Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2014 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um mælingu skipa til umsagnar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um mælingu skipa eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Umsagnarfrestur er til og með 12. mars næstkomandi og skulu umsagnir berast á netfangið [email protected].

Forsaga málsins er sú að atvinnuveganefnd Alþingis boðaði fulltrúa Samgöngustofu til fundar með nefndinni þann 14. nóvember 2013, þar sem þeirri ósk nefndarinnar var komið á framfæri við Samgöngustofu að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að skip og bátar sem smíðaðir eru á næstunni væru búnir skutgeymum, skriðbrettum og svölum, sem væru til þess fallin að gera bátana stærri og öflugri en skráningarlengd og brúttótonnatala þeirra ella gæfi til kynna.

Samin hafa verið drög að breytingu á reglugerð nr. 527/1997 um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum sem eru hér til umsagnar.

Með þeim breytingum á stjórn fiskveiða, sem gerðar voru með 1. gr. laga nr. 82 2. júlí 2013, geta þeir bátar einir öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki, sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn. Óheimilt sé að stækka bátana þannig að þeir verði stærri en þessu nemur. Það hafi verið forsenda og markmið framangreindra breytinga á stærðarmörkum krókaaflabáta að komið yrði í veg fyrir að slíka báta mætti stækka enn frekar með því að setja á þá skutgeyma, skriðbretti og svalir þannig að þeir, þrátt fyrir aukna stærð, mældust eigi að síður undir framangreindum viðmiðunarmörkum. Beindi atvinnuveganefnd því til Samgöngustofu að gera nauðsynlegar breytingar á reglugerðum og verklagsreglum um mælingu skipa, til þess að betur mætti ná markmiðum fyrrnefndrar lagasetningar. Verklagsreglurnar hafa þegar tekið gildi, en með reglugerðarbreytingunni er frekari stoðum skotið undir markmið framangreindra laga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum