Hoppa yfir valmynd
28. október 2022 Forsætisráðuneytið

Ísland fær viðurkenningu fyrir að stuðla að jafnrétti í almannatryggingum

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, tekur við viðurkenningunni í Marrakesh. Með henni á myndinni eru Anna Elísabet Sæmundsdóttir, sviðsstjóri hjá TR, og dr. Joachim Breuer, forseti ISSA. Mynd/ISSA - mynd

Alþjóðlegu almannatryggingasamtökin (ISSA) hafa veitt ríkisstjórn Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í almannatryggingum fyrir að móta almannatryggingakerfi sem stuðlar að og hvetur til aukins jafnréttis. Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, tók við verðlaununum fyrir Íslands hönd á þingi samtakanna í Marrakesh í Marokkó, í dag.

Í stafrænu ávarpi sem flutt var á þinginu þakkaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir viðurkenninguna. Hún sagði árangur Íslands í jafnréttismálum ekki síst vera baráttukonum fyrir jafnréttismálum að þakka, þrautseigju þeirra og samstöðu. „Sögulega séð hafa konur barist fyrir hverju skrefi sem við höfum stigið í átt að jafnrétti kynjanna á Íslandi,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu.

Almannatryggingar séu gríðarlega mikilvægar fyrir fjárhagslegt öryggi og velferð fólks og þar verði að samþætta kynjasjónarmið í áætlanir og verkefni. „Jafnrétti kynja verður að vera í forgrunni þegar við mótum framtíð almannatrygginga sameiginlega, bæði við áætlanagerð og framfylgd áætlana. Við erum öll tengd saman, og þegar við búum öll við öryggi dafna samfélögin betur,“ sagði forsætisráðherra.

„Það er mér mikill heiður að taka á móti þessari viðurkenningu fyrir Íslands hönd,“ sagði Huld þegar hún tók við verðlaununum frá Dr. Joachim Breuer forseti samtakanna. „Eins og við þekkjum er ekki nóg að setja lög til að stuðla að og standa vörð um jafnrétti. Að því verður að vinna með markvissum hætti,“ sagði Huld og benti á að á Íslandi væri skýr jafnréttisáætlun í gildi og að kynjasamþætting væri samofin inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun innan ráðuneyta og undirstofnanir þeirra.

Í ræðu sinni fór Huld yfir sögu jafnréttismála og uppbyggingu lífeyriskerfisins á Íslandi. Hún tók fram að þótt greiðslum TR væri ekki ólíkt skipt milli kynja þá hefðu aðrir áhrifaþættir eins og starfstengdur lífeyrir og eigið fé áhrif á heildartekjur fólks. Launamunur kynja hefur því áhrif á greiðslur til lífeyrisþega og þar er enn verk að vinna.

ISSA var stofnað árið 1927 undir merkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og er leiðandi alþjóðleg stofnun sem stuðlar að þróun almannatrygginga með því að efla samvinnu milli 320 ríkisstofnana eða og fjölmargra sérfræðinga frá 160 löndum. Viðurkenning ISSA er veitt á þriggja ára fresti og er ætlað að viðurkenna skuldbindingar og árangur ríkja á sviði almannatrygginga. Tryggingastofnun ríkisins hefur verið aðili að samtökunum frá árinu 1949.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum