Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 522/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 522/2021

Fimmtudaginn 3. febrúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. október 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2021, um að synja umsókn fyrirtækisins um ráðningarstyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna ráðningar tiltekins starfsmanns til fyrirtækisins. Umsókn kæranda var synjað með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2021, á þeirri forsendu að starfsmaðurinn hefði þegar hafið störf hjá fyrirtækinu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. október 2021. Með bréfi, dags. 7. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með erindum úrskurðarnefndar 27. október og 17. nóvember 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 6. desember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. desember 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun þess efnis að A eigi ekki rétt á styrk í gegnum „Hefjum störf“ átakið verði snúið og að veittur verði styrkur til sex mánaða. Kærandi tekur fram að hún hafi opnað verslun á C í júlí 2021 undir nafninu D. Þar sem mikill vörulager hafi verið til staðar hafi kærandi ákveðið að opna verslun á E og séð fyrir sér að það gengi upp án mikils tilkostnaðar. Til þess hafi hún þurft að fá styrk vegna verslunarstjórans líkt og hún hafði fengið fyrir D. Þann 30. júlí 2021 hafi hún fyrst haft samband við Vinnumálastofnun með tölvupósti og sagst óska eftir að sækja um styrk fyrir ákveðinn starfsmann. Kærandi hafi fengið staðlað svar og bent á leiðbeiningar á heimasíðunni. Kæranda hafi gengið erfiðlega að skilja þessar leiðbeiningar og því sent marga pósta til Vinnumálastofnunar sem og hringt til að reyna að koma réttri umsókn í gang. Loks hafi hún fengið góða hjálp og stofnað starf 21. september 2021. Verslunin hafi opnað 9. ágúst 2021 og verslunarstjórinn hafið störf 3. ágúst 2021. Þegar kærandi hafi loks náð að koma réttum reikningi í gegnum þetta umsóknarferli hafi henni verið hafnað á þeim forsendum að hún hafi skráð starfið eftir að hún hafi ráðið starfsmanninn. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að kærandi hafi verið búin að vera í samskiptum við stofnunina síðan í júlí út af þessum ákveðna starfsmanni.

Kærandi vísar til þess að hún sé nú með sex starfsmenn í starfi hjá A en verslunarstjórinn sé dýrasti starfsmaðurinn. Til þess að ná saman endum sé nauðsynlegt fyrir kæranda að fá meðbyr með henni. Verslunarstjórinn sé búin að vera atvinnulaus síðan í febrúar. Hún sé fædd árið X og að hennar sögn hafi hún alls staðar komið að lokuðum dyrum þegar hún hafi verið að sækja um vinnu. Verslunarstjórinn sé ánægð í sínu starfi og kærandi sé ánægð með hana. Það geti ekki verið að það borgi sig fyrir Vinnumálastofnun að kærandi þurfi að láta hana fara til að lækka launakostnað og að hún fari aftur á atvinnuleysisbætur. Kærandi bendi á að það sé ekki allra að skilja leiðbeiningar sem fram komi á skjali eða myndbandi. Sem dæmi hafi hvergi komið fram hvert hún ætti að senda reikning og því hafi hún fengið slóð á þá vefsíðu. Kærandi hafi verið í samskiptum við Vinnumálastofnun, bæði símleiðis og með tölvupósti, og alltaf hafi henni verið bent á að fara eitt skref aftur á bak til að komast eitt skref áfram. Það sé alveg ljóst að hún hafi verið í samskiptum við Vinnumálastofnun áður en hún hafi ráðið verslunarstjórann en samkvæmt starfsmönnum stofnunarinnar sé um formsatriði að ræða. Á innan við sex mánuðum sé kærandi með 10 starfsmenn á launum hjá tveimur verslunum sem hún hafi opnað árið 2021. Kærandi telji að hún sé að leggja sitt af mörkum í þessu Covid ástandi eins og það hafi verið. Til þess að geta haldið sinni áætlun sé nauðsynlegt að þessari ákvörðun verði snúið við.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að verslunarstjórinn falli klárlega undir þau skilyrði sem starfsmaður þurfi að uppfylla í „Hefjum störf“. Fyrirtæki kæranda hafi verið stofnað í júlí 2021 og opnað í ágúst 2021. Starfsmenn hafi því farið úr engum starfsmanni í sex með þeim sem gegni hlutastarfi. Fyrirtækið falli því klárlega undir þessi skilyrði sem fyrirtæki þurfi að uppfylla í „Hefjum störf“. Þá leiki ekki vafi á því að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun áður en verslunin hafi opnað með það vandamál að hún skildi ekki hvernig þetta ferli virkaði. Kæranda hafi verið leiðbeint með stuttum svörum fram í september, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir við tímasetningu, skráningu eða nokkuð annað. Þegar allt hafi loks verið komið í rétta röð sé henni sagt að það hafi liðið of langur tími frá opnun og þangað til þetta hafi gengið í gegn. Kærandi bendi á að Vinnumálastofnun hafi haft 14 daga til að svara kærunni. Það hafi tekið rúma tvo mánuði sem sýni best hve gríðarlega mikið álag sé á starfsmönnum og stofnuninni. Ef starfsmenn hefðu haft meiri tíma til að aðstoða í upphafi, hvort sem er í tölvupósti eða með símtali í stað þess að senda bara aftur slóð á auglýsingu sem kærandi hafi ekki alveg skilið, hefði þetta verið afgreitt strax í upphafi. Nú á Covid tímanum þegar ferðamenn séu ekki að heimsækja landið sé nauðsynlegt að fyrirtæki geti fengið þá aðstoð sem í boði sé og það hafi kærandi treyst á þegar hún hafi opnað verslunina að E. Verslunarstjórinn sé dýrasti starfsmaðurinn og einnig sá eini sem sótt hafi verið um styrk fyrir af þeim sex sem vinni hjá fyrirtækinu. Það sé nauðsynlegt fyrir kæranda að fá styrk með verslunarstjóranum til að halda henni í vinnu og í þessari óvissu sem enn sé í samfélaginu velti framtíð verslunarinnar hreinlega á því að hún fái meðbyr. Það hljóti að vera hagstæðara fyrir alla aðila að halda verslunarstjóranum frá atvinnuleysisbótum og í starfi hjá fyrirtækinu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 30. júlí 2021 hafi stofnuninni borist fyrirspurn frá kæranda þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvernig ætti að skrá starf og sækja um ráðningarstyrk. Kærandi hafi verið með tiltekinn atvinnuleitanda í huga sem ætti að hefja störf sem fyrst. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 4. ágúst 2021 þar sem veittar hafi verið leiðbeiningar um hvernig skyldi bera sig að við að skrá störf inn á „Mínar síður“ stofnunarinnar, auk leiðbeininga vegna ráðningarstyrks. Þann 6. september 2021 hafi borist tölvupóstur frá kæranda þess efnis að hún hafi ætlað að skrá reikning vegna starfsmanns sem hún hafi ráðið en fyndi ekki rafræna reikninga á síðunni. Vinnumálastofnun hafi svarað erindi kæranda þann sama dag og hafi kæranda verið sendur tengill inn á síðu stofnunarinnar þar sem finna mætti allar upplýsingar um rafræna reikninga. Fyrir liggi að kærandi hafi skráð starf í gegnum „Mínar síður“ Vinnumálastofnunar þann 21. september 2021. Kærandi hafi verið upplýst um að sá atvinnuleitandi sem hún óskaði eftir að ráða uppfyllti skilyrði um ráðningarstyrk. Til að ljúka málinu hafi verið óskað eftir að ráðningarsamningi yrði skilað inn í gegnum „Mínar síður“ atvinnurekanda. Ráðningarsamningur hafi borist stofnunnin þann 24. september 2021. Sama dag hafi stofnunin gert athugasemdir við framlagðan ráðningarsamning. Á ráðningarsamning þurfi að tilgreina vinnufyrirkomulag, þ.e. hvort um sé að ræða dagvinnu eða vaktavinnu, auk þess sem tilgreina þurfi hvaða kjarasamningur liggi til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins. Stofnunin hafi því óskað eftir úrbótum í samræmi við framangreint. Þann 28. september hafi kærandi verið upplýst um að stofnunin hefði móttekið reikning vegna vinnumarkaðsúrræðisins „Hefjum störf“. Kæranda hafi verið leiðbeint um að nauðsynlegt væri að skila inn framangreindum gögnum og hafi hún fengið sendan tengil á vefsíðu stofnunarinnar þar sem fram komu uppgjörsleiðbeiningar vegna ráðningarstyrkja. Með erindi, dags. 4. október 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri hægt að samþykkja ráðningarstyrk þar sem atvinnuleitandi hefði þegar hafið störf en grunnskilyrði fyrir greiðslu ráðningarstyrks væri að atvinnurekendur myndu skrá starf hjá Vinnumálastofnun og ganga frá ráðningu áður en atvinnuleitandi hæfi störf. Kærandi hafi svarað erindi stofnunarinnar sama dag og borið fyrir sig að hafa verið í samskiptum við stofnunina frá 30. júlí 2021 vegna umsóknar um ráðningarstyrk en að tímarammi hefði hvergi komið fram í þeim samskiptum. Þá segi í erindi kæranda að hún hafi treyst á úrræðið og að hún vilji ekki standa frammi fyrir því að þurfa að láta starfsmanninn fara.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Reglugerð nr. 918/2020 gildi um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum sem og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum.

Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna greiðslu ráðningarstyrks þar sem atvinnuleitandi hafði þegar hafið störf hjá kæranda þegar umsókn um styrk hafi borist stofnuninni. Ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Samkvæmt því ákvæði sé eitt af grunnskilyrðum fyrir greiðslu ráðningarstyrks til atvinnurekenda að atvinnuleitandi sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Að auki sé það skilyrði samkvæmt reglugerð að ráðning feli í sér aukningu á starfsmannafjölda og að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki á síðastliðnum 12 mánuðum. Fyrir liggi að kærandi hafi sótt um ráðningarstyrk til Vinnumálastofnunar þann 21. september 2021 og umsókn hafi verið hafnað þar sem atvinnuleitandi hafi þegar hafið störf hjá fyrirtæki kæranda, þ.e. frá og með 3. ágúst 2021. Kærandi hafi borið fyrir sig að hafa verið í samskiptum við Vinnumálastofnun frá 30. júlí 2021 vegna slíkrar umsóknar en að Vinnumálastofnun hefði ekki veitt réttar leiðbeiningar og því hafi fyrirtækið ekki lokið við að sækja um úrræðið og skrá starf fyrr.

Vinnumálastofnun tekur fram að atvinnurekendum, sem ætli sér að sækja um ráðningarstyrk, beri að kynna sér vel þær reglur er gildi um úrræðið. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar og í leiðbeiningum um gerð ráðningarstyrkja komi fram að atvinnurekendur þurfi að ganga frá þríhliða samningi áður en atvinnuleitandi hefji störf. Atvinnurekanda hafi því átt að vera það fyllilega ljóst í upphafi að starfsmaður mætti ekki hefja störf áður en gengið væri frá fyrrnefndum samningi og þá fyrst væri unnt að sækja um styrk. Fyrirtækið hafi ekki farið eftir þeim leiðbeiningum og starfsmaður hafið störf hjá fyrirtækinu áður en umsókn og umbeðin gögn hafi borist Vinnumálastofnun. Það hefðu liðið tveir mánuðir frá því að atvinnuleitandi hóf störf og þar til atvinnurekandi hafi sótt um styrk hjá stofnuninni. Þar sem atvinnuleitandi hafi þegar verið við störf hjá fyrirtækinu þegar umsókn hafi borist stofnuninni hafi engar forsendur verið fyrir því að gera samning um styrk til handa fyrirtækinu vegna ráðningar á viðkomandi starfsmanni. Meðal skilyrða fyrir greiðslu styrks sé að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir atvinnumissi og að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis. Þá sé það skilyrði að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki á síðastliðnum 12 mánuðum. Framangreind skilyrði hafi ekki verið uppfyllt þegar kærandi hafi sótt um ráðningarstyrk í september 2021 og því hafi umsókn kæranda verið hafnað.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna skuli umsókn kæranda um ráðningarstyrk.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um ráðningarstyrk samkvæmt reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda sem tryggður er innan atvinnuleysistryggingakerfisins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eitt af þeim skilyrðum er að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum á síðastliðnum 12 mánuðum, sbr. b-liður 5. mgr. 9. gr.

Í máli þessu háttar svo til að kærandi réð tiltekinn starfsmann til starfa hjá fyrirtækinu og hóf viðkomandi störf 3. ágúst 2021. Þann 21. september 2021 skráði kærandi starfið hjá Vinnumálastofnun og sendi ráðningarsamning til stofnunarinnar. Kæranda var tilkynnt að ekki væri hægt að samþykkja ráðningarsamninginn þar sem ganga þyrfti frá ráðningu áður en atvinnuleitandi hæfi störf.

Kærandi hefur vísað til þess að Vinnumálastofnun hafi ekki veitt henni fullnægjandi leiðbeiningar þegar hún leitaði til stofnunarinnar. Fyrir liggur að kærandi sendi Vinnumálastofnun erindi 30. júlí 2021 og óskaði eftir leiðbeiningum um skráningu starfsmanns og umsókn um styrk. Kæranda var svarað þann 4. ágúst 2021 og bent á ákveðnar leiðbeiningar á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar kom þar skýrt fram að atvinnurekanda bæri að fylla út umsókn um ráðningarstyrk á „Mínum síðum“ atvinnurekanda og skrá tiltekið starf. Þá kom fram að atvinnuleitandi ætti ekki að hefja störf fyrr en búið væri að ganga frá þríhliða samningi um ráðningarstyrk við atvinnuráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þrátt fyrir að í tölvupóstinum frá 4. ágúst 2021 hafi ekki verið sérstaklega tilgreint um þau tímamörk hefði kæranda átt að vera það ljóst af lestri leiðbeininganna.

Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðar nr. 918/2020 þarf ráðning atvinnuleitanda að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis. Þar sem starfsmaður kæranda hóf störf áður en sótt var um ráðningarstyrk var það skilyrði ekki uppfyllt og er ákvörðun Vinnumálastofnunar því staðfest. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2021, um að synja umsókn A, um ráðningarstyrk, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum