Hoppa yfir valmynd
19. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 535/2021-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 535/2021

Miðvikudaginn 19. október 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 17. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. júlí 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2020. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 352.963 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júlí 2021. Kærandi andmælti niðurstöðu endurreikningsins 17. september 2021. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 18. október 2021, á grundvelli innsendra gagna frá kæranda. Niðurstaða nýs endurreiknings og uppgjörs bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 386.084 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. september 2021. Með bréfi, dags. 19. október 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2022, barst greinargerð stofnunarinnar þar sem upplýst var að nýr endurreikningur hafi verið framkvæmdur og óskað var eftir frávísun málsins. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember 2021, var óskað eftir afstöðu kæranda til framangreindar kröfu Tryggingastofnunar. Beiðnin var ítrekuð með tölvupóstum og símtölum 29. desember 2021 og 27. janúar 2022 en svar barst ekki frá kæranda. Með bréfi, dags. 31. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð vegna málsins. Með bréfi, dags. 21. mars 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir upplýsingum og gögnum frá Tryggingastofnun með tölvupóstum 16. maí, 19. ágúst, 15. og 16. september 2022 og bárust svör með tölvupóstum 10. júní, 15. og 30. september 2022. Með bréfi til kæranda, dags. 3. október 2022, greindi úrskurðarnefndin frá þeim upplýsingum sem nefndinni höfðu borist frá Tryggingastofnun um uppgjörið og gaf kæranda kost á að gera athugasemdir og leggja fram gögn. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2020. Í gögnum málsins óskar kærandi eftir að Tryggingastofnun ríkisins sýni fram á þær tekjur sem hann fái greiddar frá Noregi og skerði greiðslur til hans. Fram kemur að kærandi hafi byggt upp lífeyrissjóð í hinu opinbera norska kerfi, auk smáræðis í séreignarsjóði. Kærandi fái lífeyri frá NAV og KLP, auk tímabundinnar séreignar í Nordea. Kærandi hafi samviskusamlega talið þessar lífeyrisgreiðslur fram á skattframtali sínu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kært sé uppgjör og endurreikningur, dags. 23. júlí 2021. Þann 17. september 2021 hafi stofnuninni borist nýjar upplýsingar frá kæranda sem séu þær sömu og sé að finna í kæru. Á grundvelli þessarar nýju upplýsinga hafi tekjuárið 2020 verið gert upp á ný þann 18. október 2021.

Þar sem Tryggingastofnun hafi breytt fyrri ákvörðun í samræmi við innsend gögn kæranda óski stofnunin eftir því að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd að svo stöddu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 21. mars 2022, kemur fram að stofnuninni hafi borist beiðni um efnislega greinargerð í málinu og að það varði endurreikning og uppgjör tekjuársins 2020.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í 16. og 23. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um áhrif tekna á ellilífeyri.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi allt árið 2020 verið með ellilífeyrisgreiðslur. Við uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi komið í ljós 386.084 kr. ofgreiðsla, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða endurkröfunnar sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar frá kæranda árið 2021 vegna tekjuársins 2020, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en innsend tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi verið byggður á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega, bæði frá Íslandi og Noregi um erlendan lífeyri.

Tryggingastofnun hafi sent kæranda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2020 þar sem gert hafi verið ráð fyrir að á árinu væri hann með 2.002.560 kr. í launatekjur, 579.744 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 8.004 kr. í fjármagnstekjur. Einnig hafi verið gert ráð fyrir 80.100 kr. iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar. Athugasemdir hafi ekki borist frá kæranda og hafi hann fengið greitt samkvæmt þessari áætlun frá 1. janúar til 30. apríl 2020.

Þann 3. apríl 2020 hafi kærandi sent inn nýja tekjuáætlun og hafi stofnunin unnið nýja tekjuáætlun á þeim grundvelli. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að kærandi væri með 1.818.800 kr. í launatekjur, 766.348 kr. í erlendar lífeyrisjóðstekjur (56.316 NOK), 579.744 kr. í lífeyrissjóðstekjur úr íslenskum lífeyrissjóði, 328.522 kr. í erlendan grunnlífeyri (24.144 NOK) og 8.004 kr. í fjármagnstekjur. Einnig hafi verið gert ráð fyrir 72.750 kr. iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar. Athugasemdir hafi ekki borist frá kæranda og hafi hann fengið greitt samkvæmt þessari áætlun frá 1. maí til 31. desember 2020.

Eins og komið hafi fram í fyrri greinargerð stofnunarinnar, dags. 25. nóvember 2021, hafi tekjuárið 2020 upphaflega verið gert upp 23. júlí 2021 en 17. september 2021 hafi borist nýjar upplýsingar frá kæranda og hafi því endanlegt tekjuuppgjör farið fram 18. október 2021.

Við endanlegt bótauppgjör ársins 2020 hafi komið í ljós að á árinu hafi kærandi fengið 472.000 kr. í launatekjur, 2.841.500 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 4.705.629 kr. í greiðslur úr séreignarlífeyrissjóði og 65.638 kr. í fjármagnstekjur. Að auki hafi verið tekið tillit til greiðslna á iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð 18.880 kr. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi því verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum ellilífeyri, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbótum.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 3.029.546 kr. en hefði átt að fá greitt 2.433.461 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 386.084 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun vilji taka fram að grunnlífeyrir sem kærandi njóti frá Noregi skerði ekki greiðslur hans hér á landi heldur einungis viðbótarlífeyrir sem hann njóti. Skipting Tryggingastofnunar á erlendum greiðslum kæranda í grunnlífeyri og annan lífeyri byggi á gögnum sem kærandi hafi sent, annars vegar skjalinu frá norskum yfirvöldum þann 24. júní 2021 og úrskurði NAV þann 13. september 2018 um skiptingu greiðslna til kæranda í grunnpensjon og tilleggspensjon. Einnig vilji Tryggingastofnun taka fram að séreignarlífeyrissjóðstekjur kæranda hafi ekki haft áhrif á neinn þann bótaflokk sem kærandi hafi átt rétt á.

Tryggingastofnun telji að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna hafi verið framkvæmdur á réttmætan hátt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Upplýsinga sem aflað hafi verið að hálfu stofnunarinnar séu opinberar upplýsingar, sbr. upplýsingar á skattframtali kæranda. Framkvæmd Tryggingastofnunar sé í fullu samræmi við gildandi lög og reglur sem og fyrri fordæmi úrskurðarnefndar velferðarmála.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og heimilisuppbótar og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun 17. janúar 2020 þar sem gert var ráð fyrir 2.002.560 kr. í launatekjur, 80.100 kr. í iðgjald til frádráttar, 579.744 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 8.004 kr. í fjármagnstekjur og að auki var gert ráð fyrir 56.316 NOK í lífeyrissjóðstekjur og 24.144 NOK í erlendan grunnlífeyri. Kærandi lagði fram breytta tekjuáætlun, dags. 3. apríl 2020, þar sem gert var ráð fyrir 1.818.800 kr. í launatekjur, 66.750 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð, 766.348 kr. í erlendan lífeyri, 8.004 kr. í fjármagnstekjur, 328.552 kr. í erlendan grunnlífeyri og 579.744 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. apríl 2020, var beiðni kæranda um breytingu á tekjuáætlun samþykkt og hann upplýstur um inneign að fjárhæð 21.119 kr. sem hafi verið lögð inn á bankareikning hans. Greitt var samkvæmt þessari áætlun út árið 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum vegna tekjuársins 2020 reyndist kærandi hafa verið með 472.000 kr. í launatekjur, 18.880 kr. í frádrátt vegna iðgjalds í lífeyrissjóð, 479.903 kr. í íslenskar lífeyrissjóðstekjur, 4.705.629 kr. úr séreignarsjóði, 2.620.702 kr. í erlendar tekjur og 65.638 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2021, á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2020 var sú að kærandi hefði fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð 386.084 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að erlendar lífeyrissjóðstekjur kæranda vegna ársins 2020 voru hærri samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlunum. Lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Kærandi gerir athugasemdir við meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á erlendum tekjum hans og fer fram á að stofnunin sýni fram á þær tekjur sem hann fái greiddar frá Noregi og skerði greiðslur til hans. Með kæru fylgdi bréf Skatteetaten, dags. 24. júní 2021, þar sem fram koma upplýsingar um tekjur kæranda í Noregi á árinu 2020. Þar koma meðal annars fram upplýsingar um greiðslur til kæranda frá NAV að fjárhæð 66.080 NOK og einnig um „other pensions“ að fjárhæð 121.113 NOK. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun leit stofnunin svo á við endurreikninginn að „other pensions“ væru lífeyrissjóðsgreiðslur og jafnframt hluti af greiðslunum frá NAV, þ.e. „tilleggspensjon“. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. október 2022, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreinda framkvæmd Tryggingastofnunar. Einnig var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings teldi hann að upplýsingar, sem Tryggingastofnun lagði til grundvallar um tekjur hans í Noregi, væru rangar. Í bréfinu er tekið fram að berist nefndinni ekki gögn kunni það að leiða til þess að nefndin úrskurði kæranda í óhag. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda.

Eins og áður hefur komið fram er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar. Fyrir liggur að úrskurðarnefnd velferðarmála bárust engin svör frá kæranda vegna framangreinds bréfs nefndarinnar frá 3. október 2022. Einnig liggur fyrir bréf frá Tryggingastofnun, dags. 4. maí 2021, þar sem stofnunin tilkynnti kæranda um að samkvæmt skattframtali væri hann með erlendar tekjur á árinu 2020. Tryggingastofnun þurfi því að fá staðfestingu á öllum erlendum tekjum kæranda. Staðfesting geti verið greiðsluseðill/launaseðill með sundurliðun frá greiðanda þar sem fram komi tegund greiðslu og upphæð. Engin svör bárust frá kæranda vegna framangreinds bréfs.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur áður úrskurðað um að greiðslur „tilleggspensjon“ frá NAV í Noregi skuli skerða ellilífeyri með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. úrskurð í máli nr. 20/2019 frá 16. október 2019. Þá koma fram upplýsingar um „other pensions“ í fyrrgreindu bréfi Skatteetaten og kærandi hefur ekki lagt fram nein frekari gögn um þær greiðslur, þrátt fyrir að bæði Tryggingastofnun og úrskurðarnefndin hafi gefið honum kost á því. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi litið á þær tekjur sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2020.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2021, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                       Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum