphaflegs leigusala á hendur varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að fallast á kröfu hans í málinu.

Í 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga segir að sé kæra bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndarinnar geti nefndin gert sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað. Kærunefnd telur ekkert benda til þess að um bersýnilega tilefnislausa kæru hafi verið að ræða af hálfu sóknaraðila og verður því ekki fallist á málskostnaðarkröfu varnaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

Málskostnaðarkröfu varnaraðila er hafnað.

 

 

Reykjavík, 15. mars 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum