Hoppa yfir valmynd
31. október 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lokaskýrsla Evrópumiðstöðvar um menntun fyrir alla á íslensku

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út íslenska þýðingu á skýrslu um niðurstöður úttektar á menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi sem fram fór frá nóvember 2015 til ársbyrjunar 2017. Skýrslan var unnin af Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir.

Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu, stuðla að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi. Áhersla var lögð á að kanna hve árangursrík innleiðing menntastefnu um skóla án aðgreiningar hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, meðal annars í samanburði við önnur lönd. Þá var rýnt í fjármögnun vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Ein af megintillögum í skýrslunni er að efna til víðtækrar umræðu meðal þeirra sem koma að menntamálum um hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar. Útgáfa íslensku þýðingarinnar er liður í því og verður henni dreift í alla leik-, grunn- og framhaldsskóla á landinu. Einnig er unnið að gerð fjölbreytts kynningarefnis og skipulagningu viðburða á vettvangi hagsmunaaðila þar sem fjallað verður frekar um niðurstöðurnar. Nánari upplýsingar um það verða birtar síðar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum