Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 17/2020 - Úrskurður

Mál nr. 17/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

skattrannsóknarstjóra ríkisins

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu sérfræðings við skattrannsóknir hjá kærða þar sem hann hafi verið betur menntaður og haft meiri starfsreynslu og greiningarhæfni en konan sem starfið hlaut. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að annmarkar hafi verið af hálfu kærða á mati á kæranda og þeirri konu sem starfið hlaut. Kærði hefði einkum vanmetið kæranda samanborið við konuna varðandi hlutrænar hæfniskröfur um menntun og greiningarhæfni en að vísbendingar um að konan byggi að betri færni í mannlegum samskiptum, sem var meðal hæfniskrafna, nægðu ekki til að vega þar á móti þar sem viðhlítandi grundvöllur hefði ekki verið lagður að slíkri ályktun af hálfu kærða. Að þessu virtu taldist kærandi hafa leitt nægar líkur að því að honum hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita bæri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt því stóð það kærða nær að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Að mati kærunefndarinnar tókst sú sönnun ekki af hálfu kærða. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 20. nóvember 2020 er tekið fyrir mál nr. 17/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 18. ágúst 2020, kærði A ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að ráða konu í starf sérfræðings við skattrannsóknir. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2020. Vegna beiðni kærða var frestur til þess að skila greinargerð framlengdur. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 25. september 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. september 2020.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 30. september 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 1. október 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 15. október 2020, og voru þær sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. október 2020. Með sama bréfi var kærandi upplýstur um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi, dagsettu sama dag.
  5. Með bréfi kæranda, dagsettu 20. október 2020, bárust frekari athugasemdir. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. október 2020, voru þær sendar kærða. Með tölvubréfi kærða, dagsettu 6. nóvember 2020, bárust frekari athugasemdir og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 12. nóvember 2020.

     

    MÁLAVEXTIR

  6. Kærði auglýsti laus störf sérfræðinga við skattrannsóknir á rannsóknarsviði embættisins 28. janúar 2020. Í auglýsingunni var tekið fram að leitað væri að öflugum liðsmönnum í hóp samstilltra starfsmanna, sem hafa yfir að ráða vilja og getu til að takast á hendur rannsóknir á skattaundanskotum. Um helstu verkefni og ábyrgð var tekið fram að starfið fælist í rannsóknum skattaundanskota og annarra skattalagabrota. Í því fælist meðal annars greining á bókhaldi og skattskilum, gagna- og upplýsingaöflun og úrvinnsla þeirra og ritun greinargerða um framkvæmd og niðurstöður rannsókna. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirfarandi hæfnikröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. viðskiptafræði, hagfræði eða lögfræði; nám á meistarastigi sem nýtist í starfi er kostur; þekking á skattarétti og skattskilum er æskileg; þekking og/eða reynsla af rannsóknum refsiverðra brota er kostur; framúrskarandi greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum er skilyrði; góð færni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna í teymum fjölbreyttra sérfræðinga er nauðsynleg; góð kunnátta á word og excel er nauðsynleg. Önnur kunnátta á tölvu- og upplýsingakerfum er kostur; frumkvæði, sjálfstæði í starfi og geta til að vinna undir álagi er skilyrði. Tekið var fram að um væri að ræða fjöbreytt og krefjandi störf í margbreytilegu umhverfi. Um verkefni skattrannsóknarstjóra ríkisins var vísað nánar til vefsíðu embættisins.
  7. Í auglýsingunni kom fram að laun væru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélags. Um starfskjör, réttindi og skyldur færi að öðru leyti eftir lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfshlutfall væri 100%. Farið var fram á að umsóknum fylgdi greinargerð þar sem gerð væri grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni í starfið. Með umsókn skyldi einnig fylgja afrit af viðeigandi prófskírteinum og upplýsingar um tvo núverandi eða fyrrverandi samstarfsmenn sem veitt gætu upplýsingar um störf eða aðra hæfni umsækjenda. Þá var tekið fram að æskilegt væri að viðkomandi gæti hafið störf sem fyrst.
  8. Alls bárust 84 umsóknir um störfin. Að lokinni yfirferð á umsóknum og umsóknargögnum var ákveðið að kalla 22 umsækjendur í starfsviðtöl. Kærandi var þar á meðal. Tveir umsækjendur afþökkuðu boð um viðtal. Að viðtölunum loknum var lagt mat á umsækjendur með hliðsjón af menntunar- og hæfnikröfum sem og því hvernig þeir komu fyrir í viðtölunum. Í kjölfarið var ákveðið að bjóða 12 umsækjendum í seinna viðtal og var kærandi þar á meðal. Að seinni viðtölunum loknum var ákveðið að afla frekari umsagna um hluta umsækjenda, þar á meðal um kæranda. Að þessu afstöðnu var ákveðið að bjóða sjö umsækjendum störf hjá kærða, einn þeirra afþakkaði boðið en sex umsækjendur voru ráðnir, fjórir karlmenn og tvær konur. Kærandi gerir athugasemd við ráðningu annarrar konunnar sem hann telur brot á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.
  9. Með tölvubréfi 25. mars 2020 óskaði kærandi eftir upplýsingum um það hvort önnur konan sem hlaut starf hjá kærða hefði lokið meistaranámi í lögfræði. Ef svo væri óskaði hann eftir afriti af ferilskrá hennar og kynningarbréfi sem og rökstuðningi fyrir ráðningu hennar. Með bréfi, dagsettu 28. maí 2020, veitti kærði rökstuðning vegna ráðningar í störfin. Með tölvubréfi kæranda 28. maí 2020 óskaði hann eftir staðfestingu á því hvort kærði hefði móttekið fyrrnefnt tölvubréf frá 25. mars 2020. Í tölvubréfi kærða sama dag var rökstuðningur fyrir ráðningunni sendur kæranda ásamt umbeðinni umsókn og umsóknargögnum.
  10. Í framhaldi af þessum samskiptum óskaði kærandi eftir ýmsum upplýsingum, gögnum og rökstuðningi frá kærða vegna ráðningar umræddrar konu og ráðningarferilsins, eins og nánari grein er gerð fyrir í málatilbúnaði aðila. Þar á meðal óskaði hann eftir upplýsingum um það hvort konan sem ráðin hafi verið hefði skilað inn afriti af prófskírteini sínu og sundurliðaðri stigagjöf sem konan og kærandi hefðu fengið samkvæmt matskvörðum í ráðningarferlinu. Vegna ítrekaðra fyrirspurna kæranda bauð kærði honum að mæta til fundar til þess að ræða nánar um ráðningarferlið og ákvörðun kærða um ráðninguna. Sá fundur var haldinn 9. júní 2020 með þátttöku kæranda, skattrannsóknarstjóra og forstöðumanns rannsóknarsviðs kærða. Að fundinum loknum óskaði kærandi ítrekað eftir frekari upplýsingum og staðfestingum frá kærða með tölvubréfum, þar á meðal um efni umsagnar meðmælanda hans. Einnig óskaði hann eftir afriti af minnisblaði sem skattrannsóknarstjóra hafi borið að rita þegar hún hafi aflað meðmæla frá umsagnaraðila. Með tölvubréfi 26. júní 2020 sendi kærði afrit af minnisblöðum vegna beggja viðtala kæranda auk minnisblaðs vegna samtals við meðmælanda hans. Kærandi óskaði samdægurs eftir frekari upplýsingum vegna minnisblaðsins. Með tölvubréfi kærða 1. júlí 2020 var fyrirspurn kæranda svarað og var einnig tekið fram að talið yrði að kærandi hefði nú fengið allar upplýsingar og svör varðandi mannaráðningar sem til yrði ætlast og unnt væri að veita. Sama dag ítrekaði kærandi beiðni sína um svör og féllst hann ekki á að sér hefðu verið veittar allar upplýsingar. Aðilar áttu samskipti vegna þessa með tölvubréfum 2., 3., 13., 15. og 16. júlí 2020. Í þessum samskiptum kom einnig fram að kærandi hefði hljóðritað símtal við kærða sem og samtöl á nefndum fundi 9. júní 2020. Þá ítrekaði kærandi í fjögur skipti kröfu sína um að staðfest yrði að sú sem ráðin var hefði sent afrit af prófskírteini sínu fyrir lok umsóknarfrests. Í tölvubréfi 28. júlí 2020 vísaði kærandi til símtals sem hann átti sama dag við forstöðumann rannsóknarsviðs kærða sem hefði ekki getað staðfest að hún hefði skilað inn prófskírteini sínu áður en umsóknarfrestur hafi runnið út en hann skyldi athuga þetta og svara innan tíðar. Í tölvubréfi kæranda 31. júlí 2020 vísaði hann til símtals sem hann átti við forstöðumann rannsóknarsviðs fyrr þann dag þar sem tilkynnt hafði verið að umræddar upplýsingar yrðu ekki veittar. Kærandi upplýsti að þessi afgreiðsla yrði kærð til umboðsmanns Alþingis þegar í stað.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  11. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna stöðu á vinnumarkaði, enda hafi skýrt komið fram í rökstuðningi kærða að við mat á umsækjendum hafi sérstaklega verið litið til aldurs og kyns þeirra í þeim tilgangi að sporna gegn því að þeir væru of einsleitir, sbr. eftirfarandi ummæli í rökstuðningnum:

    Auk framangreindra þátta var við matið horft til þess að menntun, aldur og kyn væri ekki um of einsleit, heldur til þess fallið að mynda og viðhalda þeim fjölbreytta hópi sérfræðinga sem nauðsynlegur er til að sinna rannsóknum flókinna mála. Var þar hvorutveggja tekið mið af þeim hópi umsækjenda er um ræddi og samsetningar núverandi starfsmannahóps.

  12. Í rökstuðningnum hafi engin málefnaleg rök verið færð fyrir því hvers vegna umsækjendum hafi með þessum hætti verið mismunað á grundvelli kyns og aldurs. Í ljósi þess að kærði hafi sérstaklega horft til aldurs og kyns umsækjenda, sé augljóst að kærandi sem karlmaður fæddur árið 1987, hafi ekki fallið vel að því markmiði kærða að sporna gegn einsleitni við val á þeim sex umsækjendum sem að lokum hafi verið ráðnir í umrædd störf rannsakenda, enda hafi fjórir þeirra verið karlmenn, eins og hann, og meðalfæðingarár þeirra allra miðast við árið 1988, sem sé einu ári frá fæðingarári kæranda 1987 (þ.e. meðaltal af árunum 1981, 1982, 1985, 1991, 1993 og 1997). Á móti komi að konan sem starfið hafi hlotið hafi fallið vel að því markmiði að sporna gegn einsleitni, enda sé hún annars vegar kvenmaður sem leiði til þess að hlutfall kvenna sem ráðnar hafi verið í starf rannsakanda hafi orðið 33% í stað 17% hefði karlmaður verið ráðinn í hennar stöðu og hins vegar sé hún fædd árið 1997 sem geri hana jafnframt lang yngsta umsækjandann sem falli vel að því markmiði að sporna gegn of einsleitu aldursbili umsækjenda sem ráðnir hafi verið í störf rannsakenda.
  13. Kærði hafi aftur á móti brotið gegn framangreindum lagaákvæðum, enda hafi hann ekki getað sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn og aldur kæranda hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að ráða konuna í starf rannsakanda. Í starfsauglýsingunni hafi hæfniskröfur verið tilgreindar í sjö liðum og sé augljóst að kærandi hafi uppfyllt öll þau hæfisskilyrði mun betur samanborið við konuna sem ráðin hafi verið. Í því ljósi verði þessi fullyrðing rökstudd nánar með eftirfarandi sjö röksemdafærslum.
  14. Í fyrsta lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingunni: „Háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. viðskiptafræði, hagfræði eða lögfræði. Nám á meistarastigi sem nýtist í starfi er kostur“. Kærandi hafi tilgreint í umsókn sinni að hann hafi lokið grunn- og meistaraprófi í lögfræði, auk þess að vera með lögmannsréttindi. Í umsókn þeirrar konu sem starfið hafi hlotið hafi aftur á móti einungis verið tilgreint að hún hafi lokið grunnprófi í lögfræði. Það sé því augljóst að kærandi hafi uppfyllt þetta menntunarskilyrði mun betur en hún, enda hafi hann lokið meistaraprófi sem hún hafi ekki gert, auk þess sem lokaverkefni hans hafi verið á sviði stjórnsýsluréttar sem falli vel að störfum kærða.
  15. Í öðru lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingunni: „Þekking á skattarétti og skattskilum er æskileg.“ Kærandi hafi tilgreint í umsókn sinni að hann hafi fjögurra ára starfsreynslu í skattarétti og skattskilum vegna starfa sinna sem sérfræðingur hjá tollstjóra og að hann hafi í því starfi sinnt meðferð mála vegna brota á lögum um skatta og gjöld sem á hafi verið lögð af tollstjóra. Sem dæmi hafi hann sagst hafa sinnt greiningu á skattundanskotum auk þess að hafa kveðið upp endanlega úrskurði í skattamálum sem kæranlegir hafi verið til yfirskattanefndar. Þar að auki hafi hann sagst hafa lokið fyrri hluta af Tollskóla ríkisins þar sem fram hafi farið kennsla í skattframkvæmdinni og sem samsvari um 30 eininga námi. Í umsókn konunnar sem ráðin hafi verið hafi aftur á móti einungis verið tilgreint að eina starfsreynsla hennar í skattarétti væri fólgin í stuttu starfsnámi hennar hjá yfirskattanefnd þar sem hún hafi einungis kveðið upp „drög“ að úrskurðum yfirskattanefndar, auk þess sem hún hafi lokið um 12 einingum af skattarétti í námi sínu. Augljóst sé að starfsreynsla og þekking kæranda í skattarétti og skattskilum sé mun umfangsmeiri samanborið við starfsreynslu og þekkingu hennar á því sama sviði.
  16. Í þriðja lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingu: „Þekking og/eða reynsla af rannsóknum refsiverðra brota er kostur“. Kærandi hafi tilgreint í umsókn sinni að hann hafi margra ára starfsreynslu (69 mánuði) við rannsóknir refsiverðra brota vegna starfa hans innan réttarvörslukerfisins, nánar tiltekið innan lögreglu og tollstjóra, og að sú starfsreynsla samanstandi meðal annars af almennum löggæslu- og tollgæslustörfum, landamæraeftirliti, rannsóknar- og greiningarstörfum auk saksóknarstarfa. Hann hafi jafnframt tilgreint að hann hafi á fjögurra ára tímabili rannsakað skattalagabrot vegna starfa sinna hjá tollstjóra. Í starfsumsókn þeirrar konu sem ráðin hafi verið hafi aftur á móti eina starfsreynsla hennar á sviði rannsókna refsiverðra brota verið fólgin í almennum löggæslustörfum sem hún hafi starfað við í stutta stund auk þess sem hún hafi þar enga starfsreynslu fengið við rannsóknir skattalagabrota. Það sé því augljóst að starfsreynsla kæranda við rannsóknir refsiverðra brota sé mun umfangsmeiri og fjölbreyttari samanborið við starfsreynslu hennar, og þá sérstaklega á sviði skattalagabrota.
  17. Í fjórða lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingunni: „Framúrskarandi greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum er skilyrði.“ Kærandi hafi tilgreint í starfsumsókn sinni að hann hafi margra ára starfsreynslu við greiningarstörf, bæði innan lögreglunnar í tengslum við landamæraeftirlit auk starfa í greiningardeild tollstjóra vegna greininga á skattundanskotum. Í umsókninni hafi jafnframt verið tilgreint að hann telji sig vera nákvæman og sýna öguð vinnubrögð. Sú sem ráðin hafi verið hafi aftur á móti í starfsumsókn sinni hvorki tilgreint neina starfsreynslu við greiningarstörf né að hún telji sig vera nákvæma eða sýna öguð vinnubrögð. Af lestri umsóknar hennar megi sem dæmi sjá að umsókn hennar sé mun ónákvæmari en umsókn kæranda, til dæmis hafi hún ekki tilgreint nákvæmlega hversu lengi hún hafi starfað innan lögreglu eða hjá yfirskattanefnd auk þess sem hún hafi ekki rökstutt í öllum tilvikum að hún telji sig uppfylla þau hæfisskilyrði sem sérstaklega hafi verið tilgreind í starfsauglýsingunni. Þar að auki hafi sérstaklega verið tilgreint í starfsauglýsingu að umsækjendur skyldu skila afriti af „viðeigandi prófskírteinum“ áður en umsóknarfrestur rynni út, en ekkert hafi bent til þess að sú sem ráðin hafi verið hafi í raun skilað prófskírteini sínu fyrir lok umsóknarfrests, sbr. það sem komi fram í kynningarbréfi hennar. Reynist rétt að hún hafi ekki skilað prófskírteini sínu fyrir lok umsóknarfrests þá sé jafnframt ljóst að starfsumsókn hennar hafi ekki uppfyllt skilyrði starfsauglýsingarinnar og því hefði kærði með réttu átt að útiloka hana strax í ráðningarferlinu. Sérstök athygli sé vakin á því að kærði hafi neitað að veita kæranda upplýsingar um það hvort hún hafi í raun skilað prófskírteini sínu áður en umsóknarfrestur hafi runnið út. Í ljósi alls framangreinds sé augljóst að kærandi standi henni framar hvað varði hæfni til greiningarstarfa auk krafna um nákvæmni og ögun í vinnubrögðum.
  18. Í fimmta lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingu: „Góð færni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna í teymum fjölbreyttra sérfræðinga er nauðsynleg.“ Kærandi hafi tilgreint sérstaklega og gefið dæmi um það í starfsumsókn sinni að hann telji sig hafa framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum og eigi auðvelt með að starfa í teymisvinnu. Hann hafi jafnframt látið fylgja með niðurstöðu úr hinu alþjóðlega viðurkennda Hogan-persónuleikaprófi, en þær niðurstöður bendi til þess að hann hafi góða hæfni í mannlegum samskiptum, sbr. eftirfarandi ummæli sem þar megi finna: „Energetic and hardworking. He/She will take initiative when appropriate, but also be content to work as part of a team or let others lead as long as he/she can make significant contributions“ og “Approachable, talkative, and comfortable meeting strangers” og “Warm, charming, and agreeable. He/She should be good at managing relationships, but will avoid confrontations, conflict, and providing negative feedback”. Meðmælandi kæranda hafi jafnframt tekið undir þessa fullyrðingu þegar hann hafi rætt við skattrannsóknarstjóra í síma, en samkvæmt minnisblaði kærða, dagsettu 13. maí 2020, sé eftirfarandi ritað eftir meðmælanda kæranda: „þeirra samskipti góð“. Í símtali kæranda við forstöðumann rannsóknarsviðs kærða 4. júní 2020 hafi hann tilkynnt kæranda að það hefði verið mat kærða að hann hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum og sú fullyrðing verið rökstudd með vísan til þess að kærandi hafi viðhaft þau ummæli í starfsviðtali að hann væri ekki sýnilegur á netinu. Á fundi kæranda, skattrannsóknarstjóra og forstöðumanns rannsóknarsviðs kærða 9. júní 2020 hafi þau breytt þeirri ástæðu að kæranda hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum og nú með vísan til þess að meðmælandi hans hefði ekki tekið undir það að hann hefði mikla hæfni í mannlegum samskiptum. Þann 19. júní 2020 hafi kærandi upplýst kærða um það að meðmælandi hans hafi þvertekið fyrir að hafa gefið nokkuð í skyn í samtali hans við skattrannsóknarstjóra að kæranda hefði skort hæfni í mannlegum samskiptum. Þann 2. júlí 2020 hafi skattrannsóknarstjóri enn og aftur breytt frásögn sinni á þann veg að nú hafi meðmælandinn átt að hafa ekkert sagt við hana varðandi hæfni kæranda í mannlegum samskiptum og því hafi hún ekki getað dregið ályktun um hæfni kæranda í mannlegum samskiptum. Þessi ummæli hafi skattrannsóknarstjóri ritað, þrátt fyrir að hún hefði áður ritað í framangreindu minnisblaði að meðmælandi kæranda hefði sérstaklega nefnt að samskipti hans við kæranda hefðu alltaf verið góð, sbr. eftirfarandi ummæli í minnisblaðinu, „þeirra samskipti góð“. Þegar kærandi hafi tilkynnt skattrannsóknarstjóra um þetta misræmi í frásögn hennar þá hafi hún svarað því þannig til 15. júlí 2020 að hún hefði ekki túlkað framangreind ummæli meðmælandans þannig að það sé „sjálfkrafa ígildi þess að viðkomandi hafi yfir að búa sérstakri færni í mannlegum samskiptum að því marki sem hér er verið að leitast eftir“. Þrátt fyrir að skattrannsóknarstjóri hafi ítrekað breytt framburði sínum varðandi þær ástæður að kæranda hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum, að þá hafi hún ekki enn viljað upplýsa hann um hinar raunverulegu ástæður sem hún telji búa að baki þeirri fullyrðingu hennar um að hann hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum. Um hæfni þeirrar konu sem ráðin hafi verið í mannlegum samskiptum segi aftur á móti eingöngu í starfsumsókn hennar að hún eigi auðvelt með að starfa með öðrum. Samkvæmt rökstuðningi kærða hafi hann ályktað sem svo að þar sem hún hafi verið virk í félagsstarfi þá hafi það gefið góða vísbendingu um færni í mannlegum samskiptum og getu til að starfa í fjölbreyttum hópi starfsmanna, en þessi fullyrðing kærða sé ekki rökstudd nánar þrátt fyrir fjölmörg dæmi þess að einstaklingar sem séu virkir í félagstörfum hafi ekki endilega mikla færni í mannlegum samskiptum eða getu til að starfa með öðrum. Í ljósi framangreinds sé augljóst að hæfni kæranda í mannlegum samskiptum geti ekki með forsvaranlegum hætti verið metin minni en hæfni konunnar í mannlegum samskiptum, enda hafi skattrannsóknarastjóri ekki getað nefnt eitt dæmi þess eða annað það sem hafi bent til þess að hann hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum með vísan til upplýsinga sem hafi komið fram í starfsumsókn hans, frá meðmælenda hans eða í starfsviðtölunum tveimur sem kæranda hafi verið boðið í vegna starfsins.
  19. Í sjötta lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingunni: „Góð kunnátta á word og excel er nauðsynleg. Önnur kunnátta á tölvu- og upplýsingakerfum er kostur.“ Kærandi og sú sem ráðin hafi verið hafi bæði talið sig hafa góða kunnáttu í word, excel og lögreglukerfinu LÖKE. Hún hafi enga aðra þekkingu á tölvu- og upplýsingakerfum tilgreint sem gæti gagnast í umræddu starfi, en kærandi hafi aftur á móti tilgreint fjöldann allan af öðrum slíkum kerfum sem gæti gagnast við skattarannsóknir, til dæmis tölvukerfi sem skattyfirvöld noti eins og AST-kerfið, tollakerfið, upplýsingakerfi ríkisskattstjóra, tekjubókhaldskerfi ríkisins, Business Object, auk fjöldann allan af erlendum gagnagrunnum sem Ísland hafi aðgang að vegna þátttöku þess í alþjóðasamstarfi. Það hafi því verið augljóst að kunnátta kæranda í tölvu- og upplýsingakerfum í tengslum við skattamál væri mun umfangsmeiri samanborið við kunnáttu hennar á því sviði.
  20. Í sjöunda lagi hafi eftirfarandi krafa verið gerð í starfsauglýsingunni: „Frumkvæði, sjálfstæði í starfi og geta til að vinna undir álagi er skilyrði“. Í umsókn kæranda hafi hann tilgreint og nefnt dæmi um að það sé honum eðlislægt að sýna frumkvæði og sjálfstæði auk þess að geta unnið vel undir miklu álagi. Í umsókn þeirrar konu sem ráðin hafi verið hafi hún eingöngu tilgreint að hún telji sig vera sjálfstæða í vinnubrögðum án þess að hafa útskýrt það nánar. Athygli sé vakin á því að í rökstuðningi kærða hafi ekki einu orði verið á það minnst hvernig hún hafi verið talin uppfylla skilyrði um frumkvæði, sjálfstæði eða getu til að vinna undir álagi. Það sé því augljóst að kærandi hafi sýnt betur fram á hæfni sína á framangreindum atriðum samanborið við hæfni hennar á þessum sviðum.
  21. Í ljósi alls framangreinds sé hafið yfir allan vafa að kærandi hafi uppfyllt betur öll framangreind hæfisskilyrði í umrætt starf rannsakanda samanborið við þá konu sem ráðin hafi verið. Kærði hafi hvorki getað né viljað færa fram málefnaleg sjónarmið sem bendi til þess að sú sem ráðin hafi verið hafi staðið kæranda framar vegna framangreindra hæfisskilyrða, og þá sérstaklega varðandi meinta hæfni kæranda í mannlegum samskiptum þar sem skattrannsóknarstjóri hafi ítrekað breytt framburði sínum varðandi þær upplýsingar sem hún hafi grundvallað þá ályktun sína að kæranda hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum.
  22. Að lokum sé rétt að tilgreina sérstaklega nokkur ummæli skattrannsóknarstjóra sem hún hafi látið falla á fundinum 9. júní 2020, enda gætu þau ummæli hugsanlega skipt máli í tengslum við kvörtun þessa og/eða að minnsta kosti varpað skýrari mynd á málsatvik. Aðspurð hafi hún sagst telja „mögulegt“ að kærandi hafi verið hæfari en sú sem ráðin hafi verið þegar einungis væri litið til hinna hlutlægu hæfisskilyrða í starfsauglýsingunni en aftur á móti hafi hún staðið kæranda framar þegar litið væri til hinna huglægu hæfisskilyrða, þar með talið hæfni í mannlegum samskiptum. Aðspurð hafi skattrannsóknarstjóri sagt að embættið hefði ekki notast við matstöflur við samanburð á umsækjendum og því gæti hún ekki svarað því hvar kærandi hafi staðið í samanburði við aðra umsækjendur. Aðspurð hafi skattrannsóknarstjóri sagst ekki hafa vitað hvort sú sem ráðin hafi verið hefði skilað prófskírteini sínu áður en umsóknarfrestur hafi runnið út eins og gert hafi verið að skilyrði í starfsauglýsingunni, en síðan hafi hún bætt því við að hún teldi það í raun ekki skipta máli þar sem hún hafi þekkt hana og því vitað að hún hefði lokið grunnprófi sínu í lögfræði. Skattrannsóknarstjóri hafi líka sagst hafa vitað um ritgerðarefni á lokaverkefni hennar, auk þess sem hún hafi getað nafngreint leiðbeinanda hennar, þrátt fyrir að sá leiðbeinandi hafi hvorki verið starfandi innan kærða né hafi þessar upplýsingar að öðru leyti komið fram í starfsumsókn þeirrar sem ráðin hafi verið.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  23. Kærði vísi því með öllu á bug að með umræddri ráðningu hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns og aldurs. Ótvírætt hafi legið fyrir samkvæmt þeim gögnum sem handbær hafi verið þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðninguna að hæfni þeirrar konu sem starfið hafi hlotið hafi verið umfram hæfni kæranda.
  24. Þegar ljóst hafi verið í upphafi ársins 2020 að fjárveitingar til kærða hefðu verið auknar hafi verið ákveðið að auglýsa eftir rannsakendum til starfa. Störf rannsakenda við skattrannsóknir séu mjög sérhæfð og verði færni í þeim að verulegu leyti aflað með þeirri æfingu sem fáist við að sinna slíkum störfum. Verði því ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að ráða nýtt fólk til þessara starfa sem fullfært sé til að rækja þau þegar í stað nema þá helst þegar um sé að ræða fyrri reynslu af skattrannsóknum eða jafnvel rannsóknum annarra fjármunabrota. Samkvæmt þessu verði við ráðningar nýrra rannsakenda að gera ráð fyrir því að þeir þurfi sinn tíma undir leiðsögn til þjálfunar áður en starfskraftar viðkomandi nýtist til fulls. Innan kærða hafi verið talað um hið óskráða viðmið að það taki að lágmarki eitt ár til að sjá hvort rannsakandi sé fær til starfans. Viðfangsefni við skattrannsóknir séu þess eðlis að einkum kunnátta og menntun á sviði viðskiptafræði, lögfræði og hagfræði sé líkleg til að nýtast sem grunnur að færni við iðkun þeirra. Þá þurfi að vera fyrir hendi geta til að draga rökréttar ályktanir af upplýsingum og að vinna úr þeim og eftir atvikum vinna með mikið magn gagna, þ.e. greiningarhæfni sem svo sé kölluð. Reynslan hafi þó sýnt að á þessu sviði séu færni og árangur mjög háð persónulegum eiginleikum hvers og eins. Í störfum skattrannsakenda velti afar mikið á persónulegum samskiptum. Þannig þurfi rannsakendur að eiga samskipti við þá einstaklinga sem rannsóknum sæti sem sakborningar í málum, sem og verjendur þeirra, meðal annars við skýrslutökur, sem oft geti verið afar vandasöm og kalli á jafnt lipurð, yfirvegun og ákveðni og ekki síst gott sjálfstraust. Hið sama geti verið uppi varðandi vitni sem kalla þurfi til. Slík samskipti eigi sér stað í hverju einasta máli og séu hluti af daglegum störfum rannsakenda. Megi í þessu sambandi til dæmis nefna að skýrslutökur/yfirheyrslur af hálfu kærða séu í kringjum tvö hundruð að jafnaði á hverju ári. Ekki reyni síður á persónuleg samskipti gagnvart samstarfsfólki hjá kærða. Vinna að skattrannsóknum fari í öllum tilvikum fram í samstarfi og teymisvinnu sem útheimti hreinskiptni, að tekið sé tillit til sjónarmiða annarra, að tilsögn sé meðtekin og að fyrirmæli séu virt. Einþykkni og þvergirðingsháttur geti ekki viðgengist við þessa vinnu. Það sé með öðrum orðum nauðsynlegt að starfsmenn geti komist vel af við fólk. Þá sé að nefna nauðsyn þess að viðkomandi hafi til að bera þolgæði, úthald og ekki síst nákvæmni, meðal annars til að valda vinnu við seinleg verkefni, auk röskleika og verkfýsi. Einstök rannsóknarmál geti tekið langan tíma í meðferð sem reyni á úthald og þrautseigju. Þá sé geta til að vinna á eigin spýtur afar mikilvæg. Enn sé að nefna að hlutaðeigandi sé í fremsta máta ábyrgur og heiðarlegur en skattrannsóknarfólki sé treyst fyrir afar viðkvæmum upplýsingum. Þá sé nauðsynlegt að treysta megi rannsóknarfólki til að gæta í hvívetna vandaðrar framkomu. Ekki síst eigi það við um alla framkomu og samskipti við þá aðila er sæti rannsókn hjá kærða og þurfi að þola aðgerðir af hálfu þess sem oft reynist aðilum þungbærar. Áhersla sé á það lögð í starfsemi kærða að ekki sé með nokkrum hætti komið aftan að fólki eða reynt að leiða það í gildru, til að mynda í skýrslutökum eða með öðrum rannsóknaraðgerðum, eða viðhafa neins konar undirferli til að koma rannsóknum áleiðis. Hafi það verið metnaðarmál kærða að framkoma og viðmót gagnvart þeim sem rannsóknum sæti sé til sóma og að nærgætni og kurteisi sé gætt. Hafi starfsmenn og kærði notið viðurkenninga vegna þessa og sé afar fátítt að athugasemdir séu gerðar við framkomu og störf rannsakenda.
  25. Samkvæmt þessu verði talið að við ráðningu nýrra starfsmanna til skattrannsókna megi áskilja að viðkomandi hafi þá menntun sem vænleg sé sem þekkingarlegur grundvöllur til lausnar þeim verkefnum sem fólgin séu í slíkum rannsóknum, sem og að viðkomandi hafi greiningarhæfni til að bera. Ekki sé hins vegar síður nauðsynlegt að um ræði þá færni í mannlegum samskiptum sem að ofan geti. Fullnægjandi eiginleikar á því sviði hafi sýnt sig að vera forsenda farsælni og árangurs við störf að skattrannsóknum. Þá sé áhersla lögð á frumkvæði í starfi, sjálfstæði og getu til að vinna undir álagi. Auk þess sem hér hafi verið talið liggi í hlutarins eðli að vinna þessi útheimti vissa kunnáttu í helstu tölvukerfum rit- og talnavinnslu, auk þess sem þekking á efnisþætti þeirra brota sem verið sé að rannsaka, þ.e. skattamálum, sé æskileg. Þá megi gera ráð fyrir að reynsla af brotarannsóknum komi að notum en skattrannsóknir lúti að rannsókn á því hvort refsiverð brot hafi verið framin. Í samræmi við ofangreint hafi hæfniskröfur í starfsauglýsingu kærða verið settar fram.
  26. Vegna hins mikla fjölda umsókna um störfin hafi verið talið óhjákvæmilegt að greina þær í fyrstu aðeins á grundvelli gagna sem hafi borist með umsóknunum, þannig að þær yrðu í fyrsta kasti flokkaðar eftir því hæfnisstigi sem þau skjöl hafi borið með sér. Forstöðumenn rannsóknarsviðs og stoðsviðs kærða hafi tekist það verk á hendur. Litið hafi verið til aðalmenntunar og hvort hún myndi nýtast í starfi, sem og til annarrar menntunar sem til tekna gæti talist, sérstaklega á sviði skattaréttar, til tölvu- og kerfisþekkingar, reynslu á sviði skattaréttar, sem og reynslu við brotarannsóknir, sbr. þá tilgreiningu hæfniskrafna í auglýsingunni. Varðandi yfirferð umsókna með tilliti til settra skilyrða um framúrskarandi greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum, frumkvæði, sjálfstæði í starfi og getu til að vinna undir álagi hafi verið litið til starfsreynslu, námsferils og annarra þeirra upplýsinga sem hafi komið fram í kynningarbréfum sem og til framsetningar umsókna. Einnig hafi verið til þessa litið varðandi auglýstan áskilnað um góða færni í mannlegum samskiptum og getu til teymisvinnu. Síðastgreindir þættir hafi þó í öllum tilvikum á grundvelli umsókna verið taldir vera fyrir hendi án frekara mats með þeim undantekningum einum um tvo umsækjendur að ljóst hafi þótt af fyrri störfum að þeir myndu hafa til að bera mikla greiningarhæfni, auk þess sem varðandi tvo fyrrverandi starfsmenn hafi verið samkvæmt fyrri frammistöðu óútfyllt í reiti annars vegar um mannleg samskipti og hins vegar getu til að vinna undir álagi. Næst hafi umsóknirnar verið yfirfarnar með hliðsjón af atriðum sem hafi borið með sér kunnáttu, reynslu eða eiginleika eða annað sem hafi gert líklegt að viðkomandi myndi nýtast vel við störfin. Jafnframt hafi verið haft í huga að sá hópur sem valinn yrði til frekari umfjöllunar væri ekki of einsleitur hvað snerti menntun, kyn og aldur. Hafi þannig verið ákveðið að enda þótt að þessu sinni hafi einkum verið talin þörf á að styrkja bókhalds- og viðskiptafræðaþekkingu hjá kærða skyldi menntun á öðrum sviðum jöfnum höndum koma til greina. Til að óhjákvæmilegar takmarkanir tengdar reynslu myndu síður dæma yngsta hópinn úr leik á fyrsta stigi hafi verið ákveðið að líta varðandi þau sérstöku atriði sem til tekna yrðu metin ekki aðeins til reynsluháðra þátta. Ekki hafi reynst um að ræða kynjaeinsleitni meðal umsækjenda. Á þessum forsendum hafi verið gerður nýr listi til framhaldsmeðferðar sem hafi talið 22 einstaklinga sem skyldu boðaðir til starfsviðtals. Þar hafi verið sett fram stutt athugasemd til rökstuðnings því að viðkomandi yrði boðaður til viðtals sem og frekari athugasemdir, þætti tilefni til. Ekki hafi á lista þessum verið neitt nánara mat framantalinna atriða varðandi greiningarhæfni og mannleg samskipti auk annars en um hafi rætt á upphafslistanum. Hinir áskildu eiginleikar hafi þannig verið merktir fyrir hendi hjá öllum öðrum en áðurgreindum fyrrverandi starfsmönnum kærða sem hafi verið meðal þeirra sem eftir hafi staðið.
  27. Tveir eftirstandandi umsækjenda hafi afþakkað viðtal þar sem þeir höfðu þegar ráðið sig í önnur störf. Allir hinir 20 hafi komið til viðtals. Þar á meðal kærandi. Forstöðumaður rannsóknarsviðs og forstöðumaður stoðsviðs hafi annast viðtölin og að þeim loknum hafi þau lagt mat á umsækjendur með tilliti til gerðra menntunar- og hæfniskrafna, sem og þess hversu vel umsækjendur hefðu komið fyrir í viðtölunum. Helstu atriði sem fram hafi komið í þessum viðtölum hafi verið rituð á þar til gerð eyðublöð með samtímaskráningu. Þá hafi niðurstaða verið tekin saman að viðtali loknu og hún rituð á sömu blöð eða á viðfest blöð, í flestum tilvikum jafnframt með einkunnagjöf í bókstöfum og eftir tilefni einnig með plús eða mínus. Í framhaldi af þessu hafi á grundvelli umræddra niðurstaðna og með tilliti til þarfa varðandi sérfræðiþekkingu verið ákveðið að bjóða þeim 12 umsækjendum sem ákjósanlegast hafi þótt að fá til starfa í síðara viðtal. Þetta val hafi verið samkvæmt mati ofangreindra forstöðumanna og byggt á framangreindum umsögnum og einkunnagjöf og jafnframt að höfðu samráði við skattrannsóknarstjóra og verkefnastjóra sem ákveðið hafði verið að myndi leiða það teymi rannsakenda sem væntanlegum nýjum starfsmönnum hafi verið ætlað að skipa. Þau hafi annast síðari viðtölin. Skattrannsóknarstjóri hafi ritað niður helstu atriði viðtalanna á minnisblöð. Að þeim viðtölum loknum hafi verið talið að fram hefði farið sú könnun huglægra hæfnisþátta sem við yrði komið með þessu móti. Hlutlægir þættir hafi aftur á móti verið taldir liggja nægjanlega ljósir fyrir í þeim gögnum sem umsækjendur höfðu lagt fram og eftir atvikum að viðbættum frekari skýringum og upplýsingum veittum í viðtölum.
  28. Við endanlegt val þeirra einstaklinga sem boðið yrði að ráðast til starfa hjá kærða hafi þótt ástæða til að afla frekari umsagna umsagnaraðila um hæfni hluta umsækjenda, þar á meðal um hvort viðkomandi hefði til að bera nauðsynlega hæfni í mannlegum samskiptum. Hafi þar meðal annars verið um að ræða kæranda. Af þeim sökum hafi skattrannsóknarstjóri haft samband við þann einstakling sem hafði verið tilgreindur sem meðmælandi í umsókn kæranda. Í umsókninni hafi komið fram að meðmælandinn hefði sem deildarstjóri endurskoðunardeildar tollstjóra verið yfirmaður kæranda frá 1. september 2019. Skattrannsóknarstjóri hafi átt símtal við hann 12. mars 2020 og þegar að því loknu hafi hún ritað niður á minnisblað helstu atriði sem þar hafi komið fram. Það viðtal hafi ekki verið talið gefa tilefni til breytinga á mati á þessu sviði en aftur á móti hafi það stutt frásagnir kæranda um greiningarhæfni hans.
  29. Um miðjan mars 2020 hafi verið lokið við val þeirra umsækjenda sem samkvæmt niðurstöðum af heildstæðu mati skyldi boðin störf hjá kærða. Þar hafi verið byggt á heildstæðu mati hinna auglýstu hæfnisskilyrða samkvæmt því sem fram hafi komið í umsóknum, skráðum atriðum vegna viðtala og skráðum minnispunktum vegna viðtala við umsagnaraðila. Sjö umsækjendum hafi verið boðið starf. Einn þeirra hafi afþakkað boðið en sex umsækjendur verið ráðnir.
  30. Þeim umsækjendum sem höfðu ekki verið ráðnir hafi verið greint frá ofangreindum lyktum með tölvubréfum forstöðumanns rannsóknarsviðs kærða 25. mars 2020. Þar hafi verið nafngreindir þeir umsækjendur sem höfðu verið ráðnir. Samdægurs hafi skattrannsóknarstjóra borist tölvubréf frá kæranda þar sem spurt hafi verið hvort annar kvenkyns umsækjendanna sem hefði hlotið starf hjá kærða hefði lokið meistaraprófi í lögfræði. Ef svo væri ekki hafi hann óskað eftir afriti ferilskrár og kynningarbréfs hennar en hann hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningu hennar, bærist svar ekki innan 14 daga. Þann 8. apríl 2020 hafi verið sendur út rökstuðningur vegna ráðningar ofangreindra starfsmanna til þeirra umsækjenda sem höfðu óskað eftir rökstuðningi. Með tölvubréfi 28. maí 2020 hafi kærandi óskað eftir staðfestingu frá forstöðumanni rannsóknarsviðs kærða um það hvort hann hefði móttekið tölvubréf hans frá 25. mars 2020. Í svari kærða hafi komið fram að rökstuðningur hefði verið sendur 8. apríl 2020 en hefði hann ekki borist væri beðist velvirðingar. Jafnframt hafi kæranda verið sendur umræddur rökstuðningur, nú með bréfi, dags. 28. maí 2020. Einnig hafi kæranda með svari þessu verið send tilgreind gögn varðandi konuna sem ráðin hafi verið. Í tölvubréfi kæranda sama dag hafi hann óskað upplýsinga um það hvers vegna konan hefði ekki verið ráðin í fullt starf. Í svari kærða 2. júní 2020 hafi verið upplýst að hún hefði verið ráðin í hlutastarf þar til hún lyki gerð meistaraprófsritgerðar á sviði skattaréttar en að hún myndi síðan hefja fullt starf. Í tölvubréfi kæranda sama dag hafi hann lýst þeirri skoðun að ekki yrði ráðið af rökstuðningi kærða að hún yrði talin honum hæfari heldur væri því öfugt farið svo sem nánar hafi verið leitast við að skýra. Þá hafi kærandi í skeytinu sett fram óskir um meðal annars sundurliðaða stigagjöf sem um hefði rætt gagnvart sér og umræddri konu, sem og um að kærði myndi staðfesta að hún hefði sent inn afrit af prófskírteini sínu fyrir lok umsóknarfrests og um ástæður þess að fallist hefði verið á að ráða hana í hlutastarf. Enn fremur hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um það hvernig konan hefði komið að upplýsingum varðandi efni lokaritgerðar sinnar en það hefði ekki komið fram í umsókn hennar. Einnig hafi hann með vísan til orðalags í rökstuðningsbréfi kærða óskað upplýsinga um hvort það hefði haft áhrif á mat umsóknar hans að til þess hefði verið litið að aldur og kyn væru ekki um of einsleit, en kynja- og aldursmismunun sé óheimil lögum samkvæmt.
  31. Um þetta bil, eða rétt í byrjun júní 2020, hafi kærandi nokkrum sinnum haft símasamband við forstöðumann rannsóknarsviðs kærða. Þegar ekki hafi orðið lát þar á hafi forstöðumaðurinn borið þá hugmynd upp við skattrannsóknarstjóra að honum yrði boðið að koma til fundar hjá kærða. Talið hafi verið sjálfsagt að reyna að koma til móts við kæranda með þessum hætti ef það mætti verða honum til hugarléttis og þá að leitast við að veita honum frekari svör eftir því sem kostur hafi verið. Með símtali 4. júní 2020 hafi kæranda því verið boðið að koma til fundar hjá kærða þar sem farið yrði yfir atriði tengd hinum nýlegu mannaráðningum kærða og þá yrði leitast við að veita honum frekari svör eftir því sem kostur væri. Í tölvubréfi kæranda 4. júní 2020 hafi hann vísað í orð sem hann hafi haft eftir forstöðumanni rannsóknarsviðs kærða úr símtalinu á þá leið að varðandi meintan skort á hæfni kæranda á sviði mannlegra samskipta hefði hann tekið fram að kærandi væri ekki sýnilegur á netinu. Kærandi hafi sagt að það væri rétt að hann hefði greint frá þessu í viðtali hjá kærða en að ástæðan hefði verið viðleitni til að minnka líkur á hótunum og eignaspjöllum sem starfsmenn greiningardeildar tollstjóra hefðu mátt þola en í þeirri deild hefði kærandi starfað á síðasta skeiði vistar sinnar hjá embætti tollstjóra.
  32. Kærandi hafi mætt á fund skattrannsóknarstjóra og forstöðumanns rannsóknarsviðs kærða 9. júní 2020. Á fundinum hafi verið gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hafi verið byggt á og það öllu ítarlegra en um hafi rætt í rökstuðningsbréfi kærða. Kærandi hafi sent skattrannsóknarstjóra tölvubréf 10. júní með samantekt um efni fundarins. Hann hafi þakkað fyrir góðan fund en síðan hafi hann kvaðst hafa tekið saman aðalatriði fundarins með þessum hætti og beðið skattrannsóknarstjóra um að staðfesta að rétt væri eftir haft og eftir atvikum að gera athugasemdir. Þessi tilmæli hafi kærandi ítrekað með tölvubréfi 12. júní. Í svari skattrannsóknarstjóra 15. júní 2020 hafi hún vísað til þess að fundurinn hefði staðið yfir á aðra klukkustund. Leitast hefði verið við að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ráðið hefðu för við endanlegt val og þá ekki síst í ljósi áherslna sem hefðu komið fram í starfsauglýsingu. Að loknu heildarmati hafi umrædd kona verið talin hafa fallið betur að þeim. Með tölvubréfi kæranda 15. júní 2020 hafi hann spurt hvort aflað hefði verið upplýsinga um hann frá öðrum en meðmælendum. Þessu hafi verið svarað neitandi 19. júní 2020. Með tölvubréfi kæranda 19. júní 2020 hafi kærandi spurt hvað það hefði nákvæmlega verið sem meðmælandi hans hafi átt að hafa sagt sem hafi bent til að hann skorti hæfni í mannlegum samskipum. Hann hafi kvaðst hafa rætt við meðmælandann sem hafi ekki kannast við slík ummæli. Í svari skattrannsóknarstjóra 19. júní 2020 hafi hún áréttað að heildarmat hefði ráðið úrslitum, sem og það sem fram hefði komið á fundinum 9. júní að samtal hennar við meðmælandann hefði ekki riðið baggamuninn. Í svarskeyti kæranda sem hafi verið ritað um hæl hafi hann óskað eftir afriti af minnisblaði sem henni hafi borið að rita þegar hún hafi aflað meðmæla, sbr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þann 26. júní hafi kæranda verið send afrit af minnisblöðum vegna beggja starfsumsóknarviðtala hans auk minnisblaðs vegna samtals skattrannsóknarstjóra við meðmælanda hans. Í tölvubréfi kæranda sama dag hafi hann spurt um ástæður þess að það hafi ekki komið fram á minnisblaðinu um samtalið við meðmælandan að hann hefði ekki tekið sérstaklega undir að kærandi hefði mikla hæfni í mannlegum samskiptum, en skattrannsóknarstjóri hefði látið orð falla á þann hátt á fundinum 9. júní. Í svari skattrannsóknarstjóra 1. júlí 2020 hafi verið á það bent að eins og minnisblaðið hafi borið með sér væru þar aðeins skráð helstu atriði samtalsins með knöppu orðalagi. Þá hafi sagt á þá leið að talið yrði að kæranda hefðu nú verið látnar í té allar þær upplýsingar og svör varðandi mannaráðningar sem til yrði ætlast og unnt væri að veita. Eftir sem áður væri litið svo á að kærandi hefði áhuga á að koma til greina yrði ráðið í tímabundnar stöður hjá kærða á næstu mánuðum og yrði umsókn hans því haldið til haga. Hafi síðastgreint verið tekið fram vegna fyrirspurnar kæranda hér að lútandi. Viðbrögð kæranda hafi verið þau að hann hafi ítrekað þegar samdægurs fyrirspurn sína varðandi það hvaða orð meðmælandi hans hefði viðhaft um hæfni sína í mannlegum samskiptum. Jafnframt hafi kærandi tjáð sig um meinta skyldu til skráningar svara auk þess sem hann hafi ekki fallist á að honum hefðu verið veittar allar upplýsingar. Í svari skattrannsóknarstjóra 2. júlí 2020 hafi sagt að í minnispunktum hennar varðandi samtalið við meðmælandann hafi þar verið tilgreint sem hún hefði helst talið koma þar fram og að eðli málsins samkvæmt hefði það sem ekki hefði komið fram ekki verið tíundað. Meðmælandinn hafi ekki talið hæfni í mannlegum samskiptum vera meðal þeirra styrkleika kæranda sem hann hafi greint frá. Hafi því hvorki verið getið um sérstaka samskiptahæfni né skort á henni í minnispunktunum. Í stuttu ágripi um efni símtals væru ekki tilgreind hin ýmsu atriði sem þar hafi ekki komið fram og væri nú talið að mál þessi væru að fullu útrædd. Við þessu hafi kærandi brugðist með tölvubréfi 3. júlí 2020 þar sem hann hafi krafið skattrannsóknarstjóra um skýringar á þeim orðum að meðmælandinn hefði ekki nefnt mikla hæfni í mannlegum samskiptum meðal þeirra styrkleika kæranda sem meðmælandinn hefði greint frá. Hann hafi vísað til þess að meðmælandinn hafi upplýst sig um að hann hefði í samtali við skattrannsóknarstjóra greint frá því að samskipti hans og kæranda hefðu alltaf verið góð. Kærandi hafi kvaðst túlka þetta þannig að skýrt og greinilega hafi verið gefið til kynna að viðkomandi einstaklingur hefði til að bera mikla hæfni í mannlegum samskiptum. Þá hafi kærandi sagt að misræmi væri á milli þess sem fram hafi komið í síðasta tölvubréfi skattrannsóknarstjóra og orða hennar á fundinum 9. júní 2020. Umrædda kröfu hafi kærandi ítrekað með tölvubréfi 13. júlí s.á. Í svari skattrannsóknarstjóra 15. júlí 2020 hafi verið gerð grein fyrir mikilvægi hæfni til mannlegra samskipta við störf að skattrannsóknum. Þá hafi þeirri skoðun verið lýst að frásögn umsagnaraðila um að samskipti við umsækjenda hefðu verið góð yrði ekki túlkuð sem ígildi þess að viðkomandi væri talinn búa yfir sérstakri færni í mannlegum samskiptum að því marki sem eftir hefði verið leitað. Að lokum hafi skattrannsóknarstjóri vísað til þess að sérstætt væri að í tölvubréfum kæranda væru einstakar setningar sem hann hefði eftir henni settar innan tilvísunarmerkja en minna hirt um að greina frá því í hvaða samhengi ummælin hafi verið viðhöfð. Spurt hafi verið hvort hann hefði hljóðritað eða með öðrum hætti tekið upp það sem fram hefði farið á fundinum. Í svari kæranda 16. júlí 2020 hafi hann kvaðst eiga hljóðritaðar upptökur af samtölum vegna þessa máls. Hafi síðan verið vísað til ummæla forstöðumanns rannsóknarsviðs í símtali við kæranda 4. júní og til ummæla skattrannsóknarstjóra og forstöðumanns rannsóknarsviðs sem höfðu fallið á fundinum 9. júní. Þá hafi verið sett fram rakning ummæla skattrannsóknarstjóra í tölvubréfsamskiptum í framhaldi fundarins og staðhæft að fram hefðu komið breytingar í frásögn hennar varðandi frásögn umsagnaraðila um samskiptahæfni. Enn fremur hafi kærandi krafið hana um upplýsingar varðandi það hvernig hæfni umsækjenda til mannlegra samskipta hefði verið metin. Í svari skattrannsóknarstjóra 16. júlí 2020 hafi sagt að ekki þyrfti að hafa um það mörg orð að það heyrði til sjálfsagðrar og eðlilegrar kurteisi í mannlegum samskiptum að upplýsa hlutaðeigandi um fyrirhugaða hljóðritun símtala og funda. Þá hafi sagt að kæranda hefði þegar verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem mál hans hafi varðað og að samskiptum kærða við hann vegna þessa væri hér með lokið. Í tölvubréfi 22. júlí 2020 hafi kærandi ítrekað áður framsettar kröfur um að kærði staðfesti að umrædd kona sem ráðin hafi verið hefði sent afrit af prófskírteini sínu fyrir lok umsóknarfrests og hafi hann vísað til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessa kröfu hafi hann ítrekað með tölvubréfum 22., 24. og 28. júlí. Í tölvubréfi kæranda 28. júlí hafi hann vísað til símtals sem hann hefði átt þann sama dag við forstöðumann rannsóknarsviðs kærða sem hefði ekki sagst geta staðfest að konan hefði skilað inn prófskírteini áður en umsóknarfrestur hafi runnið út en hann hafi sagt að hann ætlaði að athuga þetta og svara innan tíðar. Vegna þessa skuli það tekið fram að kæranda hafi á umræddum fundi verið greint frá því að téð skírteini hefði ekki fylgt umsókn hennar en að enginn vafi hafi verið uppi um að hún uppfyllti þær kröfur sem um hafi rætt. Í þessu sambandi skuli þess getið að kærði telji upplýsingar um það hvort eða á hvaða tímapunkti prófskírteini hafi verið skilað inn til kærða ekki vera á meðal þeirra upplýsinga sem réttur samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga taki til. Hér sé um að ræða rannsóknarskyldu af hálfu kærða til að sjá til þess og eftir atvikum kanna með gögnum að þær upplýsingar sem viðkomandi hafi sagst búa yfir væru réttar. Sú rannsóknarskylda verði að vera uppfyllt þegar viðkomandi hefði störf fyrir kærða. Ekki komi til þess að umsókn verði vísað frá vegna þessa eins. Í tölvubréfi kæranda 31. júlí 2020 hafi hann vísað til símtals sem hann hefði fyrr þennan dag átt við forstöðumann rannsóknarsviðs sem staðgengil skattrannsóknarstjóra þar sem hann hefði tilkynnt að umræddar upplýsingar yrðu ekki veittar. Kærandi hafi upplýst að þetta væri ólöglegt og að þessi afgreiðsla yrði „kærð“ til umboðsmanns Alþingis þegar í stað. Beinum samskiptum á milli aðila hafi lokið með þessum hætti.
  33. Ákvarðanir um ráðningu fólks til að vinna að skattrannsóknum séu matskenndar stjórnvaldsákvarðanir. Verði því talið að við slíkar ráðningar njóti kærði eins og önnur stjórnvöld í hliðstæðri stöðu nokkurs frelsis varðandi ákvörðun hæfniskrafna og mat á áskildum verðleikum umsækjenda. Allt að einu hvíli á sú skylda að viðmið sem til grundvallar séu lögð eigi sér málefnalegar og rökréttar forsendur og að þau tengist starfinu á eðlilegan hátt. Jafnframt verði málsmeðferð að vera með þeim hætti að fyrir liggi að nægjanlegra upplýsinga hafi verið aflað, þ.e. að gætt hafi verið ákvæða rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Enn fremur verði ákvarðanir um ráðningar að eiga sér haldbæran grundvöll í þeim atriðum sem upplýsinga hafi verið aflað um og fyrir liggi varðandi umsækjendur. Hæfnisskilyrðum megi í grófum dráttum skipta í hlutræna og huglæga þætti. Þessir þættir geti þó mjög blandast saman, svo sem ljóst sé. Eins og vikið hafi verið að í upphafi séu skattrannsóknir næsta sérhæfð viðfangsefni og þannig vaxin að færni við þær verði að verulegu leyti aflað með starfsreynslu. Meðal annars sé ekki hægt að tilgreina ákveðna menntun sem best hljóti að henta sem kunnáttugrunnur, enda þótt menntun á sviði viðskiptafræði, hagfræði og lögfræði sé þar álitleg. Allt að einu hafi meðal annars stjórnmála- og félagsfræðingar unnið að skattrannsóknum og reynst vel við þær. Vert sé þó talið að áskilja háskólamenntun með tilliti til þjálfunar í rökhugsun og sjálfstæðri vinnu að lausn verkefna sem almennt ávinnist með slíkri menntun. Sérþekking á efnisréttinum, þ.e. skattarétti, sem aflað hafi verið með markvissri og eiginlegri menntun í þeim fræðum hafi reynst góður grundvöllur. Að sama skapi sé ekki heldur hægt að tilgreina ákveðna starfsreynslu sem hljóti að vera nýtilegri umfram annað nema þá helst reynslu innan réttarvörslukerfisins af rannsóknum annarra fjármunabrota, eða reynslu sem stuðli að þekkingu á efnisreglum skattaréttarins. Þá kunni það að vera breytilegt frá einum tíma til annars hvaða sérþekkingar þyki helst þörf til að styrkja rannsóknargetu kærða. Jafnframt sé það mat kærða, byggt á reynslu, að nokkur fjölbreytni í reynslu og þekkingargrunni rannsóknarfólks sé nauðsynleg fyrir hann. Af þessu leiði að hinar hlutrænu hæfniskröfur sem um ræði séu engan veginn svo hreinar og klárar eins og til dæmis ef ráða skyldi í stöðu verkfræðings eða læknis eða lögfræðings á lögfræðisviði kærða. Þvert á móti samtvinnist huglægt mat mjög mati hlutlægra þátta þegar um ræði mat á hæfnisskilyrðum vegna auglýsinga eftir starfsfólki til að vinna að skattrannsóknum. Samkvæmt reynslu kærða sé og nauðsynlegt að hæfni á ákveðnum sviðum sé fyrir ofan vissa þröskulda. Þannig nægi rík hæfni á einu sviði ekki til að upphefja vöntun á hæfni á öðru sviði, sé hún neðan þröskuldarins þar.
  34. Því sé alfarið hafnað að ákvörðun um ráðningu konunnar hafi verið byggð á kyni hennar og aldri. Þau sjónarmið varðandi einsleitni sem til hafi verið vísað í rökstuðningsbréfi kærða hafi verið höfð í huga í upphafi þegar valið hafi verið úr hópi allra umsækjenda sem bjóða skyldi í starfsviðtal, eins og að framan hafi verið lýst. Þess hafi verið gætt að þrengja ekki hópinn um of í þessari úrvinnslu. Á síðari stigum og við ákvörðun ráðningar hafi aftur á móti alfarið verið byggt á hæfni umsækjenda en þó þannig að til þess hafi verið horft að ekki yrðu allir með sama menntunarbakgrunn. Hafi því ekki aðeins verið ráðið fólk með viðskiptamenntun heldur einnig lögfræðimenntað fólk. Í ljósi nauðsynjar þess að rannsóknarteymi samanstandi af fólki með menntun á sviði viðskiptafræði eða lögfræði hefði ekki komið til þess að í allar stöður yrði ráðið fólk með lögfræði- eða viðskiptafræðimenntun. Síðastgreint hafi ekki getað komið niður á kæranda þar sem hann sé lögfræðingur eins og umrædd kona. Því sé einnig alfarið hafnað að miðað hafi verið að því að um yrði að ræða sérstaka aldursdreifingu meðal hinna nýju rannsakenda. Þar sé við það átt, eins og að framan greini, að þrátt fyrir að fólk sé nýútskrifað geti það vel uppfyllt þær kröfur sem áhersla sé lögð á af hálfu kærða að rannsakendur þurfi að búa yfir. Með því að hlutfall kvenna í þeim hópi sem fyrir hafi verið hjá kærða hafi verið nokkuð hærra en hlutfall karla hafi ráðning konunnar reyndar ekki verið til ítrustu kynjajöfnunar fallin. Slík sjónarmið byggð á kyni eða aldri hafi aftur á móti ekki að neinu leyti verið ráðandi við endanlegt val úr hópi umsækjenda. Í þessu sambandi vísar kærði til töflu sem fylgdi greinargerð hans þar sem tekið hafi verið saman yfirlit yfir kyn starfsmanna sem ráðnir hafi verið til kærða og lífaldur þeirra við ráðningu. Blasi þar við að til kærða hafi í gegnum tíðina verið ráðið fólk af báðum kynjum og á öllum aldri.
  35. Eins og frá hafi verið skýrt hafi einn umsækjenda sem hafi verið boðin ráðning ákveðið að þiggja hana ekki. Téður umsækjandi sé lögfræðingur, kona og fædd árið 1987. Í ljósi þessa verði því enn síður komið heim og saman að gagnvart kæranda hafi verið uppi mismunun vegna aldurs hans.
  36. Samkvæmt framangreindu sé alfarið vísað á bug þeirri staðhæfingu að umrædd kona hafi verið boðin ráðning hjá kærða á grundvelli kyns og aldurs.
  37. Tekið hafi verið fram í starfsauglýsingunni að með umsóknum skyldi fylgja afrit af viðeigandi prófskírteinum. Engin rök standi aftur á móti til þess að talið verði að um formskilyrði hafi verið að ræða sem skyldi valda frávísun umsóknar yrði það ekki uppfyllt þegar við framlagningu hennar. Því síður geti svo verið ef hjá auglýsanda viðkomandi starfs sé vitneskja um að yfirlýst prófgráða sé fyrir hendi. Þá yrði meðalhófs ekki gætt nema að áður yrði gefið færi á að bæta úr vöntun viðeigandi gagns. Það sé og að athuga að í umsókn hafi umrædd kona skírskotað til væntanlegar prófgráðu sem prófskírteini sem hafi því ekki getað verið til við framlagningu umsóknarinnar. Engar reglur eða ástæður séu í sjónmáli sem girði fyrir að einstaklingur sæki um starf með vísan til þess að hann muni þegar til ráðningar geti komið eða skömmu síðar hafa lokið ákveðinni menntun.
  38. Ekkert tilefni hafi verið til þess að upplýsingar í umsókn umræddrar konu viðvíkjandi námi hennar við lagadeild Háskóla Íslands og hvar hún hafi verið þar á vegi stödd yrðu dregnar í efa. Því síður hafi það getað verið svo sökum þess að skattrannsóknarstjóra hafi vegna kennslu sinnar við lagadeildina verið kunnugt um að konan væri þar nemandi og verið þar stödd í framvindunni sem í umsókninni hafi sagt. Í ljósi rannsóknarskyldu opinberra aðila við ráðningar sé þó sjálfsagt að gengið sé úr skugga um að þær upplýsingar sem fram komi í starfsumsókn og séu grundvöllur ráðningar séu réttar, að því marki sem fært sé. Því sé rökrétt að áskilið sé að prófskírteini sé í öllum tilvikum lagt fram, liggi það fyrir, og viðkomandi hafi tekið til starfa. Það sé meðal annars krafa Fjársýslu ríkisins að til grundvallar launagreiðslum þaðan sé auk ráðningarsamnings framvísað prófskírteini. Hafi það enda verið svo að konan sem ráðin hafi verið hafi afhent prófskírteini vegna náms við lagadeildina þegar hún hafi hafið störf hjá kærða.
  39. Vegna staðhæfinga kæranda um að kærði hafi synjað honum um upplýsingar um hvort umrædd kona hefði skilað inn prófskírteini áður en umsóknarfrestur hafi runnið út sé það ítrekað sem áður segi að honum hafi á fundinum 9. júní 2020 verið greint frá því að téð skírteini hefði ekki fylgt umsókn hennar en að enginn vafi hafi verið uppi um að hún uppfyllti þær kröfur sem um hafi rætt. Aftur á móti fáist það ekki staðist að umsækjandi um starf hafi heimild til að krefja stjórnvald um upplýsingar af umræddu tagi til að ganga úr skugga um hvernig það hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni. Til þess standi hvorki skráðar né óskráðar réttarreglur, enda hafi framangreind krafa ekki verið studd með vísan til heimilda á nokkurn máta.
  40. Samkvæmt þessu hafni kærði því með öllu að vísa hefði átt umsókn umræddrar konu frá vegna ofangreindra ástæðna. Þá verði ekki fallist á að mat kærða á hæfni konunnar hafi verið rangt og að kærandi hafi verið henni fremri heildrænt séð hvað hina áskildu hæfni hafi varðað. Háskólamenntun sem nýtast myndi í starfi var áskilin, svo sem viðskiptafræði, hagfræði eða lögfræði og meistaranám sem nýtist í starfi verið talinn kostur.
  41. Bæði kærandi og sú sem ráðin hafi verið höfðu lokið grunnprófi í lögfræði þegar þau hafi skilað inn umsóknum sínum en kærandi hafði þá einnig lokið meistaraprófi. Aftur á móti hafi komið fram í umsókn konunnar að hún væri að ljúka meistaranámi í lögfræði. Hún hafi nánar greint aðeins átt eftir að ljúka ritgerð sem fjallaði um [á sviði skattaréttar]. Vegna undirbúnings fyrir þátttöku í málflutningskeppni, sem síðan hafi fallið niður vegna kórónaveirufaraldursins, hafi hún frestað vinnu við ritgerðina.
  42. Þar sem allar horfur hafi verið á því að hún myndi innan skamms tíma, þ.e. nokkurra mánaða, ljúka meistaraprófi sínu, hafi verið litið til þess að hún yrði senn þessum kosti búin. Samkvæmt því hafi ekki verið talið að kærandi hefði forskot gagnvart henni í þessu sambandi sem neinu næmi.
  43. Kærandi hafi vísað til þess að lokaverkefni hans hafi verið á sviði stjórnsýsluréttar sem félli vel að störfum hjá kærða. Þessu megi játa en lokaverkefni þeirrar konu sem hafi hlotið starfið hafi verið á sviði skattaréttar sem ekki falli síður heldur enn frekar vel að störfum rannsakanda hjá kærða. Þá skuli þess hér getið að ekki hafi verið gerð krafa í auglýsingu um þekkingu á sviði stjórnsýsluréttar, enda séu álitaefni þar að lútandi sem kunni að koma upp innan kærða að jafnaði leyst innan lögfræðisviðs þess sem eflt hafi verið frá því sem áður hafi verið.
  44. Samkvæmt ofangreindu verði ekki fallist á að kærandi hafi staðið framar konunni varðandi þennan þátt.
  45. Þau atriði sem hér hafi þýðingu hafi komið fram í umsóknum og í starfsviðtölum. Þá hafi skattrannsóknarstjóra vegna kennslu sinnar í skattarétti í lagadeild Háskóla Íslands verið kunnugt um hvar umrædd kona hafi verið á vegi stödd í laganámi sínu.
  46. Greiningarhæfni sé að sönnu einn mikilvægasti styrkleiki starfsmanns til að hann nái góðum árangri við skattrannsóknir, svo sem við blasi. Geti verið um að ræða yfirferð umfangsmikilla gagna þar sem greina þurfi aðalatriði frá aukaatriðum og halda yfirsýn og að greina hvað sagt sé og ósagt í skjölum. Góður greinandi þurfi að bera skynbragð á hvaða þáttum þurfi að halda til haga til að mynda grundvöll að niðurstöðum mála. Kostir fólks til að sýna fram á að það hafi til að bera framúrskarandi greiningarhæfni byggist aftur á móti einkum á því að það hafi fengið tækifæri til að spreyta sig við slík viðfangsefni og að þar hafi það sannað færni sína. Væri við mat þessa skilyrðis litið svo á að það væri þá aðeins talið uppfyllt að hæfnin væri staðfest með reynslu myndi það sjálfkrafa útiloka alla nema þá sem byggju að fyrri reynslu. Vísbendingar um greiningarhæfni geti þó verið fyrir hendi í ljósi frammistöðu við ýmis verkefni önnur en eiginleg greiningarverkefni á borð við þau sem til viðfangs séu við skattrannsóknir. Viðbúið sé síðan að framlenging ráðningar að reynslutíma loknum velti mjög á því að yfirlýst hæfni reynist fyrir hendi.
  47. Í umsóknargögnum kæranda hafi komið fram atriði sem hafi bent til þess að hann myndi hafa til að bera áskilda hæfni til greiningar. Samtal skattrannsóknarstjóra við umsagnaraðila hans hafi staðfest að svo myndi vera, þ.e. hann hefði unnið með mikið magn gagna. Konan sem ráðin hafi verið hafi ekki sérstaklega lýst framúrskarandi greiningarhæfni í umsókn sinni, enda þótt framlagning umsóknarinnar hafi gefið til kynna að hún teldi sig uppfylla þetta skilyrði. Aftur á móti hafi það verið ráðið af vali hennar til þátttöku í málflutningskeppni að það lægi vel fyrir henni að átta sig á eðli mála og að vinna þau á skipulegan hátt. Þá hafi það legið fyrir í umsögn yfirskattanefndar að úrlausnir hennar hafi verið til fyrirmyndar. Hafi því samkvæmt umsókn hennar mátt álykta að hún væri líkleg til að hafa yfir greiningarhæfni að búa þannig að þar hafi ekki aðeins verið hennar eigið mat að baki. Samkvæmt þessu hafi, hvað hvorugt þeirra varðar, verið tilefni til að efast um að þau myndu hafa til að bera nauðsynlega greiningarhæfni og hafi verið talið að bæði væru þau álitleg að þessu leyti. Ekki hafi verið ástæða til að gera upp á milli þeirra í umræddu sambandi.
  48. Starfsumsókn kæranda hafi verið vel framsett og til vitnis um að hann hefði til að bera nákvæmni og ögun í vinnubrögðum. Starfsumsókn umræddrar konu hafi ekki verið eins ítarleg og umsókn kæranda en hafi þó verið gagnorð og greinargóð. Í umsókn hennar og fylgigögnum sem og í starfsviðtölum hafi jafnframt komið fram atriði sem hafi borið vott um að hún myndi hafa til að bera nákvæmni og ögun í vinnubrögðum. Hér sé nánar greint átt við frammistöðu í námi sem vísað hafi verið til í umsókninni og vitnisburð um frammistöðu í starfsnámi hjá yfirskattanefnd sem hafi fylgt umsókninni, sem og upplýsingar um að hún hefði stundað fullt starf samhliða námi um skeið, sem eðli málsins samkvæmt kalli á ögun í vinnubrögðum. Hafi því verið ályktað að bæði hefðu þau til að bera áskilda nákvæmni og ögun í vinnubrögðum, enda þótt þau atriði sem þar hafi legið að baki væru með ólíkum hætti. Ekki hafi verið efni til að ályktað yrði að annað þeirra væri hinu fremra á þessu sviði.
  49. Kærði hafni því að meintir annmarkar á umsókn þeirrar konu sem ráðin hafi verið og sem til hafi verið vísað í kærunni hafi leitt í ljós yfirburði kæranda hvað téða hæfni varði. Þegar hafi verið fjallað um þær staðhæfingar í kærunni að sökum vöntunar prófskírteina hefði átt að vísa umsókn hennar frá.
  50. Þau atriði sem hér hafi haft þýðingu hafi komið fram í umsóknum og fylgigögnum með þeim og í viðtali við meðmælanda kæranda.
  51. Í rökstuðningi með umsókn sinni hafi kærandi tíundað athafnir og viðfangsefni sem hann hefði tekist á hendur, auk upplags hans og skapgerðareiginleika sem væru til marks um að hann hefði uppfyllt skilyrði um frumkvæði, sjálfstæði í störfum og getu til að vinna undir álagi. Í umsókn konunnar hafi sagt að hún væri samviskusöm, skipulögð og sjálfstæð í vinnubrögðum, auk þess sem framlagning umsóknar hennar hafi falið í sér yfirlýsingu um að hún hefði til að bera þá hæfni sem áskilin hafi verið í starfsauglýsingunni. Varðandi þau skilyrði sem hér um ræði hafi þó gilt álíka og varðandi þau skilyrði sem áður voru talin að hæfni hvað þau snerti verði einkum staðfest í verki hafi tækifæri gefist til. Að því leyti sem slíku eða öðrum vísbendingum sé ekki til að dreifa verði við að sitja eigin yfirlýsingar umsækjenda. Hvað kæranda áhræri hafi þó með hliðsjón af starfsferli hans mátt álykta að hæfnisskortur á umræddu sviði myndi ekki verða honum fjötur um fót. Hið sama hafi mátt álykta á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram hafi komið í starfsumsókn konunnar, sem og í starfsviðtölum. Þátttaka í félagsmálum, meðal annars trúnaðarstörf við hagsmunagæslu, hafi bent til frumkvæðis og sjálfstæðis og upplýsingar um atvinnusókn samhliða námi hafi bent til getu til að vinna undir álagi. Hið sama hafi ekki síður verið ráðið af framvindu náms hennar. Þannig hafi upplýsingar úr umsóknargögnum þeirra beggja stutt að þau hefðu til að bera áskilda hæfni á ofangreindu sviði. Ekkert hafi þó komið fram sem hafi gefið tilefni til að ganga út frá því að annað þeirra væri hinu hæfara að þessu leyti.
  52. Kærandi staðhæfi að augljóst sé að hann hafi sýnt betur fram á hæfni sína á þessu sviði en umrædd kona. Vegna þessa sé bent á að rökstuðningur í umsókn kæranda varðandi umrædda hæfni hafi verið fólgin í hans eigin umsögn um meinta eigin kosti og frásögn um athafnir sem bæru vott um þá. Að mati kærða hafi slíkur rökstuðningur aðeins hverfandi vægi andspænis því sem ráðið verði af upplýsingum um raunverulega framgöngu í leik og starfi. Því sé hafnað að umræddur rökstuðningur kæranda hafi staðfest ríkari hæfni hans en konunnar hvað greind skilyrði hafi varðað. Þau atriði sem hér hafi haft þýðingu hafi komið fram í umsóknum og í starfsviðtölum.
  53. Eins og að framan greini sé eðli og tilhögun skattrannsókna svo varið að forsenda árangurs sé sú að rannsóknarfólk hafi til að bera færni í mannlegum samskiptum og getu til að vinna í teymum fjölbreytilegra sérfræðinga sem skipuð séu ólíkum einstaklingum. Hér sé um að ræða einn grundvallar- og jafnframt lykilþátt áskilinnar hæfni, sbr. það sem fram hafi komið í starfsauglýsingu. Verði talið að í færni til mannlegra samskipta sé meðal annars fólgin hæfni til að vinna með öðrum þannig að geta varðandi síðartalda þáttinn fylgi þeim fyrrtalda. Einnig reyni sem áður segi mjög á mannleg samskipti gagnvart sakborningum, verjendum þeirra og vitnum. Því sé nauðsynlegt að rannsakendur hafi vissa færni hvað þetta varði og verði ekki séð að skortur þar á verði veginn upp með þeim mun ríkulegri færni á öðrum sviðum. Framangreint álit varðandi mikilvægi greindra þátta sé ekki síst byggt á þeirri reynslu sem fengist hafi í starfrækslu kærða á áratugunum síðan embættið hafi verið stofnað. Fram sé komið varðandi þau atriði sem um hafi verið fjallað hér að ofan að nokkrum erfiðleikum geti verið bundið að leggja fyrir fram án reynslu við störf traust mat á stöðu umsækjenda hvað þau snerti. Mun frekar sé hægt í umsóknarferli að henda reiður á stöðu umsækjenda á sviði mannlegra samskipta. Sú viðkynning sem fáist í starfsviðtölum við umsækjendur opni jafnan sýn á persónuleika þeirra, enda sé það einn megintilgangur slíkra viðtala. Þá verði sitthvað um persónulega eiginleika ráðið af upplýsingum sem fram komi í umsóknum þar sem greint sé frá ævi- og starfsferli og jafnvel áhugamálum. Síðast en ekki síst geti viðtöl við umsagnaraðila og reyndar fleiri upplýst nánar hina persónulegu eiginleika.
  54. Kærandi hafi talið í umsókn sinni að hann hefði framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum. Í frekari ummælum hans hér að lútandi hafi hann sagt að hann sýni fólki ætíð virðingu og fari ekki í manngreinarálit. Hann hefði aldrei fengið tiltal vegna óæskilegrar framkomu og hann hefði ætíð hlýtt „löglegum fyrirskipunum“ yfirmanna sinna. Hann ætti auðvelt með teymisvinnu og hefði reynslu af vinnu með ólíkum einstaklingum. Hann hefði myndað tengslanet við marga opinbera starfsmenn sem honum hefði ekki verið unnt án færni í teymisvinnu. Hefði hann lagt mikla áherslu á traust í samskiptum og notið áunnins trausts í lögreglustörfum við ráðningu til tollstjóra. Samkvæmt skráningu vegna starfviðtals kæranda við forstöðumenn rannsóknarsviðs og stoðsviðs kærða hafi varðandi mannleg samskipti verið skráð svar kæranda þess efnis að hann væri góður að hlusta, hann reyndi að vera mannlegur og að hann lyti ákvörðunum yfirmanna væri uppi ágreiningur. Viðvíkjandi göllum hafi verið ritað að viðkomandi gæti bætt ýmislegt, til dæmis sjálfstraustið. Einnig hafi verið skráð að ekkert hafi fundist um hann á netinu. Í niðurstöðu hafi sagt að hann hefði komið vel fyrir, virst vera klár, hefði tekið skýrslur og átt gott með texta. Þá hafi sagt: „Lætur ekkert frá sér um sjálfan sig.“ Við niðurstöðuna hafi verið skráð einkunnin B+.
  55. Vegna seinna viðtals skráði skattrannsóknarstjóri í minnispunktum að kærandi hafi hætt í lok árs í tímabundnu starfi hjá tollstjóra þar sem hann hafi verið á tímabundnum samningi. Hann hafi komið ágætlega fyrir og styrkleikar lægu í greiningarfærni og hefði sagt að málaflokkurinn heillaði en spurningarmerki sett við að hann væri ekki afgerandi.
  56. Meðal fylgigagna með umsókn kæranda hafi verið skjal sem í fylgigagnatalningu hafi verið nefnt „Niðurstaða mín úr hinu alþjóðlega viðurkennda persónuleikaprófi Hogan Personality Inventory“. Þar sem um hafi verið að ræða sjálfspróf af einhverju tagi sem fram hafi farið án beinnar aðkomu fólks með fagþekkingu hafi að mati kærða ekki verið fært að taka neitt tillit til þessa gagns. Ekkert annað hafi verið að finna í umsóknargögnum kæranda sem hafi stutt við staðhæfingar hans um að hann hefði til að bera framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum. Ekkert í þessa veru hafi heldur þótt koma fram í framangreindum viðtölum, heldur hafi hann þótt frumkvæðislaus í samskiptum þeim sem um hafi rætt og nokkuð á varðbergi, eins og skráð var í hinum rituðu athugasemdum, enda þótt hann yrði talinn koma vel fyrir í frammistöðu sinni við að svara spurningum viðmælenda. Í framhaldi af viðtölunum hafi verið haft samband við meðmælanda kæranda. Hafi hann verið tilgreindur sem meðmælandi í umsókn kæranda en þó með þeim skilmálum að í umsókninni hafi sagt að leyfi til að hafa samband við hann væri háð sérstöku leyfi frá kæranda. Skattrannsóknarstjóri hafi átt símtal við meðmælandann. Þar hafi verið spurt um færni kæranda og reynslu af hans störfum. Skattrannsóknarstjóri hafi ritað niður helsta efni umsagnarinnar þegar í stað á minnisblað sem síðar hafi verið fært inn í skjalakerfi kærða með svofelldum hætti:

    12. mars 2020. […] hringdi í [meðmælanda kæranda] vegna umsagnar. Endurskoðunardeild. Vinna með mikið magn gagna. Ekki út af örkinni. Styrkleikar í greiningarvinnu. Vandvirkur. Var áður í greiningardeild. Var á tímabundnum samningi. Ekki sáttur við mannauðsd. og því hætt í greiningardeild. Þeirra samskipti góð.

  57. Ofangreind umsögn hafi ekki þótt veita ástæðu til að gera færni kæranda í mannlegum samskiptum hærra undir höfði en leiða hafi mátt af samtölum við hann sjálfan. Við svo búið hafi það verið mat kærða að hvorki viðkynning við kæranda í starfsmannaviðtölum hans hjá kærða né neitt annað hafi stutt téðar staðhæfingar hans um að hæfni hans í mannlegum samskiptum væri framúrskarandi þannig að ástæða hefði verið til að telja hann búa yfir sérstökum styrkleika á því sviði.
  58. Í upphafsmálsgrein starfsumsóknar þeirrar konu sem ráðin hafi verið hafi hún sagt að hún væri félagslynd og ætti auðvelt með að starfa með öðrum. Einnig hafi í umsókninni verið vísað til virkni hennar í félagslífi og í upptalningu í umsókninni undir heitinu „Önnur kunnátta“ hafi ýmis félagsstörf verið tíunduð, sem eindregið hafi borið með sér félagsfærni á því stigi sem hafi útheimt góða hæfni í mannlegum samskiptum. Samkvæmt skráningu vegna starfsviðtals hennar við forstöðumenn rannsóknarsviðs og stoðsviðs skattrannsóknarstjóra hafi varðandi mannleg samskipti verið skráð svarið „Er hreinskilin – tekur engu persónulega“. Viðvíkjandi göllum hafi verið skráð það efni svars viðmælandans um að hún hefði áður sagt frá lesblindu og að hún ætti til að grafa of djúpt. Í umsögn hafi eftirfarandi komið fram:

    Kemur mjög vel fyrir. Er örugg og virðist eiga gott með að vinna í hóp. Virk í félagsstörf[um] og á gott [með] að eiga í samskiptum við fólk.

    Við niðurstöðuna hafi verið skráð einkunnin A.

  59. Minnispunktar skattrannsóknarstjóra vegna seinna viðtals hennar séu á þessa leið:

    Farið yfir aðalatriðin í fyrra starfsviðtali. Hefur mikinn áhuga á skattamálum. Lokaritgerð [á sviði skattaréttar]. Góð reynsla að hafa verið hjá YSKN. Hefur áhuga á krefjandi verkefnum, hefur m.a. tekið þátt í málflutningskeppnum og nú stendur til að taka þátt í […] málflutningskeppninni í […]. Verið virk í félagsstarfi í lagadeildinni. Telur reynslu sína við störf hjá lögreglu gera hana undirbúna til starfa hjá SRS, þ. á m. skýrslutökur og önnur samskipti við brotamenn. Er grúskari og forvitin. Mjög góð í að vinna í hópi. Með hreint sakarvottorð og skilar réttu skattframtali. […] telja hana sýna mikinn áhuga á skattamálum og starfinu, er skýr og greinargóð í framsetningu. Virkar ákveðin og fær til að takast á við krefjandi aðstæður.

  60. Að loknu viðtalinu hafi verið ljóst að mati kærða, bæði samkvæmt viðkynningu við hana í starfsmannaviðtölum og upplýsingum sem í þeim hafi komið fram, sem og samkvæmt upplýsingum um félagsmálaþátttöku í starfsumsókn hennar, að færni hennar í mannlegum samskiptum væri með ágætum.
  61. Samkvæmt ofangreindu hafi þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðningar nýrra starfmanna hjá kærða verið fyrir hendi upplýsingar og viðkynning sem hafi borið skýrt með sér að umrædd kona myndi hafa til að bera ágæta hæfni í mannlegum samskiptum og þá jafnframt til teymisvinnu. Hvorki umsóknargögn, starfsmannaviðtöl né viðtal við umsagnaraðila hafi aftur á móti stutt að kærandi myndi í raun standa framarlega að þessu leyti þannig að hann væri þar jafnfætis umræddri konu. Allt hafi borið að sama brunni um að styrkleikar kæranda myndu fremur nýtast á öðrum sviðum.
  62. Vegna röksemda kæranda í kærunni í þessum efnum sé í fyrsta lagi ítrekað það sem áður hafi verið sagt um „hið alþjóðlega viðurkennda Hogan-persónuleikapróf“. Sjálfspróf af þessu tagi séu að mati kærða ekki traustur grundvöllur að ályktunum um persónulega eiginleika þeirra sem þau þreyti, sbr. hið augljósa að með engu móti sé tryggt að sá taki prófið sem tilgreindur sé sem próftaki þess. Jafnframt sé auðsætt að ummæli umsagnaraðila kæranda, sem hafi verið tekin niður í minnispunktum skattrannsóknarstjóra um símtal þeirra 12. mars með orðunum „þeirra samskipti góð“, geti ekki á neinn hátt talist fela í sér yfirlýsingu umsagnaraðilans umfram það sem í orðum þessum felist. Af því samtali hafi ekki verið dregin sú ályktun að styrkleikar kæranda lægju sérstaklega á sviði mannlegra samskipta. Forstöðumanni rannsóknarsviðs kærða hafi verið það hugstætt úr starfsviðtali kæranda að hann hefði sagt að hann væri ekki sýnilegur á netinu og hafi forstöðumaðurinn ályktað að örðugt gæti verið fyrir einstakling sem teldi slíkan ósýnileika sér mikilvægan að stunda skattrannsóknir þar sem nöfn rannsóknarmanna komi fram í rannsóknarskýrslum og þurfi þeir með öðrum hætti að svara fyrir sín verk. Hann hafi haft orð á þessu í viðtalinu við kæranda en eins og fram hafi komið hafi kærandi skýrt ástæður þess að hann hafi haldið persónu sinni til hlés á meðan hann hafi starfað hjá tollstjóra. Því hafi umrætt atriði enga þýðingu haft varðandi mat á samskiptahæfni kæranda. Því sé aftur á móti algjörlega hafnað að um hafi verið að ræða misræmi eða flökt í skýringum og upplýsingum sem kæranda hafi verið veittar í ferlinu eftir ráðningarnar. Þá sé víst að enda þótt umsagnaraðili kæranda hefði ekki með neinu móti gefið til kynna að hann teldi kæranda skorta hæfni á sviði mannlegra samskipta hafi ekki komið fram í umsögn hans að kærandi væri búinn framúrskarandi hæfni á þessu sviði. Því hafi þessi staðhæfing ekki fengið stuðning af viðtalinu við umsagnaraðilann. Að mati kærða liggi í augum uppi að mikil félagsmálaþátttaka og forsvar í slíku starfi beri vott um samskiptahæfni og sé óþarft að færa rök að slíkum atriðum. Þá verði talið að enda þótt á meðal þeirra sem virkir séu í félagsstörfum kunni að fyrirfinnast miður umgengilegt fólk muni þó almenn líkindi fyrir því að hjá þeim sem séu virkir í félagsstörfum sé fyrir hendi góð hæfni til mannlegra samskipta. Ekki sé síður um að ræða vísbendingu um slíkt þegar um sé að ræða til dæmis val til hagsmunagæslu fyrir hóp, svo að dæmi sé tekið varðandi þær upplýsingar sem fyrir hafi legið varðandi umrædda konu. Ekki hafi verið á því byggt að kæranda myndi skorta færni á sviði mannlegra samskipta heldur hafi staðreyndin verið sú að ekki hafi komið fram atriði sem til þess hafi hnigið að ályktað yrði að hann byggi yfir sérstökum styrkleikum á þessu sviði svo sem áskilið hafi verið í auglýsingu, öndvert við það sem sýnt hafi þótt varðandi þá umsækjendur sem að lokum hafi verið ráðnir til starfa. Samkvæmt framangreindu sé með öllu hafnað þeim röksemdum kæranda sem fram séu færðar í kæru hans því til styrktar að hæfni hans á sviði mannlegra samskipta hafi ekki verið rétt metin við meðferð starfsumsóknar hans.
  63. Þau atriði sem hér hafi þýðingu hafi komið fram í starfsumsóknum, í starfsviðtölum og í samtali skattrannsóknarstjóra og umsagnaraðila kæranda.
  64. Nauðsyn góðrar kunnáttu í Word og Excel og önnur kunnátta í tölvu- og upplýsingakerfum hafi verið talinn kostur.
  65. Kærandi hafi tekið fram í umsókn sinni að hann hefði góða kunnáttu í ofangreindum tölvukerfum. Sú sem ráðin hafi verið hafi einnig í umsókn sinni gert grein fyrir kunnáttu á þessu svið. Samkvæmt því sem fram hafi komið um menntun og starfsreynslu í umsóknum þeirra hafi verið ráðið að þau myndu bæði hafa til að bera nauðsynlega kunnáttu í umræddum efnum, svo sem lýst hafi verið yfir. Á grundvelli umsóknanna hafi ekki verið fært að draga ályktanir um að annað myndi vera hinu fremra að þessu leyti.
  66. Í umsókn kæranda hafi sagt að hann væri fljótur að tileinka sér vinnu í nýju tölvuumhverfi og að hann hefði góða kunnáttu í Outlook og Power Point auk Word og Excel. Þá hafi hann einnig sagt að hann hefði góða þekkingu á gagnagrunnum sem stjórnvöld noti, meðal annars GoPro auk fleiri kerfa sem hann hafi tilgreint, þar á meðal lögreglukerfið LÖKE. Í umsókn konunnar hafi auk þekkingar og reynslu varðandi Word og Excel verið tilgreind þekking á Power Point og Movie Maker sem og þekking á LÖKE.
  67. Samkvæmt því sem þannig hafi komið fram í umsóknum þeirra beggja hafi verið ályktað að kærandi myndi hafa meiri reynslu og þekkingu en konan varðandi önnur tölvukerfi en Word og Excel. Í samræmi við þetta sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við umfjöllun í kærunni sem lúti að forskoti hans hvað snerti kunnáttu í öðrum tölvukerfum.
  68. Í umsókn kæranda hafi sagt um þekkingu á skattarétti og skattskilum að hann hefði í starfi hjá tollstjóra „komið að rannsókn flókinna skattalagabrota vegna brota á lögum um skatta og gjöld sem á eru lögð af tollstjóra“. Hafi síðan til dæmis verið nefnd virðisaukaskattsbrot, vörugjaldsbrot, peningaþvætti og milliverðlagning. Einnig hafi hann tekið fram í þessu sambandi að hann hefði jafnframt starfað innan lögreglunnar þar sem hann hefði fengið að kynnast flestum tegundum lögreglustarfsins, meðal annars rannsóknum frumbrota peningaþvættis. Auk þessa hafi í rökstuðningi hans varðandi menntunarskilyrði verið greint frá því að hann hefði lokið fyrri hluta af Tollskóla ríkisins þar sem hann hefði meðal annars lært skattarétt og að þar sem hann hefði lokið verslunarprófi þekkti hann til grundvallaratriða bókhalds, dagbókarfærslna og reikningsuppgjörs.
  69. Í umsókn umræddrar konu hafi komið fram að hún hefði í tilgreindu skiptinámi í […]í meistaranámi sínu við Lagadeild Háskóla Íslands lært bæði félagarétt og skattarétt og að haustið 2019 hefði hún við Lagadeild Háskóla Íslands lokið áföngunum Félagarétti I og í almennum og sérstökum hlutum íslensks skattaréttar með 9 í einkunn í hinum síðasttöldu. Einnig hafi verið upplýst að lokaritgerð hennar til meistaraprófs væri á sviði skattaréttar og fjallaði um [á sviði skattaréttar]. Þá hafi komið fram í umsókninni að hún hefði stundað starfsnám hjá yfirskattanefnd haustið 2019. Í námsvistarskýrslu meðfylgjandi umsókninni hafi komið fram að um hefði rætt alls 160 stunda vinnu og að viðfangsefni hefðu verið af ýmsum toga, flest varðandi skattskil einstaklinga en einnig mál varðandi skattalega meðferð lögaðila. Hefði hún komist vel inn í þær reglur sem á hafi reynt í málum þeim sem henni hefðu verið falin og úrlausnir hennar verið til fyrirmyndar.
  70. Þrátt fyrir að samspil og snertifletir verði fundnir á milli rannsókna skattalagabrota á vegum kærða og þeirra rannsókna sem séu á höndum embættis tollstjóra (nú Skattsins) sé sú skörun sem þar um ræði aðeins óveruleg í reynd. Samstarf þessara embætta sé fyrst og fremst á sviði innheimtu og mála sem slíku tengist. Kærði hafi með höndum rannsóknir brota gegn öllum hinum fjölmörgu lagabálkum sem taki til skatta, bæði beinna og óbeinna. Sú flóra sé umfangsmikil og fjölbreytt. Þau brot gegn skattalögum sem geti komið til kasta tollstjóra einskorðist við virðisaukaskattsskil í beinum og sjálfkrafa tengslum við innflutning, sbr. að virðisaukaskattur sé lagður á verð vöru að meðtöldum gjöldum sem skuli greiða við innflutning. Að mati kærða séu þau mál því mun einfaldari og einsleitari hvað skattaþáttinn varði en almennt gildi um skattrannsóknarmál. Enda þótt vinna við slík mál geti verið til þess fallin að mynda þekkingu á skattarétti sé þannig um takmarkaðan þekkingarbrunn að ræða. Sú uppfræðsla sem fram fari í Tollskóla ríkisins lúti að meginhluta að efnum sem snerti álagningu og innheimtu tolla sem og framkvæmd tollgæslu, sbr. meðal annars ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 48/2010 um Tollskóla ríkisins og fleira. Verði ekki séð að nám við þennan skóla hverfist um hreinan eða lengra kominn skattarétt að neinu verulegu leyti. Samkvæmt þessu hafi ekki verið séð að starfsreynsla kæranda eða nám hefði aflað honum sérhæfingar í skattarétti nema að mjög takmörkuðu leyti.
  71. Það nám í skattarétti við Háskóla Íslands sem frá hafi greint í umsókn konunnar sé ótvírætt til þess fallið að mynda þekkingu á skattarétti og skattskilum. Hafi samkvæmt þessu og því sem fyrir hafi legið um lokaritgerð hennar vegna meistaranáms við skólann verið ályktað að hún hefði lagt áherslu á skattarétt í námi sínu og þekkingaröflun hennar hafi verið hnitmiðuð hvað hann hafi varðað. Þá sé það reynsla kærða að sú þjálfun og þekking á skattarétti sem fáist við störf hjá yfirskattanefnd sé notadrjúg til uppbyggingar kunnáttu á þessu sviði. Samkvæmt þessu hafi það verið mat kærða að konan hefði til að bera æskilega þekkingu og námsáherslur varðandi skattarétt og skattskil. Hvað kæranda hafi varðað hafi mátt ætla að hann hefði öðlast þekkingu á afmörkuðum þáttum skattaréttar, auk nokkurrar almennrar þekkingar en ekki hafi verið séð að þar hafi verið um jafn sérmiðaða og víðtæka þekkingu að ræða og nám og störf konunnar hafi gefið til kynna. Þannig hafi sú þekking á greindu sviði sem umsókn hennar hafi borið með sér verið umfram það sem ráðið hafi verið af umsókn kæranda um þekkingu hans hér að lútandi.
  72. Vegna athugasemda í kærunni skuli tekið fram að þess sjái ekki stað í umsóknargögnum kæranda að hann hafi þar getið aðkomu sinnar að uppkvaðningu úrskurða í skattamálum sem hafi verið kæranlegir til yfirskattanefndar. Hvað sem því líði sé á það bent að mál af því tagi sem kærandi hafi vísað til sem kærð hafi verið til yfirskattanefndar lúti ekki að ágreiningi um skatta heldur varði þau nærri undantekningarlaust ágreining um tollflokkun vöru og þar með aðflutningsgjöld vegna hennar en virðisaukaskattur sé síðan háður þeirri niðurstöðu. Aftur á móti verði ekki á það fallist í ljósi þess sem fram hafi komið í umsóknargögnum kæranda um viðfangsefni hans í störfum hjá tollstjóra að það fáist staðist að þeim sé lýst sem fjögurra ára starfsreynslu í skattarétti og skattskilum. Ítrekað sé að snertiflötur embættis tollstjóra við skattalagabrot sé takmarkaður þannig að reynsla af umræddum viðfangsefnum verði ekki talin fela í sér öflun almennrar þekkingar á skattarétti nema að litlu leyti. Þá verði samkvæmt því sem að ofan segi varðandi Tollskóla ríkisins mjög svo dregið í efa að námsefni við þann skóla hverfist um skattarétt í þeim mæli eða með þeim hætti að nám við hann sem talið sé 30 einingar geti samsvarað 12 einingum náms í skattarétti við lagadeild Háskóla Íslands. Þá skuli á það bent að eins og augljóst sé geti aðeins nefndarmenn í yfirskattanefnd kveðið upp úrskurði í nafni nefndarinnar en þeim til grundvallar liggi jafnan drög sem til þess hæfir starfsmenn hafi útbúið. Að mati kærða feli umfjöllun kæranda, sem hann hafi sett fram vegna mats á þekkingu á skattarétti og skattskilum, í sér bjögun með því að hann hafi ýkt þýðingu eigin reynslu og náms en vanmetið stöðu umræddrar konu að þessu leyti. Með vísan til þess sem að ofan greini sé röksemdum í kæru hans hér að lútandi hafnað.
  73. Í umsókn kæranda hafi komið fram að hann hefði reynslu af rannsóknum refsiverðra brota. Hann hafi þar vísað til námsáfanga í laganámi sínu sem að gagni komi á þessu sviði. Þá hafi hann vísað til þess að vegna starfa hans hjá lögreglu og tollstjóra hefði hann einnig góðan verklegan bakgrunn á þessu sviði. Hann hafi vísað til saksóknarstarfa, aðkomu að ákvörðunum varðandi handtökur, líkamsleitir og haldlagningar og stjórnun skýrslutöku. Tilgreindar hafi verið ýmsar brotategundir sem hann hefði komið að við rannsóknir sakamála hjá almennri löggæslu. Þá hafi hann sagt að hann hefði komið að rannsókn flókinna sakamála, einkum við störf í flugstöðvardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum og tilgreind hafi verið dæmi um slík brot sem um hefði rætt. Þá hafi verið og talin ýmis brot sem kærandi hafi sagt að hann hefði komið að í störfum sínum hjá tollstjóra. Í umsókninni hafi hann gert grein fyrir starfi hjá tollstjóra sem sérfræðingur árin 2016 til 2020 sem og fyrri störfum sem lögreglumaður á Selfossi í þrjá mánuði sumarið 2016 og fyrri störfum sem lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum árin 2011 til 2016. Í starfsviðtölum við kæranda hafi verið vikið að reynslu hans við lögreglustörf, meðal annars skýrslutökum.
  74. Konan sem ráðin hafi verið hafi tekið fram í umsókn sinni að hún hefði starfað sem lögreglumaður og í starfsferilsskrá hafi verið gerð grein fyrir sumarstarfi hjá lögreglunni á Vestfjörðum 2017 og 2018 og fullu starfi sem lögreglumaður í almennri deild á varðstöð í Keflavík 2017-2018. Í starfsviðtölum hafi hún greint frá því að hún hefði í lögreglunni annast skýrslutökur.
  75. Samkvæmt ofangreindu hafi komið fram í umsókn kæranda að hann hefði nokkra reynslu af brotarannsóknum vegna starfa sinna hjá lögreglu og síðan tollstjóra. Það hafi jafnframt komið fram í umsókn umræddrar konu að hún hefði reynslu af brotarannsóknum vegna starfa sinna hjá lögreglu. Þannig hafi umsóknir þeirra beggja sýnt æskilega reynslu á þessu sviði. Einnig hafi komið fram í umsóknum þeirra og starfsviðtölum að þau hefðu í laganámi sínu lokið refsiréttarnámskeiðum sem til þess séu fallin að mynda þekkingu sem gagnist við brotarannsóknir. Miðað við tímalengd starfsreynslu kæranda og starfssvið hafi verið ætlað að reynsla hans á þessum vettvangi væri meiri en reynsla konunnar.
  76. Í kæru hafi kærandi gert grein fyrir því að hann teldi ljóst að starfsreynsla sín við rannsóknir refsiverðra brota hafi verið mun umfangsmeiri og fjölbreyttari en starfsreynsla konunnar og þá sérstaklega á sviði skattalagabrota. Með vísan til þess sem að ofan segi um viðhorf kærða til stöðu þeirra beggja að umræddu leyti sé ekki tilefni til að gera athugasemdir varðandi þessa umfjöllun í kærunni að öðru leyti en því að ekki verði talið að sú reynsla kæranda af rannsókn skattalagabrota sem hann vísi til sé samsvarandi rannsóknum skattalagabrota á vegum kærða.
  77. Eins og áður hafi verið vikið að sé við ráðningu nýrra starfsmanna til að sinna skattrannsóknum gerð krafa um ákveðna grundvallarmenntun, auk þess sem frekari þekking og reynsla sem sé talið að kunni að nýtast við þau störf sé talinn kostur eða æskileg. Færni til greiningar eða rökhugsunar auk nánar tilgreindra persónulegra eiginleika séu talin skilyrði þess að geta náð góðum tökum á störfum skattrannsakenda. Mat á hæfni umsækjenda hafi verið grundvallað á þessu. Vegna þessa eðlis starfanna hafi kærði ekki talið forsendur til að setja upp fyrir fram markaðan matsgrundvöll þar sem einstökum hæfnisþáttum sé fengið ákveðið vægi, heldur sé það afstaða kærða að fram verði að fara heildstætt einstaklingsbundið mat án þess að skorður verði settar fyrir fram varðandi þýðingu einstakra hæfnisþátta. Hæfni sem tilgreind sé sem kostur eða æskileg geti aftur á móti aldrei verið nægjanleg til að koma í staðinn fyrir þá hæfni sem skilyrði sé sett um að nauðsynleg sé til starfans.
  78. Þegar kærði hafi tekist á hendur að velja úr hópi 12 eftirstandandi umsækjenda um stöður rannsóknarmanna þá einstaklinga sem boðið skyldi að ráðast til starfa hafi legið fyrir upplýsingar í umsóknum þeirra hvers og eins. Þá hafi legið fyrir samtímaskráning helstu atriða sem fram hafi komið í viðtölum forstöðumanna rannsóknarsviðs og stoðsviðs, ásamt samandregnum niðurstöðum um hvern og einn. Einnig hafi legið fyrir minnispunktar um síðari starfsviðtöl umsækjenda, sem og minnispunktar skattrannsóknarstjóra vegna samtala hennar við umsagnaraðila þar sem helstu atriði umsagna hafi verið dregnar saman. Valið hafi farið fram á grundvelli þessara gagna í samráði skattrannsóknarstjóra, forstöðumanns rannsóknarsviðs, forstöðumanns stoðsviðs, og verkefnastjóra þegar í kjölfar síðari starfsviðtalanna og viðtala skattrannsóknarsjóra við umsagnaraðila. Aðgætt hafi verið hvort umsækjendur yrðu samkvæmt framangreindum gögnum taldir uppfyllta nauðsynleg hæfnisskilyrði og hvaða frekari eiginleikar hefðu komið fram sem ákjósanlegir hafi þótt og þeir bornir saman innbyrðis. Á grundvelli yfirferðar þessara gagna og að loknum umræðum um efni þeirra, sbr. það sem rakið hafi verið hér að framan um mat á hæfni kæranda og umræddrar konu, hafi verið valdir úr sjö umsækjendur sem hafi verið taldir álitlegastir. Hafi þeir einstaklingar verið valdir úr hópi þeirra sem hafi þótt uppfylla nauðsynleg hæfnisskilyrði, þó þannig að í samræmi við sérfræðiþekkingarþörf yrðu ekki allir með sama menntunarlega bakgrunn. Um niðurstöðuna hafi verið fullur einhugur í ofangreindum hópi.
  79. Rétt sé að láta þess hér getið að á þeim tíma þegar framangreindum viðtölum hafi verið lokið hafi starfsemi hjá kærða verið tekin að raskast vegna kórónaveirufaraldursins. Af þeim sökum og vegna annarra aðkallandi verkefna hafi orðið dráttur á því að útfyllt eyðublöð frá viðtölum forstöðumanna rannsóknarsviðs og stoðsviðs yrðu færð inn í rafrænt skjalakerfi kærða. Jafnframt hafi orðið töf á því að handritaðir minnispunktar skattrannsóknarstjóra vegna síðari starfsviðtalanna og vegna samtala við umsagnaraðila yrðu færðir inn í skjalakerfið en hvort tveggja hafi verið framkvæmt um miðjan maí 2020.
  80. Þegar um sé að ræða skráningu minnisatriða vegna viðtala við starfsumsækjendur sé kappkostað hjá kærða að gæta fyllstu háttvísi og nærgætni í orðavali. Sérstaklega sé forðast að setja í slíkum gögnum fram dóma um umsækjendur með meiðandi hætti. Hér sé sama afstaða uppi og sú afstaða sem að framan sé getið að lögð sé til grundvallar gagnvart þeim einstaklingum sem hafi stöðu sakbornings við rannsóknir kærða. Af þessum sökum verði efasemdir og neikvæð upplifun ógjarna tjáð með sterkum orðum. Allt að einu geti fyrirvarar og efasemdir komið fram, svo sem ljóslega megi sjá stað í gögnum viðvíkjandi kæranda.
  81. Báðir umræddir umsækjendur hafi uppfyllt menntunarskilyrði. Bæði hafi þau haft áskilda grunnmenntum og sú prófgráða æskilegrar viðbótarmenntunar sem hafi verið fyrir hendi hjá kæranda hafi verið talin svo fyrirsjáanleg hjá konunni að með henni yrði reiknað. Greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum hafi þótt liggja fyrir hvað bæði hafi varðað þannig að á því hafi verið byggt að bæði uppfylltu þau skilyrði þar um. Einnig hafi verið á því byggt samkvæmt umsóknum að þau hefðu bæði til að bera áskilið frumkvæði, sjálfstæði í störfum og getu til að vinna undir álagi. Bæði höfðu áskilda grunnkunnáttu varðandi tölvukerfi. Í ljósi náms og starfsreynslu konunnar hafi verið talið að hún hefði sérstaklega tileinkað sér þekkingu á skattarétti og skattskilum. Reynsla kæranda varðandi afmarkaða þætti skattaréttar og sérnám hans hafi ekki verið talin jafngilda námi og áherslum konunnar. Samkvæmt því hafi hún verið talin standa framar varðandi æskilega þekkingu á skattarétti og skattskilum. Kærandi hafi haft fjölbreyttari og meiri reynslu af notkun ýmissa tölvu- og upplýsingakerfa. Bæði höfðu þau komið að brotarannsóknum vegna starfa sem lögreglumenn en starfsreynsla kæranda hafi verið lengri og fjölbreyttari en reynsla konunnar.
  82. Þannig hafi þau staðið nokkuð jafnt hvað hafi varðað framangreinda áskilda nauðsynlega hæfni. Varðandi aðra hæfni sem talin yrði til kosta hafi kærandi staðið framar varðandi reynslu af öðrum tölvukerfum og reynslu af brotarannsóknum en konan hafi samkvæmt námsáherslum og námsvistarvinnu verið talin standa framar varðandi þekkingu á skattarétti og skattskilum. Þar sem síðastgreind kunnátta verði álitin hvað veigamest þeirrar hæfni sem tilgreind hafi verið í auglýsingunni að til kosta yrði metin verði konan síður en svo talin hafa staðið lakar en kærandi hvað slíka hæfni hafi varðað. Fremur hafi verið talið að þekking hennar varðandi skattarétt yrði talin þyngri á metunum en reynsla kæranda varðandi tölvukerfi og reynsla hans af vinnu að brotarannsóknum. Ekki hafi þó verið litið svo á að um væri að ræða afgerandi mun.
  83. Gerð hafi verið grein fyrir því að færni í mannlegum samskiptum sé afar mikilvæg forsenda þess að starfsmaður nái góðum árangri við skattrannsóknir og að slík færni og geta til árangursríkrar þátttöku í hópvinnu fylgist jafnan að. Frá því hafi verið skýrt að kærandi hafi í umsókn sinni sagt að hann byggi yfir framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum. Ekkert hafi þó komið fram í umsókn hans sem hafi frekar vitnað um að svo væri, né hafi slíkir eiginleikar þótt blasa við í starfsmannaviðtölum, svo sem hafi endurspeglast í skráðum athugasemdum vegna þeirra. Umsögn meðmælanda hans hafi ekki upplýst um slíka eiginleika, svo sem endursögn í minnispunktum vegna viðtalsins hafi sýnt. Samkvæmt upplýsingum sem fram hafi komið í umsókn þeirrar konu sem ráðin hafi verið hafi verið ætlað að færni hennar í mannlegum samskiptum væri með ágætum, sbr. það sem frá hafi verið greint um þátttöku í félagsstarfi og trúnaðarstörf. Viðkynning í starfsmannaviðtölum hafi þótt koma heim og saman við þetta, eins og skráning þeirra sýni. Þannig hafi það legið ljóst fyrir í tiltækum skjallegum gögnum er ákvörðun hafi verið tekin um ráðningu að hún hefði styrkleika á þessu sviði. Hið sama hafi ekki legið fyrir varðandi kæranda. Samkvæmt þessu hafi færni hennar á þessu þýðingarmikla sviði, sem fyrir hafi legið við umrædda ákvörðunartöku, verið umfram hæfni kæranda. Hafi því verið óhjákvæmilegt samkvæmt því sem áskilið hafi verið í auglýsingu um störfin að hún yrði talin hæfari heildrænt séð. Við val þeirra umsækjenda sem boðið yrði að ráðast til starfa hefði því ekki getað komið til þess að kærandi yrði tekinn fram yfir umrædda konu og boðin ráðning en henni ekki.
  84. Samkvæmt þessu sé því hafnað með öllu að við ákvörðunartöku um ráðningu nýrra starfsmanna hafi legið fyrir að kærandi hafi uppfyllt auglýst hæfnisskilyrði vegna viðkomandi starfa betur en umrædd kona. Þvert á móti hafi því verið öfugt farið eins og rakið hafi verið hér að framan. Þau atriði sem byggt hafi verið á við umrætt mat hafi öll legið fyrir í skjallegum gögnum, þ.e. í starfsumsóknum og fylgigögnum þeirra, í minnispunktum vegna fyrri og síðari starfsviðtala og í samandregnum niðurstöðum vegna fyrri viðtalanna sem og í minnispunktum vegna viðtals við umsagnaraðila.
  85. Í lokamálsgrein kærunnar séu tilgreind nokkur ummæli sem skattrannsóknarstjóri hafi látið falla á fundi þeirra 9. júní 2020 þar sem þau kynnu að geta haft þýðingu vegna málsins og varpað ljósi á atvik þess.
  86. Vegna þeirrar framsetningar í kærunni sé það fyrst að segja að ekki blasi við hvernig efni málsgreinarinnar muni hafa þýðingu í málinu eða upplýsa um atvik enda sé það ekki skýrt út. Þá skorti á að gætt sé samhengis í frásögninni. Að öðru leyti skuli það í fyrsta lagi ítrekað sem áður hafi verið lýst að kærandi hafi á umræddum fundi verið tjáð að greint prófskírteini hefði ekki fylgt umsókn konunnar en að enginn vafi hafi verið uppi um að hún uppfyllti settar kröfur vegna starfsins. Ekki verði heldur séð hvað geti verið athugunarvert við þá vitneskju skattrannsóknarstjóra viðvíkjandi stöðu konunnar í námi og annað tengt sem kærandi hafi nefnt, en eins og áður sé getið hafi hún verið nemandi skattrannsóknarstjóra í kennslu hennar í skattarétti. Þá hafi komið fram í minnispunktum vegna fyrra starfsviðtalsins hvert hafi verið umfjöllunarefni í lokaritgerð konunnar. Vegna frásagnar kæranda þess efnis að á fundinum hafi fallið orð á þá leið að hann væri ef til vill hæfari væri aðeins litið til hlutlægra skilyrða sé upplýst að við þetta tækifæri hafi einungis verið tekið fram að hefði mat verið einskorðað við menntun og reynslu yrði sá umsækjandi talinn hæfari sem meira hefði. Sú væri aftur á móti ekki raunin eins og á hafi staðið þar sem fleira hafi verið áskilið og þau hafi ekki verið metin jöfn samkvæmt auglýstum skilyrðum vegna starfanna.
  87. Kærandi hafi látið ógert að nefna hljóðritanir sínar, en eins og fyrr segi hafi hann í framhaldi af ráðningu í störfin tekið ákvörðun um að hljóðrita öll símtöl við starfsmenn kærða án þeirra vitneskju. Hið sama hafi hann gert á þeim fundi sem honum hafi verið boðið til. Hann hafi hvorki óskað leyfis til slíkrar hljóðritunar, látið vita af henni áður né gert grein fyrir henni eftir á. Það hafi ekki verið fyrr en á hann hafi verið gengið að hann hafi játað þessu. Slík háttsemi komi á óvart og veki umhugsun.
  88. Með vísan til þess, sem að framan hafi verið rakið, hafni kærði alfarið þeim málflutningi sem fram sé settur í kærunni. Því sé vísað á bug að brotið hafi verið gegn réttindum kæranda með því að með ráðningu umræddrar konu í starf rannsakanda hafi honum verið mismunað á grundvelli kyns og aldurs. Þvert á móti hafi ráðningin verið byggð á mati á hæfni hennar sem hafi verið umfram hæfni kæranda. Hvorki þau gögn sem fyrir hafi legið við ráðninguna né framgangur sá sem um hafi rætt í ráðningarferlinu og í kjölfar þess hafi bent til þess að kærði hafi farið þar villur vegar.

     

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  89. Kærandi segir að kærði reki í greinargerð sinni sjónarmið um að sporna gegn einsleitni varðandi kyn og aldur umsækjenda á fyrstu stigum ráðningarferilsins, en þar segi meðal annars: „Jafnframt var haft í huga að sá hópur sem valinn yrði til frekari umfjöllunar væri ekki of einsleitur hvað snertir menntun, kyn og aldur“. Kærða hafi lögum samkvæmt verið skylt að nota sama mælikvarða fyrir alla umsækjendur, óháð aldri og kyni, á öllum stigum ráðningarferilsins. Honum hafi því verið óheimilt að taka sérstakt tillit til ungra umsækjenda. Það gangi jafnframt ekki rökfræðilega upp að byggja á sjónarmiðum til að sporna gegn einsleitni varðandi kyn og aldur umsækjenda í upphafi ráðningarferilsins og síðan hætta að byggja á þeim sjónarmiðum á síðari stigum ráðningarferilsins. Þegar byggt sé á sjónarmiðum um aldur og kyn á fyrstu stigum ráðningarmáls þá geti þau sjónarmið haft áhrif á allt ráðningarferlið til enda og þar með talið á niðurstöður ráðningarmálsins. Óljóst sé með öllu hvort sú sem starfið hafi hlotið hafi verið boðið í starfsviðtal á grundvelli sjónarmiða til að sporna gegn einsleitni eða á grundvelli hæfni hennar. Ítrekað sé að kæran snúi eingöngu að ráðningu konunnar í starf rannsakanda, en ekki að ráðningum allra þeirra sem hafi fengið eða verið boðið starf hjá kærða og því sé sá þáttur kærða að rökstyðja þær ráðningar útúrsnúningur í máli þessu. Í fylgiskjali með greinargerð kærða sé tafla sem sýni þó skýrt og greinilega að konan sé yngsti starfsmaður kærða sem ráðinn hafi verið frá árinu 2006. Hún hafi verið 22 ára þegar hún hafi verið ráðin, en einungis tveir starfsmenn kærða hafi verið ráðnir þegar þeir hafi verið 23 ára gamlir, en ekki hafi fylgt upplýsingar um hvort þeir starfsmenn hafi verið ráðnir í sambærileg störf og hún eða hvort sambærilegar hæfniskröfur hafi verið gerðar til þeirra starfa.
  90. Í greinargerð kærða hafi komið fram að kærandi hefði nokkrum sinnum haft símasamband við kærða í byrjun júní síðastliðnum og þegar ekki hafi orðið lát þar á hafi sú hugmynd verið borin upp við skattrannsóknarstjóra að bjóða kæranda að koma til fundar. Þessi fullyrðing um málsatvik sé röng þar sem á þessum tímapunkti hafði kærandi aldrei haft símasamband við kærða að eigin frumkvæði. Það sé rétt að kærandi hafi sent forstöðumanni rannsóknarsviðs kærða tölvubréf 2. júní 2020 en síðan hafi það verið hann sem hafi hringt í kæranda 4. júní 2020, klukkan 10:06, og hann sagst hafa móttekið fyrirspurn kæranda 2. júní 2020 og talið rétt að veita kæranda svör símleiðis fremur en að svara tölvubréfinu skriflega. Kærandi hafi sagt það sjálfsagt mál og þá hafi hann tilkynnt að það hefði verið mat kærða að kæranda hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum með vísan til þess að hann hefði lýst því yfir í starfsviðtalinu að hann væri ekki sýnilegur á internetinu, og síðan hafi kæranda verið bent á til samanburðar að mikið magn upplýsinga væri að finna um konuna sem ráðin hafi verið á internetinu. Þá hafi hann sagt að það væri mikilvægt að rannsakendur væru sýnilegir en ekki faldir eins og kærandi. Kærandi hafi gert forstöðumanninum skýra grein fyrir því að hann teldi hæpið að kærði gæti lagt mat á hæfni umsækjenda í mannlegum samskiptum á grundvelli þess hversu sýnilegir þeir væru á internetinu. Kærandi hafi líka tekið skýrt fram að hann hefði sagt í starfsviðtalinu að hann hefði ákveðið árið 2016 að vera ekki sýnilegur á internetinu þegar hann hafi hafið störf í greiningardeild tollstjóra og að þar hafi öryggissjónarmið legið að baki. Forstöðumaður rannsóknarsviðs kærða hafi gert sér grein fyrir því að kærandi gæfi lítið fyrir þessar útskýringar hans og þá hafi hann boðið kæranda á fund með sér og skattrannsóknarstjóra og það boð hafi hann þegar þegið. Við þetta megi bæta að einu símtölin sem kærandi hafi haft frumkvæði af því að hringja í kærða hafi verið dagana 28. júlí og 31. júlí 2020 og því séu samtölin samtals þrjú ásamt samtalinu frá 4. júní 2020 sem kærandi hafi átt við kærða varðandi mál þetta. Sú fullyrðing að kærandi hafi hringt nokkrum sinnum í forstöðumann rannsóknarsviðs kærða í byrjun júní 2020 sé því alfarið röng.
  91. Í greinargerð kærða sé fjallað um prófskírteini þeirrar sem ráðin hafi verið þar sem segi meðal annars að kæranda hafi verið greint frá því á fundinum 9. júní að téð skírteini hefði ekki fylgt umsók hennar en að enginn vafi væri uppi um að hún uppfyllti þær kröfur sem um væri að ræða. Þessi fullyrðing um málsatvik sé röng þar sem skattrannsóknarstjóri hafi sagt á fundinum að hún vissi ekki hvort prófskírteini hennar hefði fylgt umsókn hennar áður en umsóknarfrestur hafi runnið út, en hún hafi þó tekið skýrt fram að það væri lítið mál fyrir hana að kanna það sérstaklega fyrir kæranda hefði hann áhuga á að fá þær upplýsingar. Síðan hafi hún bætt því við að hún teldi það í raun ekki skipta máli hvort hún hefði skilað prófskírteini áður en umsóknarfrestur hafi runnið út þar sem hún hafi vitað að konan hefði lokið grunnprófi í lögfræði þar sem skattrannsóknarstjóri hefði kennt henni í háskólanum. Rétt sé að minna á að í starfsauglýsingunni hafi orðrétt sagt: „Með umsókninni skal einnig fylgja afrit af viðeigandi prófskírteinum“. Kærði sé bundinn við þau atriði sem hann hafi sérstaklega sett fram í starfsauglýsingunni og því hefði hann með réttu átt að útiloka konuna sem ráðin hafi verið þegar í upphafi ráðningarferilsins þar sem hún hafi ekki skilað BA-prófskírteini sínu í lögfræði fyrir lok umsóknarfrests. Allir umsækjendur verði að sitja við sama borð og kærði geti ekki mismunað umsækjendum á grundvelli þess hvort hann þekki viðkomandi umsækjanda persónulega. Þar að auki hafi þessi vinnubrögð þeirrar sem ráðin hafi verið sýnt vel fram á skort hennar á nákvæmni og ögun í vinnubrögðum sem tilgreint hafi verið sem skilyrði í starfsauglýsingunni. Jafnframt sé rétt að taka fram að skattrannsóknarstjóri hljóti að hafa átt einhverja aðkomu að ráðningarferlinu á fyrstu stigum málsins, þótt annað hafi komið fram í greinargerðinni, enda virðist hún hafa verið eini starfsmaður kærða sem hafi getað staðfest að konan hefði lokið BA-prófi í lögfræði og jafnframt haft þær upplýsingar að hún væri að stunda meistaranám í lögfræði, en þessum upplýsingum hljóti skattrannsóknarstjóri að hafa komið beint til skila til þeirra sem hafi annast fyrri starfsviðtölin og á þeim grundvelli hafi henni síðan verið boðið í starfsviðtal. Rökstuðningur kærða þess efnis að kærandi hafi ekki átt rétt á umræddum upplýsingum um það hvenær konan sem ráðin hafi verið hafi skilað inn prófskírteini í skilningi stjórnsýslulaga sé ekki svaraverður og sé kærandi fyrst að heyra þennan rökstuðning kærða í greinargerð hans. Kærði hafi ítrekað reynt að leyna kæranda þessum upplýsingum en hann fagni því að þessar upplýsingar séu loks komnar á yfirborðið.
  92. Í greinargerð kærða komi fram það mat að kærandi hafi ekki staðið framar þeirri sem ráðin hafi verið varðandi menntun í skilningi starfsauglýsingarinnar, þótt hann hefði lokið meistaragráðu í lögfræði, enda væru „allar horfur [...] á því að [konan sem ráðin hafi verið] myndi innan skamms, þ.e. nokkurra mánaða, hafa lokið meistaraprófi sínu, til þess að telja mætti að hún yrði senn þessum kosti búin“. Hún hafi ekki enn lokið meistaraprófi í lögfræði þótt hálft ár fari að verða liðið frá því að hún hafi verið ráðin í starfið. Það sé að minnsta kosti með öllu óforsvaranlegt að kærði hafi metið meistaragráðu kæranda í lögfræði sem sambærilega þeirri ókláruðu meistaragráðu hennar. Kærandi skilji jafnframt ekki hvers vegna kærði hafi séð tilefni til að gera lítið úr sérfræðiþekkingu hans á sviði stjórnsýsluréttar, sérstaklega í ljósi þess að kærði hafi verið með sérstaka spurningu í starfsviðtalinu um þekkingu umsækjenda á stjórnsýslurétti. Þá sé jafnframt vakin athygli á því að við meðferð skattamála þurfi bæði að hafa góða þekkingu á formréttinum, þ.e. stjórnsýsluréttinum, og líka efnisréttinum, þ.e. skattaréttinum. Í því samhengi sé bent á að sú sem ráðin hafi verið hafi enga sérfræðiþekkingu á sviði stjórnsýsluréttar.
  93. Um greiningarhæfni hafi kærði sagt að ekki hafi verið ástæða til að gera upp á milli kæranda og þeirrar konu sem hafi fengið starfið í því sambandi. Það sé með öllu óforsvaranlegt að hafa metið þau að jöfnu varðandi greiningarhæfni, þ.e. margra ára greiningarstörf kæranda á skattalagabrotum og annars konar brotum, samanborið við það að hún hafi öðlast greiningarhæfni vegna þátttöku í málflutningskeppni sem aldrei hafi farið fram. Sérstök athygli sé vakin á því að þessi málflutningskeppni sé þriggja eininga áfangi við Háskóla Íslands sem allir laganemar geti skráð sig í. Kærandi hafi lokið sambærilegum sex eininga áfanga í laganámi sínu sem heiti „hlutverk dómara og lögmanna við meðferð einka- og sakamála“ og þar hafi hann tekið þátt í málflutningsprófi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann minnist þess ekki að hafa notað eitthvað úr þeim áfanga við greiningar og rannsóknir í skattamálum hjá tollstjóra og því þyki honum frekar langsótt hjá kærða að álykta um greiningarhæfni hennar út frá þessum áfanga einum saman. Þá sé rétt að vekja sérstaka athygli á því að úrlausnir yfirskattanefndar snúi að úrskurðarvinnu á sambærilegan hátt og kærunefnd jafnréttismála geri, og því fari engin greiningarvinna fram á skattalagabrotum hjá yfirskattanefnd í þeim skilningi sem kærði virðist vera að gefa í skyn að sú sem starfið hafi hlotið hafi öðlast í starfsnámi sínu þar.
  94. Varðandi hæfni kæranda og þeirrar sem starfið hafi hlotið um nákvæmni og ögun í vinnubrögðum segi kærði að ekki hafi verið efni til að álykta að annað þeirra væri hinu fremra á því sviði. Það sé þó með öllu óforsvaranlegt að hafa metið þau að jöfnu varðandi þessi atriði. Því hafi áður verið lýst að sú sem ráðin hafi verið hafi ekki skilað prófskírteini með starfsumsókn sinni og það eitt út af fyrir sig hafi vel sýnt fram á skort á nákvæmni og ögun í vinnubrögðum hennar. Þar að auki hafi ekki verið hægt að ráða af starfsumsókn hennar hversu lengi hún hafi starfað á hverjum stað fyrir sig þar sem hún hafi einungis tilgreint ártalið. Sem dæmi hafi komið fram í umsókn hennar að hún hafi starfað árin 2017 og 2018 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Þessar upplýsingar séu mjög ónákvæmar sé miðað við upplýsingar sem komi fram á facebook-síðu hennar. Þar komi fram að hún hafi starfað á tímabilinu 2. október 2017 til 27. maí 2018 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Það sé því mjög villandi hjá henni að hafa gefið í skyn í umsókninni að hún hefði starfað þar allt árið 2017 og 2018 þegar staðreynd málsins sé sú að hún hafi starfað þar þrjá mánuði árið 2017 og 5 mánuði árið 2018. Hún hafi einnig tilgreint í umsókninni að hún hefði starfað árin 2017 og 2018 hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Samkvæmt facebook-síðu hennar hafi hún einnig einungis starfað á tímabilinu 30. maí 2018 til 10. september 2018 hjá því embætti og það séu því samtals þrír mánuðir. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð kærða sé sú sem ráðin hafi verið sögð hafa starfað sumarið 2017 hjá lögreglunni á Vestfjörðum og geri kærandi því ráð fyrir að sú vinna hafi staðið yfir í þrjá mánuði. Samtals hafi hún því starfað 14 mánuði innan lögreglunnar sem sé mun styttri tími en hún hafi tilgreint í umsókn hennar. Þar að auki hafi hún ekki tilgreint mikilvægar upplýsingar í umsókninni eins og þær að hún hafi verið að skrifa ritgerð á sviði skattaréttar, en þessar upplýsingar höfðu síðan einna mest vægi í rökstuðningi kærða fyrir ráðningu hennar. Kærandi viti ekki hvers vegna hún hafi ekki tilgreint þessar lykilupplýsingar í umsókninni, en kannski hafi það verið vegna þess að hún hafi verið það stutt á veg komin við ritgerðarsmíðina að hún hafi ekki talið við hæfi eða þá einfaldlega vegna þess að hana hafi skort nákvæmni og ögun í vinnubrögðum. Hún sé í dag í hlutastarfi hjá kærða þar sem hún hafi ekki talið sig geta unnið fullt starf meðfram námi. Kærði hafi ekki getað bent á neitt sem hefði betur mátt fara í umsókn kæranda varðandi nákvæmni og ögun í vinnubrögðum.
  95. Í greinargerðinni hafi kærði sagt varðandi hæfni kæranda og þeirrar sem starfið hafi hlotið um frumkvæði, sjálfstæði í störfum og getu til að vinna undir álagi að ekkert hafi þó komið fram sem hafi gefið tilefni til að ganga út frá því að annað þeirra væri hinu hæfara að þessu leyti. Það sé með öllu óforsvaranlegt að kærði hafi metið þau að jöfnu varðandi þessa þætti. Kærandi hafi tilgreint skýrt og greinilega í umsókn sinni, auk þess sem hann hafi gefið skýr dæmi um það að hann sýni frumkvæði, sé sjálfstæður og hafi getu til að vinna undir álagi. Í starfsumsókn þeirrar sem ráðin hafi verið hafi hún eingöngu sagt að hún teldi sig sjálfstæða, en ekki rökstutt það á nokkurn hátt. Það hafi ekkert komið fram í umsókn hennar sem hafi bent til þess að hún sýni frumkvæði í vinnu eða hafi mikla getu til að vinna undir álagi og því hafi kærði þurft að álykta um þessa hæfni hennar með vísan til félagsstarfa hennar og þess að hún hafi stundað nám með vinnu. Hún hafi sérstaklega óskað eftir hlutastarfi vegna náms síns og því gangi þessi röksemdarfærsla kærða ekki upp þess efnis að hún geti unnið vel undir álagi með vísan til að hún geti stundað nám með vinnu. Þessi ályktun kærða virðist jafnframt ekki hafa ræst þar sem hún hafi ekki ennþá náð að ljúka lokaprófi sínu í lögfræði. Með vísan til minnispunkta vegna starfsviðtals hennar í greinargerðinni megi sjá að þegar hún hafi verið spurð út í það hvort hún teldi sig sjálfstæða í starfi að þá hafi verið ritað eftir henni: „finnst gott að vinna ein“. Þetta svar sé ekki dæmi um sjálfstæði.
  96. Í greinargerð kærða segi að kærandi hafi sagt í starfsviðtalinu að hann gæti bætt ýmislegt, til dæmis sjálfstraustið. Rétt sé að taka fram að hann hafi verið spurður um veikleika og þar hafi hann svarað því til að hann gæti bætt sjálfstraustið á ýmsum sviðum og tekið nokkur dæmi um slíkt. Framangreind ummæli í greinargerðinni séu því bein tilvísun í það sem hann hafi sagt um sjálfan sig en ekki mat kærða á frammistöðu hans í starfsviðtalinu þess efnis að hann hafi skort sjálfstraust í starfsviðtalinu. Rétt sé að þetta komi skýrt fram þar sem auðvelt sé að misskilja setningu þessa.
  97. Í greinargerð kærða segi um hæfni kæranda í mannlegum samskiptum að ekki hafi verið á því byggt að hann myndi skorta færni á sviði mannlegra samskipta, heldur hafi staðreyndin verið sú að ekki hafi komið fram atriði sem hafi hnigið í þá átt að ályktað yrði að hann byggi yfir sérstökum styrkleikum á þessu sviði svo sem áskilið hafi verið í auglýsingu. Rétt sé að taka fram að þetta sé í fyrsta skipti sem kærði taki skýrt fram að kærandi hafi í raun sýnt fram á hæfni í mannlegum samskiptum, en þó bara ekki í sama skilningi og áskilið hafi verið í starfsauglýsingunni. Þetta séu nýmæli þar sem kærði hafi frá upphafi ítrekað haldið því fram að kæranda hafi einfaldlega skort hæfni í mannlegum samskiptum, en það sé samkvæmt skilningi hans algjör andstæða við það sem kærði haldi fram núna þar sem hann gefi upp mun jákvæðari mynd af hæfni hans í mannlegum samskiptum. Kærandi fái reyndar ekki ráðið af greinargerðinni hvaða „sérstöku styrkleika“ hann hafi þá skort á sviði mannlegra samskipta til að geta sinnt starfinu. Það eina sem hann fái ráðið af greinargerðinni sé að í starfsviðtali hafi hann ekki haft þann persónuleika sem leitað hafi verið eftir og líka vegna þess að hann hafi viðhaft ummæli á borð við það að hann láti ekkert frá sér um sjálfan sig og einnig vegna þess að hann hafi verið frumkvæðislaus í samskiptum og nokkuð á varðbergi í starfsviðtalinu. Rétt sé að það komi skýrt fram að í báðum starfsviðtölunum hafi honum verið tjáð að allir umsækjendur fengju sömu spurningarnar sem lesnar hafi verið upp af blaði og því eðli málsins samkvæmt ekki mikið svigrúm fyrir hann og aðra umsækjendur að sýna frumkvæði og svara einhverju fyrir utan viðtalsrammann, nema þá í lok viðtalsins þar sem hann hafi svo sannarlega spurt nokkurra spurninga. Það sé ekki rétt að kærandi hafi ekki látið neitt koma fram um sjálfan sig í starfsviðtalinu, til dæmis hafi hann svarað þeirri spurningu af hreinskilni og án nokkurs hiks hver hjúskaparstaða hans sé og hvort hann eigi börn, en hann veki sérstaka athygli á því að hann hafi aldrei áður verið spurður um slík atriði í starfsviðtali. Kærandi viti ekki hvað kærði sé að vísa í þegar hann segi að kærandi hafi verið nokkuð á varðbergi í starfsviðtalinu. Jafnframt sé rétt að minna á að kærði hafi átt mjög auðvelt með að álykta um allt á milli himins og jarðar varðandi hæfni þeirrar sem starfið hafi hlotið á grundvelli upplýsinga sem hafi komið fram í umsókn hennar. Að sama skapi virðist kærði hafa átt mun erfiðara með að álykta um hæfni kæranda á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram hafi komið í umsókn hans. Sem dæmi hafi kærði ekki ályktað sem svo að hann hefði yfir að ráða mikilli hæfni í mannlegum samskiptum með vísan til þess að hann hafi starfað á tíu ára tímabili innan réttarvörslukerfisins, bæði innan lögreglu og tollstjóra, sem hafi einkennst af miklum og oft mjög erfiðum samskiptum við sakborninga, vitni, brotaþola, lögmenn, túlka, hælisleitendur og svo framvegis. Þar að auki hafi kærandi stjórnað fjölda skýrslutaka sem séu að öllu leyti sambærilegar skýrslutökum þeim sem kærði framkvæmi. Þá hafi kærði jafnframt gert of mikið úr þessu persónuleikaprófi sem kærandi hafi aldrei haldið fram að hafi átt að sanna hæfni hans í mannlegum samskiptum. Persónuleikaprófið hafi fylgt umsókninni kærða til fróðleiks um persónubundna eiginleika kæranda, enda hafi hann talið niðurstöðu þess gefa nokkuð rétta mynd af honum sem einstaklingi. Kæranda skiljist að einungis eitt viðurkennt ráðningarfyrirtæki hér á landi hafi heimild til að leggja slíkt persónuleikapróf fyrir einstaklinga á Íslandi og jafnframt sé rétt að taka fram að persónuleikapróf þetta njóti virðingar á meðal helstu stórfyrirtækja heimsins. Þetta sé því ekki persónuleikapróf sem allir einstaklingar geti tekið á netinu.
  98. Í greinargerð kærða segi: „[forstöðumanni rannsóknarsviðs kærða] var það hugstætt úr starfsviðtali sínu við [kæranda] að hann kvaðst ekki vera sýnilegur á netinu og ályktaði [forstöðumaðurinn] að örðugt gæti verið fyrir einstakling sem teldi slíkan ósýnileika sér mikilvægan að stunda skattrannsóknir þar sem nöfn rannsóknarmanna koma fram í rannsóknarskýrslum og þurfa með öðrum hætti að svara fyrir sín verk“. Þessar ályktanir kærða séu með öllu óforsvaranlegar, enda gefi sýnileiki kæranda á internetinu engar vísbendingar um það að hann eigi erfitt með að skrá skýrslur sínar undir fullu nafni. Allar skýrslur hans innan lögreglu og tollstjóra hafi verið skráðar undir fullu nafni hans og hann hafi alltaf þurft að svara fyrir sín verk, þar með talið fyrir dómstólum.
  99. Í greinargerð kærða sé því hafnað að um hafi verið að ræða misræmi eða flökt í skýringum og upplýsingum sem kæranda hafi verið veittar í ferlinu eftir ráðningarnar. Ítrekað sé að skattrannsóknarstjóri hafi margoft breytt framburði sínum varðandi hæfni kæranda í mannlegum samskiptum og þá sérstaklega hafi kæranda og meðmælanda hans fundist það miður þegar hún hafi sagt að meðmælandi kæranda hefði sagt að hann teldi kæranda skorta hæfni í mannlegum samskiptum. Kærandi hafi rætt við meðmælandann sem hafi hafnað því með öllu að hafa viðhaft slík ummæli og hann hafi jafnframt fullvissað kæranda um það að hann hafi gefið honum sín bestu meðmæli. Hann hafi sérstaklega tekið fram að samtal hans við skattrannsóknarstjóra hafi verið mjög stutt þar sem hún hafi ekki spurt margra spurninga. Hann hafi munað vel eftir því að hafa sagt henni að samskipti þeirra hafi verið góð en hann hafi ekki minnst þess að hún hafi haft einhvern sérstakan áhuga á að spyrja hann nánar út í hæfni hans í mannlegum samskiptum.
  100. Í greinargerð kærða sé fjallað um þekkingu kæranda og þeirrar konu sem starfið hafi hlotið í skattarétti og skattskilum þar sem segi að umfjöllun kæranda sem hann hafi sett fram vegna mats á þekkingu á skattarétti og skattskilum hafi falið í sér bjögun þar sem hann hafi ýkt þýðingu eigin reynslu og náms en vanmetið konuna sem ráðin hafi verið að þessu leyti. Einnig hafi kærði sagt að konan hefði staðið kæranda framar í skattarétti og skattskilum þar sem hann hafi einungis starfað við afmarkaða þætti skattaréttar og hafi sérnám kæranda ekki verið talið jafngilda námi og áherslum konunnar sem ráðin hafi verið. Rétt sé að taka skýrt fram að bæði kærði og tollstjóri (nú Skatturinn) fari með rannsóknir skattalagabrota gegn hinum ýmsu lagabálkum sem taki til skatta og gjalda og kærandi telji sig ekki hafa neinar forsendur til að gera upp á milli þeirra skattrannsókna sem þessar tvær stofnanir sinni varðandi fjölbreytileika og umfang. Hann geti því ekki svarað því á grundvelli hvaða upplýsinga kærði hafi byggt þá niðurstöðu að rannsóknir hans séu umfangsmeiri og fjölbreyttari en rannsóknir tollstjóra sem kærði hafi kallað einfaldar og einsleitar skattarannsóknir. Þar að auki hafi kærði ekki útskýrt hvernig rannsóknir og greiningar skattstjóra séu ólíkar þeirri aðferðafræði sem kærði noti þegar hann sinni rannsóknum og greiningum í skattamálum. Jafnframt sé rétt að taka fram að hugtakið „tollamál“ nái til allra tegunda gjalda sem séu lögð á af tollstjóra, til dæmis virðisaukaskatt, tolla, eftirlits-, skila-, úrvinnslu, vöru- og flutningsjöfnunargjöld. Nám í Tollskóla ríkisins sé því ekki einungis bundið við „álagningu og innheimtu tolla“ eins og kærði haldi fram, heldur skattframkvæmdina í heild sinni með áherslu á öll þau gjöld sem á séu lögð af tollstjóra, en námið nái meðal annars til kennslu við greiningar og rannsóknir á slíkum skattalagabrotum. Til samanburðar sé nám í skattarétti við Háskóla Íslands fyrst og fremst bundið við skattalöggjöfina en ekki sé verið að kenna sérstaklega hvernig rannsóknir og greiningar á skattalagabrotum fari fram. Kærði hafi ekki neinar forsendur til að álykta sem svo að 12 eininga námskeið við Háskóla Íslands sé meira metið en 30 eininga nám kæranda við Tollskóla ríkisins. Því skuli jafnframt haldið til haga að skattrannsóknarstjóri hafi kennt í umræddum áfanga við háskólann og því sé hún kannski ekki alveg hlutlaus varðandi mat sitt á því hvort námið veiti betri þekkingu við rannsóknir og greiningar í skattamálum. Kærði haldi því jafnframt fram að kærandi hafi ekki tilgreint í umsókn sinni að hann hafi kveðið upp úrskurði, en hið rétta sé að hann hafi tilgreint skýrt og greinilega í ferilskrá sinni að verkefni hans hjá tollstjóra hafi meðal annars verið fólgin í gerð úrskurða. Hann ítreki jafnframt að hann hafi sinnt daglega greiningarstörfum sem höfðu að markmiði að greina hugsanleg skattundanskot og hann geti jafnframt fullyrt að sú greiningarvinna hafi oft getað reynst flókin og tímafrek. Samandregið hafni kærandi því þeirri fullyrðingu kærða að hann hafi einungis aflað sér takmarkaðs „þekkingarbrunns“ í skattarétti hjá tollstjóra.
  101. Í greinargerð kærða segi að við ráðninguna hafi ráðið úrslitum áherslur þeirrar sem ráðin hafi verið í námi og starfsnámi, auk reynslu af lögreglustörfum. Þá hafi verið talið að virk þátttaka hennar í félagsstarfi gæfi vísbendingar um færni í mannlegum samskiptum og getu til að starfa í fjölbreyttum hópi starfsmanna. Hafi þetta verið þau sjónarmið sem hafi ráðið úrslitum vegna ráðningar í umrætt starf þá sé augljóst að kærandi hefði átt að vera ráðinn. Áherslur hans í námi og starfi undanfarin fjögur ár hafi verið á sviði skattaréttar og skattskila, samanborið við litla sem enga starfsreynslu þeirrar sem starfið hafi hlotið á því sviði. Kærandi hafi jafnframt mun lengri og fjölbreyttari starfsreynslu af lögreglustörfum, samanborið við starfsreynslu hennar á því sviði. Þar að auki hafi það gefið góða vísbendingu um færni hans í mannlegum samskiptum að hann hafi um nokkurra ára skeið starfað innan réttarvörslukerfisins, bæði innan lögreglu og tollstjóra, sem hafi einkennst af miklum og oft mjög erfiðum samskiptum við sakborninga, vitni, brotaþola, lögmenn, túlka, hælisleitendur og svo framvegis. Þar að auki hafi hann stjórnað fjölda skýrslutaka sem hafi að engu leyti verið ólík skýrslutökum þeim sem kærði framkvæmi. Kærandi fái ekki séð að félagsstörf þeirrar sem ráðin hafi verið hafi einkennst af erfiðum samskiptum og hörku og því efist hann um að þessi félagsstörf gefi mikil fyrirheit um hvort hún hafi getu og burði til að stýra erfiðum skýrslutökum kærða.

     

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  102. Áréttað er af hálfu kærða að það hafi ekki á neinu stigi í ráðningarferlinu verið um það að ræða að ungir umsækjendur nytu framgangs aðeins vegna aldurs síns eða að ekki hafi verið notaður sami mælikvarði fyrir alla umsækjendur, óháð aldri og kyni. Sú ákvörðun kærða við fyrsta úrval að einskorða ekki hæfnismat við reynsluháð atriði í því skyni að útiloka ekki yngstu umsækjendurna hafi verið fyllilega lögmæt og heimil, enda hafi viðmið þau sem stuðst hafi verið við verið almenn og ekki á neinn hátt beintengd aldri eða öðru slíku. Verði því engan veginn séð hvernig í þessu geti eitthvað það verið fólgið sem talið verði „ekki ganga rökfræðilega upp“ eins og kærandi haldi fram.
  103. Alrangt sé að óljóst sé hvers vegna umræddri konu hafi verið boðið í starfsviðtal, svo sem kærandi hafi staðhæft. Hún hafi verið valin á lista þeirra umsækjenda sem hafi verið kallaðir til starfsviðtals þar sem hún hafi þótt hafa til að bera ákjósanlegan bakgrunn, sem og aðrir þeir sem á þann lista hafi verið valdir.
  104. Vegna athugasemda kæranda í tengslum við fylgiskjal greinargerðarinnar sem hafi sýnt kyn starfsmanna kærða og aldur þeirra við ráðningu sé bent á að réttmæti ráðningar starfsmanns geti ekki oltið á því hvort algjörlega sambærileg ráðning hafi áður átt sér stað hjá hlutaðeigandi embætti. Vegna vísunar kæranda til 22 ára aldurs konunnar við ráðningu megi nefna að við ráðninguna […] 2020 hafi hana vantað einn mánuð í 23 ára aldur.
  105. Eins og að framan greini segi kærandi að ranghermi sé í greinargerð kærða þar sem fram hafi komið að hann hefði hringt nokkrum sinnum í forstöðumann rannsóknarsviðs kærða í byrjun júnímánaðar. Við ritun greinargerðarinnar hafi um tildrög fundarins verið byggt á upprifjun þeirra sem þar að hafi komið hjá kærða og frásögnin lauslega orðuð samkvæmt því, meðal annars miðað við að nokkrar hringingar í skiptiborð sem ekki hafi verið hleypt áfram til forstöðumannsins hefðu komið hér við sögu. Aftur á móti hafi ekki verið ráðist í að yfirfara símtalalista skiptiborðs eða annarra síma vegna þessa, enda veiti upplýsingar um skráðan símaeiganda ekki einhlíta vitneskju um hver úr honum hafi hringt. Enda þótt hjá kærða sé eindregið talið að símtöl hafi verið umfram það sem kærandi staðhæfi þykir mikilvægi greinds atriðis ekki heldur veita ástæðu til að efna til slíkrar yfirferðar nú, né séu hæg tök þar á.
  106. Vegna athugasemda kæranda í tengslum við prófskírteini þeirra konu sem fengið hafi starfið sé vert að hafa það í huga að kærandi hafi grundvallað kæruna á því að með ráðningu hennar hafi verið farið í bága við 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og einnig við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018, enda eigi það undir kærunefnd jafnréttismála að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn umræddum ákvæðum. Verði því að skilja málatilbúnað kæranda í þessu sambandi svo að hann telji að það birti mismunun af hálfu kærða að hann hafi látið hjá líða að vísa umsókn hennar frá, þrátt fyrir hinn meinta ágalla sem augljóslega hafi þó verið skylt.
  107. Fullyrðingar kæranda um skyldu til frávísunar umsóknar umræddrar konu vegna þess að henni hafi ekki fylgt afrit prófskírteinis séu hinar sömu og fram hafi komið í kæru hans til jafnréttisnefndar. Um þær sé fjallað í greinargerð kærða. Ekki verði séð að kærandi hafi leitt það í ljós í athugasemdum sínum að þau rök kærða sem þar séu sett fram hafi verið úr lausu lofti gripin. Kærandi endurtaki aðeins áður fram komnar staðhæfingar um að það hefði átt að varða frávísun umsóknar væri prófskírteini henni ekki meðfylgjandi án þess að hafa nefnt réttarreglu, dóma- eða úrskurðaframkvæmd eða nokkuð annað sem þær eigi stoð í. Þá skuli vegna þessa málflutnings kæranda á það bent að eins og frá sé skýrt í greinargerð kærða hafi borist 84 umsóknir um störfin. Ekki hafi við fyrstu yfirferð þeirra verið talið tilefni til að leggja í þá vinnu að kemba í gegnum þær allar til að aðgæta hvort hvert og eitt umbeðinna gagna hefði skilað sér með einstökum umsóknum. Verði eindregið ráð fyrir því gert að upplýsingar í starfsumsóknum eigi við rök að styðjast, auk þess sem allir kostir séu á að ganga úr skugga þar um þyki umsækjandi koma til álita. Þá beri að nefna að því hafi aldrei verið haldið fram af hálfu kærða að skattrannsóknarstjóri hafi í engu fylgst með ráðningarferlinu á fyrstu stigum. Þau andsvör við röksemdum að þær séu ekki svaraverðar séu æði léttvæg og það því fremur sé í engu skýrt hverju það sæti. Verði þannig í því tilviki sem hér um ræði sem endranær þegar svona sé brugðist við að álykta að sá sem þessu beri við eigi engin svör. Staðhæfingum kæranda um að hann hafi verið leyndur upplýsingum sé vísað á bug, sbr. það sem frá sé skýrt í greinargerð kærða um fundinn 9. júní 2020.
  108. Vegna athugasemda kæranda um hæfniskröfuna menntun ítreki kærði það sem fram hafi komið í greinargerð hans að við ákvörðun um ráðninguna hafi legið fyrir að umrædd kona myndi innan skamms, þ.e. innan nokkurra mánaða, hafa lokið meistaraprófi í lögfræði og af því hafi mátt telja að hún yrði senn slíkum kosti búin. Hafi því ekki verið litið svo á að hún stæði að þessu leyti svo að baki umsækjendum sem þegar hefðu lokið meistaraprófi að það hefði verulega þýðingu.
  109. Við ráðninguna hafi legið fyrir að sökum undirbúnings umræddrar konu vegna þátttöku í málflutningskeppni, sem ráðgert hafði verið að færi fram erlendis, hefði hún tafist frá vinnu við lokaritgerð sína en að hún hafi áformað að ljúka henni á haustmisseri 2020. Augljóslega verði ekki beitt sama mælikvarða varðandi þann tíma sem þurfi til að ljúka námsáföngum gagnvart þeim sem því sinni eingöngu og þeim sem jafnframt stundi umtalsverða atvinnu. Skuli og upplýst að þegar ljóst hafi verið orðið að vegna kórónaveirufaraldursins yrði umrædd málflutningskeppni ekki haldin hafi hún horfið frá óskum um að vinna hlutastarf og hafi hún frá því að hún hafi tekið til starfa í byrjun maí unnið fullt starf.
  110. Kærði hafni því að hafa gert lítið úr þekkingu kæranda á sviði stjórnsýsluréttar. Því sé einmitt játað að slík þekking falli vel að störfum hjá kærða, eins og almennt sé raunin þegar um sé að ræða störf hjá opinberum aðilum. Á það hafi aðeins verið bent að ekki hefði verið gerð krafa um þekkingu á stjórnsýslurétti í auglýsingu starfanna, enda væru álitaefni viðvíkjandi stjórnsýslurétti núorðið leyst af lögfræðisviði kærða. Beri að undirstrika að um hafi rætt ráðningu í stöður rannsakenda en ekki í stöður lögfræðinga. Það sé mat kærða, byggt á reynslu í starfsemi kærða, að í starfi rannsakenda sé þekking á skattarétti þýðingarmeiri og notadrýgri en þekking á stjórnsýslurétti, enda þótt ekki sé þar með sagt að hin síðarnefnda komi ekki að gagni. Liggi þetta jafnframt í hlutarins eðli þar sem skattaleg álitaefni séu daglegt brauð við skattrannsóknir en þær lúti síður að úrlausn álitamála á sviði stjórnsýsluréttar.
  111. Vegna athugasemda kæranda um greiningarhæfni sé ítrekað það sem fram sé tekið í greinargerð kærða varðandi hana. Lýsa megi inntaki þessa orðs í mun lengra og ítarlegra máli en vart sé á reiki hvað um ræði. Greiningarhæfni og reynsla af greiningarstöfum séu aftur á móti ekki eitt og hið sama. Þetta tvennt blandist þó og samtvinnist með því móti að næsta víst sé að greiningarhæfni aukist með þjálfun og iðkun greiningarstarfa. Hjá kærða hafi verið starfsmenn sem við ráðningu hafi verið án nokkurrar fyrri reynslu af greiningarstörfum sem hafi náð mjög góðum tökum á greiningarviðfangsefnum og hafi greiningarhæfni þeirra sannast með því móti. Sé því engan veginn fyrir fram útilokað að einstaklingur sem við ráðningu hafi enga reynslu eða þjálfun í greiningarstörfum nái ekki síðri tökum á þeim verkefnum en sá sem við ráðningu búi að þjálfun og reynslu vegna fyrri starfa.
  112. Ekki hafi verið áskilið í starfsauglýsingunni að fyrir hendi væri reynsla af greiningarstörfum. Af athugasemdum kæranda verði aftur á móti ráðið að hann standi í misskilningi hvað þetta varði, sbr. orðin „að [konan sem ráðin var] hafi öðlast greiningarhæfni vegna þátttöku sinnar í málflutningskeppni sem aldrei fór fram“. Hið sama lýsi sér í orðum hans um þekkingu sem hún „hafi öðlast“ í starfsnámi hjá yfirskattanefnd. Virðist sem kærandi álíti að greiningarhæfni samsamist í einu og öllu iðkun greiningarstarfa. Sé það þó ef til vill einmitt dæmi um einfalt greiningarverkefni að halda til haga skilsmun greiningarhæfni og greiningarreynslu. Ítreka verði að greiningarhæfni verði aðeins staðfest með reynslu og útilokun frá ráðningu án þess háttar staðfestingar væri afar takmarkandi og hafi ekki verið byggt á slíku mati við val úr hópi umsækjenda í ráðningarferlinu. Hafi því heldur ekki verið taldar forsendur til að fá hæfni umsækjenda í þessu efni aukið vægi vegna reynslu eða sannaðrar hæfni. Svo hefði þó getað verið ef mikil og mjög ákjósanleg sérhæfð færni hefði komið fram hjá umsækjanda þannig að augljós fengur væri að fyrir kærða en svo hafi ekki verið að þessu sinni. Á því hafi verið byggt í ferlinu að vægi reynslu myndi ekki vera afgerandi að öllu leyti, svo sem frá hafi verið greint.
  113. Eins og fram hafi komið hafi þótt sýnt hvað kæranda hafi varðað að hann hefði yfir greiningarhæfni að búa. Ekki verði aftur á móti á það fallist að greiningarviðfangsefni hans í fyrri störfum séu samsvarandi þeirri greiningu skattalagabrota sem fengist sé við hjá kærða. Vísist hér til umfjöllunar í greinargerð kærða. Takmarkaður fjöldi nemenda sé valinn inn á námskeið það við lagadeild Háskóla Íslands sem lúti að þátttöku í […]-málflutningskeppninni. Val þeirrar sem ráðin hafi verið inn á námskeiðið í keppnisliðið og eftirfarandi þátttaka í málflutningskeppni með liðinu undir miklu álagi hafi eindregið borið með sér að hún hefði getu til að greina viðfangsefni og að leggja þau skipulega upp. Enda þótt starfsemi yfirskattanefndar lúti ekki að samsvarandi greiningarvinnu og fram fari hjá kærða fari ekki hjá því að viss greining hljóti að eiga sér stað þegar þar sé unnið að úrskurðum um skattaleg efni. Því sé engan veginn óvarlegt að ætla að góð tök einstaklings á vinnu að úrlausnum nefndarinnar gefi vísbendingu um greiningarhæfni.
  114. Samkvæmt því sem að ofan segi, sbr. og umfjöllun í greinargerð kærða, hafni kærði því með öllu að ekki hafi staðist að út frá því væri gengið að bæði kærandi og sú sem ráðin hafi verið myndu hafa til að bera greiningarhæfni og að ekki hafi verið tilefni til að gera upp á milli þeirra að þessu leyti. Virðist sem sjónarmið kæranda byggist á því að hann álíti að reynslu af greiningarstarfi beri alfarið að meta sem greiningarhæfni. Því hafni kærði, sbr. framansagt.
  115. Kærði hafni því að draga megi afdráttarlausa ályktun um skort á nákvæmni og öguðum vinnubrögðum af því einu að prófskírteini hafi ekki verið meðfylgjandi umsókn þeirrar sem ráðin hafi verið þegar hún hafi verið lögð fram. Kærði hafni því einnig að slík ályktun verði dregin af því að ekki séu í umsókn hennar tilgreindur nákvæmlega sá tími sem hún hafi unnið sem lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum, og að í því sambandi sé um villandi upplýsingagjöf að ræða. Framsetning í umsókninni þar sem upp séu talin ýmis störf og ártöl við hvert og eitt geti ekki talist gefa það til kynna að viðkomandi starfi hafi verið gegnt hin tilgreindu ár frá upphafi til enda, þ.e. allt árið, eins og kærandi hafi komist að orði, heldur beri slík framsetning með sér að vinna hafi farið fram á þeim árum sem nefnd séu. Enn fjarstæðara sé að þetta hafi verið gefið til kynna varðandi störf hjá lögreglunni á Suðurnesjum þar sem bæði árin sem tilgreind séu í því sambandi, 2017 og 2018, séu jafnframt tilgreind vegna sumarstarfs hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Í greinargerð kærða komi fram að enda þótt starfsumsókn umræddrar konu sé ekki eins ítarleg og umsókn kæranda sé hún allt að einu gagnorð og greinargóð. Þar komi jafnframt fram að ályktanir um að hún hafi til að bera nauðsynlega nákvæmni og ögun í vinnubrögðum ættu sér grundvöll í því sem fram hafi komið varðandi frammistöðu hennar í námi og starfsnámi en umsókn hennar sem slík hafi ekki verið aðalstoð að þessari ályktun.
  116. Það felist meðal annars í málflutningi kæranda að hann telji að sökum þeirra lýsinga eigin kosta á sviði frumkvæðis, sjálfstæðis í störfum og getu til að vinna undir álagi sem hann hafi sett fram í umsókn sinni hljóti ljóst að vera að hann hafi staðið umræddri konu mun framar varðandi téð atriði. Því ítreki kærði það sem fram sé tekið í greinargerð hans að eigin lýsingar umsækjenda á hæfni þeirra geti ekki haft neitt viðlíka vægi og það sem ályktað verði á grundvelli þess sem eigi sér stað í framgöngu fólks. Það svar konunnar sem ráðin hafi verið við spurningunni um hvort hún telji sig sjálfstæða í starfi, sem kærandi segi ekki bera vott um slíkt heldur misskilning hugtaksins sjálfstæði, telji kærði einfaldlega samkvæmt orðanna hljóðan að gefi til kynna að svarandinn kunni því vel að vinna sjálfstætt og að hún víli það ekki fyrir sér. Hafni kærði túlkun og útleggingum kæranda varðandi umrætt svar. Að mati kærða sé því ekkert í þessum málflutningi kæranda sem sýni fram á að sú afstaða kærða varðandi hæfni þeirra varðandi ofangreind atriði sem frá sé skýrt í greinargerð hans hafi ekki verið á réttum rökum reist.
  117. Vegna athugasemda kæranda varðandi sjálfstraust hans taki kærði fram að ekki hafi með neinu móti verið á því byggt við mat kærða vegna þeirra mannaráðninga sem málið varði að skortur á sjálfstrausti hafi verið kæranda til trafala. Sé þetta atriði án þýðingar að mati kærða.
  118. Vegna athugasemda kæranda um mannleg samskipti vísi kærði til eftirfarandi málsliðar úr greinargerð kærða sem kærandi hafi að hluta tilfært í upphafi athugasemda sinna:
  119. Ekki hafi verið á því byggt að kæranda myndi skorta færni á sviði mannlegra samskipta heldur hafi staðreyndin verið sú að ekki hafi komið fram atriði sem til þess hafi hnigið að ályktað yrði að hann byggi yfir sérstökum styrkleikum á þessu sviði svo sem áskilið hafi verið í auglýsingu, öndvert við það sem sýnt hafi þótt varðandi þá umsækjendur sem að lokum hafi verið ráðnir til starfa.
  120. Kærði telji að þessi orð fangi inntak þeirrar stöðu sem uppi hafi verið við ákvörðum um þær mannaráðningar sem hér sé um að tefla. Þá sé tekið fram að þau orð að kærandi láti ekkert uppi um sjálfan sig hafi ekki verið skráð í fyrra starfsviðtali við hann sem hans eigin ummæli heldur sé þar skráð athugasemd viðmælanda hans. Vísi þau til þess að kærandi hafi ekkert látið uppi um eigin hagi utan þess sem fram hafi komið í beinum spurningum og að hann hafi komið svo fyrir sjónir sem hann væri dulur um persónu sína. Ekki verði séð að merking þeirrar umsagnar að kærandi hafi í starfsviðtölum hjá kærða þótt frumkvæðislaus í samskiptum og nokkuð á varðbergi þarfnist frekari skýringa en í orðum þessum liggi. Að öðru leyti sé í þessu sambandi vísað til umfjöllunar í greinargerð kærða.
  121. Vegna athugsemda kæranda lýsi kærði þeirri skoðun sinni að ekki liggi í augum uppi að aðkoma að þeim viðfangsefnum í starfsemi lögreglu og tollstjóra sem kærandi hafi nefnt feli í sér sönnur þess að hlutaðeigandi muni búa yfir sérstakri hæfni í mannlegum samskiptum af því tagi sem eftir hafi verið leitað við ráðningar kærða. Ekki verði heldur talið að lýsing eigin ágætis starfsumsækjenda sem fram sé sett í umsókn hans sé einhlít til staðfestingar þeim eiginleikum sem um ræði. Eins og fram komi í greinargerð kærða sé aftur á móti talið að þátttaka í félagsmálum og félagsleg virkni eins og upplýst hafi verið um í umsókn konunnar hafi gefið vísbendingar um góða hæfni á sviði mannlegra samskipta. Verði ekki séð að seilst muni um skör fram með því að hafa litið með slíkum hætti til upplýsinga í starfsumsókn. Kærði hafni því að misræmi sé uppi varðandi ályktanir hans á grundvelli starfsumsókna þeirra beggja.
  122. Í greinargerð kærða komi fram að við það mat vegna ráðninganna sem fram hafi farið hafi verið litið svo á ekki væri fært að taka neitt tillit til persónuleikaprófs sem kærandi hafi lagt fram. Verði því helst að skilja athugasemd kæranda svo að hann hafi álitið að kærði hafi ekki gefið nægan gaum að öðrum atriðum sem fram hafi komið með umsókn hans til stuðnings færni hans í mannlegum samskiptum. Með vísan til þess sem fram komi í greinargerð kærða sem og umfjöllunar hér að ofan, hafni kærði því að svo hafi verið. Beri og í þessu sambandi að leggja á það áherslu að grundvöllur að mati á hæfni í mannlegum samskiptum hafi ekki verið einskorðaður við upplýsingar samkvæmt umsóknum heldur höfðu starfsmannaviðtöl og fleira verulegt vægi.
  123. Varðandi umfjöllun kæranda um ósamræmi í frásögn skattrannsóknarstjóra sé enn um að ræða staðhæfingar hans um framgang í atburðarás sem átt hafi sér stað eftir að ákvörðun hafi verið tekin um ráðningu. Hvað sem því líði sé ekki fallist á að honum hafi verið veittar misvísandi upplýsingar um samtal skattrannsóknarstjóra við meðmælanda hans. Vísist nánar hvað þetta varði til þess sem rakið sé í greinargerð kærða hér að lútandi. Þá ítreki kærði að því sé hafnað að mótsagnir hafi komið fram í máli viðmælenda kæranda hjá kærða, enda þótt hægt kynni að vera að gera tilraunir til að láta líta svo út með því að slíta einstök ummæli úr samhengi, svo sem með því að tína fram einstök ummæli út úr hljóðupptökum þeim sem kærandi hafi framkvæmt með leynd.
  124. Því sé vísað á bug sem fráleitum misskilningi að hjá tollstjóra hafi farið fram skattrannsóknir sambærilegar rannsóknum kærða. Um þetta sé vísað til þess sem greinir í greinargerð kærða. Kærða sé í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. meðal annars 103. gr., fengið það hlutverk að hafa með höndum rannsóknir samkvæmt lögunum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á séu lögð af ríkisskattstjóra eða honum sé falin framkvæmd á. Hliðstæð ákvæði séu í öllum helstu skattalögum, svo sem lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu og mörgum fleiri. Í samræmi við þetta fari skattrannsóknir fram hjá kærða. Engin lög mæli aftur á móti fyrir um að tollstjóri skuli hafa þessi verkefni með höndum jafnhliða skattrannsóknarstjóra, enda tengist skattalagabrot ekki starfsemi þess embættis á annan máta en lýst sé í greinargerð kærða. Fari því fjarri að skattrannsóknir séu jöfnum höndum iðkaðar hjá tollstjóra og kærða, eins og kærandi virðist gera sér í hugarlund.
  125. Í ljósi þess að viðfangsefni kærða séu verulega frábrugðin viðfangsefnum tollstjóra liggi það nokkuð í hlutarins eðli að rannsóknir og greiningar tollstjóra muni ekki vera fullkomlega hinar sömu og um ræði í starfsemi kærða, enda þótt viðbúið muni að einhver samsvörun verði fundin varðandi afmarkaða þætti.
  126. Í ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 48/2010 um Tollskóla ríkisins og fl. séu taldar þær námsgreinar sem ávallt skuli vera kjarnafög í almennu námi við skólann. Skatta eða skattaréttar sé þar ekkert getið. Sé í samræmi við þetta tekið fram í greinargerð kærða að ekki verði séð að nám við þennan skóla hverfist um hreinan eða lengra kominn skattarétt að neinu verulegu leyti. Hafi því engan veginn verið gert ráð fyrir því að 30 eininga nám við þennan skóla myndi hafa falið í sér nám í skattarétti sem væri sambærilegt eða meira en 12 eininga nám í skattarétti við Háskóla Íslands. Telji kærði að þessi ályktun eigi sér þannig fyllilega gildar forsendur. Enda þótt kærandi vefengi síðastgreint í athugasemdum sínum hafi hann aðeins sett fram staðhæfingar hér að lútandi en hafi með öllu látið ógert að styðja mál sitt, svo sem með því að tilgreina og lýsa námsefni í skattarétti sem um hafi rætt og þá eftir atvikum vægi einstakra þátta. Vegna þess áburðar kæranda að hlutdrægt mat skattrannsóknarstjóra hafi legið að baki afstöðu hennar varðandi vægi náms í skattarétti við Háskóla Íslands annars vegar og við Tollskóla ríkisins hins vegar, vísi kærði til þess sem að ofan segi um forsendur hér að lútandi. Það sé í ljósi hlutverks Tollskóla ríkisins og reglugerðarákvæðis um námsefni hans að fjarstætt sé að álykta að þar sé stunduð uppfræðsla í skattarétti þannig að 30 eininga nám þar samsvari 12 eininga námi í skattarétti við Háskóla Íslands.
  127. Vegna athugasemda kæranda á þá leið að rangt hafi verið með farið í greinargerð kærða þegar þar hafi sagt að hann hefði ekki tilgreint í umsókn sinni að hann hefði kveðið upp úrskurði sé bent á að þau orð í greinargerðinni sem vísað sé til séu á þá leið að þess sjái ekki stað í umsóknargögnum kæranda að hann hafi þar getið aðkomu sinnar að uppkvaðningu úrskurða í skattamálum sem séu kæranlegir til yfirskattanefndar. Virðist sem kæranda hafi við gerð athugasemda sinna yfirsést síðastgreint, þ.e. að vísað hafi verið til úrskurða kæranlegra til yfirskattanefndar. Sé þannig ekki um neina missögn að ræða í greinargerðinni að þessu leyti.
  128. Með vísan til umfjöllunar hér að framan um staðhæfingar kæranda um kunnáttu hans og ástundun á sviði skattaréttar, sem og umfjöllunar um þau efni í greinargerð kærða, sé skoðunum kæranda um yfirburði hans á þessu sviði gagnvart umræddri konu hafnað. Því sé aftur á móti ekki mótmælt að starfstími kæranda hjá lögreglu hafi verið lengri en starfstími konunnar á þeim vettvangi, enda þótt síður liggi fyrir hvort mismunur á fjölbreytni í viðfangsefnum hafi verið að sama skapi. Staðhæfingum kæranda um að viðfangsefni hans fólgin í miklum og erfiðum samskiptum við sakborninga, vitni og fleira séu til marks um mikla færni í mannlegum samskiptum hafi verið hafnað hér að framan. Kærði viti ekki á hvaða forsendum kærandi hafi gengið út frá því að þær skýrslutökur sem hann hafi sagt að hann hefði stjórnað muni í engu vera ólíkar skýrslutökum þeim sem fram fari hjá kærða. Í ljósi eðlis skattalagabrota sé þó vandséð að svo geti hafa verið. Hitt sé víst að það sé reynsla kærða að ekki sé vænlegt til árangurs við skýrslutökur hjá honum að þær lendi á þeim brautum að þær verði taldar einkennast af erfiðum samskiptum og hörku. Því sé áríðandi að rannsakendur hafi þá burði á sviði mannlegra samskipta að þeim sé unnt að bægja skýrslutökum sínum frá slíkum óheillastigum.
  129. Samkvæmt því sem að framan sé rakið telji kærði að athugasemdir kæranda við greinargerð hans haggi ekki þeim ástæðum sem fram séu færðar í greinargerðinni því til stuðnings að sú ákvörðun að ráða umrædda konu í stöðu rannsakanda hjá kærða nú í byrjun maímánaðar hafi verið á réttum rökum reist.

     

    FREKARI ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  130. Í frekari athugasemdum kæranda segir að öll sjónarmið sem hafi verið sett fram í tengslum við aldur umsækjanda, beint eða óbeint, séu ólögmæt og eftirfarandi ummæli kærða sýni að ólögmæt aldurstengd sjónarmið hafi verið notuð í ráðningarmálinu: „Sú ákvörðun skattrannsóknarstjóra við fyrsta úrval að einskorða ekki hæfnismat við reynsluháð atriði í því skyni að útiloka ekki yngstu umsækjendurna var að mati skattrannsóknarstjóra fyllilega lögmæt og heimil, enda voru viðmið þau er við var stuðst almenn og ekki á neinn hátt beintengd aldri eða öðru slíku“.
  131. Áður en mál þetta hafi komið inn á borð kærunefndar jafnréttismála hafi eini málatilbúnaður kærða verið sá að kæranda hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum. Af lestri allra tölvubréfa og annarra gagna sem lögð hafi verið fram í málinu, sjáist vel að kærði hafi aldrei tilgreint önnur sjónarmið en þau að sú sem ráðin hafi verið hafi staðið honum framar í mannlegum samskiptum. Eftir að mál þetta hafi komið inn á borð kærunefndar jafnréttismála, þá hafi málatilbúnaður kærða breyst þannig að skortur kæranda í mannlegum samskiptum hafi ekki lengur verið eina hæfisskilyrðið sem umrædd kona hafi staðið honum framar þar sem kærði hafi talið að hún hefði líka staðið honum framar vegna þekkingar sinnar á skattarétti. Kærandi leggi sérstaka áherslu á það að kærði hafi aldrei nefnt eitt sértækt dæmi um hvaða „sérstöku styrkleika“ hann hafi skort í mannlegum samskiptum til að geta sinnt starfi rannsakanda og hafi þar einungis talað almennt um persónuleika hans og það að hann sé dulinn, sé á varðbergi og frumkvæðislaus í samskiptum. Kærandi geti ekki séð hvernig það geti talist málefnalegt að meta hæfni hans í mannlegum samskiptum með vísan til framangreindra atriða þegar kærði geti ekki einu sinni nefnt eitt sértækt dæmi þess hvernig hann hafi verið talinn vera dulinn, á varðbergi og frumkvæðislaus í samskiptum.
  132. Þá virðist kærði ekki átta sig á því að tollstjóri hafi lagaheimild samkvæmt tollalögum til að taka til rannsóknar skattalagabrot gegn hinum ýmsu sömu lögum sem kærði fari jafnframt með rannsóknarvald í. Sem dæmi geti kærandi leiðrétt þá vanþekkingu kærða í athugasemdum hans þar sem því sé haldið fram að tollstjóri hafi ekki lagaheimild til rannsókna skattalagabrota í tengslum við lög um virðisaukaskatt. Í þessu samhengi sé bent á að tollstjóri leggi á og innheimti virðisaukaskatt í innflutningi í skilningi laga um virðisaukaskatt, og það geri hann þótt sú lagaheimild komi ekki fram í lögum um virðisaukaskatt eins og gildi um kærða, enda hafi tollstjóri þessa lagaheimild í tollalögum þar sem segi skýrt og greinilega að tollstjóri hafi heimild til að leggja á og innheimta skatta sem greiða beri við tollafgreiðslu samkvæmt tollalögum og „öðrum lögum“. Sem dæmi hafi kærandi kveðið upp úrskurði í tengslum við brot á lögum um virðisaukaskatt og hafi þeir úrskurðir verið kæranlegir til yfirskattanefndar.
  133. Í starfsauglýsingunni hafi verið gerð ófrávíkjanleg krafa um „framúrskarandi greiningarhæfni“. Í þessu samhengi sé rétt að benda kærunefndinni sérstaklega á að lesa vel yfir blaðsíður sjö og átta í athugasemdum kærða, enda séu flestar þær fullyrðingar sem þar komi fram vægast sagt athyglisverðar. Sem dæmi fái kærandi ekki betur séð en að greiningarhæfni umsækjenda hafi í raun ekki verið metin, en á blaðsíðu átta segi: „greiningarhæfni verður aðeins staðfest með reynslu“ og síðan segi „voru því heldur ekki taldar forsendur til að fá hæfni umsækjenda í þessu efni aukið vægi vegna reynslu eða sannaðrar hæfni“. Þessi orð kærða verði túlkuð þannig að yfirgripsmikil starfsreynsla kæranda við greiningarstörf hafi ekki haft neitt aukið vægi. Hann fái því ekki betur séð en að allir umsækjendur hafi verið metnir jafnir varðandi hæfni um greiningarhæfni vegna þess að slíka hæfni sé einungis hægt að byggja á reynslu. Slík málsmeðferð kærða sé ekki í samræmi við hina óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttarins um skyldubundið mat stjórnvalda, en samkvæmt þeirri reglu sé kærða skylt að meta umsækjendur með einstaklingsbundnum hætti og þannig óheimilt að afnema slíkt mat varðandi greiningarhæfni umsækjenda, jafnvel þótt kærða kunni að finnast erfitt að meta umsækjendur hvað varði greiningarhæfni. Jafnframt sé rétt að benda á að kærði segi að hann telji kæranda ekki gera greinarmun á hugtökunum greiningarhæfni og greiningarreynsla. Kærandi fái því miður ekki skilið hvernig kærði hafi komist að þessari niðurstöðu og þá sérstaklega í ljósi þess að hann hafi talið sig búa yfir þeim skilningi að greiningarhæfni geti bæði verið byggð á meðfæddum persónueiginleikum og líka vegna þeirrar reynslu sem einstaklingarnir öðlist. Kærandi hafi sýnt fram á „framúrskarandi greiningarhæfni“ sína, eins og gerð hafi verið ófrávíkjanleg krafa um í starfsauglýsingunni, annars vegar vegna meðfæddrar greiningarhæfni hans eins og meðmælandi hans hafi staðfest með eftirfarandi ummælum sem sjá megi í minnisblaði kærða: „styrkleikar liggi í greiningarfærni“, og hins vegar vegna yfirgripsmikillar starfsreynslu hans við greiningar, þar með talið vegna skattalagabrota. Á hinn bóginn fái kærandi ekki ráðið hvernig kærði hafi komist að þeirri niðurstöðu að konan hafi yfir að búa „framúrskarandi greiningarhæfni“ vegna málflutningskeppni sem ekki hafi farið fram og starfsnáms hennar hjá yfirskattanefnd.
  134. Að lokum sé jafnframt rétt að vekja sérstaka athygli á því að kærði hafi aldrei minnst einu orði á ummæli sem hafi komið fram hjá meðmælanda/meðmælendum umræddrar konu, né hafi hann látið fylgja með minniblað um þessi atriði, samanber það minnisblað sem gert hafi verið vegna ummæla meðmælanda kæranda. Kærði virðist engin meðmæli hafa fengið í tengslum við félagsstörf konunnar, jafnvel þótt kærða sé tíðrætt um og fullyrði um hæfni hennar með vísan til félagsstarfa hennar. Þar að auki sé ekki að sjá að kærði hafi haft samband við þann meðmælanda sem hún hafi tilgreint hjá lögreglunni. Þar að auki sé ekki að sjá að kærði hafi haft samband við formann yfirskattanefndar og einungis vísað í „skýrslu um námsvist hjá yfirskattanefnd“ sem greinilega hafi verið ætluð háskólanum til staðfestingar á því að hún hafi staðist námsvist og því ekki um að ræða meðmæli í þeim skilningi þegar sótt sé um starf. Einhverjar ástæður hljóti að hafa legið að baki því að kærði hafi aldrei vísað í ummæli meðmælenda konunnar og ekki sé hægt að útiloka að kærði hafi í raun aldrei haft samband við nokkurn einasta meðmælenda hennar.

     

    NIÐURSTAÐA

  135. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  136. Ákvörðun kærða um ráðningu sérfræðinga við skattrannsóknir á rannsóknarsviði embættisins var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020.
  137. Kærði auglýsti laus störf sérfræðinga við skattrannsóknir á rannsóknarsviði embættisins 28. janúar 2020. Í auglýsingunni var tekið fram að leitað væri að öflugum liðsmönnum í hóp samstilltra starfsmanna, sem hafa yfir að ráða vilja og getu til að takast á hendur rannsóknir á skattaundanskotum. Um helstu verkefni og ábyrgð var tekið fram að starfið fælist í rannsóknum skattaundanskota og annarra skattalagabrota. Í því fælist meðal annars greining á bókhaldi og skattskilum, gagna- og upplýsingaöflun og úrvinnsla þeirra og ritun greinargerða um framkvæmd og niðurstöður rannsókna. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi, svo sem viðskiptafræði, hagfræði eða lögfræði; nám á meistarastigi sem nýtist í starfi væri kostur; þekking á skattarétti og skattskilum væri æskileg; þekking og/eða reynsla af rannsóknum refsiverðra brota væri kostur; framúrskarandi greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum væri skilyrði; góð færni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna í teymum fjölbreyttra sérfræðinga væri nauðsynleg; góð kunnátta á word og excel væri nauðsynleg og önnur kunnátta á tölvu- og upplýsingakerfum væri kostur; frumkvæði, sjálfstæði í starfi og geta til að vinna undir álagi væri skilyrði. Tekið var fram að um væri að ræða fjöbreytt og krefjandi störf í margbreytilegu umhverfi. Um verkefni skattrannsóknarstjóra ríkisins var vísað nánar til vefsíðu embættisins.
  138. Ekki var útbúinn sérstakur matskvarði þar sem einstökum hæfniskröfum var veitt vægi við mat á því hvernig hæfni umsækjenda félli að þeim kröfum. Leggja verður því auglýsingu um störf sérfræðinga við skattrannsóknir til grundvallar mati á hæfni umsækjenda. Verður enda hér sem endranær að horfa til þess að auglýsing opinberra starfa, ásamt þeirri starfslýsingu sem ætla má að liggi þeirri framsetningu til grundvallar, veiti ákveðna forsögn um þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda og þann matsgrundvöll sem veitingarvaldshafi kemur til með að byggja á til samræmis við þá óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að velja skuli hæfasta umsækjandann.
  139. Af þeim sex starfsmönnum sem ráðnir voru í kjölfar auglýsingarinnar í störf sérfræðinga hefur kærandi gert athugasemd við ráðningu konu sem var á 23. aldursári þegar hún var ráðin. Kærandi byggir á að kærði hafi bæði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem honum hafi verið mismunað þar sem minna hæf kona hafi verið tekin fram yfir hann, en einnig að hann hafi verið látinn gjalda aldurs síns í andstöðu við lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, en hann var á 33. aldursári þegar ráðningin var afráðin.
  140. Hvað síðargreint kæruefnið varðar, er lýtur að aldri, hefur kærði gert grein fyrir því að í fyrstu umfjöllun um umsóknir hafi sökum mikils fjölda einvörðungu verið farið yfir fyrirliggjandi umsóknargögn og lagt mat á hvernig þær upplýsingar sem þau gögn hefðu að geyma féllu að þeim kröfum sem skilgreindar hefðu verið samkvæmt auglýsingu um starfið. Til þess síðan að útiloka ekki yngsta hóp umsækjenda nánast fyrir fram hefði verið ákveðið að líta til fleiri þátta en þeirra sem byggðu á reynslu umsækjenda varðandi þau sérstöku atriði sem til tekna yrðu metin. Þannig hefðu verið valdir 22 umsækjendur sem boðaðir voru til starfsviðtala og nánara mats á því hvernig viðkomandi félli að auglýstum kröfum. Aldur umsækjenda hefði síðan ekki haft þýðingu við framhald matsferilsins. Í þessu samhengi skal áréttað, vegna athugasemda kæranda, að engar forsendur voru til að útiloka konu þá sem starfið hlaut þó að hún hafi ekki lagt fram prófskírteini vegna BA náms síns í lögfræði, enda óumþrætt að hún naut þessarar námsgráðu er hún sótti um starfið.
  141. Aðferðafræði eins og sú sem kærði hefur lýst og gerð er grein fyrir hér að ofan á við málefnanleg rök að styðjast, enda voru þeir matskvarðar sem lagðir voru á umsóknir málefnanlegir og ekki til þess fallnir að gera einum umsækjendahópi hærra undir höfði en öðrum. Þá er í máli þessu engum þeim málsatvikum til að dreifa sem skjóta stoðum undir að konan sem starfið hlaut hafi notið ungs aldus síns sérstaklega við framkvæmd þess heildarmats á hæfni umsækjenda sem lá að sögn kærða fyrir er ákveðið var að bjóða konunni starf sérfræðings við skattrannsóknir, ásamt fimm öðrum umsækjendum. Að þessu virtu hefur kærandi ekki leitt líkur að því að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 við þá ráðningu, sbr. einnig 15. gr. laganna.
  142. Kærði hefur greint frá því að í ráðningarferlinu hafi hlutlægir þættir verið greindir með mati á umsóknargögnum og að teknu tilliti til skýringa sem umsækjendum gafst kostur á að koma á framfæri í viðtölum. Tólf umsækjendum var boðið í tvö viðtöl og var kærandi einn af þeim sem og konan sem starfið hlaut. Í viðtölunum var síðan einnig lagt mat á þær hæfniskröfur sem byggðu á huglægu mati. Í báðum þessum flokkum hæfniskrafna voru settar fram kröfur í auglýsingu sem nauðsynlegt var að uppfylla til að koma til álita í starfið en einnig voru skilgreindar hæfniskröfur sem væri kostur að umsækjandi fullnægði. Að mati kærða taldi hann kæranda og þá sem starfið hlaut annaðhvort vera jafnhæf eða hana hæfari gagnvart nánast öllum hæfniskröfum, bæði þeim sem voru tilgreindar sem skilyrði og þeim sem talið var til kosta að fullnægja.
  143. Hvað hæfniskröfu um menntun áhrærir höfðu bæði kærandi og sú sem starfið hlaut lokið BA prófi í lögfræði en sá munur er á umsækjendum að kærandi lauk laganámi sínu með meistaragráðu árið 2014 en sú sem starfið hlaut leggur enn stund á lögfræðinám sitt og mun vera að rita meistararitgerð. Kærði hefur lagt til grundvallar að BA próf í lögfræði sé fullnægjandi til að sinna starfi sérfræðings við skattrannsóknir á rannsóknarsviði sínu og er í því ljósi fyrirliggjandi að bæði kærandi og sú sem starfið hlaut fullnægja því skilyrði að hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Á hinn bóginn orkar ekki tvímælis að kærandi hefur þann kost sem kærði skilgreindi að búa að námi á meistarastigi sem nýtist í starfi en ekki sú sem starfið hlaut. Óloknu meistaranámi í lögfræði verður ekki jafnað til meistaranáms, sbr. til nokkurrar hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 31. mars 2015 í máli nr. 421/2014. Þegar opinber veitingarvaldshafi auglýsir starf og skilgreinir að meðal hæfnisskilyrða sé það kostur ef umsækjendur búa að meistaragráðu verður að telja að honum sé vart tækt að víkja frá því síðar í ráðningarferlinu. Á þessum hlutræna mælikvarða sýnist ótvírætt að kærandi hafi fullnægt hæfniskröfum um menntun betur en sú sem starfið hlaut. Áréttað skal í þessu samhengi að ekki verður séð að málefanlegt sé að gera þeirri sem starfið hlaut hærra undir höfði á þeirri forsendu að væntanlegt lokaverkefni í meistaranámi hennar muni vera á sviði skattaréttar en meistaraverkefni kæranda hafi verið á sviði stjórnsýsluréttar. Bæði er að meistararitgerð á sér ekki samjöfnuð í ólokinni ritgerð en einnig er til þess að líta að meðal þeirra spurninga sem umsækjendur voru inntir svara við í viðtölum var um þekkingu á stjórnsýslurétti.
  144. Samkvæmt starfsauglýsingu var þekking á skattarétti og skattskilum talin æskileg. Kærði hefur greint frá því að á grundvelli umsóknargagna hafi verið ályktað að þekking þeirrar sem starfið hlaut á þessu sviði hafi verið umfram það sem ráðið hafi verið af umsókn kæranda um þekkingu hans í þessum efnum. Til grundvallar þessari ályktun kærða er þeirri sem starfið hlaut talið til tekna að hafa lagt stund á nám í skattarétti í háskólanámi sínu og að hafa sinnt störfum hjá yfirskattanefnd. Fyrir liggur meðal gagna málsins skýrsla yfirskattanefndar um námsvist konunnar sem starfið hlaut þar sem fram kemur að hún hafi sinnt starfsnámi hjá nefndinni um sjö vikna skeið, frá 14. október til 6. desember 2019 í samtals 160 klukkustundir undir handleiðslu formanns og varaformanns nefndarinnar, auk þess sem fleiri starfsmenn hafi veitt leiðbeiningar og aðstoð. Í þessu samhengi verður að halda því til haga að samkvæmt fyrirliggjandi umsóknargögnum konunnar kemur ekki fram hvert ritgerðarefni væntanlegrar meistararitgerðar hennar er. Þær upplýsingar eru tilgreindar í punktum sem skráðir voru í báðum starfsviðtölum konunnar. Um skattskil er þess getið í síðara starfsviðtali að hún skili réttu skattframtali. Í umsókn kæranda kemur fram að hann hafi starfað um ríflega þriggja ára skeið hjá tollstjóra í greiningardeild og endurskoðunardeild og þess beinlínis getið með skírskotun til þessarar hæfniskröfu að hann hafi í starfi sínu komið að rannsókn flókinna skattalagabrota vegna þeirra skatta og gjalda sem tollstjóri leggi á og talin í dæmaskyni virðisaukaskattsbrot, vörugjaldsbrot, peningaþvætti og milliverðlagning. Í fyrra starfsviðtali hans kom að auki fram að hann hefði numið skattarétt í Tollskólanum og hafi í námi og starfi hjá endurskoðunardeild tollstjóra kveðið upp úrskurði sem kæranlegir hafi verið til yfirskattanefndar. Í fyrra viðtalinu var einnig bókað um að ársreikningar hafi verið skoðaðir hjá tollinum, bæði eignir og eigendur en hann hafi ekki komið mikið að skattskilum. Í ljósi þess að báðir þessir umsækjendur voru spurðir í viðtali um þekkingu á skattarétti og báðir veittu viðbótarupplýsingar umsóknum til fyllingar sýnist verða að horfa til þess sem fram kom í viðtölum beggja þegar metið er á hvern hátt hvort um sig fullnægði hæfniskröfunni um æskilega þekkingu á skattarétti og skattskilum. Þegar horft er til fyrirliggjandi upplýsinga um áralangt starf kæranda sem lögfræðingur hjá tollstjóraembættinu, náms hans í skattarétti, eftir því sem greint er frá í viðtalspunktum, og náms við Tollskólann og það borið saman við námsvist konunnar sem starfið hlaut hjá yfirskattanefnd og nám hennar í skattarétti sýnist það vart eiga við rök að styðjast að hún standi kæranda framar í þessum efnum.
  145. Meðal þess sem talið var sem kostur laut að þekkingu og/eða reynslu af rannsóknum refsiverðra brota. Fyrir liggur óumdeilt að kærandi bjó að meiri reynslu í þessum efnum en konan sem starfið hlaut, enda hafði hann starfað um árabil í lögreglunni og hjá tollstjóra, samtals í níu ár þar sem hann öðlaðist reynslu af rannsóknum refsiverðra brota, auk áherslna í námi. Konan sem var ráðin hafði einnig starfað sem lögreglumaður en í mun skemmri tíma. Að mati kærða hafi komið fram í umsóknum beggja að bæði hefðu æskilega reynslu á þessu sviði en miðað við tímalengd starfsreynslu kæranda og starfssvið hafi verið ætlað að reynsla hans á þessum vettvangi væri meiri en reynsla konunnar.
  146. Meðal þess sem skilgreint var sem skilyrði sem umsækjendur yrðu að uppfylla samkvæmt auglýsingu var að viðkomandi þyrfti að búa yfir framúrskarandi greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum. Í málinu hefur kærði byggt á því að greiningarhæfni væri einn mikilvægasti styrkleiki starfsmanns til að hann nái góðum árangri við skattrannsóknir, enda geti verið um að ræða yfirferð umfangsmikilla gagna þar sem greina þurfi aðalatriði frá aukaatriðum og halda yfirsýn og einnig greina hvað sagt sé og ósagt í skjölum. Jafnframt var byggt á því að til að sýna fram á að viðkomandi hafi til að bera framúrskarandi greiningarhæfni þyrfti viðkomandi að hafa fengið tækifæri til að spreyta sig við slík viðfangsefni og þannig sannað færni sína.
  147. Af hálfu kæranda var greint frá því í starfsumsókn að hann hafi margra ára starfsreynslu við greiningarstörf, bæði innan lögreglunnar í tengslum við landamæraeftirlit auk starfa í greiningardeild tollstjóra vegna greininga á skattaundanskotum. Í umsókninni hafi jafnframt verið tilgreint að hann telji sig vera nákvæman og sýna öguð vinnubrögð. Sú sem starfið hlaut gerði í umsóknargögnum sínum hvorki grein fyrir neinni starfsreynslu er laut að greiningarstörfum né vék að nákvæmni eða ögun í vinnubrögðum. Kærði lagði til grundvallar með vísan til umsóknargagna kæranda og viðtals við yfirmann á endurskoðunardeild tollstjóra að kærandi byggi að áskilinni hæfni til greiningar enda hefði hann unnið með mikið magn gagna í starfi hjá tollinum. Hvað konuna sem starfið hlaut varðar ályktaði kærði að hún byggi einnig yfir nauðsynlegri greiningarhæfni og byggði þá ályktun á því í fyrsta lagi að með því að sækja um starfið, þar sem þessi krafa væri meðal áskilinna kosta, hafi konan í verki gefið til kynna að hún teldi sig uppfylla þetta skilyrði, í öðru lagi á ályktun um að það lægi vel fyrir henni að átta sig á eðli mála og vinna þau á skipulegan hátt þar sem hún hefði verið valin til þátttöku í málflutningskeppni og í þriðja lagi að í umsögn yfirskattanefndar um námsvist hennar hafi komið fram að úrlausnir hennar hafi verið til fyrirmyndar. Á ofangreindum forsendum taldi kærði að ekki hefði verið ástæða til að gera upp á milli kæranda og þeirrar konu sem starfið hlaut.
  148. Kærði hefur lagt mikla áherslu á í málatilbúnaði sínum að starfsmenn á rannsóknarsviði embættisins fullnægðu þessu skilyrði um framúrskarandi greiningarhæfni, nákvæmni og ögun í vinnubrögðum. Í því ljósi á það ekki við rök að styðjast að hlutrænar upplýsingar um störf kæranda, sem staðfestar voru af yfirmanni, þar sem á greiningarhæfni reyndi séu lagðar að jöfnu við ályktanir sem dregnar eru af einskonar yfirlýsingu í verki sem fólst í að sækja um starf, ráðgerðri þátttöku í málflutningskeppni sem ekki fór fram og loks almennri yfirlýsingu um frammistöðu í starfsnámi. Vissulega má til sanns vegar færa að það á ekki við rök að styðjast að við mat á hæfnisþætti sem þessum heltist allir umsækjendur úr lestinni sem ekki búi að starfsreynslu þar sem á greiningarhæfni reyni. Til þess hins vegar að leggja mat á hæfni umsækjenda sem ekki búa að slíkri starfsreynslu hefði verið nærtækara að leggja verkefni fyrir umsækjendur þannig að þeim hefði gefist tækifæri til að spreyta sig við slík viðfangsefni á jafnréttisgrundvelli sem hefði þar með orðið samanburðarhæfur grundvöllur undir mat á því hvernig þeir fullnægðu þessu grundvallarhæfnisskilyrði. Slíku mati er ekki til að dreifa og eru því ekki forsendur til að álykta að konan sem starfið hlaut hafi staðið kæranda á sporði.
  149. Meðal nauðsynlegra þátta samkvæmt auglýsingu kærða var góð færni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna í teymum fjölbreyttra sérfræðinga. Þessi færni er enn frekar en greiningarhæfni mjög háð huglægu mati sem kærði byggði annars vegar á umsóknargögnum kæranda og þeirrar sem starfið hlaut, auk umsagnar fyrrum yfirmanns kæranda í hans tilviki, og hins vegar á því sem fram kom í starfsviðtölum.
  150. Af þessum gögnum, einkum samtímaskráningum í starfsviðtölum, má ráða að vísbendingar hafi verið um að konan hafi búið að betri færni í mannlegum samskiptum, um það eru fjölbreytt félagsleg störf hennar til vitnis. Fullyrðingar kæranda um hæfni sína í mannlegum samskiptum og endurrit rafræns persónuleikaprófs, sem hann afhenti með umsókn sinni, eru ekki til þess fallin að hnekkja þeim ályktunum kærða þótt ekki sýnist á hinn bóginn rök standa til að leggja honum til lasts að kjósa að vera ekki sýnilegur á samfélagsmiðlum.
  151. Hvað getu til að vinna í teymum fjölbreyttra sérfræðinga varðar virðist kærði hvorki hafa freistað þess að kanna getu þeirra tveggja né var innt eftir þessu atriði í starfsviðtölum, heldur látið við það sitja að horfa til hæfni í mannlegum samskiptum og talið þá hæfni veita forspárgildi um hvernig umsækjendum reiddi af í slíkri teymisvinnu. Þótt taka megi undir að hæfniskröfur þessar um hæfni í mannlegum samskiptum og getu til að vinna í teymum séu báðar grundvallaðar á skapgerðareiginleikum þá er sá munur þó á í máli þessu að vart er unnt að telja annan umsækjanda standa hinum framar í síðargreinda tilvikinu að óathuguðu máli. Eru í því ljósi ekki forsendur til að telja konuna sem starfið hlaut standa kæranda framar í þessum efnum.
  152. Áskilin var góð kunnátta á word og excel og að önnur kunnátta á tölvu- og upplýsingakerfum væri kostur. Á grundvelli umsóknargagna var dregin sú ályktun að kærandi og sú sem starfið hlaut hafi bæði búið að kunnáttu í word og excel þannig að ekki hafi verið tilefni til að gera greinarmun þar á. Sú ályktun byggð á þessari forsendu sýnist eðlileg. Kærði lagði síðan til grundvallar að kærandi hefði verið konunni fremri hvað varðaði þann kost að búa að ríkari reynslu og þekkingu á tölvu- og upplýsingakerfum enda bjó hann að þekkingu á gagnagrunnum sem stjórnvöld nota, svo sem GoPro og Löke. Ekki er heldur tilefni til að gera athugasemd við þá ályktun.
  153. Síðasta hæfnisskilyrðið sem tilgreint var í starfsauglýsingu að umsækjendur þyrftu að uppfylla voru þeir persónueiginleikar að búa að frumkvæði, sjálfstæði í starfi og getu til að vinna undir álagi. Fram kemur af hálfu kærða að báðir umsækjendurnir, kærandi og konan sem starfið hlaut, hafi samkvæmt upplýsingum úr umsóknargögnum verið talin hafa til að bera áskilda hæfni á ofangreindu sviði. Ekkert hafi þó komið fram sem hafi gefið tilefni til að ganga út frá því að annað þeirra væri hinu hæfara að þessu leyti. Kærði lét að sögn við það sitja að horfa til eigin yfirlýsinga umsækjenda í þessum efnum þar sem engum vísbendingum hafi verið til að dreifa sem bent hafi til annarrar niðurstöðu og sýnist sú afstaða kærða eiga við málefnanleg rök að styðjast eins og hér stendur á.
  154. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. kemur meðal annars fram að séu líkur leiddar að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal kærunefndin við nánara mat á þessu taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
  155. Eins og rakið er hér að framan gætir ýmissa annmarka af hálfu kærða við mat á kæranda og þeirri konu sem starfið hlaut. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærunefndin að kærði hafi vanmetið kæranda samanborið við konuna þar sem hann bjó að betri menntun, meiri þekkingu og reynslu af rannsóknum refsiverðra brota, auk þess sem traustari upplýsingar lágu fyrir um greiningarhæfni hans og þekking hans og reynsla af tölvu- og upplýsingakerfum var meiri. Hvað varðaði aðra kosti sem umsækjendur áttu að vera búnir samkvæmt auglýsingu eru ekki forsendur til að telja annað hinu fremra. Því skal þó haldið til haga að vísbendingar eru um að konan sem starfið hlaut búi að betri færni í mannlegum samskiptum.
  156. Það á við málefnanleg rök að styðjast af hálfu kærða að nauðsyn standi til þess að rannsakendur hafi vissa færni í mannlegum samskiptum og jafnframt að ríkuleg færni á öðrum sviðum vegi trauðla upp skort á þeirri færni. Á hitt er samt að líta að nokkuð mikið þarf til að koma svo að hæfniskrafa sem þessi geti vegið upp meiri hæfni annars umsækjanda hvað varðar hlutræna þætti sem skilgreindir eru annaðhvort sem skilyrði fyrir ráðningu eða teljast til kosta að umsækjendur búi yfir samkvæmt auglýsingu. Til að slíkt geti komið til álita sem málefnanleg ástæða þarf ályktun um meiri færni annars umsækjandans í mannlegum samskiptum að vera reist á mjög traustum grunni.
  157. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sérstaklega skráningu starfsviðtala, var ekki staðið með svo markvissum hætti að framkvæmd viðtalanna að því verði slegið föstu að fullnægjandi forsendur hafi legið fyrir, er ráðningin var afráðin, til að unnt væri að henda reiður á stöðu umsækjenda á sviði mannlegra samskipta þannig að sú hæfni ein og sér upphefði aðra hæfnisþætti sem bent hefðu til annarrar niðurstöðu. Framganga kæranda í kjölfar ráðningarinnar, er hann meðal annars hljóðritaði samskipti við forsvarsmenn kærða án heimildar, sbr. 48. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti, styrkir vissulega ályktun kærða um hæfni umsækjenda í mannlegum samskiptum, en breytir þó ekki niðurstöðunni enda áttu þau samskipti sér stað eftir að ráðningin hafði verið afráðin.
  158. Með hliðsjón af umfjöllun kærunefndarinnar um einstaka matsþætti starfsauglýsingarinnar telst kærandi hafa leitt nægar líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita beri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  159. Að mati kærunefndarinnar nægja þau sjónarmið sem kærði hefur dregið fram í málinu og áður hafa verið rakin, ekki til þess að ályktað verði að sú sem ráðin var hafi staðið kæranda framar við ráðningu í umrætt starf.
  160. Að öllu framangreindu virtu hefur kærða ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu sérfræðings við skattrannsóknir á rannsóknarsviði hjá kærða, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, skattrannsóknarstjóri, braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf sérfræðings við skattrannsóknir á rannsóknarsviði embættisins. Kærði braut við sömu ráðningu ekki gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

 

 

Björn L. Bergsson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir

 

Grímur Sigurðsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum